10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6196 í B-deild Alþingistíðinda. (5653)

293. mál, sala Gullaugans og Áburðarverksmiðjunnar

Frsm. meiri hl. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 474 hefur hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson ásamt þeim hv. þm. Eiði Guðnasyni og Stefáni Benediktssyni flutt till. til þál. sem kveður á um að selja skuli Grænmetisverslun landbúnaðarins og Áburðarverksmiðjuna. Eins og fram kemur á nál. sá nefndin sér ekki fært að leggja til að Áburðarverksmiðjan yrði seld og kannske ekki trúlegt að auðvelt verði að finna kaupendur að henni eins og hennar fjárhag er komið. Afgreiðslan lýtur þannig einvörðungu að sölu á Grænmetisverslun landbúnaðarins.

Hér hefur verið rætt um frv. til l. um breyt. á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins og enn er hægt að vitna til þess þar sem þar er lagt til nákvæmlega það sama og kemur fram í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. Og má kannske segja að afgreiðsla hennar sé til frekari áréttingar á þeim markmiðum sem þar koma fram. Kannske er hún líka góð sönnun þess hversu hugkvæmur hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson er því að þessa till. var hann búinn að flytja og skýra í Ed. áður en framleiðsluráðslagafrv. sá dagsins ljós og var að sjálfsögðu til þess horft við samningu þess.

Eins og ég hef áður sagt frá liggur nál. fyrir á þskj. 1192 og skýrir sig sjálft til viðbótar því sem ég hef hér frá sagt.