13.06.1985
Neðri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6504 í B-deild Alþingistíðinda. (5902)

456. mál, Byggðastofnun

Frsm. 2. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef ekki átt þess kost fyrr að koma inn í 3. umr. um þetta mál, en ég skilaði og gerði grein fyrir nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. í stuttri ræðu sem ég flutti við 2. umr. málsins.

Ég fagna því sérstaklega, herra forseti, að Nd. skuli taka sér tíma til að ræða þetta mál og ég bendi á að ef ætlunin er að gefa Ed. eðlilegan tíma til að fjalla um þetta eru líkur til þess að þinghaldið standi hérna mun lengur en ætlað hafði verið. Við því er þá ekkert að segja, en menn verða að vita um það með fyrirvara. Þm. eru á kaupi allt sumarið, eins og sumir hafa verið að segja, og geta tekið tímann í að ræða um þessi mál. En mér sýnist að staðan verði þannig þegar líður á næstu viku að hv. Nd. muni hafa mjög lítið af málum fyrir sig að leggja, en þeim mun meira verði að vinna í Ed. og staðan geti þá orðið þannig, miðað við þann tíma sem mál taka hér og eðlilegt er, að eðlilegt verði að fresta Nd., en láta Ed. starfa í sumar að þessu máli, enda á hún það kannske skilið eftir þær sendingar sem hún hefur sent okkur síðustu daga í málum sem við höfum velkst með mánuðum saman.

Ég vil í þessu sambandi minna á það, herra forseti, að hér er verið að leggja til að leggja niður Framkvæmdastofnun ríkisins og skipta henni upp í tvær stofnanir, Framkvæmdasjóð og Byggðastofnun, auk þess sem svokölluðu þróunarfélagi verða ætluð nokkur þau verkefni sem gert er ráð fyrir í lögunum að Framkvæmdastofnunin vinni. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að fara yfir hvað Framkvæmdastofnunin hefur verið að gera. Ég hygg að eftir þá yfirferð komist fleiri hv. þm. að sömu niðurstöðu og ég. Þá komi í ljós að í þeim frv. sem hér liggja fyrir er ekki búið eins að verkefnum og þrátt fyrir allt er gert í Framkvæmdastofnuninni í dag og muni þá sannast hið fornkveðna að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. M. ö. o. að það sé svo illa á málum haldið varðandi undirbúning þeirra þriggja frv. sem hér er um að ræða að hætta sé á því að veigamiklir þættir í starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins detti niður og hverfi út úr okkar stjórnkerfi.

Það sem ég á við í þessu efni er sérstaklega áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins. Nú hefur margt verið um það sagt að áætlanadeildin hafi starfað illa. Það hygg ég að sé ósanngjarnt. Ég hygg að áætlanadeildin hafi út af fyrir sig oft og tíðum starfað allvel. Staðreyndin er hins vegar sú að hún hefur ekki fengið til þess aðstæður að fylgja sínum áætlunum eftir út í stjórnkerfið og ég hygg að einstakir ráðh. úr ýmsum flokkum hafi oft og tíðum verið ákaflega tregir til að eiga samstarf við áætlanadeildina og menn hafi frekar viljað láta vinna þessi mál innan sinna rn. en að láta áætlanadeildina taka að sér verkefni sem geta náð yfir öll rn.

