13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6444 í B-deild Alþingistíðinda. (5835)

222. mál, stofnun og rekstur smáfyrirtækja

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég get því miður ekki talað eins og ég gjarnan vildi um þetta mál vegna þess að ég er búinn að tala tvisvar, eins og kom fram hjá hæstv. forseta. En það var hugguleg sending sem hv. þm. Birgir Ísleifur sendi Háskólanum sem nýlega hélt mjög fjölsótta og mjög merkilega ráðstefnu um þessi mál. Þar komust að 150, en 500 sóttu um. Þessir 500 töldu sig greinilega þurfa upplýsingar og áttu ekki von á því dómadagskjaftæði sem hv. þm. segist hafa setið undir erlendis. Af þeim 150 sem gengu af þeirri ráðstefnu talaði enginn um dómadagskjaftæði og óþarfa. Þeir spurðu allir: Hvenær á að halda næstu ráðstefnu? Og hvað verður áframhaldið?

Í þessum æsingi opinberaðist hugur þm. til smáfyrirtækjarekstrarins þannig að ekki þarf að fara í grafgötur um það. Hins vegar fundust mér — og ætli ég ljúki ekki með því — nokkuð skondin lok ræðunnar þar sem talað. var um að Ísland væri eitt smáfyrirtæki og öll íslensk fyrirtæki væru smáfyrirtæki. Þarna er atvinnulífshöfuðpaur Sjálfstfl. greinilega búinn að skilgreina Sambandið upp á nýtt.