10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6202 í B-deild Alþingistíðinda. (5663)

525. mál, fjáröflun vegna húnsæðismála á árunum 1985 og 1986

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr., en vegna þeirra ummæla sem ég heyrði hjá hv. ræðumönnum á undan mér langar mig til að benda á örfáar staðreyndir.

Framlög ríkisins til húsnæðismála hækkuðu úr 300 millj., sem voru á fjárlögum fyrir árið 1983, upp í 1200 millj. á þessu ári. Það segir kannske meira en mörg orð um hvað þarna hafi verið gert. En vissulega er vandi margra mikill og eins og þessar tölur sýna margt verið gert þó að hann hafi ekki verið leystur.

Því miður hófst misgengi vísitalnanna ekki við myndun þessarar ríkisstj., heldur í tíð þeirrar ríkisstj. sem við hv. 2. þm. Austurl. studdum báðir því að mestur varð sá mismunur sem hefur orðið á síðustu árum frá miðju ári 1982 og fram til maíloka 1983 þegar núv. ríkisstj. var mynduð. Sá vandi sem er vegna lánabyrði er vitanlega tilkominn vegna þeirrar verðtryggingar lána sem upp var tekin, ekki í tíð þessarar ríkisstj. heldur annarrar ríkisstjórnar sem sat áður og við hv. 2. þm. Austurl. studdum einnig báðir. Ég er viss um að allir telja nú sjálfsagt að sá háttur sé á hafður, ekki sé hægt að hverfa aftur til þess tíma þegar fjárskuldbindingar voru greiddar með allt öðru verðgildi til baka en var þegar þær voru gerðar og það var ávinningur, má segja, að taka lán til hvers sem var þar sem verðbólgan greiddi það allt upp.

Ég vil einnig benda á að núv. hæstv. félmrh. hefur sett nýjar útlánareglur þar sem stefnt er að betri hagnýtingu húsnæðis og ákveðin stærðarmörk á íbúðir þegar lán eru veitt. Það ætti vissulega að létta undir með mönnum í framtíðinni að standa undir lánum. Það er vissulega hefndargjöf að gefa mönnum kost á lánum sem þeir hafa ekki möguleika til að standa undir eða leggja allt of þungar byrðar á menn. Sumir þeirra, sem nú með réttu kvarta undan erfiðleikum, munu hafa lagt í nokkuð stórar byggingar og bera því þungar byrðar á sínum herðum.

Ég vildi aðeins benda á þessar staðreyndir, sem mér finnst tala sínu máli, án þess að fara frekar út í þær umræður efnislega sem hér hafa farið fram.