06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5982 í B-deild Alþingistíðinda. (5407)

429. mál, verslun ríkisins með áfengi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Tilefni þess að ég tók til máls um frv. til l. um verslun ríkisins með áfengi var nú ekki síst það að spyrja hæstv. ráðh. heilbrigðismála ákveðinna spurninga. Reyndar sé ég að ekki væri síður ástæða til að óska eftir áliti hæstv. menntmrh. þar sem lög um tóbaksvarnir, sem tengjast þessu máli óhjákvæmilega nokkuð, falla einnig að hluta til undir hennar verksvið.

Ég lýsti mig andvígan og lýsi mig andvígan því að leggja niður tóbakseinkasölu ríkisins og hef fyrir því fjölda margar ástæður. Ég rakti að hluta til þau rök sem tengjast því forvarnarstarfi sem unnið er og reynt er að vinna í landinu gegn notkun og ofnotkun tóbaks. Nú er ekki lengur deilt um skaðsemi þess að menn neyti þessarar vöru og jafnvel skaðsemi fyrir þá sem eru nærstaddir við slíka iðju og þetta hefur m. a. verið viðurkennt með sérstökum lögum um tóbaksvarnir sem samþykkt voru á síðasta þingi, lögum nr. 74 frá 1984. Sú stefnumörkun sem í þeim lögum felst gerir m. a. ráð fyrir nánu samstarfi tóbaksvarnanefnda og fjmrh. um tilhögun og stefnumörkun í þessum málum og það er óhjákvæmilegt að vekja á því athygli að þessi lög, ekki orðin ársgömul eða svo, virðast beinlínis gera ráð fyrir því að fjmrn. beri sig saman við þessar nefndir um stefnumörkun, um verðlagningu og annað á þessu sviði.

Þessi lög um tóbaksvarnir eru nú nokkuð vel þekkt og það er kannske ekki ástæða til að fara um þau mjög mörgum orðum. Ég minni þó á það að yfirstjórn þeirra mála er í höndum heilbr.- og trmrh., eins og segir í 4. gr. laganna.

Í 5. gr. er fjallað um tóbaksvarnanefndir sem ráðh. skipar til fjögurra ára í senn. Hlutverk þessara tóbaksvarnanefnda er m. a. að vera ríkisstj., heilbrmrh., Hollustuvernd ríkisins, Vinnueftirliti ríkisins og öðrum opinberum aðilum til ráðuneytis um allt er að tóbaksvörnum lýtur. Síðan segir í 5. gr. tölul. 3 að fjmrn. skuli hafa samráð við tóbaksvarnanefnd um stefnumörkun varðandi innflutning og verðlagningu tóbaks. Leita skal álits nefndarinnar um allar reglugerðir sem snerta tóbaksvarnir og tóbakssölu.

Í 6. gr. er fjallað um sölu og auglýsingar á tóbaki og þar eru ýmis ákvæði sem óhjákvæmilega vekja upp spurningar um hvernig eigi að hafa eftirlit með þeim hömlum sem þar eru settar á sölu og auglýsingar á tóbaki til að draga úr skaðsemi af völdum notkunar þessarar vöru.

III. kaflinn er um takmarkanir á tóbaksreykingum. IV. kaflinn er um fræðslustarfsemi og þar er menntmrn. falið í samráði við heilbr.- og trmrn. að sjá til þess að fram fari reglubundin fræðsla um skaðsemi tóbaksneyslu. síðan eru í V. kafla almenn ákvæði, m. a. um að verja skuli 2% af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarnastarfs, og tóbaksvarnanefnd gerir tillögur til ráðh. um ráðstöfun þessa fjár.

Það gefur því auga leið, herra forseti, þegar farið hefur verið yfir þessi nýsettu lög um tóbaksvarnir, sem tóku gildi um síðustu áramót, að menn hljóta að spyrja hvort mönnum hafi á einhvern hátt snúist hugur, hvort uppi séu breyttar aðstæður á þeim fáu mánuðum sem liðnir eru af þessu herrans ári sem orsaki það að ástæða sé til að kollsteypa því fyrirkomulagi sem haft hefur verið á um þessi mál og sæmileg sátt hefur verið um í landinu í ein 53 ár, að ég hygg, herra forseti. Þetta mál á sér nefnilega mjög langa sögu. Tóbakseinkasala var upp tekin hér snemma á öldinni. Það má segja að saga laganna um einkasölu ríkisins á tóbaki og eldspýtum sé nokkuð sérstæð. Á vetrarþinginu 1931 urðu talsverðar umr. um þetta mál. Þá var verið að flytja frv. til l. um að taka upp að nýju einkasölu ríkisins á tóbaki. Frsm. fyrir frv. þá, Erlingur Friðjónsson, segir m. a. um sögu þessa máls:

