11.06.1985
Neðri deild: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6286 í B-deild Alþingistíðinda. (5720)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Frsm. 2. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég átti tæpast von á því að þetta lagafrv. yrði tekið hér til umr. núna. Eins og forseta er kunnugt lauk 2. umr. síðla föstudags, í kvöldmatnum á föstudegi. Sú umr. fór fram við þær aðstæður að hæstv. fjmrh. var ekki viðstaddur. Ég gagnrýndi það mjög, en lét þar við sitja. Ég gagnrýndi það vegna þess að mér finnst að í raun sé hæstv. fjmrh. jafnskylt að vera við umr. um lánsfjárlög og um fjárlögin sjálf. Hér er ekki síður um mjög veigamikinn þátt að ræða í ríkisbúskapnum í raun og sannleika og að ýmsu leyti afdrifaríkan, rétt eins og fjárlögin eru.

Ég segi afdrifaríkan eða afdrifaríkari vegna þess að með þessum lögum er ætlunin að skuldsetja þjóðina um 10.1 milljarð kr. á sama tíma og ráðherrarnir hver á fætur öðrum rísa upp frammi fyrir alþjóð og halda því fram að ekki megi auka erlendar lántökur. Hæstv. fjmrh. hefur t. d. gengið mjög ötullega fram í þeim efnum. Menn minnast þess vafalaust að hann hefur talað um það í þá veru að stóll hans væri í veði ef lántökur ykjust milli ára eða færu yfir 60% af þjóðarframleiðslu. Nú gerðist það mjög greinilega á s. l. ári. eins og reyndar árið þar áður líka, að það fór fram úr því marki, en fjmrh. tók ekki mark á sjálfum sér frekar en venjulega.

Með frv. sem hér er til umfjöllunar er ætlunin að auka enn á erlendar lántökur þannig að þær fara upp í 63.6% af vergri þjóðarframleiðslu. Það hefði verið ástæða til þess að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur þessa umr. þegar svo afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar.

Í annan stað endaði umr. á föstudaginn án þess að nokkur ráðh. kæmi til andsvara við þeim spurningum sem fram voru lagðar. Ég beindi þá m. a. spurningum til hæstv. viðskrh. sem hann hefur enn ekki svarað. Vitaskuld hefði verið eðlilegast að þessum spurningum og öðrum spurningum hefði verið svarað við lok 2. umr. og algert lágmark að þeim væri svarað strax í upphafi 3. umr., en stjórnarandstæðingum ekki ætlað að koma hér upp öðru sinni án þess að þessum spurningum hafi verið svarað. Nú heyri ég að hæstv. viðskrh. er reiðubúinn að stíga í stólinn og það er vel, en engu að síður er allt útlit fyrir að 3. umr. um þetta frv. eigi líka að fara fram að hæstv. fjmrh. fjarstöddum. Þetta er að mínum dómi fyrir neðan allar hellur.

Það er ekki síst vegna þess að í rauninni má segja að fulltrúar ríkisstj., hæstv. ráðh., séu að reyna að telja þjóðinni trú um að þeir séu að hafa hemil á erlendum lántökum þegar það er svo fjarri sanni sem raun ber vitni. Ég segi að þeir séu að reyna að telja þjóðinni trú um það með tilliti til allra þeirra yfirlýsinga sem þeir hafa gefið og þá í fyrsta lagi sem hæstv. fjmrh. hefur gefið. Ef þjóðin tæki eitthvert mark á hæstv. fjmrh. mundi hún vitaskuld telja að hann hefði haldið sig við það að skuldirnar væru innan við 60% af vergri þjóðarframleiðslu og færu ekki vaxandi úr því að hann situr enn. En í annan stað er þessi ráðh. ekki einn um það að hafa gefið yfirlýsingar. Það er ekki nema vikutími eða svo síðan hæstv. forsrh. kom í sjónvarpið og sagði þjóðinni aðspurður að erlendar lántökur mættu ekki, ættu ekki og gætu ekki vaxið. Samt stöndum við hér líka að hæstv. forsrh. fjarstöddum og ræðum þá tillögu stjórnarflokkanna — (Gripið fram í: Sést hann illa?) Hæstv. forsrh.? Ja, það sér illa í hann allavega. — að auka erlendar lántökur með þeim hætti sem ég hef hér greint frá.

