13.06.1985
Efri deild: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6452 í B-deild Alþingistíðinda. (5849)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 4. minni hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Þetta mál skýrist nánar eftir því sem á líður. Mér sýnist að nú sé orðið býsna ljóst að á æðstu stöðum innan stjórnarflokkanna hefur þetta mál verið njörvað nokkuð fast niður, að það skuli fram ganga á hverju sem gengur. Það er svo sem ekkert óvenjuleg ákvörðun á milli stjórnarflokka, en það sem er óvenjulegt við þessa ákvörðun er þó það að frv. virðist alls ekki njóta meirihlutastuðnings í þinginu.

Ég hef í morgun flutt frv. til l. um breyt. á útvarpslögum á þskj. 1265 sem væntanlega verður tekið hér á dagskrá þegar þar að kemur. Mér er mætavel ljóst að útvarpslagafrv., sem við erum með í meðförum núna, er það langt komið og það skammt lifir nú þingtímans að það er næsta lítil von að frv. mitt, sem áður getur, komist yfirleitt á dagskrá. En það er fyrst og fremst flutt til að sýna fram á að með því að breyta núgildandi útvarpslögum, þ. e. gömlu lögunum frá 1971, er afar einfalt að skapa það aukna frelsi sem menn vilja að ríki í þessum efnum og ná ýmsum þeim markmiðum sem menn vilja keppa að. Þetta er ein af mörgum leiðum sem hefðu verið miklu æskilegri en sú leið sem við erum að fara núna. Það hefur legið fyrir lengi að unnt væri að gera þetta svona, en á því hefur ekki verið neinn áhugi hjá hæstv. menntmrh. eða sjálfstæðismönnum sem ráða ferðinni í þessu efni. Þar hefur einstrengingshátturinn, offorsið og mér liggur við að segja ofstopinn ráðið ríkjum, að keyra þetta frv. óbreytt í gegn eins og það kom frá Nd. við 3. umr. hinn 12. eða 13. maí. Þessi ákvæði til bráðabirgða, sem ég mun á sínum tíma gera grein fyrir, ef þetta kemst á dagskrá hér, á morgun eða svo, eru tiltölulega einföld og í rauninni miklu ákjósanlegri kostur en það sem við erum að gera núna.

En ég skal, herra forseti, ekki ræða frekar um þetta mál nú. Til þess gefst tækifæri síðar og raunar, ef ný útvarpslög yrðu samþykkt hér í dag, þyrfti að breyta frv. mínu þannig að formlega væri það rétt og gert væri þá ráð fyrir því sem þyrfti að breyta.

En það er rétt að víkja að því að hér kom fram við umr. áðan brtt. frá hv. 5. þm. Vesturl., Davíð Aðalsteinssyni. Ég lýsi stuðningi við þá brtt. þar sem segir að útvarpsréttarnefnd sé heimilt að ákveða hlutfall auglýsinga í dagskrá og þar sem segir í öðru lagi að nefndin skuli ganga frá samningum við Póst- og símamálastofnun eða sveitarfélög um boðveitukerfi, sem kunna að verða sett upp, er tryggja að þau séu öllum opin að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Ég held að þetta sé mjög til bóta og enn fremur það atriði, sem fjallað er um í síðustu mgr. þessarar till., þ. e. að útvarpsréttarnefnd skuli setja reglur um jafnan tíma er gilda skuli við stjórnmálaumræðu og pólitíska kynningarstarfsemi. Ég held að þetta sé mjög gott ákvæði. Þetta er þekkt starfsregla, t. d. í Bandaríkjunum, í útvarpi og sjónvarpi. Það sem á ensku hefur verið kallað reglan um „equal time“, jafnan tíma, hefur verið iðkað mjög lengi. Þegar forsetinn er búinn að gefa einhverja yfirlýsingu í sjónvarpi eiga andstæðingar hans á þingi rétt á jafnlöngum tíma til svars. Ég held að betra sé að þetta sé í höndum útvarpsréttarnefndar en menntmrh., eins og gert var ráð fyrir í tillögum Bandalags jafnaðarmanna, vegna þess að ég held að slíkt vald og ákvörðun af þessu tagi eigi að vera hjá nefnd frekar en hjá einum manni hver sem hann er. Mér finnst liggja í hlutarins eðli að það sé skynsamlegra.

