07.11.1984
Efri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að iðnrh. hefur lagt hér fram frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Landssmiðjuna. Það var skv. till. sem ég gerði í ríkisstj. að ríkisfyrirtæki fóru á þennan almenna sölumarkað. Síðar var það samþykkt í ríkisstj. að fjmrh. skyldi ekki fara með söluna, eins og upphaflega var í till., heldur hver fagráðh. fyrir sig sæi um að selja og koma yfir í hendur einstaklinga eins miklu af ríkisfyrirtækjum og þeir gátu og réðu yfir. Því miður er lítið annað en hlutabréfaeign í fjmrn. Ég hef því fá eða engin fyrirtæki til að selja, en vona að sala verði þó á hlutabréfum innan tíðar.

Ég kem hér upp vegna þess að hv. 4. þm. Vesturl. talaði um að það væru aðeins 23 starfsmenn af 70 sem tækju þátt í þessu nýja hlutafélagi og vil draga athygli að einmitt þeirri staðreynd. Hún kemur fram á bls. 6 í aths. með þessu frv. En þar segir. með leyfi virðulegs forseta:

„Með ofangreindum ráðstöfunum er gert ráð fyrir að fækka megi núverandi starfsfólki um 15–20, þ.e. úr 65–70 mönnum í um 50 starfsmenn án nokkurs samdráttar í rekstri.“

Eigum við að skilja það svo að þessir menn, sem hafa rekið Landssmiðjuna og ætla sér að reka hana áfram, geti sparað sem svarar 15–20 manns í rekstri fyrirtækisins án þess að það verði nokkur samdráttur í rekstri? Hvað hafa þessir forstöðumenn fyrirtækisins verið að gera? Hafa þeir verið trúverðugir starfsmenn eða ekki? Ef þetta er tilfellið um marga þá starfsemi sem rekin er á vegum ríkisins, þá held ég að þessi ríkisstj. sé á réttri leið með því að fínkemba það kerfi sem við búum við og byggst hefur upp, að því er virðist, án eftirlits í gegnum tíðina. Sem sagt, ég vil fagna þessu frv.

Ég vil benda hv. 6. landsk. þm. á það að þetta kjörtímabil núv. ríkisstj. er nú bráðum hálfnað. Það er komið eitt og hálft ár — (Gripið fram í.) Er kannske bráðum búið, ég skal ekki segja um það. Kannske Alþfl. haldi enn þá við þá kröfu sína að koma inn í ríkisstj. með forsrh. sem skilyrði — ég veit það ekki. — En kjörtímabilið er nú bráðum hálfnað og hraðinn á því að selja ríkisfyrirtækið hefur alls ekki verið mikill. Ég held að það verði mjög vel athugað. Tilboð, sem bárust áður en sú ákvörðun var tekin að hver fagráðh. skyldi fara með sölu á fyrirtækjum, hafa legið fyrir frá því að ríkisstj. kom fyrst fram með þessar tillögur.

Það hafa fleiri aðilar skoðað möguleikana á því að kaupa Landssmiðjuna, en þeir féllu frá kaupum. Það er því búið að skoða þann möguleika að selja hana til fleiri aðila en starfsfólksins.

Ég hef ekki meira um þetta að segja. Ég vil bara óska iðnrh. til hamingju með þann árangur sem hann hefur náð í þessari mikilvægu vinnu, bæði hvað snertir söluna á þessu fyrirtæki sem hér er á dagskrá og eins með Siglósíld á Siglufirði, sem hefur tekið fjörkipp, hefur verið endurnýjuð og skapar nú miklu fleira fólki vinnu á staðnum en áður var. Sama er með Iðnaðarbankann og fleira sem hann hefur unnið að með alþekktum krafti sem í honum býr.

En ég vil taka undir það sem kom fram hér hjá hv. 5. landsk. þm. Ég er ekkert ánægður með það að hafa þurft að fara að þeim lögum sem skylduðu fjmrh. til þátttöku í steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki og það er eflaust enginn hv. þm. búinn að gleyma þeim tilraunum sem ég gerði til að komast hjá því að taka þátt í þeirri fjárfestingu. En lög eru lög, eins og hæstv. iðnrh. sagði hér áðan, og að lögum varð að fara. Iðnþróunarfélagið er fyrirtæki sem á að koma á laggirnar nýjum fyrirtækjum til þess að skapa ný atvinnutækifæri með þátttöku ríkisins og þátttöku almennings með það í huga að koma fyrirtækjum af stað, skapa ný atvinnutækifæri og losa svo ríkið við þau fyrirtæki aftur. sjóefnavinnsluna á Reykjanesi ætla ég ekki að tala um, þar held ég að séu mistök á ferð og hef ég ekki breytt um skoðun frá því að hún var hér fyrst á dagskrá. En ég vona að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu í gegnum hv. Alþingi.