Á árinu 1984, næstliðnu ári, sinnti áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins mjög mikilvægum verkefnum. — Ég er að telja þetta hér upp, herra forseti, vegna þess að ég er að benda á að í frv. eins og þau líta út núna er hvergi gert ráð fyrir verkefnum af þessu tagi á vegum þeirra stofnana sem þar um ræðir. Það er ekkert áætlanastarf. Það er markvisst þannig staðið að frv. um Byggðasjóð og Byggðastofnun að þar eru áætlunarverkefni strikuð út svo að segja alveg og allt sem heitir samvinna við landshlutasamtök um áætlanagerð er fellt niður. — Á árinu 1984 vann áætlanadeild Framkvæmdastofnunar að tólf meiri háttar verkefnum. Ég býst við að eitthvað af þessu hafi kannske farið fram hjá hv. þm. og þeir hafi ekki gert sér grein fyrir því hvaða þjóðþrifaverk var verið að reyna að vinna í þessari áætlanadeild. Það þýðir ekki að kenna almennu starfsliði áætlunardeildarinnar um það þó að hún hafi kannske nýst illa. Forstjórarnir hafa verið á þingi langtímum saman og ekki sinnt störfum sem forstjórar nema að fjórðungi eða svo af þeim sökum. Þannig hefur forusta stofnunarinnar verið mjög veik og slöpp að þessu leytinu til o$ ekki tryggt eðlileg vinnubrögð hjá áætlanadeildinni. Ég veit að hæstv. iðnrh. kannast við að hann hafi lítið sinnt því að koma þessari áætlanadeild til verka á þeirri tíð þegar hann hafði með Framkvæmdastofnun að gera.

Ég ætta þá að rifja þessi verkefni upp:

Á árinu 1984 vann áætlanadeildin í fyrsta lagi að margvíslegum athugunum í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Þar voru gerðar athuganir á uppbyggingu frystihrísanna til að auka rekstrarhagkvæmni og nýtingu á afkastagetu m. a. með bættri framleiðslutækni og vöruþróun. Áætlanadeildin gerði t. d. könnun á meðalnýtingu afkastagetunnar í frystihúsunum á árinu 1983. Þar kom í ljós að meðalnýting afkastagetu frystihúsanna í landinu var 47% á árinu 1983. Hún var langsamlega lægst á Reykjanesi, en langhæst á Suðurlandi. Meðalnýting afkastagetunnar á Suðurlandi var 59% 1983, í Reykjavík 45%, á Reykjanesi aðeins 36%. Við skulum hugsa aðeins um hvað þessi tala segir okkur. Þarna er um að ræða gífurlegt magn ónotaðra eða lítið notaðra framleiðslufjármuna sem nýtast ekki til verðmætasköpunar samkv, þessum tölum. Á Vesturlandi var meðalnýting afkastagetu frystihúsanna 39%, í lægri kanti eða það næstlægsta á landinu. Á Vestfjörðum var meðalnýtingin 48%, á Norðurlandi vestra um 50%, á Norðurlandi eystra um 58% og á Austurlandi aðeins um 45%.

Þetta eru býsna fróðlegar upplýsingar. Þetta eru upplýsingar sem eiga að geta komið alþm. og ríkisstj. að gagni við stefnumótun og í umr. um atvinnumál og segja okkur margt, m. a. um að hér á landi er um að ræða talsverða fjárfestingu, talsvert af vélum og tækjum, í sjávarútveginum líka, sem nýtist illa. Þetta hlýtur að leiða hugann að því hvort með betri nýtingu á þessum afköstum er ekki unnt að tryggja betri afkomu þessarar greinar en nú er og þar með að skapa grundvöll fyrir hærra kaup en nú er greitt í fiskvinnslunni í landinu. Það var eitt verkefnið sem þessi áætlanadeild hefur verið að vinna að, könnun á fiskvinnslunni á árinu 1983, ítarleg könnun fyrir landshluta. Það er mjög athyglisvert sem þarna kemur fram. (HBl: Frá verstöð til verstöðvar.) Og frá verstöð til verstöðvar, segir meðflm. minn, hv. 2. þm. Norðurl. e., en við erum eins og kunnugt er bandamenn við að reyna að koma Byggðastofnuninni út á land.

