07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6024 í B-deild Alþingistíðinda. (5460)

Um þingsköp

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég kannast ekki við að hafa verið að skamma einn eða annan, eins og hv. ræðumaður sagði áðan. Ég kannast ekki við að hafa verið að atyrða þd. fyrir að vinna of hratt, vinna of mikið og halda of marga fundi. Ég sagði nákvæmlega það að hingað væri komið nál. frá fjh:- og viðskn. eftir aðeins hálfan sólarhring á að giska og ég sagði að ég skildi mjög vel formann fjh.- og viðskn. eftir þær umr. sem hér hefðu farið fram. Það var það sem ég sagði. Ég hafði ekki uppi nokkra gagnrýni í þeim efnum. Ég veit ekki hvar hv. þm. hefur vefið ef hann hefur hlustað á mína ræðu og kemur hér upp í ræðustól og talar svo um að menn séu að skammast. Hann hefur þá fyrir fram búist við einhverjum skömmum og ekki áttað sig á því að hann þyrfti að breyta ræðunni ef hann hefur verið kominn með hana fyrirfram samda. (EG: Ég skal gefa ráðh. ræðuna.) Ég þarf ekki á ræðunni að halda.

Ég undirstrika að ég var ekki að atyrða neinn eða skammast við einn eða annan. Ég var að vekja athygli á því að ég taldi hér ekki rétt að farið um frestunarbeiðni mína. Hins vegar kemur forseti og segir hvernig hann skildi þau orð sem okkur fóru hér á milli og sé um að ræða misskilning, þá verð ég fyrstur manna til að fallast á að svo geti verið. Ég taldi mig þó hafa sagt að ég vildi mjög gjarnan fá tækifæri til að taka þátt í umr. um þetta mál. Hins vegar væri tíma mínum þannig háttað að ég gæti ekki verið mjög lengi í þinghúsinu. Væri ég farinn taldi ég mig biðja forseta vinsamlega að fresta umr. til morguns. Hafi forseti misskilið þetta, sem ég sagði, skal ég fúslega taka þau orð hans gild og ekki vefengja.

Hitt liggur ljóst fyrir að hér er um að ræða miklu stærra mál en þm. vildi vera láta. Hann vísaði til umr. um frv. sem hér var áður til meðferðar. Það getur hann svo sem gert. En ég ætla ekki í efnisumr. um frv. Ég vildi hins vegar aðeins taka þetta fram og ég veit þá að það sem hér gerðist var vegna misskilnings af hálfu forseta. Ég vænti þess að það verði þá a. m. k. til þess að vekja afhygli á því að óski menn eftir frestun á málefni sem þeir fara með sem ráðherrar, þá liggi ekki svo á að ekki sé hægt að bíða hálfan sólarhring til að koma fram réttum sjónarmiðum. Til hvers er 1. umr. um mál? Hún er til þess að fram komi almenn sjónarmið áður en nefnd tekur til starfa og leggur fram nál. sitt.

Þm. segir að hér geti ég tekið þátt í 2. og 3. umr. Það getur vel verið að hér verði 3. umr. Ég veit að 2. umr. verður, en ég veit ekki hvort það verður hér 3. umr. Það má vel vera að þm. sé svo vel að sér í því hvernig málin fari að hann geti sagt það fyrir fram. En hvað sem öðru líður verður hér 2. umr. og þá taka þeir þátt í henni sem telja að rétt sé að gera það. En hafi orðið misskilningur á milli mín og forseta er ég að sjálfsögðu reiðubúinn að lagfæra það og leiðrétta, enda var þetta ekki sagt til hans í þeim tón, að það væri verið að atyrða forsetann eða skamma, eins og hv. 5. landsk. þm. vildi meina að ég hefði verið að gera.