Ég greindi frá því í gær, herra forseti, að ég mundi flytja nokkrar brtt. við þetta frv. og mun ég nú senn koma að þeim, en fyrst segja fáein orð almennt um þetta mál. Það er, held ég, alveg ljóst að ef frv. verður samþykkt óbreytt eins og það nú liggur fyrir mun það koma afar fljótt í ljós að þeir sem eiga að vinna eftir þessu frv., þ. e. þeir sem ætla að stofna útvarps- og sjónvarpsstöðvar og reka þær, munu reka sig á þau ákvæði sem ég hef bent á í frv. sem ýmist eru óskiljanleg eða allt að því óframkvæmanleg. Þá mun auðvitað vaxa þrýstingur frá þeim um að þessi ákvæði verði endurskoðuð. Það er satt að segja trúa mín að áður en þessi lög taka gildi, 1. jan. 1986, muni menn verða búnir að komast að raun um að lögin geta ekki staðið eins og þau eru og það verði að endurskoða ýmis ákvæði þeirra. Ég er næstum því sannfærður um að þetta mun koma í ljós.

Ég nefni enn einu sinni merkingarlausa og meiningarlausa ákvæðið í 3. gr. 7. tölul. þar sem segir: „Óheimilt er að aðrir aðilar en sá, sem leyfi hefur til útvarpsrekstrar, kosti almenna dagskrárgerð þótt ekki gildi það um einstaka dagskrárliði.“

Þegar menn eiga að fara að skýra þetta ákvæði og vinna eftir því í framkvæmd er ég ansi hræddur um að menn reki í strand og þeir viti ekkert hvar þeir standa af því að ákvæðið er bannsett rugl og á venjulegri íslensku óskiljanlegt og ég er næsta viss um að þetta mál mun aftur koma til kasta Alþingis áður en lögin koma til framkvæmda 1. jan. 1986. Tíminn mun einfaldlega leiða í ljós að það verður að breyta þessum lögum áður en þau koma til framkvæmda. Og hver er skýringin? Hvers vegna? Hér er verið að fjalla um býsna sérhæfð mál. T. d. er greinin sem ég flutti brtt. við í gær, þ. e. um að hver sá sem heimild hefur til rekstrar útvarps skv. lögum þessum skuli varðveita í a. m. k. 18 mánuði hljóðupptöku af öllu frumsömdu útsendu efni. Þessi grein, eins og hún stendur hér, sýnir og sannar svo að ekki verður um villst að þeir sem sömdu þetta höfðu enga þekkingu á útvarpsrekstri, á dagskrárgerð. Og hún sannar meira. Þeir höfðu ekki einu sinni vit, ráð og rænu á því að afla sér sérfræðiupplýsinga og aðstoðar þar sem þá brast þekkingu. Það er ástæða til að hugleiða þetta. Ef á að fara eftir þessari grein eins og hún stendur hérna, þá verða útvarpsstöðvarnar, greinin er þannig orðuð að hægt er að skilja hana á ýmsan veg og skilja hana ekki, að taka upp allt dagskrárefni og geyma allt að 18 mánaða dagskrá aftur í tímann. Hvað halda menn að það kosti? Ef á að fara eftir orðanna hljóðan skal varðveita í 18 mánuði hljóðupptöku af öllu frumsömdu útsendu efni. Það þýðir að það verður alltaf að vera einhver starfsmaður til staðar til að setja segulband í gang í hvert skipti sem einhver byrjar að tala í útvarpið. Það má slökkva á því þegar tónlist er í gangi, en það verður alltaf að setja í gang segulbandið þegar einhver byrjar að tala. Brtt. sem við lögðum hér fram fjallar um efnisgeymd í aðeins þrjá mánuði eins og er víðast hvar. Það er ekki mikið mál að geyma á spólum, það er tekið upp á hæggengt band, dagskrárefni í þrjá mánuði. Þrír mánuðir eru raunar hámarkstími. Ef rísa einhver eftirmál út af útsendingu koma þau venjulega í ljós býsna fljótt eftir að útsending hefur átt sér stað. Ég er alveg sannfærður um að þeir sem ætla að standa í þessum rekstri munu reka sig illilega á þessa vitlausu lagagrein sem er alveg óskiljanlegt hvernig menn hafa komið þarna inn. Hvílíkt klúður!

