05.06.1985
Neðri deild: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5954 í B-deild Alþingistíðinda. (5362)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Frsm. 3. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. við 455. mál sem er frv. til l. um þátttöku ríkisins í hlutafélagi til að örva nýsköpun í atvinnulífi og um heimildir annarra aðila til þátttöku í félaginu. Þetta hljómar næstum eins og fyrirsögn að einhverjum Passíusálmanna og innihald þessa ágæta frv. er hálfgerð þjáning. (ÓÞÞ: Passíusálmarnir eru gott verk.) Passíusálmarnir eru gott verk, en innihaldið er þjáning. Ef ég fæ frið til að lesa nál. 3. minni hl. fjh.og viðskn., sem í er undirritaður, þá er það svo, með leyfi forseta:

„Stofnun félags, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, er til einskis ef ekki eru fyrir hendi þær almennu aðstæður sem hvetja til frumkvæðis, áhættu og tilrauna í atvinnulífi. Það er á valdi ríkisstj. að skapa slíkt andrúmsloft með hvetjandi aðgerðum, t. d. í fjármálum, og með fræðslu og áróðri fyrir stofnun og rekstri fyrirtækja. Í þessu tilliti hefur núv. ríkisstj. brugðist. Sú staðreynd að þetta frv. sér loks dagsins ljós á síðustu vikum venjulegs þinghalds, eftir tveggja ára valdatíma ríkisstj., talar sínu máli um áhugann.

Á frv. sjálfu er sá stóri galli að þar er ekki mörkuð stefna um athafnasvið félagsins. Ýmsar nýjar atvinnugreinar, svo sem fiskeldi, eru mjög fjármagnsfrekar og áhættusamar og í vissum skilningi stóriðja. Aðrar nýjar greinar byggjast meira á einstaklingum, frumkvöðlum með hugmyndir og þor til að ráðast í framkvæmdir ef aðstoð fæst.

Með hliðsjón af því að væntanlegt fjármagn þessa félags verður ekki til skiptanna, ef ráðist er í stóru verkefnin, sýnist undirrituðum nauðsynlegt að marka stefnu í þessum málum í byrjun.

Skorturinn á áhuga, örlæti og hvatningu stjórnvalda á þessum sviðum verður tilfinnanlegri þegar á hverjum degi berast upplýsingar um lífskjör, bruðl og flottræfilshátt stóriðjuhirðarinnar. Kísilmálmæðið kostar nú t. d. 40 millj. kr. án þess að nagli hafi verið rekinn í spýtu af því tilefni á Reyðarfirði.

Nýsköpun í afvinnuháttum þarfnast fjölmargra samverkandi breytinga í innviðum samfélagsins, menntun, rannsóknum og peningamálum svo dæmi séu tekin. Þess háttar stórátak er óumflýjanlegt og hvert misseri, sem líður án þess, verður okkur dýrt.

Hugmyndin að baki frv. sjálfs er rétt og sú samvinna ríkisvalds og fleiri aðila, sem það gerir ráð fyrir, er af hinu góða. En með tilliti til hins almenna stefnu- og áhugaleysis stjórnvalda um nýjar leiðir er ljóst að samþykkt frv. sjálfs mun ekki styrkja nýsköpun í atvinnulífi. Þess vegna mun undirritaður ekki samþykkja þetta frv.“

Í þessu nál. er vikið að nokkrum mikilsverðum atriðum. Í fyrsta lagi er vikið að því að það verður ekki nýsköpun í atvinnulífi af því einu að segja orðið nógu oft, eins og manni hefur stundum virst eina stefna ríkisstj. í þessum málum. Nýsköpun í atvinnulífi verður að verka hvetjandi og skapa andrúmsloft sem hvetur þúsund blóm til að spretta. Það er einmitt það sem vantar og það er ein meginástæðan og ein meginaðfinnslan sem ég vil vekja máls á í þessu tilfelli.

Þessi skortur á andrúmslofti, þessi skortur á hvatningu eins og segir í frv. lýsir sér á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi kemur þessi skortur fram í þeirri einföldu staðreynd að þessar aðgerðir voru boðaðar í málefnasamningi ríkisstj. en sjá loksins dagsins ljós eftir tvö ár. Það ber vitni um áhugann. Ríkisstj. virðist raunar vera sér meðvituð um þetta vegna þess að hún setur það öryggisnet undir að það þurfi svo sem engan til þess að taka þátt í stofnuninni nema þá sjálfa. Þeir eiga alls ekki von á því að það sýni þessu nokkur maður áhuga. Það er kannske gleggsta viðurkenningin á að þeir gera sér grein fyrir því að meginforsendan er ekki fyrir hendi, en hún er að hafa virkilega hvatt til þess að svona hlutir gerist í samfélaginu, að hafa ræktað upp og sáð í þann garð sem að lokum getur orðið skjól fyrir nýsköpun. Þetta er fyrsta atriðið sem ég vildi gera að umtalsefni og ætla ég nú að víkja nánar að því hvernig skapað er umhverfi í einu landi sem hvetur til slíkra verka.