Við 2. umr. um frv. til lánsfjárlaga flutti ég nokkrar brtt. sem voru á þá lund að draga úr erlendum lántökum. — Velkominn, forsrh. Já, það er ekki nema von að menn setjist einhvers staðar á bak við hurð til að hlusta á það sem hér er til umfjöllunar. — Þær brtt. náðu því miður ekki fram að ganga. Þær brtt. gengu út á það að erlendar lántökur yrðu 940 millj. kr. lægri upphæð en meiri hl. fjh.- og viðskn., fulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl., leggja til í sínum till. og lögðu til í þeim till. sem voru samþykktar við 2. umr.

Ég tel mjög miður að menn skuli víkja sér undan þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir með þeim hætti sem hér um ræðir. Sannleikurinn er sá að við getum ekki forsvarað það fyrir börnum okkar að halda þessari skuldsetningu áfram. Við getum ekki heldur forsvarað það fyrir forverum okkar, sem börðust fyrir og náðu sjálfstæði fyrir þessa þjóð, að við stefnum efnahagslegu sjálfstæði okkar í hættu með þeim hætti sem hér er gert með taumlausri skuldasöfnun. Auðvitað er mér ljóst að það kostar ákveðin átök og það þýðir að ekki fá allir allt sem þá langar til og að við verðum að venja okkur við önnur vinnubrögð en menn hafa tamið sér að draga úr erlendum lántökum með þeim hætti sem ég tel nauðsynlegt og hef hér gert till. um. En um þetta verkefni verða menn að sameinast. Það stoðar skammt og er verra en ekki að flytja um það yfirlýsingar á opinberum vettvangi að þetta sé það sem menn vilja, en gera svo ekkert.

Eins og ég sagði, herra forseti, voru þessar till. því miður ekki samþykktar. Þær vörðuðu langtímalántökur. Hins vegar kemur í ljós í þeim gögnum sem fylgja áliti meiri hl. að þar fyrir utan er hugmyndin að auka skammtímalán mjög verulega. Það er hugmyndin að auka skammtímalán um 2900 millj. kr. og eru þó ekki nema fáeinir mánuðir síðan það var tillaga ríkisstj. að hér yrði einungis aukning upp á 1200 millj. kr. eða minna.

Við þekkjum það af reynslu annarra þjóða, sem hafa ámóta eða jafnvel skárri skuldastöðu en við að því er varðar útlönd, að þær hafa lent í verulegum greiðsluerfiðleikum. Við höfum sloppið, kannske ekki síst vegna þess að við höfum tekið lánin til lengri tíma og þess vegna ekki lent í greiðsluerfiðleikum af þessum sökum meðan þessar þjóðir hafa lent í miklum greiðsluerfiðleikum einmitt vegna þess að verulegur hluti skulda þeirra var til skamms tíma. Þess vegna vara ég alveg sérstaklega við í þessu efni. Auk þess tel ég að sú stefnumörkun, sem í þessum lánsfjárlögum og þessari stefnu um aukningu erlendra skammtímalána felst, feli í sér veruleg þensluáhrif, sem allir eru þó að kvarta undan, og aukið ójafnvægi sem m. a. muni bitna á viðskiptahallanum, koma fram í verðbólgu og verða til þess í raun og sannleika að rýra kjör fólksins í landinu jafnframt því að sjávarútvegurinn býr við þeim mun verri rekstrarstöðu sem ójafnvægið og spennan eru meiri.

Ég beindi spurningum, eins og ég gat um hér áðan, til hæstv. viðskrh. af þessu tilefni og ég tel mikilvægt að það fáist svör við þeim.