Í öðru lagi gerði áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins sérstaka athugun á meltuvinnslu. Eins og kunnugt er er árlega fleygt fyrir borð miklu magni af slógi og úrgangsfiski og er það áætlað um 1000–1300 tonn frá hverjum skuttogara á ári. Þetta hráefni má nýta til meltuvinnslu með góðum árangri. Víða um land eru fiskimjölsverksmiðjur sem nota má til meltuframleiðslu þar sem vélar og tæki eru fyrir hendi og tæknilegi þátturinn er tiltölulega auðleystur og krefst lítillar viðbótarfjárfestingar. Sýnt hefur verið fram á að meltuvinnsla getur skilað góðum arði. Búnaður til söfnunar á lifur og slógi hefur nú verið komið fyrir í tveim skuttogurum og einum báti. Verið er að setja slíkan búnað í tvo skuttogara til viðbótar um þessar mundir. Áætlað hefur verið að þessi fjárfesting skili sér tiltölulega mjög fljótt aftur.

Árið 1984 nam melta unnin um borð í fiskiskipum 955 tonnum. Þetta hefur verið athugað rækilega á vegum áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins og í athuguninni er einnig lýst aðstöðu og staðsetningu einstakra fyrirtækja í meltuvinnslu, en alls voru níu fyrirtæki með starfrækslu í þessari grein með misjafnlega umfangsmikla framleiðslu og breytilegt vinnslustig og eru þar meðtaldar útgerðir fyrrnefndra skipa. Var framleiðslan alls um 4870 tonn árið 1984. Markaðir virðast nægjanlegir, það er aðalniðurstaða áætlanadeildarinnar við rannsóknir á þessari framleiðsluvöru á árinu 1984, hvort sem um er að ræða hér heima eða erlendis.

Þá þekkja hv. þm. þær tilraunir sem hafa verið gerðar með blöndun meltu við annað fóður, e.n þær tilraunir hafa gefist mjög vel. Þegar lögin yrðu samþykkt um Byggðastofnun og Framkvæmdasjóð og þróunarfélag er þessi starfsemi ekki lengur til á vegum slíks opinbers aðila og hún dettur niður á milli. Auðvitað er hugsanlegt að annars staðar í stjórnkerfinu megi fara af stað með rannsóknir svipaðar og á meltuvinnslunni, en það verður þá að sjá til þess að það verði gert. Ég tel ástæðu til að spyrja hæstv. forsrh. að því hvað ætlunin sé að gera með starfsemi áætlunardeildarinnar þegar þessi nýju frv. verða að lögum.

Í þriðja lagi, án þess að ég fari að tala um öll verkefni áætlunardeildarinnar, ætla ég að nefna hér eitt eða tvö enn og þá fyrst sérstaka úttekt á skipulagi samgangna og flutningaþjónustu á Austurlandi. Áætlanadeild Framkvæmdastofnunar vann að þessu máli með samgrn. og Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Þarna var unnin mjög ítarleg úttekt á fólks- og vöruflutningum á landi, í lofti og á sjó. Fjallað var um nýtingu samgöngukerfisins, sérstaklega póstflutninga og akstur skólabifreiða ásamt almennum farþegaflutningum í dreifbýli utan núverandi sérleyfisleiðakerfis, og reifaðar hugmyndir um flutningamiðstöðvar. Hvar á að vinna svona verkefni þegar Framkvæmdastofnun hefur verið lögð niður, hönnun á samgöngumálum á Vesturlandi eða Austurlandi eins og í þessu tilviki? Það getur vel verið, eins og ég sagði hér áðan um fiskvinnsluna, að það megi hugsa sér að þessar rannsóknir fari fram einhvers staðar annars staðar í kerfinu, það getur vel verið, en það er auðvitað ábyrgðarlaust af ríkisstj. að leggja Framkvæmdastofnun og áætlanadeildina niður öðruvísi en að tryggja að þessi vinna fari þá fram einhvers staðar annars staðar um leið.

