10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6191 í B-deild Alþingistíðinda. (5644)

280. mál, rétt skil afurðasölufyrirtækja til bænda

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur margsinnis fjallað um þetta mál og m. a. fengið til viðtals þá Gunnar Guðbjartsson framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs landbúnaðarins og Inga Tryggvason formann Stéttarsambands bænda sem veittu margháttaðar og nytsamlegar upplýsingar og afhentu plögg sem í vörslu n. eru. forvitnileg plögg að ýmsu leyti en viðamikil og sett upp í kúrfu og mikla dálka. Við vorum að hugsa um það í n. að láta prenta þessar grg. með, en það hefði kostað ansi mikla vinnu og peninga. En ég vil geta þess að þessi gögn eru til í vörslu fjh.- og viðskn. og geta menn haft að þeim aðgang og séð þar ýmislegt fróðlegt.

Raunar er það á allra vitorði að afurðasölufyrirtæki hafa skilað misjafnlega vel verði afurðanna til bænda. Greiðslur hafa dregist hjá sumum, öðrum minna, sumum ekki neitt. Það er allur gangur á því. Um það eru allir nm. sammála að mismunandi sé að þessu staðið og hagur fyrirtækjanna raunar misjafn líka. Það eru allir sjö nm. sammála um það, eins og fram kemur í nál. minni hl., hv. þm. Jóns Kristjánssonar. Hins vegar hefur hann ekki talið ástæðu til að samþykkja þetta mál og gerir sjálfsagt grein fyrir því á eftir.

Við hinir nm. teljum eðlilegt og sjálfsagt að samþykkja till. og viljum aðeins hafa þann fyrirvara að þar sem um gjafsókn er að ræða er hún hugsuð einungis þannig að hún sé veitt vegna einstakra prófmála eða reynslumála til að fá skorið úr um hver réttur bænda sé í þessu efni.

Þess er að geta að Stefán Benediktsson sat fundi n. og er samþykkur þessu áliti meiri hl.