„Þetta mál á sér nokkuð aðra þingsögu en ýmis önnur, eða jafnvel flest önnur mál. Allir flokkar þingsins hafa talið sig stuðningsmenn þess á einhverjum tíma, og talið málið sitt mál. Einkasalan var lögleidd á þinginu 1921. Þá átti hún sterkast fylgi hjá íhaldinu í þinginu,“ — eins og það hét á þeim tíma og heitir nú reyndar stundum enn í óvönduðum ræðum — „og var það fjmrh. þess, sem þá bar frv. um einkasölu á tóbaki fram til sigurs. Einkasalan stóð svo þar til hún var afnumin á þinginu 1925. Var það Framsfl.,“ — sem heitir svo enn þann dag í dag — „sem fastast stóð á móti því að lögin væru afnumin. Þá voru það fyrstu feður þessarar hugmyndar, sem fastast stóðu að drápinu.“

Það má álykta svo af þessum lestri, herra forseti, að það hafi gengið einhver frjálshyggjubylgja yfir íhaldið á þessum tímum, þ. e. á árinu 1925, og þeim hafi þarna snúist hugur á ekki lengri tíma en fjórum árum hvað þetta varðar.

En því er ég að rifja þetta upp hér að menn tóku sér allmikinn tíma til að ræða þetta mál á vetrarþinginu árið 1931, en þó varð málið ekki útrætt, þrátt fyrir allítarlega umfjöllun, og kom aftur á dagskrá Alþingis á sumarþinginu sama ár og mun þá hafa verið eitt af þeim málum sem tók upp hvað mestan tíma þingsins. Ég er hér með ljósrit af umr. sem urðu um þetta mál á sumarþinginu 1931. Það eru ekki minna en 100 dálkar sem þar voru undir lagðir, enda hafa þm. sem þátt tóku í umr. gjarnan á orði að hér sé á ferðinni gamall kunningi.

Þegar þetta var til umfjöllunar veltu menn mikið fyrir sér áhrifum þess annars vegar að hafa einkasölu á tóbaki og hins vegar að hafa hana með öðru móti, áhrifum á tekjur ríkisins af þessari starfsemi. Það gengur í gegn hjá öllum þm., hvort sem þeir eru með eða á móti einkasölunni, að tryggja beri að allar tekjur, sem af þessu hljótast, skili sér í ríkissjóð, enda má það ljóst vera að tjónið, sem af notkun þessarar vöru stafar beint og óbeint, bitnar að verulegu leyti á ríkissjóði þegar upp er gert.

Herra forseti. Það væri ákaflega gaman að lesa hér ofurlítið af orðaskiptum hv. þm. frá þeirri tíð, m. a. þm. Ólafs Thors og Héðins Valdimarssonar sem voru á öndverðum meiði í málinu. Reyndar var það svo sérkennilegt að Héðinn Valdimarsson, sem þarna átti nokkurra hagsmuna að gæta, var í þeim hópi sem vildi færa þennan einkarétt til ríkisins til þess að tryggja að í ríkisins vasa færu allar tekjur sem af þessari starfsemi væru og þar með talinn sá heildsöluhagnaður sem hugsanlega væri inni í myndinni. Ólafur Thors vildi hins vegar sem talsmaður einkaframtaksins að Héðinn Valdimarsson og aðrir slíkir héldu áfram að versla frjálsri verslun með tóbak. En þar sem þingið er störfum hlaðið og tíminn kannske allt of naumur til að draga lærdóma af störfum forfeðranna held ég að ég verði að neita mér um þann munað, herra forseti, að fara mikið ítarlegar út í þetta. Það vekur þó athygli mína að menn ætla að fleyta þessu máli í gegnum þingið án sjáanlegra mikilla umræðna, máli sem fyrir hálfri öld tók upp jafnmikinn tíma og var jafnítarlega skoðað og athugað og raun ber vitni.

Tóbakið á sér líka merkilega sögu og reyndar vita sögufróðir menn að það var í upphafi talið vera hið mesta læknislyf og nánast allra meina bót. Til eru skemmtileg bréf þar sem fjallað er um töframátt tóbaksins og hvernig það verki með jákvæðum hætti m. a. á brjóstholið, þurrki þar upp skaðlega vessa og auki mönnum yndi og heilsu með öllu mögulegu móti. Þessu trúðu menn nú í eina tíð og voru alsælir við sína tóbaksnotkun, hvort sem þeir reyktu það, tóku í nefið eða milli tánna eða með hvaða móti sem þeir nú neyttu þess. En nú eru uppi nokkuð breyttir tímar og með aukinni þekkingu hafa menn áttað sig á því að þessi vara, tóbak, er í raun hinn mesti skaðvaldur eða getur a. m. k. verið það og menn hafa fyrir löngu gert það upp við sig, a. m. k. hér á landi, að það beri að reyna að stilla því í hóf að menn noti þessa vöru, menn þurfi að gera sér grein fyrir hvaða hættur séu samfara slíkri notkun og það sé skylda ríkisins að fræða fólk og stuðla að því fyrir sitt leyti að fólk forðist þennan varning.

