06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

72. mál, forræðislausir foreldrar

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á Alþingi 1981 voru samþykkt barnalög. Með ákvæði 40. gr. þeirra laga átti að tryggja að forræðislausir foreldrar gætu notið samvista við börn sín þó um sambúðarslit eða hjónaskilnað væri að ræða og eins að tryggja umgengnisrétt föður óskilgetins barns við barn sitt. Því hefur verið haldið fram, m.a. í ítarlegri blaðagrein í Helgarpóstinum s.l. sumar, að lögin er þetta varðaði væru gagnslaus og raunin sú að forræðislausir feður væru nær varnarlausir gagnvart fyrrverandi konum sínum ef þær neita þeim að njóta samvista við börn sín. Til að leiða hið rétta í ljós og fá fram hvort breytinga er þörf á lögum er þetta varða til að tryggja betur umgengnisrétt forræðislausra foreldra við börn sín er borin fram eftirfarandi fsp., með leyfi forseta:

„1. Hafa ákvæði 40. gr. barnalaga, nr. 9/1981, stuðlað að auknum umgengnisrétti forræðislausra foreldra við börn sín?

2. Hafa komið í ljós vandkvæði við framkvæmd þessarar greinar barnalaganna?

3. Hversu margir úrskurðir hafa verið kveðnir upp til samþykktar eða synjunar á umgengnisrétti forræðislausra foreldra við börn sín?

4. Hversu oft hefur þurft að beita dagsektum, sbr. ákvæði 3. mgr. 40. gr. barnalaganna?“