06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5977 í B-deild Alþingistíðinda. (5395)

Um þingsköp

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Eigum við ekki að kalla þessa umræðu umræðu um hag barna landsins? En ég skal halda mig við þingsköp.

Ég hlýt hins vegar að fá að leiðrétta það sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan um að ég væri ósannindamanneskja. Hún hefði svarað því hvernig yrði varið framkvæmd laga um starfsáætlun dagvistarstofnana og vísaði til þess að þetta hlyti hún að segja hér vegna þessa fólks sem hér er nú á pöllum.

Ég vil upplýsa það sama fólk, og ef ég man rétt var eitthvað af því viðstatt þegar þessi umræða fór fram, að ég fékk vissulega þau svör að verið væri að kynna þessa starfsáætlun. En ég spurði: Hvað á að veita miklu fé í að framkvæma hana? Við vitum öll að bætt aðstaða barna og starfsmanna á dagvistarheimilum kostar fé, og það sem ég vildi fá fram var hverjar hugmyndir ráðh. hefði um kröfur við gerð næstu fjárlaga. Við því fékk ég engin svör, ekki heldur við því hvort einhverju fé yrði til þess veitt. Þetta er mikilvægt atriði og þess vegna, herra forseti, hafna ég því gersamlega að ég hafi farið með ósannindi.

En ég skal ekki eyða tíma hv. deildar þó að forseti hafi nú talað lengst í þessu máli. Ég vil aðeins taka undir þær hugmyndir, sem hér hafa komið fram, að hæstv. ráðh. fallist á það að hér fari fram umræða utan dagskrár á morgun þar sem skipst verði á skoðunum um hvernig á að bregðast við þessum vanda. Þessi vandi er auðvitað miklu stærri og alvarlegri en svo að hann eigi að verða hér pólitískt bitbein. Hér þarf að ræða hvernig á að bregðast við honum. Ég vil hins vegar minna hæstv. forseta á að honum er svo brátt að fá okkur til að hætta nú vegna þess að hann þarf að koma að áframhaldandi umræðu um frv. til l. um þátttöku ríkisins í hlutafélagi til að örva nýsköpun í atvinnulífi. Það verður aldrei nein nýsköpun í atvinnulífinu nema fólkið í þessu landi sé fært um að hugsa á nýjan hátt. Og sú menntun hefst á dagvistarstofnunum. Því betri dagvistarheimili, því betra starfsfólk, því meiri möguleikar á nýjum búskaparháttum á Íslandi. Og þess vegna hefði mér fundist langt frá því fjarri lagi að fella niður umræður um áðurnefnt frv. og tala þess í stað um hvernig við ættum að búa að börnum landsins í framtíðinni.