Menn hafa þó ekki treyst sér til að banna þessa vöru og gera það að lagaboði að menn skyldu ekki neyta hennar. Sjálfsagt heyrir það undir margnefnt frelsi að menn fái þá að nota þessa vöru, þeir sem það kjósa. En ríkið sér ástæðu til að tryggja að þeir séu sér meðvitaðir um það hvað þarna er á ferðinni. Í þessum anda hafa menn sett þau lög um tóbaksvarnir sem hafa nýlega tekið gildi og farið er að framkvæma. Það er þess vegna óhjákvæmilegt að geta þess, og ég get ekki látið þetta mál fara fram hjá þessari umr. og látið henni ljúka, herra forseti, nema vekja á því athygli, að allir æðstu menn heilbrigðismála telja að þetta frv., sem hér er til umr., þ. e. frv. um verslun ríkisins með tóbak, brjóti að verulegu leyti í bága við anda tóbaksvarnalaganna. Megintilgangur þeirra er, eins og ég hef rakið, að draga úr tóbaksnotkun og kynna almenningi skaðsemi reykinga og í þessum lögum er svo ráð fyrir gert að ákveðnum hluta af hagnaði ríkisins af tóbaki skuli varið til tóbaksvarna. Allar umsagnir eða nánast allar sem bárust um þetta frv. voru neikvæðar og mæltu gegn samþykkt frv. af þeim ástæðum sem ég hef hér rakið.

Ég las upp lista áðan yfir marga mæta menn sem gegna hver á sínum stað mikilvægum stöðum innan heilbrigðisþjónustunnar og fara þar með völd og bera þar ábyrgð. Mér finnst að það þurfi eitthvað mikið að koma til til þess að menn geti látið skoðanir þessara mætu manna sem vind um eyru þjóta og rennt blint áfram með þetta mál. Ég held að ástæða sé til að staldra aðeins við og skoða þetta nánar. Ég veit eiginlega ekki hvernig andrúmsloftið verður hér í sambandi við framkvæmd heilsugæslu t. d. ef menn geta látið svona eindregnar óskir allra þessara ágætu manna sem vind um eyru þjóta með jafnhæpnum rökum og mér virðast vera færð fyrir nauðsyn þess að breyta sölufyrirkomulagi á tóbaki.

Ég hef enda miklar efasemdir um að með tilliti til framkvæmdarinnar sé það skynsamlegt og gangi á nokkurn hátt betur að taka hér upp nýbreytni. Það hefur komið fram í viðtölum við aðila í heildverslun að það mundi þurfa mikla fjármuni til að fjármagna og halda úti birgðum af tóbaki. Þeir fjármunir eru nú sóttir beint í rekstur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sem hefur eins og menn vita gífurlega veltu og er sjálf fær um að leggja til þetta fé á hverjum tíma. Ég held því að þau rök að það yrði meiri fjölbreytni í þessum vörum standist ekki ef grannt er skoðað, það sé þvert á móti miklu líklegra að þetta mundi færast á tiltölulega fáar hendur örfárra aðila, sem jafnvel sæju sér þá mestan hag í því að beina neyslunni inn á fáeinar vörutegundir, 1–2 tegundir, sem þeir hefðu umboð fyrir.

Svo er það spurningin um eftirlit með þessum viðskiptum og gjaldtökunni sem þar á að taka. Það er líka spurningin um það að rekstur Áfengis- og tóbaksverslunar er verulegur tekjustofn hjá hinu opinbera. Hann hefur verið tiltölulega stöðugur og áreiðanlegur og hann hefur verið hægt að reikna út með fyrirvara og treysta nokkurn veginn á hann vegna þess að það opinbera stýrir að sjálfsögðu verðlagningunni og það sýnir sig að neyslan á þessari vöru er ekki mjög sveiflukennd. Ég held að það yrði miklu óábyggilegra að fara með öll þau mál ef þetta nýja fyrirkomulag yrði tekið upp og sé því ekki nein framkvæmdaleg rök hníga að því að breyta þessu. Það er að vísu alveg ljóst hver er hin hugsjónalega ástæða fyrir því að ákveðnir menn vilja endilega breyta þessu. Aths. við lagafrv. þetta hefst á þessum orðum:

„Í samræmi við fyrirheit í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. um að draga úr ríkisumsvifum þar sem þess er kostur og vegna breyttra aðstæðna er með frv. þessu lagt til að einkaréttur ríkisins til sölu á tóbaki og eldspýtum verði afnuminn.“

Ég held að ég þurfi ekki að lesa lengra, herra forseti. Það er alveg ljóst hvað hér er á ferðinni, en mér finnst það nú heldur léttvægt, það verð ég að segja, gegn m. a. rökum þeirra ágætu manna, sem ég hef hér vitnað til, að ætla að renna blint í sjóinn og breyta því fyrirkomulagi sem gefist hefur vel, eins og ég sagði áðan, má ég segja 54 ár og verið hefur sæmileg sátt um allan þann tíma.

Ég bar fram ákveðnar spurningar til hæstv. heilbrrh. og mér þætti vænt um ef hann gæti orðið við því að svara þeim, en ég hefði ekkert haft á móti því þó að hæstv. menntmrh. hefði einnig lagt orð í belg þar sem þetta heyrir að nokkru leyti undir hann. Fleira var það ekki að sinni, herra forseti.