Tökum dæmi af því sem er kannske best þekkt á Íslandi, þ. e. stóriðja, hvernig skapast hefur umhverfi í kringum stóriðju, hvernig skapast hefur það umhverfi, eins og ég lýsti áðan, að þar renna milljónatugirnir, milljónahundruðin og milljónaþúsundin næstum því eftirlitslaust. Nú er ég alls ekki að segja að það sé af hinu góða. En það segir okkur að það hefur skapast það umhverfi í samfélaginu sem sannfærir alla um að stóriðjan hljóti að vera af hinu góða. Þetta gerist t. d. þannig að mestu áhrifamenn í íslenskum stjórnmálum eru um leið flestir áhrifamenn í stóriðju. Þeir sitja annaðhvort í stóriðjunefndum eða virkjunarnefndum eða þeir sitja í stjórn Landsvirkjunar eða þeir eru í samninganefndum um einhverja orkuprísa eða álverksmiðjur. Þetta eitt út af fyrir sig verður til þess að skapa ákveðið verndandi umhverfi utan um stóriðjuhugmyndirnar. Það sem ég er að biðja um er þó ekki væri nema örlítill vottur eða snefill af þessari alltumvefjandi væntumþykju handa nýsköpun í smærri fyrirtækjum og á allt öðrum grundvelli.

Við gætum tekið ýmis dæmi af því sem ég talaði um áðan, hvernig áhrifamenn í íslenskri pólitík eru um leið áhrifamenn í stóriðjumálum. Það geta verið menn bæði innanþings og utan. Utan þings er oftast nefnt dæmið um seðlabankastjóra sem situr í öllum stólum þar sem ákvarðanir eru teknar um eitthvað í sambandi við orku eða stóriðju. Við höfum einnig dæmi um hv. þm., sem eru t. d. hér í deildinni, sem sitja í iðnn. þingsins og eru líka í samninganefndum um stóriðju eða álver, eins og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og Gunnar G. Schram. Þessi aðstaða og margra ára áróður fyrir stóriðju á Íslandi gerir það að verkum að það verða til ákveðnir innviðir sem þessi hugmyndafræði getur síðan þrifist á og þarna styður hvað annað. Við vitum t. d. hver hin ýmsu áhrif þessarar hugmyndafræði hafa orðið. Það hefur t. d. orðið vöxtur og styrking vissra greina í Háskólanum. Jarðfræðigreinar hafa nærst á stóriðju og virkjunarhugmyndafræði. Ákveðnar greinar verkfræðinnar, ýmiss konar verkkunnátta og ýmiss konar almenn innstilling í samfélaginu hefur orðið til vegna þessarar almennu sannfæringar stjórnmálamanna, embættismanna og fjölmiðla og yfirleitt allra sem hafa áhrif á ákvarðanir eða skoðanir í samfélaginu og allir eru jafnsannfærðir um að stóriðja sé svarið.

Þetta er bæði gott og slæmt, eins og ég sagði. Það sem okkur vantar fyrir nýsköpun og fyrir stuðning við smáfyrirtæki og annars konar iðju fólksins í landinu er vísir af þessu hvetjandi og verndandi umhverfi og þeirri sannfæringu að það sé þetta sem koma skuli. Auðvitað hefur þetta síðan ýmsar slæmar afleiðingar sem við höfum séð dæmi um næstum því á hverjum einasta degi. Þá ætla ég ekki að gera að neinu sérstöku umtalsefni það sem minnst er á í þessu nál., sem eru lífskjör þessarar dýrðar og lífshættir, heldur t. d. það að þegar allur þessi bolti er farinn að rúlla munu líða ár og kannske áratugir áður en það rennur loksins upp fyrir mönnum að þeir hafi verið á rangri braut. Það er það hættulega við það þegar sannfæringin verður svona sterk að þá er þetta eins og stórt olíuskip sem er komið á stað og tekur tugi sjómílna að stöðva. En það er annað mál.

Það sem ég fer fram á og það sem ég ætla að segja ríkisstj. — og það má gjarnan einhver skila því til hennar af því að það eru nú fáir úr henni hérna — er að það gerist ekkert í nýsköpun á Íslandi fyrr en menn huga að þessum almennu atriðum varðandi umhverfið. Það er ekki hægt að hvetja til nýsköpunar með því að stofna félag og skera niður menntakerfið í landinu með hinni hendinni. Menn ættu að heimsækja stofnanir eins og skólana, háskóla, tækniskóla og þær stofnanir þar sem þekkingin verður t. d. til og spyrja menn hvað þeim finnist um nýsköpunarstefnu ríkisstj. Menn segja: Nýsköpunar- hvað?