Auk þess sem ég hef hér rakið, herra forseti, hef ég flutt tvær till. sem ég vil minna á. Annars vegar er till. um að fjmrh. sé heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast með einfaldri ábyrgð skuldbindingar fiskeldisstöðva gagnvart Framkvæmdasjóði vegna lántöku hjá Norræna fjárfestingarlánasjóðnum, allt að 150 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Hér er í raun um hagræðingaratriði að ræða. Lánsloforð liggur fyrir frá þessum sjóði. Menn hafa ekki talað gegn því að þessi lán yrðu tekin. En Norræni fjárfestingarlánasjóðurinn fer í raun fram á það, til þess að veita þessi lán og til hagræðingar, að einn aðili standi gagnvart honum ábyrgur fyrir þessum skuldbindingum. Framkvæmdasjóður er til þess kjörinn og tilvalinn og hann er til þess reiðubúinn, en telur nauðsynlegt að fá bakábyrgð frá ríkinu með þeim hætti sem hér er gerð till. um. Ég tel að úr þessu eigi að leysa með samþykkt þeirrar till. sem ég geri hér og nú að umtalsefni.

Í annan stað flyt ég till. um að fjmrh. sé heimilt á árunum 1985–1986 að gefa út ríkisskuldabréf sem séu verðtryggð en án vaxta og nýta andvirði bréfanna til að flýta verkáföngum frá gildandi vegáætlun að fengnum tillögum Vegagerðar ríkisins og samþykkt fjvn. Gjalddagi bréfanna yrði á því ári sem það verk sem um væri samið og fyrir væri greitt skyldi unnið skv. vegáætlun og þá mundi ríkissjóður greiða nafnverð bréfanna að viðbættum verðbótum.

Ég hef gert ráð fyrir að þessi heimild taki til 150 millj. kr. Yrði af samningum um verk af þessu tagi yrði greiðslan, sem verktakarnir fengju, eingöngu skuldabréf af þessu tagi sem greiddust á þeim tíma sem menn hefðu gert ráð fyrir að þessi verkefni væru á vegáætlun. Það væri á valdi fjvn. að fengnum tillögum Vegagerðarinnar að nýta þessar heimildir. Það hefur verið talað um að komið gæti upp slaki í verktakastarfsemi og ekki að ástæðulausu um það rætt. Þá getur verið sérstakur möguleiki fyrir ríkissjóð að láta vinna að verkum og fá í þau hagstæðari boð en ella. Þessi heimild er að vísu mjög takmörkuð, en ég tel eðlilegt að hún sé fyrir hendi miðað við þær aðstæður sem ríkja í þjóðfélaginu og miðað við það hvernig ástandið er í verklegum framkvæmdum að ýmsu leyti og af því að slaki geti komið upp á þessu sviði.

Það má í raun líta svo á að hér sé um að ræða nokkra útvíkkun á fyrirkomulagi sem hefur verið tíðkað. nefnilega það að verktakar hafa lánað milli ára í verk sem þeir hafa flýtt miðað við það sem áður hafði verið gert ráð fyrir. Hérna er þetta mótað og útvíkkað þannig að það er komið í ákveðið form og mögulegt að nýta það í nokkru ríkari mæli. Hér er um tilraun að ræða. Við vitum að ýmsir verktakar hafa haft á orði að þeir teldu eitthvað af þessu tagi fýsilegan kost. Mér finnst eðlilegt að Alþingi svari því með ákveðnum hætti þannig að ekki verði hægt að segja um afgreiðslu þess að Alþingi hafi einungis hrist hausinn. Og ég held að fólkið í landinu eigi erfitt með að skilja að menn séu ekki reiðubúnir að ná sér í eitthvað stærri áfanga ef greiðslubyrðin þarf ekki að lenda á ríkissjóði fyrr en ráð hefur verið fyrir gert. Ég held að Alþingi stæði keikara og betur með því að svara þessum áskorunum og með þeim hætti sem ég hef hér gert ráð fyrir þó í ákaflega takmörkuðum mæli sé, enda er hér vitaskuld um tilraun að ræða og ekki vitað hvort tilboð mundu berast á þessum grundvelli, en hér er þó um ákveðið form að ræða sem virðist að mínum dómi vera nýtanlegt.

Eins og forseta er kunnugt lagði ég þessa brtt. fram þegar við 2. umr. um lánsfjárlögin, en gat þess þá að ég mundi draga þær báðar aftur til 3. umr. þannig að mönnum gæfist kostur á að gaumgæfa málið. Ég gerði það vitaskuld í þeim skilningi að ef menn vildu einhverju til hnika í þessum efnum væri ég til þess reiðubúinn. Það stendur vitaskuld enn og allt fram til þeirrar atkvgr. sem um þessa till. fer væntanlega fram við lok 3. umr.