06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5974 í B-deild Alþingistíðinda. (5384)

Um þingsköp

Forseti (Karvel Pálmason):

Vegna fsp. hv. þm. vil ég taka fram að það stendur ekkert annað til, enn a. m. k., heldur en að hér er verið að ræða um þingsköp. Ég gerði grein fyrir því áðan að sú venja og hefð hefur þróast hér í þinginu að utandagskrárumræða við hæstv. ráðh. fer yfirleitt ekki fram nema með þeirra samþykki þannig að þeir séu reiðubúnir. Ekkert slíkt hefur komið fram við mig enn.

Nú fer að reyna á þolinmæði forseta og hann fer að efast um að menn haldi sig mjög við umræður um þingsköp. Efnislegar umræður eru meira hér inni í myndinni að mati forseta heldur en þingskapaumræða. Enn bið ég hv. þdm. að stilla nú máli sínu í hóf, slaka á.