Menn uppi í Háskóla, sem ættu að vera í fararbroddi og ættu að vera leitandi og hvetjandi í þessum efnum, sitja við og fletta Mogganum og leita sér að vinnu einhvers staðar annars staðar af því að launin eru orðin algerlega óviðunandi. Þannig getur t. d. launastefna opinberra aðila orðið liður í nýsköpun. Á sama tíma og menn fletta einhverju gagnslausu plaggi um félag um þróun og nýsköpun í landinu með annarri hendinni, þá eru þeir að grafa undan undirstöðunni, undan sökklunum, með hinni. Þetta er eitt af því sem hefur gerst.

Það verður nefnilega að marka stefnu, til þess hefði mátt nota tímann í þessi tvö ár, að marka almenna stefnu til þess að byggja upp það umhverfi sem fóstrar og nærir áhugann á nýsköpun. Þá verða menn að huga að því hvar upphafsins er að leita. Er upphafsins að leita í frv. sem dettur allt í einu ofan úr skýjunum þó að aðdragandinn sé svo sem nógu langur? Þar er talað um að stofna þróunarfélag. Eða er upphafið í því að fóstra, í því að hlúa að og í því að hvetja allan landslýð til þess að sinna þessum efnum?

Ég held að menn ættu að líta í kringum sig út af þessu. Það þarf ekki að fara langt. Það er alveg sama hvort við förum til Norðurlandanna eða við förum til Bretlands eða Bandaríkjanna, við getum hvert sem við förum séð ljós vitni þess hvernig menn vinna að þessum málum. Við getum t. d. farið í verslun og keypt kassettu sem við getum spilað í bílnum okkar á leiðinni í vinnuna, en á henni eru upplýsingar um hvernig menn t. d. stofna fyrirtæki. Það eru upplýsingar um það hvar hægt sé að fá fjárhagsaðstoð. Það er hægt að fá upplýsingar um það hvar hægt sé að fá sérfræðiaðstoð. Það eru kassettur, það eru spólur með hugmyndum um verkefni í iðnaði og þjónustu eða hverju sem er. Það eru reknir tölvubankar sem menn geta tengst með litlum kostnaði, annaðhvort á sína eigin tölvu eða fengið útskriftir. Þar geta menn fengið margar blaðsíður með hugmyndum, aðstoð og ýmsu sem verður að koma fyrst.

Menn eiga ekkert erindi í neitt þróunarkompaní nema þeir hafi áhuga og hafi hugmyndir og vilji vinna að þessum hlutum. Menn ættu líka að íhuga hvort ekki væri ástæða til þess að setja upp námskeið í framhaldsskólum landsins um atvinnulíf. Hvernig virkar atvinnulíf? Af hverju ekki að kenna öllu þessu fólki sem núna vill útskrifast sem stúdentar í tvo vetur, tvo tíma á viku um möguleika í atvinnulífi, segja því hverjir möguleikarnir eru, hvað þarf að varast, hverjir eru hagir eigendanna, hverjir eru hagir verkamannanna og hvaða möguleikar eru fyrir hendi? Ég held að það komi virkilega til greina að kenna þetta í skólakerfi landsins. Þetta eru menn líka að hugsa um t. d. í útlöndum þar sem menn byrja ekki á því að stofna kompaníið sem á að taka við fólkinu heldur byrja á því að reyna að „mótivera“, reyna að hvetja fólkið. Þannig hlýtur þetta að gerast.

Það verður að huga að uppsprettunni. Það hafa verið að gerast nokkuð merkilegir hlutir í þessum efnum, kannske víðast annars staðar en á Íslandi á undanförnum árum eins og ég vék að áðan, þar sem hefur verið virk þjónusta og virk starfsemi af hálfu opinberra aðila í langan tíma í mörgum löndum til að hvetja og upplýsa á þann hátt sem ég lýsti áðan. Við getum séð um það ýmis dæmi. Ég er t. d. hérna með einn lítinn bækling sem er gefinn út af bresku ríkisstjórninni og heitir: A big help to small business. Þetta er bæklingur sem dreift er um landið og lýsir þeirri almennu þjónustu sem fólk getur átt aðgang að. Ég á úti á skrifstofu minni bæklinga um tiltekin verkefni, t. d. upplýsingar um hvert þú getur farið ef þig vantar pening. Ef þú ætlar að sækja um peninga til bankastjóra, hvað þarftu að gera? Hvernig útbýrðu fjárhagsáætlun fyrir bankastjóra eða framkvæmdastofnunarstjórn sem þú ætlast til að trúi því sem þú ert að fara fram á og styrki þig og styðji þig? Hvernig hegðar þú þér ef þú ert kominn með góða hugmynd og vilt fá einkaleyfi á henni? Þú átt að geta gengið að þessum upplýsingum í aðgengilegu formi og fengið aðstoð. Um það snúast þessi mál. Þegar menn hafa gengið í gegnum allt þetta, þá eru þeir kannske tilbúnir til að leita á náðir hlutafélags til að örva nýsköpun í atvinnulífi, svo að notuð séu orð sem eru hér.

