05.06.1985
Neðri deild: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5944 í B-deild Alþingistíðinda. (5360)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Frsm. 1. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég hef skilað séráliti á þskj. 1061 og brtt. á þskj. 1060. Skoðun mín er sú að hér sé að ýmsu leyti um athyglisverða till. að ræða. Ég styðst þá m. a. við þá reynslu sem mér sýnist hafa verið ríkjandi, nefnilega þá að í sambandi við fjárhagslega fyrirgreiðslu og þá einkum lánveitingar í atvinnurekstri og vegna fjárfestingar í honum hafi sjálfvirkar reglur tryggt lán til hefðbundinna greina. Gjarnan hafi þá niðurstaðan orðið sú að áfram væri haldið að veita fé til þeirra greina og þeirrar starfsemi sem þegar væri mikið af og jafnvel of mikið af í landinu þannig að til vandræða horfir.

Í þessu sambandi má minna á sífellda fjárfestingu og viðbótarfjárfestingu í hefðbundnum búgreinum í landbúnaði. Það má minna á mikla fjárfestingu í verslunarhúsnæði sem stundum heitir iðnaðarhúsnæði til að byrja með en er síðan orðið verslunarhúsnæði áður en menn vita af. Það má minna á ævintýrið með stækkun skipastólsins fyrir nokkrum árum síðan. Þetta hefur sem sagt verið reglan að með sjálfvirkum hætti rynni fé til þessara hluta og gjarnan í meira mæli en skynsamlegt gæti talist.

Á hinn bóginn hafa nýjungar í atvinnurekstri hvergi átt heima skv. þessu skipulagi. Menn kunna ýmsar sögur af því þegar menn hafa viljað fitja upp á nýjungum að þeir hafa hvergi átt heima til þess að fá fjárhagslega fyrirgreiðslu skv. því kerfi sem í gildi hefur verið. Í þessu sambandi get ég minnt t. d. á fiskeldisstöðvar. Menn hafa rætt um það í löngu máli hverja nauðsyn bæri til þess að efla fiskirækt í landinu og talað um nauðsyn þess að við bakið á henni yrði stutt. En þegar til stykkisins kemur hefur þeim aðilum, sem hafa viljað spreyta sig á þessu, reynst það mikil píslarganga. Enginn bankinn hefur viljað lána út á þetta sem neinu nemur. Þeir hafa ekki átt heima á neinum stað í sjóðakerfinu.

Það má líka nefna ýmis dæmi úr iðnaðarframleiðslu þar sem menn hafa ekki getað lagt fram fasteignaveð. Þá lendir allt í uppnámi vegna þess að kerfið á Íslandi er þannig að það er yfirleitt ekki lánað út á neitt nema fasteignaveð séu fyrir hendi. Það er ekki lánað út á rekstraráætlanir, það er ekki lánað út á nýjar hugmyndir, heldur fyrst og fremst út á fasteignaveð. Steinsteypan er þannig það sem hefur fengið að gilda sem aðgöngumiði að byggingu, aðgöngumiði að lánafyrirgreiðslu.

Ég tel að þetta kerfi sé mjög staðnað og hafi staðið íslensku atvinnulífi fyrir þrifum með tvíþættum hætti. Annars vegar vegna þess að það hafi veitt fjármagni í of ríkum mæli í greinar og atriði þar sem offjárfesting var fyrir. Í annan stað með því að ekki fengist aðgangur að fjármagni til uppbyggingar í nýjum greinum. Fyrir bragðið höfum við misst af hagvexti og bættum lífskjörum sem hefðu getað staðið okkur til boða.

Ég tel sem sagt að það kerfi, sem er við lýði, sé ekki einungis staðnað heldur stuðli að stöðnun og hindri framþróun og nýjungar. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að úr þessu hefði þurft að bæta og tel að það sé orðið mjög brýnt að það dragist ekki öllu lengur.

Nú geta menn auðvitað deilt um það með hvaða hætti það eigi að gerast. Ég get nefnt eitt atriði til viðbótar sem einkenni á efnahags- og atvinnumálaúrræðum á Íslandi, nefnilega það að menn séu sífellt að leita sér að einhverri verksmiðju. Þannig leituðu menn uppi steinull, salt, sykur, trjákvoðu og kísilmálm og þar fram eftir götunum. Ég held að tilhneigingin til að leysa vandamál sín með slíkum aðgerðum sé ekki heppileg og menn hafi álpast til þess aftur og aftur að ætla sér að leysa atvinnuvandamál með slíkum verksmiðjufyrirtækjum sem ríkið hefur þá verið meira og minna ábyrgt fyrir á sama tíma og menn hafa ekki verið reiðubúnir til þess að setja kannske tiltölulega litla fjármuni í smærri fyrirtæki sem áttu sér vaxtarmöguleika.