Ég boðaði í gær að ég mundi flytja brtt. eins og ég sagði. Það hefur hins vegar ósköp lítinn tilgang, ég geri mér alveg grein fyrir því. Svo niðurnjörvað er þetta mál og fyrir fram ákveðið að ekki er von til þess að koma neinu vitrænu inn í höfuð þeirra sem ráða ferðinni. En það er kannske ekki úr vegi, herra forseti, að fara stuttlega yfir þær tillögur sem meiri hl. sá sóma sinn í að fella hér í gær og gera sér grein fyrir hverjar þær eru.

Það var í fyrsta lagi till. um að koma greininni um almenna dagskrárgerð — og þó gildir það ekki um einstaka dagskrárliði — yfir á mannamál. Það var felli að gera hana skiljanlega þannig að yfirleitt væri hægt að botna upp eða niður í henni og væri a. m. k. hægt að fara eftir henni. Lög eru vinnureglur og samskiptareglur í mannlegu samfélagi og til þess að hægt sé að fara eftir þeim verða þau að vera skiljanleg.

Í öðru lagi var felld till. sem hljóðar svo:

„Að því er varðar dagskrárefni á erlendum tungum skulu útvarpsstöðvar fylgja sömu starfsreglum varðandi þýðingar og textun og fylgt er hjá Ríkisútvarpinu.“

Þetta er nú reyndar ekki alveg rétt hjá mér. Þetta var till. mín sem ég dró til baka vegna þess að fram kom betur orðuð till. um að texta skuli erlent efni. Ég þekki nokkuð til hvernig sú till. varð til þó ég læsi það svo í Morgunblaðinu daginn eftir og kom mér svolítið á óvart. En till. um að texta og þýða erlent efni í sjónvarpi var felld.

Þá var fellt þetta ákvæði: „Um varðveislu á myndum, plötum og hljómböndum skal haft samráð við þjóðskjalavörð.“ Það var fellt. skv. lögunum um Þjóðskjalasafn, sem eru í þann veginn að komast í gegnum Nd., eru ákvæði um að Ríkisútvarpið skuli hafa samráð við þjóðskjalavörð um varðveislu efnis af þessu tagi. Þau ákvæði gilda ekki um aðrar útvarpsstöðvar þannig að þarna eru lagðar meiri skyldur á Ríkisútvarpið en aðrar útvarps- og sjónvarpsstöðvar.

Það var fellt að menntmrh. skuli leggja nýtt frv. til útvarpslaga fyrir Alþingi á árinu 1988.

Það var fellt að gildistími þessara laga skyldi vera takmarkaður, bundinn við þrjú ár.

