05.06.1985
Neðri deild: 83. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5930 í B-deild Alþingistíðinda. (5302)

464. mál, barnalög

Frsm. (Gunnar G. Schram):

Ég mæli hér, herra forseti, fyrir nál. um frv. til l. um breyt. á barnalögum nr. 9 frá 1981.

Allshn. hefur fjallað um þetta frv. á allnokkrum fundum og leggur einróma til að það verði samþykkt með þeim breytingum sem n. flytur á sérstöku þskj. Undir þetta nál. rita auk mín Guðrún Helgadóttir, Friðjón Þórðarson, Páll Dagbjartsson, Ólafur Þ. Þórðarson. Guðmundur Einarsson og Stefán Guðmundsson.

Brtt. sú sem n. varð einhuga um að flytja felur ekki í sér miklar efnislegar breytingar. Hana er að finna á þskj. 1084 og er þar um að ræða breytingu fyrst og fremst á síðustu setningu till., en ég les, með leyfi forseta, brtt. Hún er svohljóðandi:

„Hafi foreldrar barns fengið skilnað erlendis og svo háttar til að því foreldri, sem ekki hefur forsjá barns, hefur ekki verið gert að greiða meðlag með því, t. d. vegna fjárhagsörðugleika, getur valdsmaður úrskurðað meðlag til forsjárforeldris á hendur Tryggingastofnun ríkisins, enda leggi það fram hið erlenda skilnaðarleyfi eða skilnaðardóm fyrir valdsmanninn. Ríkissjóður endurgreiðir þessar fjárhæðir, en Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir þær eftir því sem fært reynist.“

Með þessari breytingu leggur n. til að frv. verði samþykkt.