04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5854 í B-deild Alþingistíðinda. (5208)

490. mál, fóstureyðingar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að þegar þetta frv. var til meðferðar á Alþingi 1975 var mikið lagt upp úr fræðslu og ráðgjöf um kynlíf og getnaðarvarnir. Það er hins vegar e. t. v. vanmetinn þáttur heilbrigðisyfirvalda í þessum efnum hvað snertir fræðslu. Það hafa verið gefnir út þó nokkrir bæklingar sem hefur verið dreift á heilsugæslustöðvum og mjög víða. M. a. s. var lögð fram fsp. á Alþingi á þeim árum sem ég var heilbr.og trmrh., 1974–1978, og þá lét ég dreifa þessari ráðgjöf á borð allra þm. Það voru spurningar og svör um pilluna, spurningar og svör um lykkjuna og spurningar og svör um smokkinn. Ég man að þetta var komið út þá og einn eða tveir bæklingar komu út eftir þetta. Sumum þm. fannst þetta ástæðulaust, sennilega hafa þeir talið sig það reynda í þessum efnum, en ég taldi að fyrst væri verið að gefa þetta út ætti ekki síður að sýna það hér á löggjafarsamkundunni en annars staðar. Og ég held að þessi fræðslustarfsemi hafi aukist.

Við verðum líka að hafa það í huga að það eru ekki margir áratugir síðan ekki mátti nefna þessi mál nema hvísla. Það þótti dónalegt að tala um það þá. Nú er það liðin tíð. En allt tekur sinn tíma.

Ég vildi aðeins út af orðum hv. fyrirspyrjanda minna þó á þessa fræðslu og ráðgjöf sem þar hefur átt sér stað, án þess að ég sé að segja að það sé fullnægjandi.