Það er ekki auðvelt að tíunda það í fljótu bragði hverskonar fyrirtæki það geti verið og ég held að það sé varasamt að alhæfa í þeim efnum. Mín vegna getur það verið í fatasaumi. Mín vegna getur það verið í framleiðslu á hugbúnaði í sambandi við tölvur. Mín vegna getur það verið eitthvað í elektrónískum iðnaði. Mín vegna getur það verið einhver smáhlutur í blikksmíði sem vel getur fundist erlendur markaður fyrir og sömuleiðis í trésmíði, um það skal ég ekkert fullyrða og ég held að það sé varasamt að alhæfa í þeim efnum.

Það sem mestu máli skiptir er tvennt. Annars vegar það að menn hafi frumkvæði og áræði til þess að brydda upp á nýjungum og í annan stað að menn hafi þrótt og þrek til þess að stunda markaðsfærslu á þessum varningi á erlendum vettvangi. Mín vegna getur það verið ágæt fjárfesting að fjárfesta í sölustarfsemi. Þannig vil ég ekki alhæfa um það að við eigum að sérhæfa okkur í einhverjum tilteknum greinum umfram það sem við höfum gert, heldur langtum frekar að vera opnari fyrir hvers konar hugmyndum og nýjungum og stuðla að því. Þetta er ákaflega mikilvægt. Ég held að það hafi staðið íslensku atvinnulífi og efnahagslífi fyrir þrifum að menn hafi sífellt verið að leita að einhverri analýtískri lausn á því hvað það væri sem menn ættu að vera að framleiða og síðan hafi átt að ganga út einhverjar forsagnir um það. Reyndar held ég að þetta ríði enn húsum.

Ég tók eftir því nýlega í sambandi við áætlanir sölustofnunar þeirrar sem starfar á vegum iðnaðarins að hún hélt blaðamannafund og taldi að nú þyrftu menn að einbeita kröftunum að ákveðnum sviðum. Hún hafði komist að þeirri niðurstöðu að það væri matvælasviðið sem Íslendingar ættu að einbeita kröftum sínum að. Ég efast um að það sé til góðs að menn einhæfi með þessum hætti. Ég efast um að það sé til góðs að menn ætli sér að stýra sölustarfsemi og framleiðslustarfsemi utan frá með þessum hætti og þröngva þjóðfélaginu og framleiðendum til þess að vera sömu skoðunar um það hvað sé gott að framleiða og hvað sé gott að selja.

Í annan stað, að því er valið sjálft varðar, matvælaiðnað, þá er ég ekki alls kostar viss um að þar sé sérstakan vaxtarbrodd að finna í hinu alþjóðlega hagkerfi. Ég held að það sé erfiðast að hafa mikið upp í matvælaiðnaði af öllum þeim greinum sem menn geta fengist við. Ég held að samkeppnin í matvælaiðnaðinum sé harðari en í flestum öðrum greinum. Við vitum að það er offramleiðsla á matvælum á því svæði þar sem við lifum og þar sem menn borga fyrir matvælin þó að það sé hungur annars staðar í heiminum.

Ég rek þetta vegna þess að ég tel að hér sé um að ræða eitt af kjarnavandamálum íslensks efnahagslífs. Hér hefur áður bæði af mér og öðrum verið gerð að umtalsefni nauðsyn sölustarfseminnar. En ég er sem sagt að fletta upp öðrum atriðum líka sem skipta máli, spurningunni um það út á hvað er lánað, út á hvað er veitt fé. Það á ekki að vera út á steinsteypu, það á frekar að vera út á rekstraráætlanir og hugmyndir. Það á ekki að einhæfa þannig að það megi einungis vera í einni grein að mínum dómi og það á heldur ekki að einhæfa að því leytinu að halda að menn geti fundið allsherjarlausnir á atvinnumálum okkar í einhverjum verksmiðjulausnum sem menn velja. Þvert á móti held ég að það sé opnun af því tagi sem ég hef hér leitast við að lýsa sem sé lykilatriðið í þessum efnum.