Svo kemur kannske rúsínan í pylsuendanum og það er ákvæðið, sem ég hef áður minnst hér á, um að þessi lög taki gildi 1. jan. 1986, en á árinu 1985 á menntmrh. að gera ráðstafanir skv. lögum sem ekki eru komin í gildi. Nú skal ég segja hv. dm. alveg eins og er að lögfróðir menn um land allt hlæja að okkur alþm. fyrir að samþykkja svona ákvæði. Þeir segja, það hefur þegar verið sagt við mig: Hvað er að ykkur? Hafið þið ekki menn sem geta bent ykkur á meinlokur og vitleysur af þessu tagi? Hefur Alþingi enga aðstoð? Hverjir semja svona lagatexta? Svarið við því er ekkert annað en að það eru stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. með menntmrh. í broddi fylkingar sem standa að því að samþykkja svona vitlausan texta. Ég segi alveg skýrt og óhikað: Það er Alþingi til ævarandi minnkunar að samþykkja lög með þessum hætti. Þó engu öðru væri breytt í þessu frv. en að laga þessi dæmalausu ákvæði, sem fá ekki staðist, sem þola ekki rökrænan lestur, sem þola ekki skoðun, þó engu öðru væri breytt, þá væri það samt til bóta. Og satt að segja trúi ég því ekki fyrr en ég tek á því og búið er að samþykkja þetta mál við 3. umr. að virtir lögfræðingar, sem hér eiga sæti, láti þetta mál svona fram ganga. Það er satt best að segja aldeilis með ólíkindum að menn skuli hér láta sig hafa það að samþykkja lög sem þeir vita að eru vitlaus, sem þeir vita að eru meingölluð, sem þeir vita að eru samansett af ákvæðum sem fá ekki staðist. Ég hygg að þetta sé í fyrsta skipti í sögunni sem það gerist hér og mér þykir miður að það skuli gerast í Ed. Það hefur raunar þegar gerst í Nd., en að það skuli líka vera yfirvofandi hér þykir mér sýnu verra.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hver væri skýringin á samkomulagi stjórnarflokkanna um þetta einstaklega vitlausa frv. — (Gripið fram í: Hvaða samkomulag er það?) Það er samkomulag, hv. þm., sem hefur verið gert — og þeirri þingflokkssamþykkt sem mér sýnist að Sjálfstfl. hafi gert um að fella allar brtt. við frv. Það skyldi nú aldrei vera að einhvers staðar á æðstu stöðum hefði verið minnst á það að lífi þessarar ríkisstj. kynni að verða býsna hætt ef framsóknarmenn brygðu eitthvað út af og voguðu sér að greiða atkv. gegn þessu máli, eins og hugur þeirra margra stendur sjálfsagt til. Ég yrði ekki hissa. En menn eru ekkert að opinbera þannig samkomulag. En menn skilja fyrr en skellur í tönnum hér á hinu háa Alþingi, skýringuna á þessu er sjálfsagt að finna í Dagblaðinu í gær: „Aðalfundur SÍS á Bifröst á morgun.“ — Þeir eru alltaf málsnjallir menn þarna á DV. Ég hélt það væri málvenja að segja í Bifröst. — „Ræða keðju útvarpsstöðva víða um land — dregur SÍS sig út úr Ísfilm?“ Þetta skýrir nú kannske sitthvað í málinu, fjárhagsáhyggjurnar út af NT og allt það. Með leyfi forseta segir hér:

„Að því er heimildir DV herma eru uppi öflugar hugmyndir innan SÍS um að komið verði á fót keðju útvarpsstöðva víða um land. Eiga nokkur kaupfélög að stofna stöðvarnar hvert á sínu svæði með aðstoð SÍS... Í grófum dráttum hefur verið rætt um Vesturland, Ísafjörð, Akureyri, Egilsstaði, Suðurland, Reykjavík og hugsanlega eina stöð á Sauðárkróki.“

Til viðbótar við útvarpskeðjuna er síðan gert ráð fyrir að samstarf Nútímans við hin ýmsu landshlutablöð, svo sem Dag á Akureyri, verði aukið til mikilla muna. Þeir fylgjast auðvitað vel með þessu, þeir DV-menn. Þeir eru á sömu buxunum nema hvað þeir eru bara að hugsa um Reykjavíkursvæðið. Þeir hafa engan áhuga á landsbyggðinni. Þar er enginn „business“. En þetta skýrir auðvitað málið að miklum hluta. Það er skemmtilegt fyrir þá sjálfstæðismenn að vera nú að greiða fyrir fjölmiðlakeðju sambandsins svo kært sem þar er á milli öllum stundum. Það hlýtur að vera afskaplega ánægjuleg tilhugsun þegar þeir rétta upp höndina hérna við 3. umr. eða segja þetta já sem við sjálfsagt fáum að heyra hér. (Gripið fram í: Segja SÍS.) Ja, þeir hugsa SÍS, það er nokkuð ljóst.

