06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6002 í B-deild Alþingistíðinda. (5416)

525. mál, fjáröflun vegna húnsæðismála á árunum 1985 og 1986

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil að sjálfsögðu lýsa ánægju yfir þessu frv., sem hér er komið fram, og jafnframt taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að mjög mikilvægt er að þetta mál ásamt frv. um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga fái greiða afgreiðslu það sem eftir lifir af þessu þingi svo þau frv. verði að lögum.

Vegna ummæla sem komið hafa fram við þessa umr. vil ég aðeins segja að félmrh. hefur að sjálfsögðu verið í stöðugu sambandi við alla aðila um þessi mál, bæði í viðræðum með ríkisstj. við fulltrúa Alþýðusambands Íslands, viðræðum við áhugamannahópa um úrbætur í húsnæðismálum o. s. frv. Ég vil taka fram að allar ákvarðanir í þessu máli eru gerðar með minni vitund og samþykki, enda er lausnin í fullu samræmi við þær tillögur sem ég hef lagt fram í ríkisstj. allt frá því í janúar til mars s. l.

Ég vil geta þess, eins og raunar kemur fram í fskj. með þessu frv., að félmrh. skipaði samstarfshóp stjórnarflokkanna 2. apríl s. l. Samkomulag þessa samstarfshóps birtist með þessu frv. á fskj. IV. Það er verkefnaskrá ríkisstj. í húsnæðismálum sem ég þarf ekki að vitna frekar í. Þar er að finna þau áhersluatriði sem stjórnarflokkarnir og ríkisstj. eru sammála um að vinna að og hrinda fram í sambandi við húsnæðismálin.

Ég vil einnig geta þess að félmrh. hefur skrifað öllum þingflokkum á Alþingi og farið fram á tilnefningu í nefnd sem er gert ráð fyrir að vinni að þessum málum milli þinga samkv. því samkomulagi sem náðist milli forustumanna stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna. Þar er skýrt tekið fram að nefndin hafi það hlutverk að gera úttekt á og bæta það húsnæðislánakerfi sem við búum við með það að meginmarkmiði — og það kemur inn á ræðu hv. 4. landsk. þm. — að tryggja fólki húsnæði við hóflegu verði án þess að einstaklingar og fjölskyldur þurfi að leggja á sig varanlegt ok vinnu og skuldaklafa til þess að komast yfir húsnæði umfram það sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Ég vona fastlega að þessi nefnd komist að skynsamlegri niðurstöðu um framgang þessara mála. Jafnframt vil ég geta þess að að sjálfsögðu eru að störfum ýmsir starfshópar og nefndir að vinna að þessum málum ásamt húsnæðismálastjórn og margt er þar í farvatninu sem að sjálfsögðu tengist því starfi sem nefnd stjórnmálaflokkanna þarf að huga að.

Ég ætla ekki að tefja þessar umr., herra forseti, en ég vil aðeins fjalla hér um örfáar spurningar sem til mín var beint af hv. 3. þm. Reykv.

Í fyrsta lagi spyr hann um skilning minn á 1. gr. þessa frv. þar sem tekið er fram að gjaldið renni óskipt til ríkissjóðs og skuli því ráðstafað til útlána á vegum Byggingarsjóðs ríkisins. Ég tel að þetta sé fullnægjandi. Hins vegar vil ég taka fram varðandi frv. til laga um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, sem gert er ráð fyrir að muni rýra innstreymi í byggingarsjóðina, að þar er að sjálfsögðu átt við báða byggingarsjóðina því að þessi greiðslujöfnun kemur einnig til þeirra sem hafa fengið lán úr Byggingarsjóði verkamanna og auðvitað legg ég þann skilning í málið að gert sé ráð fyrir að báðir þessir sjóðir fái í gegnum þessa sérstöku fjáröflun upp bætt það tekjutap sem þeir kunna að verða fyrir að því leyti til. Ég tel ástæðu til að taka þetta fram.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði einnig um það misgengi launa og lánakjara sem vissulega er undirstrikað í grg. frv. Það er atriði sem stjórnarflokkarnir munu hafa áfram til meðferðar og hefur það þegar komið fram eins og hér hefur margoft verið lýst. Ég minni á þær ráðstafanir sem þegar hafa verið gerðar og eru í fullum gangi, þ. e. með viðbótarlánum og ráðgjöf, og grípa á til með því greiðslujöfnunarfrv. sem var getið um og komið er til framkvæmda að hluta.

Hér var rætt um frekari aðgerðir. Þar er átt við skattamál. Það hefur komið hér fram nægjanlega skýrt og í umræðum undanfarið að ríkisstj. hafði til athugunar ýmsar leiðir á þessu sviði, en niðurstaðan varð sú að eðlilegt væri að skoða þetta í samhengi við þá skattalækkun sem gert er ráð fyrir að verði á mesta ári og þá verði ákvæði í núgildandi skattalögum tekin til endurskoðunar, enda er ljóst að þau ákvæði sem varða vaxtaþátt eða vaxtafrádrátt fyrir húsbyggjendur eða húskaupendur í núgildandi skattalögum eru gölluð og hafa ekki komið að þeim notum sem til er ætlast með lögunum. Þess vegna er þetta eitt af þeim atriðum sem verða tekin til meðferðar. Eins og kemur fram í verkefnaskrá ríkisstj. er því lýst yfir að þetta verði tekið til sérstakrar athugunar fyrir næsta skattár. Þar getur alveg eins komið til greina sérstakur skattafsláttur eins og hvað annað. Þetta verður til meðferðar og var til meðferðar í viðræðum við fulltrúa Alþýðusambandsins fyrr í vetur.