Ég vil nefna í þessu sambandi, herra forseti, það starf sem unnið hefur verið í sambandi við gatnagerð í þéttbýli á vegum áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins. Þar var á árinu 1984 lokið við að tölvusetja upplýsingar um allt gatnakerfi og bundið slitlag ásamt framkvæmdakostnaði og opinberum lánum svo og framlögum 1976–1983. Hér hefur mikið verk verið unnið og ég spyr: Hver er það sem heldur þessu verki áfram? Áætlanadeild verður lögð niður, Framkvæmdastofnunin verður lögð niður, en hverjir eru það þá sem munu taka við því verkefni að sinna þessum sérstaka þætti áætlanagerðar varðandi gatnagerð í þéttbýli? Auðvitað er hugsanlegt að koma þessu fyrir annars staðar, eins og ég sagði um hin verkefnin, en það verður að ákveða það og það verður að vera ljóst hvert þau eiga að fara.

Þá hygg ég að hv. þm. þekki allvel fjórða verkefni áætlanadeildarinnar frá árinu 1984, sem ég ætla hér að tæpa á, en það er útgáfustarfsemi skýrslna um mannfjölda, mannafla og tekjur. Áætlanadeild gaf út slíka skýrslu á árinu 1984, mjög fróðlega skýrslu þar sem eru ýmsar upplýsingar um þróun mannfjölda, mannafla og tekna á Íslandi. Segja má að þar sé í stórum dráttum gerð grein fyrir mannfjöldaþróuninni 1703–1983 og væri kannske ástæða til að drepa á nokkur helstu ártöl á þessu skeiði, 1703–1983, en ég óttast að ekki endist sem skyldi ræðutími til þess þannig að ég sleppi því. Í þessari fróðlegu skýrslu eru einnig birt yfirlit um þróunina á milli landshluta, innan landshluta, sýslna, kaupstaða og kauptúna og þar eru auk þess ítarlegar upplýsingar um þá þætti sem ráða framvindu mannfjölgunar, svo sem frjósemi, dánartíðni og flutninga ásamt áætlunum um framreikning mannfjöldans fyrir tímabilið 1984–2024. Auðvitað er hugsanlegt að einhver annar aðili taki að sér þessa útgáfustarfsemi, en í Framkvæmdastofnuninni eða áætlanadeild er ákveðin þekking til staðar sem þarf að tryggja að nýtist við áframhaldandi vinnu af þessu tagi.

Í sambandi við útgáfustarfsemi Framkvæmdastofnunar og áætlanadeildar vil ég alveg sérstaklega minna á það þarfa rit „Vinnumarkaðurinn“ sem hefur komið út undanfarin þrjú ár. Þar eru upplýsingar um helstu niðurstöður varðandi laun og launaframtöl og er þetta í rauninni hið gagnlegasta rit. Þarf að sjá til þess að áætlanadeildin og þeir sem þar hafa starfað geti áfram unnið að svipuðu verki, útgáfustarfsemi um vinnumarkaðinn sem nýtist aðilum vinnumarkaðarins og stjórnvöldum. Ég vil í þessu sambandi benda á, herra forseti, að skv. lögum nr. 13/1979, sem heita Ólafslög, voru kölluð það hér og eru kölluð enn, er gert ráð fyrir ákveðinni samstarfsnefnd félmrn. um að fylgjast sérstaklega með vinnumarkaðinum og þróun á honum. Í samstarfsnefndinni eru fulltrúar frá Framkvæmdastofnun ríkisins, áætlanadeild, Kjararannsóknarnefnd og aðilum vinnumarkaðarins. Og ég spyr: Hvaða aðili er það sem fer inn í þetta samstarf þegar áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins verður lögð niður? Ekki er það Framkvæmdasjóður. Það væri óeðlilegt. Ekki er það Byggðasjóður eða Byggðastofnun. Það væri óeðlilegt. Og enn þá óeðlilegra væri að það væri þróunarfélagið. Það dettur væntanlega engum manni í hug. En allt um það. Tryggja þarf að þetta mikilvæga verk, upplýsingastarfsemi og skráning upplýsinga um vinnumarkaðinn á Íslandi, verði unnið.