En gildistökuákvæði þessa frv., sem ég minntist á áðan og fá ekki staðist, eru hreint rugl og er að finna annars vegar í 39. gr. eða öllu heldur í ákvæðinu til bráðabirgða. Ég vil leyfa mér hér, herra forseti, að mæla fyrir skrifi, brtt. og ég hef satt að segja ekki nennu til að vera að láta fella fyrir mér allar þær tillögur að nýju í endurskrifuðu formi eins og þær yrðu að vera, þó efnislega væri hægt að bera þær hér aftur upp, vegna þess að ég veit að breytingar munu ná fram að ganga fyrr eða síðar á 34. gr., um geymsluskylduna, og á þessu makalaust vitlausa ákvæði í 7. tölul. 3. gr. Þessu verður breytt, það eru alveg hreinar línur, vegna þess að þetta getur ekki staðið svona. Það er alveg útilokað. Ég bíð þá rólegur. Það kemur að því að þessar tillögur ná fram að ganga. En meðan offorsið og ofstopinn ráða ferðinni eru menn ekki til viðtals um neitt í þessum efnum. (Gripið fram í.) Já, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, ég sagði ofstopi. Við höfum fundið þann ofstopavind blása hér í þingsölunum alveg frá því í október þegar þetta mál var lagt fram a þinginu. (Gripið fram í.) Hæstv. menntmrh. lagði það fram um miðjan október og í frv. voru ákvæði um að lögin ættu að taka gildi eftir hálfan mánuð.

Hæstv. menntmrh. er ekki hér viðstödd í dag. Hún er í embættiserindum annars staðar. Ég ætla svo sem ekki að víkja neitt sérstaklega að henni, skelfing fannst mér þó óviðfelldið að lesa í Morgunblaðinu þau ummæli hennar að Alþfl, væri á móti frelsi í útvarpsmálum af því að þetta væri sósíalistaflokkur sem væri á móti frelsinu. Satt best að segja rak mig eiginlega í rogastans að sjá svona ummæli höfð eftir hæstv. menntmrh. Eftir þær mörgu yfirlýsingar sem við erum búnir að gefa hér um þetta mál og afstöðu okkar til útvarpsreksturs og þær brtt. sem við höfum flutt við útvarpslagafrv. er það alveg makalaust. Ég ætla ekki að gera þetta frekar að umtalsefni hér vegna þess að hæstv. menntmrh. er ekki hér, en ég mun taka upp þráðinn í þessu máli seinna og minna hana á þessi ummæli sem mér finnast algerlega með ólíkindum og til þess eins fallin að skapa rangar hugmyndir hjá almenningi um afstöðu okkar Alþfl. -manna. Mér þótti fyrir því að hæstv. menntmrh. skyldi láta hafa þetta eftir sér.

Þær skriflegu brtt., herra forseti, sem ég leyfi mér að flytja við þessa umr. málsins eru í þremur liðum og þær eru allar við ákvæði til bráðabirgða og til þess hugsaðar að við getum látið bráðabirgðaákvæðið frá þinginu fara þannig að það standist. Það stenst ekki eins og það er skrifað hér.

Í fyrsta lagi legg ég til nýmæli sem ekki hefur verið komið hér inn á áður. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða hljóðar svo nú:

„Útvarpsréttarnefnd skal kjörin fyrsta sinni við gildistöku laga þessara og sitja til ársloka 1989.“ Mín till. er að 2. mgr. orðist sem hér segir:

„Þrátt fyrir ákvæði 39. gr. skal útvarpsréttarnefnd kjörin fyrsta sinni fyrir 15. nóv. 1985 og sitja til ársloka 1989.“

Það sem vakir fyrir mér með þessu ákvæði er að ef útvarpsréttarnefnd tekur ekki til starfa fyrr en 1. janúar um leið og lögin taka gildi líða auðvitað einhverjar vikur eða jafnvel mánuðir þangað til hún hefur sitt starf og getur farið að leyfa mönnum að starfa skv. lögunum. Þess vegna er ekkert óeðlilegt þó að þessi nefnd verði skipuð hálfum öðrum mánuði áður en lögin taka gildi, en til þess þarf sjálfstætt gildistökuákvæði. „Þrátt fyrir ákvæði 39. gr. skal útvarpsréttarnefnd kjörin fyrsta sinni fyrir 15. nóv. 1985 og sitja til ársloka 1989.“ Þetta er 1. brtt.