Það sem hefur verið að gerast í þessu í kringum okkur á undanförnum árum er sívaxandi áhersla á frumkvöðla, á einstaklinga, á fólk. Menn hafa sagt: Á þessu byggist þetta allt saman. Þetta er ekki spurning um kompaní, þetta er spurning um fólk. Það er hægt að finna gífurlegt magn af upplýsingum um það hvernig hugmyndir menn hafa um aðstæður sem eiga að hvetja fólk til átaka.

Ég tók hingað með mér að gamni mínu ljósrit úr blaðinu Economist, eintaki sem kom út 16. febrúar s. l. Þar er grein sem einn af ritstjórum ritsins skrifar, Norman Macrae. Þar eru 25 hugmyndir um það hvernig hægt sé að styðja fólk og frumkvæði þeirra á þennan hátt. Það er athyglisvert að inngangurinn að þessari tillögugerð og fyrsta till. varða smáfyrirtæki. Þá kemur að því sem ég kem inn á í nál. mínu, því sem mér finnst vera skortur á, stefnumörkun um hlutverk þessa nýsköpunarkompanís. Á það að stofna þrjú fiskeldisfyrirtæki á ári eða 300 lítil fyrirtæki?

Fyrsta atriðið í upptalningu ritstjórans er um smáfyrirtæki.

Við Bandalagsmenn lögðum hérna inn á þing í vetur till. til þál. um eflingu atvinnulífs með stuðningi við stofnun og rekstur smáfyrirtækja. Nú stendur til að afgreiða þá till. með þeirri rökstuddu dagskrá að í trausti þess að ríkisstj. hafi uppi markvissar aðgerðir til eflingar íslensku atvinnulífi. þ. á m. til stofnunar og rekstrar smáfyrirtækja, þá sjái Alþingi ekki ástæðu til sérstakrar ályktunar um þetta mál og taki fyrir næsta mál á dagskrá.

Það er mikið vitnað til þess að menn treysti nú á að ríkisstj. geri hitt og þetta. Síðast í dag gengu menn hingað hver á fætur öðrum upp í ræðustól og lýstu skoðunum sínum og greiddu síðan atkvæði án þess að hugur fylgdi máli en gerðu það þó í trausti þess að ríkisstj. ætlaði að halda uppi ákveðnum atriðum. Ég treysti þessari ríkisstj. ekki nokkurn skapaðan hlut til þess að gera þessa góðu hluti. Það hefur tekið þessa ríkisstj. tvö ár að „pródúsera“ þetta plagg um þetta þróunarkompaní og það er í fyrsta lagi allt of seint og allt of lítið. Ef hún væri traustsins verð hefði hún notað þessi tvö ár til þess að undirbyggja, til þess að fá fram þann áhuga og þá hvatningu sem er nauðsynleg til þess að einhver nenni að leita í svona þróunarkompaní, eins og ég sagði áðan. En þeir reikna greinilega ekki með því að nokkur hafi áhuga á því vegna þess að þeir hafa lagt til að það þurfi engan til þess að stofna það nema ríkið sjálft og þeir eiga ekki von á neinum aðilum sem sýni þessu máli áhuga.

En í þessari þáltill. er að mínu mati vikið að þeim hlutum sem skipta máli ef menn vilja virkilega hugsa um það að efla atvinnulíf. Það gleður mig að einn af ritstjórum Economist skuli vera okkur Bandalagsmönnum sammála um það. Við verðum að ganga þarna út frá ákveðnum atriðum. Við verðum að koma upp þeirri trú og þeirri sannfæringu að rekstur smáfyrirtækja á Íslandi sé einhvers virði. Við verðum að koma upp því andrúmslofti að jafnvel þó að mönnum líðist ekki allt stóriðjuæðið í nafni smáfyrirtækjarekstrar þá örli samt sem áður á þeirri sannfæringu og menn trúi því alla vega að rétt sé að gefa því umhugsun að það eigi að breyta um stefnu. Við verðum smám saman að byggja upp þá sannfæringu að atvinnukosta sé að leita í öðru en stórverksmiðjum, hvort sem það eru kísilmálmverksmiðjur, álverksmiðjur eða hvað sem er.

Þegar menn velta fyrir sér og skoða t. d. hvað er að gerast í þessum málum í kringum okkur kemur í ljós að stóriðjurekstur er víða í hinum vestrænu samfélögum, sem við viljum bera okkur við um lífshætti og aðbúnað allan, á útleið. Þetta eru atvinnuhættir gærdagsins, þetta er eins konar Árbæjarsafn. Ef við ætlum að halda áfram á þessu stóriðjufylliríi lengi enn verður sú upplifun miklu sárari þegar að henni kemur að okkur hefur þrátt fyrir allt ekki tekist það, sem við ætluðum okkur og menn eru búnir að tala um í 17. júní-ræðunum í öll þessi ár, að renna nýjum stoðum undir efnahagslífið og veita fleira fólki atvinnu.

