11.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6326 í B-deild Alþingistíðinda. (5742)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Góðir hlustendur.

Þessi ríkisstjórn var mynduð fyrir tveimur árum til þess að afstýra þeim bráða voða sem við blasti í efnahagsmálum og leggja grundvöll að nýrri atvinnuþróun er stæði undir betri lífsskilyrðum og blómlegri menningu. Það er einatt hlutskipti sjálfstæðismanna, er þeir koma í ríkisstjórn, að bæta skaðann af óstjórn og ábyrgðarleysi vinstri flokka í næstu ríkisstjórn á undan. Annaðhvort hafa þá vinstri flokkarnir gefist upp eða kjósendur gefist upp á þeim nema hvort tveggja sé.

Sjálfstfl. og Framsfl. tóku höndum saman um björgun mála. Í þessu verkefni gátum við ekki búist við sífelldu sólskini og sunnanvindi. Við gerðum okkur strax ljóst að verulegt átak þings og þjóðar þyrfti til og þolinmæði þyrfti til þess að árangur næðist. Þetta þýddi að ýtrasta aðhalds varð að gæta í opinberum rekstri og fjárfestingum. Ástandið var slæmt, okkar hlutverk var að gera horfurnar bjartari. Mikilsverðum sparnaði var komið við á mörgum sviðum, einkanlega í orkumálum, svo og með endurskipulagningu og hagræðingu í starfi ýmissa stofnana hins opinbera, flutningi verkefna úr rn. til annarra aðila og sölu fyrirtækja til einstaklinga og samtaka þeirra. Þannig hefur verið unnt að sinna betur ýmsum verkefnum en áður hefur verið gert.

Hávaði þrýstihópa byggist stundum á takmörkuðum upplýsingum og stundum á röngum upplýsingum. Dæmi um þetta eru ályktanir Lánasjóðs ísl. námsmanna, en hann hefur í fyrsta sinn nú nægileg ríkisframlög til að sinna 100% lánsfjárþörf námsmanna frá áramótunum síðustu, og síðasta ár tókst að halda 95% lánsfjárhlutfalli allt árið eins og gert var ráð fyrir. Þetta tókst með skilningi ríkisstjórnar og þings annars vegar en einnig með hagræðingu í rekstri, þ. á m. breytingu á úthlutunarreglum, hins vegar. Ríkisstj. þykir sjálfsagt að með fjármögnun Lánasjóðs ísl. námsmanna og skynsamlegum reglum um hann sé séð til þess að hann geti gegnt mikilvægu hlutverki sínu.

Námsgagnastofnun gegnir lykilhlutverki í skólakerfi landsins. Hún hefur frá upphafi verið í fjársvelti og hafði þess vegna í eftirdragi alllangan slóða skuldbindinga frá fyrn árum er tafði ýmis nauðsynleg verkefni sem hún hafði með höndum. Úttekt lauk á störfum hennar og fjárþörf. Framlög ríkisins voru aukin til hennar um 77% á fjárlögum þessa árs. eða langt umfram það sem gerðist annars staðar í ríkiskerfinu.

Námsbókagerðin ásamt fjármagni til hennar hefur verið flutt úr rn. til Námsgagnastofnunar, enda er samning bóka ekki stjórnarráðsverkefni í eðli sínu. Þetta var hluti af úttekt og endurskipulagningu sem gerð var á menntmrn. Hafin er gagngerð vísindaleg úttekt á árangri skólakerfisins. Á grundvelli þeirrar athugunar er stefnt að heildarendurskoðun grunnskólalaganna. Síðan má nefna fjölmörg fleiri atriði, ekki síst á sviði menningarmála. Nefna má mikilsverða lagasetningu svo sem um höfundarétt og kvikmyndir og nú eru á lokastigi frv. um Þjóðskjalasafn og afnám ríkiseinokunar á útvarpsrekstri.

Kvikmyndasjóði hefur nú verið tryggt fjármagn til að sinna því verkefni sem nýju lögin gera ráð fyrir. Þau lög munu vonandi verða til þess að efla þessa nýju listgrein, þetta nýja tjáningarform nútímans. Þessi listgrein hefur orðið til þess að vekja athygli á landi okkar, lífi þess og starfi víða um heim. Kvikmyndagerð á Íslandi nýtur vaxandi virðingar meðal annarra þjóða og vissulega einnig hér á landi. Við þessa listgrein þarf að styðja.

Listirnar eru lykillinn að umheiminum. Vakandi áhugi landsmanna, hugmyndir, menntun og hæfileikar listamanna okkar og stuðningur hins opinbera þarf allt að fara saman. Lífið er fleira en efnahagsmál og ríkisfjármál. Til þess að þau hafi gildi þarf meira að koma til. Atvinnuuppbygging þarf að haldast í hendur við uppbyggingu í listum og öflun þekkingar með rannsóknum og skynsamlegu skólakerfi. Enginn þessara þátta kemst af án hinna ef starfsemin á að leiða til fegurra og ánægjulegra lífs.

Það er greinilegt að forusta beggja stjórnarflokkanna hefur á þessu skilning og reynslan sýnir okkur að þær þjóðir heims sem mestri hagsæld hafa náð um þessar mundir hafa á þessu skilning. Með samspili þessara þátta er líklegt að fólki verði tryggð traust og betri kjör í landi okkar í framtíðinni.

Á þessu ári er alþjóðlegt ár æskunnar. Það á að vera æskufólki til hvatningar, efla frumkvæði þess og hlúa að möguleikum þess. Það á að vera okkur til áminningar um að okkur beri að skapa hinu unga fólki skilyrði til þroska og svigrúm til athafna.

Ungu fólki þarf að sýna traust. Einn frægasti æskulýðsleiðtogi heims sagði: „Leggðu ábyrgð á ungar herðar og þú munt sannreyna að undir henni verður staðið.“ Hin trausta forusta Sjálfstfl. hefur fært þeim flokki sanninn heim um þetta. Hin hrausta íslenska æska mun í framtíðinni byggja á þeim grundvelli sem við leggjum. Ríkisstj. mun kappkosta að treysta þennan grundvöll. Það verður hlutskipti okkar á næstu mánuðum og það verður hlutskipti Alþingis að halda áfram að treysta þennan grundvöll. Við skulum vona það öll að þetta verði æskufólki á Íslandi og öllum landsmönnum til gæfu er fram í sækir.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.