2. brtt. er við 3. mgr. Hún er sama eðlis.

„Þrátt fyrir ákvæði 39. gr. skal stjórn menningarsjóðs útvarpsstöðva skipuð fyrsta sinni fyrir árslok 1985.“ Þetta er með öðru orðalagi. Þetta er gert til að taka af tvímæli um að þetta sé hægt að gera þó að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. janúar.

Þá er það till. mín að 5. mgr. orðist svo sem hér segir: „Lög þessi skal endurskoða innan þriggja ára og skal frv. til nýrra útvarpslaga lagt fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 1988.“

Þarna tek ég upp ákvæði sem skyldar viðkomandi ráðh. til að leggja frv. til nýrra útvarpslaga fyrir Alþingi eigi síðar en þann dag sem hér er tiltekinn. Eins og þetta endurskoðunarákvæði er í frv. núna er það gersamlega marklaust. Það hvílir engin skylda á ráðh. að láta endurskoða þessi lög. Og ég minni á það, sem ég sagði hér í gær að í lögunum um Kennaraháskóla Íslands segir að þau lög skuli endurskoða innan tveggja ára frá gildistöku. Það var 1971. Nú er 1985 og þau lög hafa aldrei verið endurskoðuð, að ég best veit. Þetta stendur a. m. k. í lagasafni, en þau hafa aldrei verið endurskoðuð. Þess vegna er þetta eins og þetta er núna marklaust með öllu.

Ég held að það sé ástæðulaust, herra forseti, að ég hafi um þetta fleiri orð að sinni. Ég hef margrakið og bent á þá galla og annmarka sem eru á þessu frv. eins og það kom frá Nd. Það er okkur til vansa ef við samþykkjum það óbreytt og ég mun að óbreyttu greiða atkv. gegn þessu frv. vegna þess að samviska mín segir mér að ég eigi ekki að rétta upp höndina og segja já við lögum sem ég veit að hafa að geyma svo vitlaus ákvæði að þau fá ekki staðist og sem hafa að geyma ákvæði sem stangast á og eru ekki framkvæmanleg. Ég mun greiða atkv. gegn þessu frv. nema því aðeins, og þá mundi ég skoða hug minn, ef það kæmi fram yfirlýsing t. d. frá forsrh. um að hann væri reiðubúinn að beita sér fyrir því að fyrir áramót yrðu sett lög þar sem væru ákvæði um boðveitur í eigu sveitarfélaga í samvinnu við Póst og síma um tæknilegan búnað og annað og að menn reyndu með einhverjum hætti að skapa aukna samstöðu um útvarpsmál áður en þessi lög taka gildi. Ég er raunar sannfærður um að það verður að breyta þeim áður en þau koma í gildi. Ef slík yfirlýsing, ótvíræð og skýr, lægi fyrir héðan úr þessum ræðustól mundi ég skoða hug minn um hvort ég sæti hjá við þessa afgreiðslu. En ég sé engar horfur á því að nein yfirlýsing af slíku tagi fáist vegna þess að það virðist sem mönnum sé sama um þetta, þeir gera sér ekki grein fyrir því hvernig er verið að leika virðingu Alþingis með því að samþykkja lög með þessum hætti. Það skulu verða mín lokaorð við þessa umr. að fari þetta frv. óbreytt í gegn er það okkur, og einkum þeim sem ljá því jáyrði sitt í þessari mynd, til ævarandi minnkunar, því miður. Þá er ég ekki að tala um það aukna frelsi sem lögin veita, en það er óhappaverk að samþykkja lög sem þola ekki að horft sé á þau með augum heilbrigðrar skynsemi og þá á ég við þessi ákvæði. Það fer kannske ekkert illa á því að þau lög séu afgreidd héðan á 13. degi mánaðarins.