Rannsóknir, sem farið hafa fram í vestrænum löndum, sýna svo að ekki verður um villst að það eru smáfyrirtæki sem hafa alls staðar staðið fyrir aukningu atvinnutækifæra og nýrri atvinnusókn. Ég ætla að nefna nokkrar. Það var gerð rannsókn Í OECD-löndunum á árunum 1977 og 1978. Hún bendir til þess að smáfyrirtæki hafi lagt til 40–70% af allri atvinnu í iðnaði. Við eigum tölur t. d. frá Bandaríkjunum, frá rannsókn sem gerð var við tækniháskólann í Massachusetts á bandarískum fyrirtækjum fyrir tímabilið 1969–1976. Þessi rannsókn sýndi að næstum 2/3 hlutar allra nýrra starfa mynduðust hjá fyrirtækjum sem höfðu 20 starfsmenn eða færri.

Þriðja rannsóknin, sem ég get vitnað í, er rannsókn sem bandaríska viðskrn. gerði. Þar var bandarískum fyrirtækjum skipt niður í þrjá hópa. Í fyrsta hópnum voru gömul rótgróin fyrirtæki. Í öðrum hópnum voru fyrirtæki sem höfðu fylgst vel með tímanum og sýnt góð merki nýsköpunar. Í þriðja hópnum voru ný fyrirtæki í svokölluðum nýtæknigreinum, svo sem rafeindaiðnaði, upplýsingaiðnaði og þess háttar. Vöxtur í sölu og atvinnu á árunum 1969–1974 hjá þessum fyrirtækjum var mældur. Gömlu grónu fyrirtækin sýndu einungis 1% fjölgun á störfum, framsýnu fyrirtækin í öðrum flokki höfðu þó 4.3%, en aukning á störfum í nýtæknifyrirtækjunum, litlu fyrirtækjunum, var upp á 41%. Sölutölur gáfu mjög svipaða niðurstöðu. Gömlu grónu fyrirtækin juku sölu um 11.4%, fyrirtækin í öðrum flokki juku sölu um 13.2%, en nýju smáfyrirtækin sýndu 43% vöxt í sölu.

Það eru svona upplýsingar sem við eigum að taka mark á vegna þess að við erum á sama róli og þetta fólk í kringum okkur. Við búum í sama heimi og það verða með hverju árinu sem líður minni og minni skil, við verðum þeim sífellt háðari og háðari, með auknum samgöngum, með auknum samtengingum af ýmsu tagi. Við eigum að horfa á þessa hluti. Okkur ríður á að verða svo þolinmóð gagnvart smáfyrirtækjarekstri á næstu misserum, segi ég, að við líðum þeim sem að þeirri hvatningu standa jafnvel að tapa 20–30 millj., bara broti af því sem dagpeningarnir, kísilmálmurinn og allt það hefur kostað. Við líðum þeim að tapa þó ekki sé nema broti af því í aðstoð og athuganir og prufukeyrslur á nýjum hlutum fyrir smáfyrirtæki. Við verðum að gefa þeim séns.

Ég hef fylgst með framgangi ákveðinna hluta í sambandi við rannsóknir í líftækni hérna á Íslandi. Það hefur verið alveg grátlegt að horfa upp á að á sama tíma og upplýsingarnar hafa barist um það hvernig peningarnir streyma næstum óaflátanlega inn í Versali stóriðjunnar hafa þessir menn þurft að kreista blóðið undan nöglunum á ráðamönnum t. d. bara til þess að fá peninga til þess að gefa út einn lítinn bækling með upplýsingum um það sem þeir eru að gera. Þeir peningar eru ekki taldir í tugum milljóna. Þeir eru ekki einu sinni taldir í milljónum. Menn spyrja hvort þeir geti ekki fengið einhverja tugi þúsunda.

Ég er ekki að biðja um bruðl í nýsköpun og stofnun nýrra fyrirtækja. Ég er bara að biðja um það að þeim sé gefinn séns. Og meira en það að þeim sé gefinn séns. Ég er að segja: Við eigum að taka upp virka stefnu til hvatningar í þessu. Við eigum helst að hafa það svo öflugt að menn brenni í skinninu að komast í þetta, alveg eins og menn brenna í skinninu víða að komast í stóriðjubransann. Við eigum að reka svo öfluga upplýsinga- og áróðursstarfsemi að það komi bréf frá samböndum sveitarfélaga eða einstökum sýslunefndum eða sveitastjórnum úti á landi, ekki til þess að kvarta yfir því að það sé ekki komið upp stóriðju á staðnum án tillits til hagkvæmni, heldur að þeir leggi áherslu á frumkvæðisskyldu ríkisvaldsins til þess að ýta af stað þessari nýju iðju. Það er það eina sem getur bjargað okkur í þessu.