Að því er varðar húsnæðissamvinnufélögin spurði hv. 3. þm. Reykv. hvort líkur væru á því að frv. um þau yrði lagt fram á þessu þingi. Ég get ekki svarað því öðruvísi en að ég reikna með að svo verði. Frv. var lagt fram í ríkisstj. síðast í apríl og afhent þingflokkum stjórnarflokkanna. Það hefur enn þá ekki komið lokasvar frá Sjálfstfl. með hvaða hætti það verður gert, en ég hef fyllstu ástæðu til að ætla að hægt verði að sýna frv. á þessu þingi.

Í sambandi við spurninguna um útlán til svokallaðs Búsetafélags er ljóst að þegar gengið var frá húsnæðislöggjöfinni á síðasta ári, sem nú gildir, var sett í c-lið 33. gr. ákvæði um útlánamöguleika til félaga eða stofnana sem hyggjast byggja leiguíbúðir fyrir ákveðna hópa, þ. e. fyrir öryrkja, aldraða og námsmenn. Ég hef áður tilkynnt þann úrskurð minn í sambandi við þetta mál að ef félag eins og Búseti hyggst fullnægja þeim skilyrðum laganna sé ekkert því til fyrirstöðu að það fái lán úr Byggingarsjóði verkamanna ef um fjármagn verður að ræða.

Ég vil taka það fram, bæði í sambandi við þessa fsp. og eins almennt, að húsnæðismálastjórn hefur ekki enn gengið frá útlánaáætlun þessa árs, hvorki fyrir Byggingarsjóð ríkisins né fyrir Byggingarsjóð verkamanna, þar sem stjórnin var sammála ráðh. um að eðlilegast væri að geyma það þangað til lokaafgreiðsla lánsfjárlaga og annarra ráðstafana lægi fyrir til þess að við þá útlánaáætlun sem birt verður verði hægt að standa að öllu leyti.

Hv. 3. þm. Reykv. spurði einnig um ráðgjafarþjónustuna. Því miður tókst mér ekki að fá nákvæmar tölur frá ráðgjafarþjónustunni vegna þess að þeir sem þær mundu gefa voru farnir úr stofnuninni rétt áðan, en þær upplýsingar sem ég hef eru þær í grófum dráttum að umsóknir til ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar ríkisins eru orðnar rétt yfir 2000 sem er talsvert hærra en leit út fyrir ekki alls fyrir löngu. Það er búið að afgreiða um 940 umsóknir að því ég best veit og senda til fjármálalegrar afgreiðslu rúmlega 100 millj. kr. Þetta er sagt með fyrirvara. Það getur skakkað þarna einhverju til eða frá vegna þess að ég hef ekki nýjustu tölurnar nákvæmlega upp á krónu, en er ekki langt frá þessu.

Ég vil einnig geta þess í sambandi við þetta að þrátt fyrir misjafnar undirtektir banka og sparisjóða hafa viðbrögð þessara stofnana verið að meiri hluta til mjög jákvæð þannig að segja má og fullyrða að í flestum tilfellum hafi þar verið um mjög jákvæðar undirtektir að ræða, enda eru þeir aðilar viðstaddir lokaafgreiðslu hverrar umsóknar fyrir sig og í mörgum tilfellum hefur fyrirgreiðsla frá bankakerfinu verið hærri fjárhæð í raun en sú fjárhæð sem viðbótarlánið segir til um. Í mörgum tilfellum hefur ráðgjafarþjónustan einnig haft áhrif í þá veru að fólk hefur komist hjá uppboðum og þess háttar aðgerðum. Ég legg áherslu á að þessi þjónusta hefur reynst miklu betri en reiknað var með og jafnvel björtustu vonir gerðu ráð fyrir. Hefur verið ákveðið að þessi þáttur í starfsemi Húsnæðisstofnunarinnar verði áfram fastur liður í starfsemi hennar og er verið að ganga frá sérstökum reglum um það einmitt þessa dagana.

Hv. þm. gerði að umtalsefni fskj. IV, sem fylgir hér með, um sérstakar fyrirætlanir í húsnæðismálum, og spurði um lið 4.3., um lækkun útborgunar í fasteignaviðskiptum. Allir þessir liðir, 4.2., 4.3. og 4.4., eru vissulega mikilvægt atriði í þessum málum. Það hefur starfað sérstök nefnd að þessum málum og nefndin hefur þegar skilað sérstöku áliti um fasteignaviðskiptin og gerði ákveðnar tillögur, sem ég hef afhent hæstv. dómsmrh., sem brtt. við lög um fasteigna- og skipasölu. Þar eru settar fram ákveðnar breytingar sem allar miða að því að lækka útborgunarverð fasteigna og gera þessi viðskipti traustari þannig að hægt sé að standa með öðrum hætti að þessum viðskiptum en hingað til hefur verið. Að sjálfsögðu eru þessar tillögur í takt við þá stefnu sem stjórnarflokkarnir fylgja í þessu máli. Er þegar farið að vinna að því á hvern hátt hægt verður að tengja þetta þeirri endurskoðun sem nú fer fram.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta mál fleiri orðum. Ég vil taka undir það með hv. 4. landsk. þm. varðandi þessi mál almennt að undirbúningur að framtíðinni getur skipt sköpum. Í fyrsta lagi þarf að gera framtíðaráætlun og að því verkefni er Húsnæðisstofnun þegar að vinna. Í öðru lagi, sem er kannske þýðingarmest, þarf að leita leiða til að lækka byggingarkostnaðinn í landinu. Hann er of hár að mínu mati. Það er þess vegna mjög eðlilegt að fullyrða að þessu þurfi sérstaklega að vinna og eitt af stærri málum í sambandi við húsnæðismál almennt sé að lækka húsnæðiskostnaðinn. Ég vona að við séum öll sammála að vinna að því verkefni.