13.06.1985
Efri deild: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6458 í B-deild Alþingistíðinda. (5850)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 3. minni hl. (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef nú þegar gert grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. Ég tel að æskilegt væri að ganga frá því atriði sem ég tel vera lykilatriði í sambandi við þetta þegar auglýsingum sleppir, en það er í sambandi við boðveitukerfin. Með samþykkt á brtt. frá hv. 5. þm. Vesturl. væri það komið í lög að útvarpsréttarnefnd skuli ganga frá samningum við Póst- og símamálastofnun eða sveitarfélög um boðveitukerfi, sem kunna að verða sett upp, en slík kerfi eru einmitt trygging fyrir því að fleiri aðilar en ella geti notað það tjáningarfrelsi sem felst í því að rýmka rétt til útvarpsstarfsemi. Ég tel nefnilega að aukið tjáningarfrelsi sé ekki bara það að veita fjármagninu frelsi, heldur að gera sem flestum kleift að taka þátt í útvarpsrekstri, og ég tel það einmitt eitt af því mikilvægasta sem Ríkisútvarpið hefur gert á 55 ára ferli sínum að það hefur verið raunverulegt þjóðarútvarp, raunverulegur vettvangur fyrir skoðanir karla og kvenna til sjávar og sveita, ungra og aldinna. Ég sé hins vegar fram á að ef fjármagnið á að ráða er það ekki fólkið í landinu fyrst og fremst sem verður kallað til að flytja skoðanir sínar eða sitt efni. Það eru allt önnur sjónarmið og allt aðrir hagsmunir sem þar eru í veði.

Till. mín um auglýsingar var felld hér í hv. deild og við því er ekkert að segja. Með því að fela útvarpsréttarnefnd að ákveða hlutfall auglýsinga í dagskrá er þó hægt að koma til móts við það sjónarmið að reynt skuli að hamla gegn því að tekjur útvarpsins verði verulega skertar vegna auglýsingasamkeppni.

Þriðja atriðið í brtt. á þskj. 1268 er að reglur skuli settar um jafnan tíma er gildi við stjórnmálaumræðu og pólitíska kynningarstarfsemi. Ég held að þetta ákvæði sé einnig til bóta og það komi í veg fyrir hugsanlega misnotkun á þessum miðlum.

Enda þótt ég sé langt frá því að vera ánægður með frv. og telji reyndar næsta furðulegt að ekki skyldi vera hægt að ná samkomulagi um viss atriði sem virtust liggja í augum uppi tel ég að með þessum ákvæðum sé komið til móts við þau sjónarmið að reynt skuli að hamla gegn því að tekjur Ríkisútvarpsins verði skertar og eins að koma í veg fyrir hugsanlega misnotkun þessara tækja. Það er kannske íhugunarefni að frv. fór í gegnum Nd. með stuðningi stjórnarandstöðunnar. Það lýsir því e. t. v. betur en annað að hér er ekki um samstöðufrv. að ræða. Hér er miklu fremur um að ræða frv. sem hefur fengið á sig annan svip en ætlað var í upphafi. Að þessum skilyrðum uppfylltum hlýt ég þó að telja að nokkuð hafi áunnist. Ég er hins vegar sammála hv. 5. landsk. þm. um að þetta frv. verði endurskoðað mjög fljótt. Ég held að það hljóti að vera keppikefli að vinna að því í ljósi reynslunnar að sníða af því hugsanlega vankanta, en fyrst og fremst þó að útbúa innan þriggja ára nýtt frv. þar sem tekið verði tillit til bæði reynslu og þess hvernig þetta frv. verkar.

Að svo mæltu vil ég ítreka að það kom skýrt og greinilega fram hjá hæstv. menntmrh. að ætlunin er að setja inn í reglugerð ákvæði um að því erlendu sjónvarpsefni sem sýnt er í íslenskum sjónvarpsstöðvum skuli fylgja íslenskt tal eða neðanmálstexti og eins að sé um beina útsendingu á erlendri tungu að ræða skuli það vera meginregla að þulur kynni eða endursegi það sem um er fjallað. Ég hefði kosið að þetta væri í frv., en hinar skýlausu yfirlýsingar hæstv. menntmrh. verða þá að koma í staðinn fyrir lagatexta og ég treysti því að þetta komi inn í reglugerð væntanlegrar útvarpsréttarnefndar.