Það er meira en peningarnir í þessu. Það er líka spurningin hvers konar umhverfi við erum að skapa fyrir framtíðina. Erum við enn þá sömu trúar og Einar Ben. að Íslendingar muni verða hamingjusamir stóriðjuþrælar? Við erum það ekki. Þó að Einar Ben. hafi staðið á bökkum Tínar og talið að verkamennirnir þar væru sælastir í þessum kolabrunnu maskínum og þessum stóru og stórvirku iðnfyrirtækjum þess tíma, þó að hann hafi haldið að það væri upphaf hamingjunnar þá vitum við að það er ekki. Við vitum líka að þess háttar iðja er á leiðinni út. Menn þykjast heppnir ef þeir koma henni fyrir í Nígeríu eða einhvers staðar þar fyrir sunnan. Það fækkar sífellt þeim sem vilja taka við þessum fabrikkum.

Reynslan sýnir að það er í allt annars konar atvinnurekstri, það er í þessum litlu nýfyrirtækjum sem fólk vill vinna. Það er af ýmsum ástæðum. Það er t. d. vegna þess að félagslegar aðstæður á staðnum eru fólki miklu geðþekkari, það myndast allt önnur samskipti meðal starfsfólks og milli starfsfólks og eigenda. Gjarnan eru engin skil á milli starfsfólks og eigenda. Hin nýju rekstrarform, sem sækja á og t. d. er hvatt og stutt við í Bretlandi, ganga út frá því að það eigi þetta allir saman. Það er annað sem gerist, að stjórnun innan slíkra fyrirtækja er líka miklu markvissari og miklu geðþekkari. Það myndast ekki þessi skörpu skil milli yfirmanna og undirmanna. Það eru ekki þessi aðskildu bílastæði þar sem limosínurnar eru öðrum megin og reiðhjólin og smábílarnir hinum megin. Það myndast ekki þessi skil þar sem rjóminn af mannskapnum fer í sérstakan borðsal og borðar þríréttað og skríllinn fær skammtað í blikkdollur og hefur ekki um neitt að velja. Fólk er að hafna þessum gömlu siðum.

Það er annað sem gerist. Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að fólk flytur sig frá stórfyrirtækjunum til smáfyrirtækjanna vegna þess að þar er andrúmsloft þeirrar hvatningar sem ég hef verið að tala um að vantaði hérna. Fólk streymir frá stóru kompaníunum og í hin minni t. d. vegna þess að þar eru launakjör yfirleitt betri. Það kveður meira að segja svo rammt að þessu að fyrirtæki, sem voru orðin stór, eins og Hewlett Packard í Ameríku, og ýmissa aðstæðna vegna eiga ekki auðvelt með að verða smá, fara að kljúfa sig upp innan frá. Þau neyta allra bragða við að mynda lítil fyrirtæki, sjálfstæðar einingar innan hins stóra ramma sem fyrirtækin óumflýjanlega eru. Þetta er hinn nýi siður og þetta er það andrúmsloft sem býr til fólk sem leitar að þróunarkompaníi eins og ríkisstjórnin er að tala um hérna. En það þýðir ekkert að stökkva fram með þróunarkompaníið og segja: Komið þið, komið þið. Það kemur enginn, eins og ríkisstj. hefur reyndar viðurkennt, vegna þess að það vantar réttar aðstæður, það vantar hvatningu.

Það er til vísir að svona hugmyndafræði hér og það verður að segja að þess vísis er í flestum tilfellum að leita hjá einkaaðilum, þ. e. að það eru félög, eins og t. d. Stjórnunarfélagið og ýmis slík félög og reyndar nú orðið ýmis fyrirtæki, sem bjóða upp á kennslu, upplýsingar og fræðslu í þessum efnum og hafa þannig farið á undan. Það hefur líka verið gert lofsvert framtak á ýmsum stöðum á landinu, t. d. með því að stofna iðnþróunarfélög og með því að koma upp stöðum iðnráðgjafa. En þetta er ekki nema brot af því sem þarf.