Ég vil einnig minna á að áætlanadeild Framkvæmdastofnunarinnar hefur átt aðild að svokallaðri orkuspárnefnd þar sem ýmsir aðilar hafa lagt það fyrir sig að fara yfir raforkuspár miðað við komandi ár. Ég hygg að áætlanadeildin hafi verið gildur aðili að þessu samstarfi í orkuspárnefnd. Þá þarf að huga að því nú hvaða aðili kemur þarna inn í staðinn fyrir áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins.

Áætlanadeildin vann þegar árið 1980 mjög ítarlega skýrslu, að vísu bráðabirgðaskýrslu, um stöðu fiskeldis og þróunarhorfur í fiskeldi á Íslandi. Ég geri ráð fyrir, því að nú er mikið um fiskeldi og þá möguleika sem þar eru, að menn hljóti að viðurkenna að þessi vinna áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins var gagnleg grunnvinna.

Ljóst er af þessum dæmum, sem ég hef nefnt, að aftur og aftur hefur verið leitað til áætlanadeildarinnar varðandi einstök verkefni á hinum óskyldustu sviðum. Það er ómaklegt — ég endurtek það: það er ómaklegt þegar jafnvel þm. eru að veitast að þessari áætlanadeild fyrir að hún hafi unnið illa og áætlanir hafi ekki verið framkvæmdar. Það er auðvitað vegna þess að það hafa verið heldur slök tök á verkstjórn í Framkvæmdastofnuninni. Hún hefur verið léleg. Forstjórarnir hafa mest verið niðri í þingi og ekki fengist til að sinna starfi sínu við Framkvæmdastofnunina eins og þeir hefðu þó átt að hafa möguleika til eða a. m. k. sæmilegt kaup fyrir og alla aðstöðu, að maður hefur heyrt, og verður ekki farið nánar út í það hér, en væri þó kannske full ástæða til (Gripið fram í: Gott eldhús.) og einkum og sér í lagi eldhúsið, sem mætti ræða hér í nokkru máli, og verður fróðlegt að vita hver fær eldhúsið þarna inn frá, hvort það verður Byggðastofnun eða Framkvæmdasjóður.

Í sambandi við Framkvæmdastofnunina er líka rétt að benda á að byggðadeildin hefur ekki bara verið byggðasjóður, heldur hefur hún líka og fyrst og fremst fylgst með ástandi og þróun atvinnumála og annarra málefna í einstökum landshlutum. T. d. birtast reglulega í skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins ítarlegar upplýsingar um íbúaþróun í einstökum landshlutum á næstliðnum árum. Það kemur fram í síðustu skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins t. d. að orðið hefur fólksfækkun á síðasta ári í flestum fjórðungum, m. a. á Vesturtandi, svo að ég grípi þar fyrst niður í skýrsluna, um 0.8% . Það er mesta fækkun á Vesturlandi í marga áratugi, stendur í skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins. Á Vestfjörðum er einnig um að ræða nokkra fækkun á árinu 1984 og hið sama er að segja um aðra fjórðunga. Á Suðurlandi er þetta verulega tilfinnanlegt. Mönnum kann að finnast að þetta séu þannig mál að ekki sé ástæða til að vera að liggja mikið yfir þeim og ekki ástæða til að vera að ræða mikið hér í þinginu hvernig starfsemi eins og þessari, þ. e. skráningu upplýsinga um byggðaþróun, verður hagað. Og menn kunna að segja að þetta séu smámál miðað við að þingið er allt á handahlaupum núna við að framkvæma kröfu landsfunda Sjálfstfl. um allt milli himins og jarðar undir forustu Framsfl. En það er samt mikilvægt mál að upplýsingar um byggðaþróun í landinu liggi fyrir og séu greinargóðar og aðgengilegar, m. a. fyrir alþm.

