06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

89. mál, skattar af Mjólkursamsölunni

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta það að þetta mál sé eitthvað sérstaki mál hv. 5. þm. Reykv. Þetta mál er dregið fram í dagsljósið af fjmrh. þegar hann fer að skoða lög, m.a. um Mjólkursamsöluna. Og það er vegna þess að fjmrn. er ætlað að leggja á þessa mjólkurdrykki söluskatt og vörugjald eins og tekið er af öðrum þeim drykkjum sem eru seldir í samkeppni við þessa mjólkurdrykki. Þetta er mál sem fjmrh. kom sjálfur fram með og hefur vakið athygli og umræður, og inn í þessar umr. eiga náttúrlega skattamál ekki að koma. Ég sem fjmrh. hef ekki lagt á einn einasta skatt. Það er alrangt að ég sé að afnema skatta af vaxtatekjum þeirra sem fá þær. Það var búið að gera löngu áður. Vextir hafa verið skattfrjálsir í langan tíma. Meira að segja í stjórnartíð Alþb. Þau mál og launamál eiga því ekki erindi inn í umr. um fsp. hv. 5. þm. Reykv.

En verðið á þessum mjólkurdrykkjum lækkaði þó við þessa umr. um 20%. Það er staðreynd. Heimilin borga 20% minna en þau gerðu vegna þess að fjmrh. dró þetta mál fram í dagsbirtuna. Hvers vegna hafa þessi lög ekki verið endurskoðuð á styttri tíma eða fyrr? Oft er það nú gert að lög eru endurskoðuð. Af hverju hafa þau ekki verið endurskoðuð fyrr? Um það get ég ekki sagt. En ég dró þau þó fram til endurskoðunar, þannig að ég á ekki skilið að vera barinn og laminn í bak og fyrir af hv. 10. landsk. þm. Það væri nær lagi að hún færi að hæla mér fyrir að hafa komið með þetta mál en ekki öfugt.