Það sem þarf að gera er að það þarf að reka fyrir þessu áróður, sannfæra stjórnmálamenn, embættismenn og almenning allan um þessa nýju siði. Þá er kannske von til þess að eitthvað geti gerst. Þessi fræðsla á að byrja í skólunum. Þar á að kenna krökkunum um það hvernig fyrirtæki eru rekin — (Gripið fram í: Á að kenna þeim um það?) Það á að uppfræða þau um rekstur fyrirtækja. Ég veit um slík námskeið, sem hafa verið haldin í skólum, þar sem nemendur hafa það fyrir verkefni einn vetur að reka svona fyrirtæki á tölvu. Þau prenta inn sínar aðgerðir að deginum, síðan er prógramm í gangi sem spilar á móti þeim og lætur verðið á framleiðslunni falla, lætur alls konar hluti gerast. Þau koma sem sagt að nýjum aðstæðum í þessu ímyndaða fyrirtæki sínu morguninn eftir og reyna að reka þetta fyrirtæki eftir því sem þau geta í þessa mánuði sem kúrsinn stendur. Kannske fara þau á hausinn. En það er líka allt í lagi. Það er nefnilega með atvinnurekstur eins og lífið allt að hann gengur ekki allur upp. Maður verður þá líka að sætta sig við að hann fari á hansinn. Það er kannske eitt af því sem menn hafa átt erfiðast með að sætta sig við hérlendis.

Ég sé t. d. í þessum bresku upplýsingum að þar segja menn að það sé bara bærilegt ef þriðjungur af þeim fyrirtækjum, sem stutt er við til að komist á fót. sleppur næstu eitt, tvö árin. Þeir segja líka: Við reiknum ekki með að nema kannske 1% af þessum fyrirtækjum lifi lengur en í þrjú, fjögur ár vegna þess að það sem er kannske galdurinn í sambandi við þennan atvinnurekstur er að koma auga á möguleikana á meðan þeir eru, nýta þá meðan þeir eru en vera síðan ekkert að streitast við heldur loka sjoppunni þegar þessir möguleikar eru úti.

Það kemur kannske yfir landslýðinn að vilja éta sultu í eitt, tvö, þrjú ár. Það á að framleiða sultu fyrir fólkið en það á ekki endilega að þýða að sá sem stofnar fabrikkuna finni sig knúinn af fjölskyldunni til þess að reka sultuverksmiðju allt sitt líf. Hann framleiðir sultu og hann selur sultu á meðan þjóðin vill éta sultu. Svo getur hann þess vegna farið í að selja snjódekk eða eitthvað svoleiðis ef einhver vill kaupa þau.

Það sem ég er að tala um er nýr hugsunarháttur. Það á alls ekki að vera skömm að því að fara á hausinn. Mér finnst að það ætti jafnvel að byrja á því að sæma menn heiðursmerki fyrir það að fara á hausinn. Þá á ég við: Við verðum að losa fólk við þessa hræðilegu skömm, þessa sektarkennd, að fara á hausinn. Það að fara á hausinn eftir rekstur sem hefur kannske staðið í þrjú, fjögur ár er oftast eðlileg afleiðing af því að þær kringumstæður í samfélaginu, sem voru fyrir hendi í upphafi, eru ekki lengur fyrir hendi. Þá eiga menn ekkert að vera að þrjóskast við.

Allt saman eru þetta að mínu mati aðalatriði, þ. e. þessi innstilling. Ég veit ekki af hverju við erum svona aftarlega á merinni í þessu en við þurfum ekki að leita neinna sérstakra heimspekilegra útskýringa á því. Við þurfum bara að átta okkur á því og við þurfum að móta stefnu. Þörf er á fræðandi aðgerðum. Fyrir utan það að gefa þessa almennu innstillingu og vekja þennan almenna áhuga á því að taka þátt í atvinnulífi þarf svo að standa til boða ýmiss konar sérfræðiþjónusta. Þá á ég t. d. við upplýsingar um lögfræðileg atriði sem lúta að stofnun og rekstri smáfyrirtækja. Það eru upplýsingar um fjármál, eins og ég benti á áðan. Það eiga að vera til á einum stað, í einni bók og einu tölvuprógrammi, upplýsingar um það hvert hægt sé að leita til þess að fá pening, hvernig maður eigi að útbúa umsóknir, hvernig menn geri markaðsathuganir og hagkvæmnisathuganir eða hvert menn geti leitað til að fá aðstoð við að gera þær. Allt saman þarf þetta að vera í sambandi við fjármálin.

Það á líka að taka á markaðsmálum og sölumennsku. Það er alveg ótrúlegt að þangað til fyrir um tveimur árum hefur enginn á Íslandi þorað að viðurkenna að hann sé sölumaður. Ég þekki mann sem barðist við að kalla sig verslunarmann en ekki sölumann heila ævi. Það er ekki fyrr en hann komst á eftirlaun og er næstum á áttræðisaldri að hann er að upplifa það að nú er kannske allt í lagi, samfélagið lætur gott heita að hann hafi verið sölumaður. Verslunarmaður skyldi það vera vegna þess að ekki vildi hann gera fólkinu sínu þá skömm að hann væri sölumaður, ómerkilegur kaupahéðinn. Hvað hefur þetta haft í för með sér? Þetta hefur haft það í för með sér að við eigum enga sölumenn, við getum talið þá á fingrum annarrar handar.

