07.11.1984
Efri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að spurt sé við þessa umr. hvers vegna sá hraði er hafður á sem nú er auðsær við að selja ríkisfyrirtæki og hvort það er gert af trúarbragðaástæðum. Þá á ég við það hvort þær skoðanir hæstv. ráðh., að ríkið eigi sem minnst að eiga af fyrirtækjum, ráði því að farið er í þetta svo skyndilega eða hvort það er vegna þess að verksmiðjan getur ekki starfað af sama þrótti undir núverandi eignarformi og það gæti gert undir öðru eignarformi.

Það virðist allt benda til þess að hagur Landssmiðjunnar hafi verið nokkuð góður þrátt fyrir lítils háttar tap síðustu árin. Helgi G. Þórðarson hefur gert úttekt á rekstri Landssmiðjunnar þar sem hann kemur með ýmsar tillögur um úrbætur. Ljóst er að ef þær tillögur hefðu komist í framkvæmd hefði mátt gera rekstur smiðjunnar aliþokkalegan.

Ég á sæti í þeirri nefnd sem tekur þetta mál fyrir og þar mun ég ásamt öðrum nefndarmönnum kynna mér það frekar hvernig þessum málum er háttað. Ég hef ekki haft aðstöðu til að gera það enn. Hins vegar vil ég lýsa því yfir að áður en þær upplýsingar, sem þar koma fram eru mér ljósar, hef ég ekki fyrir fram neina skoðun á því hvort selja eigi Landssmiðjuna eða ekki. Það er ekki ástæða til þess að mér finnst að Landssmiðjan sé rekin í ríkiseign bara til þess að reka hana í ríkiseign, heldur er það höfuðatriðið hvernig þessum rekstri verði best fyrir komið. Ég minni á það að í fyrra var ákveðið að selja Siglósíld á Siglufirði. Það voru uppi ýmsar efasemdir um það hjá mörgum hvort rétt væri að gera það. Þar bundu menn sig nokkuð í gömul prinsipp en ég hygg að það hafi sannast að sú ákvörðun var rétt og það fyrirtæki hafi verið rekið af meiri þrótti nú en gert var áður.

Það er líka gersamlega ómögulegt að reka ríkisfyrirtæki þar sem viðkomandi ríkisvald er á móti því að hlúa að þeim fyrirtækjum. Ég hygg að svo hafi verið hjá síðustu ríkisstj. og þess vegna hafi afkoma Siglósíldar verið mjög erfið. Á ég ekki von á því að umönnun eða hugur núv. ríkisstj. sé sterkari til þessa rekstrarforms en þeirrar sem var á undan. En ég minni á að það er ekki neitt sjálfgefið hvað gefur bestan árangur. Ég ítreka það að sú ákvörðun sem tekin var á síðasta þingi hafi verið rétt og það má vera að eðlilegt sé að gera þetta, en fyrir fram vil ég ekki hafa þá skoðun á þessu máli að ríkið eigi ekki að selja þessa verksmiðju. Það hlýtur að fara eftir því hvaða rök fylgja því, en þau eru að mínu mati ekki komin fram enn þá.