Ég minni einnig á að þarna hefur verið starfrækt svokölluð lánadeild. Framkvæmdastofnunin hefur auðvitað verið til alveg sérstakrar fyrirmyndar að einu leyti. Það er að Framkvæmdastofnunin birtir reglulega upplýsingar um alla styrki, öll útlán og annað sem frá stofnuninni fer af fjármunum. Ég verð að segja það, herra forseti, að ánægjulegt væri ef aðrar stofnanir tækju upp slík vinnubrögð og opnuðu starfsemi sína fyrir almenningi. Í þessu sambandi bendi ég á að ég hef lagt fram brtt. við frv. til l. um viðskiptabanka sem gerir ráð fyrir að viðskiptabönkum verði gert skylt að birta opinberlega lista yfir þá lántakendur sem fá á einu ári yfir 10 millj. kr. og sem í árslok hvers árs skulda yfir 40 millj. kr. Ríkisbankarnir eru þjóðareign. Almenningur á að fá að vita allt sem þar gerist. Það getur ekki verið neitt á móti því að slíkar upplýsingar birtist frá ríkisbönkunum. Það er eðlilegt að nefna þetta þegar við ræðum um frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins, en ég hygg að eitt merkasta nýmæli í lögunum um Framkvæmdastofnun ríkisins 1971 hafi einmitt verið þessi birtingarskylda. Ég fullyrði að að öðrum ólöstuðum, sem fjölluðu um samningu laganna um Framkvæmdastofnun ríkisins, hafi hv. þm. Ragnar Arnalds, fyrsti stjórnarformaður Framkvæmdastofnunar ríkisins átt verulegan hlut að þessu. Þetta var ekki einfalt að knýja fram. Ég man eftir þó nokkrum þrætum í nokkra mánuði um hvort slíkan lánalista ætti að birta. Það finnst okkur kostulegt í dag. Þetta dæmi nefni ég vegna þess að það sýnir að það er ekki allt 100% vont við þessa stofnun. En henni hefur verið illa stjórnað af pólitískum kommissörum íhaldsins og framsóknar. Það er annað mál. Auðvitað mátti vel skipta um þá og setja þarna almennilega stjórnendur, sérstaklega eftir að búið var að koma öðrum þeirra í ráðherrastól og hinum niður í Seðlabanka. Yfirleitt er fyrst hugsað um hvar á að koma viðkomandi mönnum fyrir áður en er hugsað um það hvernig á að koma stofnuninni sæmilega fyrir þannig að hún gæti staðið sig og sinnt sínum verkum með skikkanlegum hætti.

Þetta voru fáein orð um þrjár deildir Framkvæmdastofnunar ríkisins, áætlanadeild, byggðadeild og lánadeild. Ég ætla þá, herra forseti, að víkja nokkuð að því að byggðamál eru mál allra landsmanna og líka Reykvíkinga. Við Reykvíkingar þurfum á því að halda að efla verulega framleiðsluatvinnuvegi, þ. e. iðnað og sjávarútveg. Við þurfum að hafa stærri hluta atvinnulífsins í Reykjavík, iðnað og slíka starfsemi, og í þeim efnum er auðvitað sérstaklega ískyggileg sú þróun sem núna virðist vera að ganga yfir á þessu svæði. Það er út af fyrir sig ekki slæmt að lifa af þjónustu, það er eðlilegt og þeim fjölgar auðvitað stöðugt sem starfa við hvers konar þjónustu, en það er óhollt fyrir Reykjavík sem höfuðstað landsins að vera ekki með í grófum dráttum þverskurð af því atvinnulífi sem um er að ræða í landinu. Þess vegna er það mikið áhyggjuefni, sem núna er að gerast í þessu kjördæmi, að borgarstjórinn í Reykjavík hefur haft frumkvæði að því að bjóða öðru fyrirtæki, Ísbirninum hf., upp á eitthvert bandalag um Bæjarútgerð Reykjavíkur. Ég segi áhyggjuefni vegna þess að ég er sannfærður um að hugmyndin á bak við þetta er sú að draga saman fiskvinnslu og útgerð í Reykjavík. Ég held að við Reykvíkingar þurfum að átta okkur vel á því að byggðamál eru ekki bara mál sem snerta menn í öðrum kjördæmum. Það er líka okkar mál og mál allra Íslendinga að atvinnulíf í höfuðstað landsins sé sem eðlilegast þversnið í grófum dráttum af því sem gerist í landi okkar í heild.

