06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

92. mál, sérdeild við sakadóm Reykjavíkur

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Samkv. þál., sem samþ. var á Alþingi 3. maí s.l. um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum var ríkisstj. m.a. falið að endurskoða lög um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., nr. 74/1972. svo og lög um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974 í þeim tilgangi að stofna sérdeild við sakadóm Reykjavíkur sem fengi m.a. til meðferðar eftirtalin brot: Skattsvik, bókhaldsbrot, gjaldeyrisbrot, faktúrufalsanir, verðlagsbrot og fleiri skyld brot. Lögin um meðferð opinberra mála eru í heildarendurskoðun hjá réttarfarsnefnd og hefur því þótt eðlilegast að fela þeirri nefnd að fjalla einnig um þessar tillögur.

Hvort sem stofnuð verður sérdeild við sakadóminn eða ekki, þá er ljóst að meginhluti þeirra mála sem hér er fjallað um kemur til meðferðar þess dómstóls. Og þá skiptir mestu máli að hann hafi nægu starfsliði á að skipa svo að meðferð þeirra verði hröð. Álag á dómstólnum er nú það mikið orðið að nauðsynlegt er að bæta þar við fulltrúa og var óskað eftir því við undirbúning fjárlagafrv. nú í vor. Ekki var fallist á þá starfsliðsaukningu við undirbúning fjárlagafrv., en það erindi verður væntanlega skoðað nánar af hv. fjvn. með hliðsjón af fyrrnefndri þál. og vænti ég þess að þá fái það jákvæða afgreiðslu.

Þá var lagt fyrir í þál. að fjölga skyldi sérhæfðum starfsmönnum hjá embætti ríkissaksóknara. Með tilliti til stöðu mála þar hefur að svo stöddu ekki verið óskað eftir fjölgun starfsliðs þess embættis þar sem talin var enn þá brýnni þörf að bæta við annars staðar, bæði við sakadóm og svo, eins og síðar kemur fram, hjá rannsóknarlögreglunni þar sem nú er brýnust þörfin á fjölgun.

Í þriðja lagi var lagt fyrir að efla skyldi starfsemi rannsóknarlögreglu ríkisins í þessum málaflokki. Til þess að mæta auknu álagi vegna aukinnar starfsemi skattyfirvalda að rannsókn skattsvika og auknum fjölda almennra mála var óskað eftir fimm nýjum stöðum rannsóknarlögreglumanna hjá rannsóknarlögreglu ríkisins. Á þetta var ekki heldur fallist við undirbúning fjárlagafrv., en ef unnt á að vera að sinna auknum málafjölda á sviði skatta- og viðskiptabrota þá verður að skoða þessa beiðni nánar nú við afgreiðslu fjárlagafrv. eins og í sambandi við sakadóm.