10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6181 í B-deild Alþingistíðinda. (5623)

456. mál, Byggðastofnun

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið, en ég tel rétt að víkja hér að örfáum atriðum sem fram hafa komið.

Það er rétt hjá hv. 3. þm. Reykv. að fjölmiðlar virðast hafa meiri áhuga á öðrum málum en því sem hér er nú rætt. En það eru líka fleiri sem virðast hafa meiri áhuga á því máli sem nú er verið að ræða í hv. Ed. heldur en því sem rætt er hér. Mér sýnist stjórnarliðið hafa meiri áhuga á umræðum þar en um það mál sem hér er nú verið að ræða. Ég furða mig á því andvaraleysi, því áhugaleysi, nánast kæruleysi sem hv. stjórnarþingmenn úr sjávarútvegsplássum sýna því máli sem hér er nú til umr. og ættu þeir þó að vera sér þess meðvitandi hvernig ástandið er að því er varðar byggðaþróunina. Ég hygg t. d. að hv. þm. Friðrik Sophussyni, þó þm. Reykv. sé, sé mjög vel kunnugt um það hver staða sjávarútvegs er t. d. á Vestfjörðum. Hv. þm. ætti því ekki að ganga með bundið fyrir bæði augu fram í þessu máli eins og hann gerir nú. Og svo er að sjálfsögðu um miklu fleiri. Hv. þm. Stefáni Guðmundssyni er ábyggilega ljóst hver staða fiskvinnslunnar og fiskveiða er á Norðurlandi vestra, á Norðurlandi eystra og víðar. Þessi hv. þm. ætti því ekki að ganga með bundið fyrir bæði augu fram í þessu máli eins og hann virðist ætla sér að gera. Er hv. þm. stjórnarliðsins hér á Alþingi og hæstv. ráðh. ekki ljóst hvað hefur verið að gerast að því er varðar sjávarútveginn á síðasta ári og er að gerast enn? Líklega eru komnar sendinefndir úr öllum sjávarútvegskjördæmum landsins til viðræðna við þm. úr viðkomandi kjördæmum til þess að bera sig upp undan þeim vandræðum sem sjávarútvegurinn er kominn í.

Ég efast um að það hafi nokkurn tíma gerst fyrr að fulltrúar allra fiskvinnslufyrirtækja á Vestfjörðum hafi komið til Reykjavíkur til viðræðna við þm. um það geigvænlega ástand sem blasir við í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Í þessu kjördæmi, sem á nú tvo hæstv. ráðh. í ríkisstj., liggur við landauðn verði áfram haldið á þeirri braut sem hér er verið að gera. Og mér er spurn: Ætla hæstv. ráðherrar og stjórnarliðar úr þessum sjávarútvegskjördæmum virkilega að láta halda fram sem horfir í þessu máli?

Heldur hv. þm. Stefán Guðmundsson að þetta frv., sem hér er til umr. nú, bjargi sjávarútveginum, fiskvinnslunni og atvinnunni almennt talað í sjávarplássunum úti á landi? Ég fullyrði að þetta frv. breytir engu þar um, af hversu miklum vilja sem menn eru gerðir til þess að svo ætti að vera. Það eina sem dugar til þess að breyta þessu viðhorfi, breyta þeim vandamálum sem nú er við að glíma að því er varðar byggðaþróun í landinu, það er að snúa af vegi þeirrar helstefnu sem ríkisstj. fylgir í efnahagsmálum, stefnu sem bitnar fyrst og fremst á landsbyggðinni og undirstöðuatvinnugreinunum í landinu.

Og það er nánast furðulegt að forustumenn stjórnarmeirihlutans, eins og hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl., stingi hér inn höfði bara annað slagið til þess að vita hvort hér sé umræða í gangi. (Gripið fram í.) Getur hv. þm. ekki verið í deildinni ef einhver er að tala? Er nauðsynlegra fyrir hann að hlýða á umræður um bjórinn í hv. Ed.? Það veitir nú víst ekki af við hv. stjórnarliða að hrista upp í kollinum á þeim til þess að þeir verði viðtalshæfir. Nei, ég er viss um það að kjósendur þessara hv. þm. úr sjávarútvegsplássunum yrðu undrandi ef þeir hefðu vitneskju um það að á sama tíma og verið er að ræða nánast um fjöregg atvinnulífs þjóðarinnar, fjöregg þjóðarinnar í þessum efnum, þá sjást varla þessir hv. þm. í deildinni á meðan málið er til umræðu. Aðeins einn hæstv. ráðh. hefur látið svo lítið að vera hér við umræðuna í kvöld sem nú er búin að standa í hartnær fjórar klukkustundir. Einn af tíu.

Ég veit ekki hvað hv. stjórnarlið hér ætlast fyrir í áframhaldi af þessu. En ég fullyrði það að sú afstaða og það hugarfar, sem mér virðist koma fram hjá hæstv. ráðherrum og hv. stjórnarliðum hér á Alþingi til þessa grundvallaratvinnuvegar þjóðarinnar er með endemum. Dettur hæstv. forsrh. í hug að hann fái vestfirska sjómenn, vestfirskt fiskvinnslufólk til þess að halda áfram við þau störf ætli hann sér sjálfur að halda sömu stefnunni í þessum efnum og hann hefur gert? Ég trúi því a. m. k. að þessir aðilar vestra, hvort sem um er að ræða sjómenn, fiskvinnslufólk eða atvinnurekendur í sjávarútvegi, þó framsóknarmenn væru, létu hæstv. forsrh. heyra í sér ef þeir næðu til hans, vitandi það hvernig hæstv. ráðh. heldur á málum að því er þessa atvinnugrein varðar.

