04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5857 í B-deild Alþingistíðinda. (5213)

447. mál, leigubifreiðaakstur

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Lög um leigubifreiðar voru fyrst sett á Alþingi 16. febr. 1953 og var með þeim ákveðið að allar leigubifreiðar í kaupstöðum, hvort heldur eru fólks-, vöru- eða sendiferðabifreiðar, skyldu hafa afgreiðslu á bifreiðastöð sem fengið hefði viðurkenningu bæjarstjórnar. Með þessum lögum var einnig heimilað að takmarka fjölda vörubifreiða í Reykjavík. Þessum lögum hefur síðan nokkrum sinnum verið breytt og þau verið endurútgefin og ná nú til fleiri staða en í upphafi, auk þess sem í gildi eru reglugerðir á grundvelli laganna frá 1970 um takmörkun á fjölda vörubifreiða og leigubifreiða til fólksflutninga á allnokkrum stöðum.

Á Alþingi hafa ekki orðið miklar umræður um þessi mál þegar breytingar á lögunum hafa komið þar fram. Við umfjöllun um fyrsta frv. árið 1953 komu hins vegar fram nokkur meginsjónarmið sem ég ætla að eigi við enn.

Þar kemur m. a. fram að atvinnumöguleikar fyrir leigubifreiðar séu mjög takmarkaðir miðað við þann fjölda bifreiða sem notaðar voru. Því sé nauðsynlegt að takmarka fjölda leigubifreiða eigi að vera nokkur möguleiki til að menn, sem stunda leigubifreiðaakstur sem aðalatvinnu, geti haft það sér og sínum til lífsframfæris. Einnig er vísað til þess að með því að binda við þessi störf fleiri menn en nauðsyn krefur á hverjum tíma fari mikið vinnuafl til ónýtis, auk þess að við þessa flutninga eru bundnar miklu fleiri bifreiðar en þörf er á og mun það leiða af sér aukinn innflutning á alls konar rekstrarvörum til bifreiða.

Í framsöguræðu flm. þessa frv., Gunnars heitins Thoroddsens, sagði m. a: að það væri hagsmunamál, ekki aðeins bifreiðastjórastéttarinnar heldur einnig viðkomandi bæjarfélaga og þjóðfélagsins í heild, að ekki fari það margir inn í þessa stétt að þar sé verulegt atvinnuleysi og þar bundið vinnuafl sem æskilegra væri að beina að öðrum starfsgreinum.

Frsm. meiri hl. samgmn. sagði m. a.:

„Sérstaklega taldi meiri hl. nefndarinnar eðlilegt, að atvinnubílstjórar fengju aukna vernd gegn hinum svo kölluðu hörkurum, þ. e. mönnum, sem ekki tilheyra bifreiðastjórastéttinni raunverulega, en stunda bifreiðaakstur í hjáverkum. Það er auðsætt, að í því er ekki fullkomin sanngirni, að menn, sem hafa aðalatvinnu sína af öðrum störfum, geti í hjáverkum sínum gripið inn í þessi störf og rýrt þar með atvinnumöguleika margra þeirra manna, sem hafa bifreiðaakstur að aðalatvinnu“.

Eins og ég sagði áður hafa ekki komið fram ný sjónarmið í umr. á Alþingi við breytingar á hinum upphaflegu lögum síðar og verður því að ætla að alþm. hafi talið sömu aðalsjónarmið enn vera í gildi við breytingar sem gerðar hafa verið á þessum lögum. Það er hins vegar augljóst að með breyttum tímum koma breyttar aðstæður í þessum þætti samgöngumála þar sem þróun hefur orðið jafnör og raun ber vitni.

Þessi mál eru nú í mikilli endurskoðun í ráðuneytinu. M. a. hef ég fengið tillögur nefndar að nýrri reglugerð fyrir leiguakstur fólksflutningabifreiða í Reykjavík og raunar tillögur annarrar nefndar um þessi sömu mál í Keflavík. Ljóst er því að þessi mál verða mjög til skoðunar í ráðuneytinu nú í vor og sumar þótt ég sé ekki reiðubúinn á þessu stigi að gefa neinar upplýsingar um þær breytingar sem orðið gætu á reglugerð um þessi efni, en vænti þess að það muni liggja fyrir síðar í sumar.