Ég tel að í þessu frv. sem hér liggur fyrir sé gerð tilraun til þess að mæta þeim sjónarmiðum sem ég hef hér verið að lýsa, til þess að mæta þörfinni fyrir áhættufé, fjárfestingarfé, rekstrarfé í nýjungum í atvinnurekstrinum, í atvinnugreinar sem hafa orðið útundan í uppbyggingu sjóðakerfisins eins og það er hjá okkur. Þess vegna tel ég að þetta frv. sé af hinu góða. Ég held að ef vel tekst til geti þróunarfélag af því tagi sem þetta frv. gerir ráð fyrir orðið til þess að örva nýsköpun í atvinnulífi, eins og talinn er tilgangur þess, enda verður maður þá að ætla að hugmyndin sé að félagið beiti sér fyrir nýjungum, fyrir nýstárlegum verkefnum sem styðjast við hugvit og frumkvæði íslenskra aðila þar sem menn bindi sig ekki við það að lána út á steinsteypuna eins og gert hefur verið í hinu liðna og gert er fram á þennan dag, þar sem menn séu opnir fyrir þörfum smærri fyrirtækja og bindi ekki féð í einhverju einu stóru verkefni eða einni stórri verksmiðju heldur nýti það á sem fjölbreytilegastan hátt. Þetta er grundvallarafstaða mín til þess frv. sem hér liggur fyrir.

Hins vegar er í 4. gr. þessa frv. gert ráð fyrir mjög verulegri lántöku. Greinin eins og hún stendur verður ekki skilin öðruvísi en að hugmyndin sé sú að taka þetta fé að láni erlendis. Miðað við þær aðstæður sem við búum við núna í okkar þjóðfélagi tel ég ótækt með öllu að bæta á erlendar lántökur, hvað þá í þeim feiknlega mæli sem hér er gert ráð fyrir, enda er mönnum hollara að fara hægar í sakirnar til að byrja með, telja sig ekki í mörg hundruð milljónum, a. m. k. ekki á því ári sem nú er og er þegar hálfnað eða því sem næst. Aðalatriðið er að þreifa sig áfram með skynsamlegum hætti.

En sú athugasemd sem ég geri og geri jafnframt brtt. um er sú að ég vil ekki auka á erlendar lántökur. Ég vil að þess lánsfjár, sem hér er gert ráð fyrir að afla, verði aflað á innlendum markaði. Ef menn leggja sig fram í þeim efnum og vekja þjóðina til vitundar um nauðsyn þess verkefnis sem hér er verið að fjalla um, vekja hana til vitundar um það að í því að leggja fé í þetta verkefni geti verið fólgin leiðin til bættra lífskjara og fjölbreyttara atvinnulífs, er ég sannfærður um að það á að vera unnt að afla lánsfjár á innlendum markaði.

Við höfum margvísleg dæmi um það úr fortíðinni hvernig til hefur tekist þegar fólk hefur vaknað til vitundar um það að það væri verið að vinna góð verk. Ég minni t. d. á Skeiðarársandinn og vegagerð og brúargerð á þeim slóðum og hversu vel þjóðin brást við að leggja fram lánsfé til þeirra verka á sínum tíma. Við getum reyndar líka horft á þá auglýsingaherferð sem hæstv. fjmrh. hefur staðið fyrir undanfarið þar sem Ísland er innpakkað í silkipappír í fánalitunum með innsiglum í bak og fyrir og ýmislegt annað skoplegt er sýnt til þess að reyna að selja skuldabréf ríkissjóðs. Mér skilst að það leiki enginn vafi á því að með þeim vinnubrögðum hafi tekist að auka kaup á skuldabréfum ríkissjóðs. Þetta er sem sagt spurningin um að vekja þjóðina til vitundar um að hér sé um góð verk að ræða. Erlendar lántökur höfum við hins vegar ekki efni á að auka umfram það sem við höfum þegar gert og til þess að mæta hinum albrýnustu verkefnum og sem ekki er hægt að ætla með neinu móti að unnt sé að afla innlends lánsfjár til.

Í samræmi við þessi sjónarmið legg ég til að þær greinar í 4. gr. frv., sem fjalla um lántökur, verði orðaðar á þann hátt að heimildin nái til þess að afla fjár með innlendri lánsfjáröflun. Það á við í öllum þremur töluliðum 4, gr., hvort heldur varðar það að leggja fram reiðufé af hálfu ríkisins, 100 milljónir, eða aðrar 100 milljónir til þess að stuðla að því að hlutafé verði keypt eða viðbótarheimildirnar sem eru í 3. tölul.

Þetta, herra forseti, er viðhorf mitt til þessa máls og ég legg sem sagt til í nál. mínu að í samræmi við þau sjónarmið sem ég hef hér rakið verði þetta frv. til l. samþykki með þeim breytingum sem er að finna á þskj. 1060 og fela það í sér að lánsfjáröflunin skuli vera á innlendum lánsfjármarkaði.