Ætli það sé nokkur tilviljun að einn flokksbróðir hæstv. forsrh. sagði á opnum fundi vestur á fjörðum í vetur að hann hefði ekki trú á því að honum entist kjörtímabilið til þess að ná hæstv. ráðh. í kjördæmið til þess að tala við hann. Þetta var flokksbróðir hæstv. forsrh. Mér er kunnugt um það að einstaklingar, drífandi atvinnurekendur í sjávarútvegi, eru búnir að gera ýmislegt til þess að reyna að koma hæstv. ríkisstj. og meiri hl. hér á Alþingi í skilning um það til hvers sú helstefna leiðir sem þeir eru nú að leiða yfir íslenskt þjóðfélag, yfir þessa grundvallaratvinnugrein. Eigi að síður halda menn áfram. Og þó að sumir hv. stjórnarliða hafi af því atvinnu part úr sumri að stýra sjávarútvegsfyrirtækjum vestur á fjörðum, þm. Reykjavíkur, og sjái í hendi sér hvernig staðan er, eigi að síður skal þessari helstefnu haldið áfram. Það er alveg furðulegt hvað þessir hv. þm. telja að sér muni líðast í þessum efnum.

Ég skal ekki, herra forseti, fara öllu fleiri orðum um þetta. Sumir telja nóg að gert. Ég tel hins vegar að svo sé ekki. Það hefði verið full ástæða til að eyða lengri tíma í að ræða almennt um þróun byggðamála og til hvers sú stefna, sem fylgt hefur verið, er að leiða í þeim efnum. Það er í mínum huga eitt meginatriði þess sem nú er að gerast í íslensku þjóðfélagi. Íslenskt þjóðfélag verður ekki lengi velferðarþjóðfélag ef áfram á að halda á þeirri braut að kippa stoðunum undan framleiðslugreinunum en hrúga öllu í þjónustugreinarnar hér á höfuðborgarsvæðinu. Það minnkar í buddum Reykvíkinga og Reyknesinga ef áfram verður haldið á þeirri braut. Það er fölsk atvinnustefna og uppbygging, sem nú er haldið uppi á þessu svæði með erlendum lánum, ef áfram á að halda á þeirri braut að rýra undirstöðuna undir framleiðslugreinunum.

Að síðustu. Ég varð fyrir vonbrigðum með svör hæstv. forsrh. við áskorunum vestfirskra trillubátamanna. Ég hygg að við séum sammála um það, ég og hæstv. forsrh., að þessi stétt manna vestra gegnir mikilvægu hlutverki fyrir það landsvæði. Þessi atvinnuvegur er nauðsynlegur þó að sú útgerð sé aðeins stunduð hluta úr ári. Ég var því að vona að hæstv. ráðh. mundi beita sér í þessu máli til að fá á því leiðréttingu. Hann sagði að vísu að málið lægi á borði hæstv. sjútvrh. og hann mundi ræða það við hann þegar hann kæmi heim. Ég vil nú biðja hæstv. forsrh. að gera meira en snakka eitthvað við hæstv. sjútvrh. þegar hann kemur til landsins, því að mín reynsla er sú að við hæstv. sjútvrh. dugi ekki snakk. Þar þurfi menn að beita sér ef þeir ætla að hafa áhrif á að þarna fáist á breyting. Og ég vil í mesta bróðerni biðja hæstv. forsrh. þess lengstra orða, og taka þá með sér hæstv. samgrh. sér til halds og trausts, sem er úr sama kjördæmi, að beita sér fyrir því að leiðrétting fáist á þessu máli, því að ég veit að hæstv. forsrh. er það jafnvel kunnugt og mér að það er mikil ólga vegna þessa fyrir vestan og trúlega fyrir austan líka. Þó ég þekki það ekki eins þykist ég vita að það sé álíka. Ég vil ekki trúa því, fyrr en þá að það blasir við sem staðreynd, að á þeirri eintrjáningsstefnu sem mér finnst vera fylgt að því er varðar framkvæmd kvótakerfis á handfæraveiðum fáist ekki svo eðlileg og sjálfsögð breyting eins og hér er verið að fara fram á. Ég tel hins vegar að það eigi með öllu að afnema kvóta á handfæraveiðum og línuveiðum. Till. þess efnis var felld í desember s. l. af meiri hl. hér á Alþingi, því miður, og trúlega þýðir ekki um það að tala. En lágmark er að leiðrétting fáist nú á sumarvertíð vegna handfærabátanna fyrir vestan. Ég skora enn á hæstv. forsrh. að beita sér fyrir slíkri breytingu. Verði ekkert farið að gerast í þessu máli eftir miðja þessa viku hygg ég að búast megi við því að hér verði krafist utandagskrárumræðu um það mál. Þetta mál er einn anginn af byggðastefnunni og ekki sá minnsti. Spurningin sem svara verður er sú hvort áfram á að halda á þeirri braut að rýra svo kjör og aðstöðu landsbyggðarfólks að það flýi umvörpum á þetta svæði hér syðra.

Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu en vil í þriðja skiptið ítreka áskorun til hæstv. forsrh. um að beita sér virkilega í þessu máli.