Mér fannst góð saga sem Þráinn Þorvaldsson sagði á fundi þar sem ég var um daginn. Hann kom upp í Háskóla þar sem hann var að kenna viðskiptafræðinemum sem höfðu valið sér sérsviðið sölumennsku og spurði þessa nemendur: Hvað ætlið þið að verða þegar þið verðið stórir eða í hvaða grein viðskiptafræðinnar ætlið þið að fara? Þeir sögðu allir: Við ætlum að fara í fjármálastjórn. — Þeir höfðu valið sér sölumennsku sem sérsvið en það ætlaði ekki nokkur maður í það. Það kom ekki nokkrum til hugar að það gæti verið mannsæmandi eða sæmilega virðulegt að vera sölumaður í þessu lífi. Að því þurfum við líka að hyggja. Eins og ég segi er um tvennt að ræða: í fyrsta lagi breytingu á hugsunarhætti, þetta er breyting á innstillingu og svo eru það þessar virku aðgerðir, þessi upplýsingamiðlun sem verður að vera.

Ég get haldið áfram að telja þetta upp. Það eru t. d. upplýsingar í sambandi við vöruþróun. Hvernig á maður að standa að svona hlutum? Það eru t. d. leiðbeiningar við stjórnun. Hvernig á ég að stjórna svona fyrirtæki, eða hvar get ég fengið upplýsingar um hvernig ég á að stjórna svona fyrirtæki? Allar slíkar upplýsingar er hægt að gefa á fjöldamargan máta. Í fyrsta lagi á að búa til fræðsluefni fyrir fjölmiðla. Ég veit t. d. að BBC, breska sjónvarpið, hefur búið til þætti til flutnings í útvarpi og sjónvarpi einmitt um þessi mál. Hvernig verð ég „entrepreneur“. hvernig verð ég frumkvöðull? Hvernig eru frumkvöðlar? Og hvað gera þeir? Íslenskir aðilar ættu hreinlega að leita að svona efni, þetta er til út um allan heim. Þeir eiga að leita að þessu efni og þeir eiga að byrja að sýna þetta hérna. Það er hægt að gefa út handbækur eins og ég hef minnst á hérna.

Svo er það námskeiðahaldið. Það er talsvert haldið af námskeiðum núna og það er gott svo langt sem það nær. Ég veit t. d. að suður í Keflavík er áhugasamur iðnráðgjafi sem hefur tekist að ná í 20–30 manns á slík námskeið, alla vega „en gang í mellem“. En þetta þarf að vera miklu virkara vegna þess að þegar búið er að hvetja, þegar búið er að örva fólkið á þennan hátt, þá kemur það í þróunarfélagið og segir: Nú er ég hérna með hugmynd, hún er úttærð, ég hef markað, ég hef þetta og þetta og hjálpið þið okkur nú.

Það vantar t. d. einhvers konar tæknismiðju. Ég þekki íslenskan hugvitsmann sem fær ágætar hugmyndir. En í hvert skipti sem hann fær hugmynd verður hann að fara til útlanda. Þetta er hræðileg áþján á hans fjölskyldu vegna þess að ef pabbi fær hugmynd þá fer hann út. Hann fer til Danmerkur. Þar er einhver entrepreneur og þar fær hann inngöngu. Þar getur hann gengið inn og lagt þessar hugmyndir fyrir. Hann fær aðstoð við að teikna og síðan er smíðað eftir teikningunni líkan eða hugmyndin er könnuð. En það að fá góða hugmynd hérna þýðir að þú labbar niður í Flugleiðir og kaupir þér farmiða til útlanda. Þessu hljótum við að þurfa að breyta. Það endar með því að menn óttast það á hverjum einasta degi að þeir fái góða hugmynd þannig að þeir lendi í útlöndum, hvort sem þeir hafa efni á því eða ekki, vegna þess að það er annað sem drífur svona menn og það er fullvissan um að þeir séu að gera góða hluti og þeir láta jafnvel eigin lífshagi og fjölskyldunnar og allt sitja á hakanum til þess að koma þessu áfram.

(Forseti: Ég vildi gjarnan spyrja hv. þm. hvort hann eigi miklu ólokið af ræðu sinni.) Ég á talsvert miklu ólokið, já. Ég á eftir að fara í ræðu og tillögur Normans Macrae sem eru í Economist, 25 tillögur. (Forseti: Þá vildi ég gjarnan spyrja hv. þm. hvort hann sé ekki ásáttur með að hætta nú. Enn eru fjórir hv. þm. á mælendaskrá fyrir utan hann, þannig að útséð er að málinu verður ekki lokið.) Jú, ég er fús að taka þetta mál upp aftur og þá vænti ég að þetta verði á fundi á morgun. (Forseti: Já, ég hygg að það megi treysta því að það verði á fundi á morgun.)