Það er einnig á annan hátt sem byggðamál snerta okkur Reykvíkinga alveg sérstaklega. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur rakið það í ræðu sinni og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon einnig hvernig fólksstraumurinn hefur legið til þéttbýlisins að undanförnu. Þetta kemur auðvitað við Reykjavík. Þetta breytir Reykjavík. Þetta eykur ásóknina í leiguhúsnæði, hækkar verð á því, skapar erfiðleika við að sinna sérstökum húsnæðisvandamálum fólks á þessu svæði og voru þeir þó ærnir fyrir. Við hljótum að spyrja að því, hv. alþm.: Lengi tekur sjórinn við, en taka sjoppurnar og vídeóleigurnar endalaust við?

Fólk sem núna starfar í fiskvinnslunni eða við aðra slíka vinnu flytur til Reykjavíkur og fer í þessi þjónustubrögð. Það hljóta að vera takmörk fyrir því hversu miklu er hægt að bæta við þar þó að mannskepnan sé sem betur fer býsna uppáfinningasöm og finni sér eitt og annað þarflegt að dútla þegar annað brestur. En það hlýtur að verða okkur umhugsunar- og áhyggjuefni að velta því fyrir okkur hvernig vinnumarkaðurinn í Reykjavík og Reykjavík sem samfélag bregðast við þessu. Reykjavík hefur t. d. sem betur fer haft aðstæður til að taka mjög vel við öldruðum. Aldraðir eru stærra hlutfall íbúa í þessu kjördæmi en í nokkru öðru kjördæmi landsins og Reykjavík hefur sett upp þjónustustofnanir fyrir aldraða og hefur skipulagt heimilishjálp fyrir aldraða langt umfram öll önnur sveitarfélög. En þessi þjónusta, félagsleg þjónusta, bæði í heilbrigðis- og félagsmálum, sem borgin hefur veitt, verður að taka mið af umhverfinu, m. a. þá byggðastefnunni líka. Þess vegna er byggðastefna hagsmunamál okkar Reykvíkinga. Ég skil byggðastefnu þannig að hún fjalli um hvernig við viljum byggja landið í heild. Höfuðstaðurinn er nákvæmlega jafn mikilvægur og önnur byggðarlög, að ekki sé meira sagt, og þess vegna á ekki að horfa á byggðamál eins og eitthvert sérviðfangsefni dreifbýlisins eins.

Ég vil hins vegar í sambandi við byggðastefnu almennt vekja athygli á að mér hefur fundist að áherslurnar í byggðamálum og byggðastefnu hafi verið of einhliða lagðar á þéttbýlisstaðina. Ég er þeirrar skoðunar að byggðastefna fái ekki risið undir nafni nema hún glími við það verkefni að reyna að komast að niðurstöðu um það hvernig dreifbýlið verði byggt til frambúðar og þá í grófum dráttum svipað og nú er þó að það breytist auðvitað eitthvað. Ég er að tala um sveitahéruð, þar sem búa bændur yfirleitt og oft og tíðum, t. d. á Vestfjörðum, svo að ég nefni dæmi, heldur fátæki fólk. Þessir aðilar búa við þannig viðurgerning nú af hendi stjórnarstefnunnar að héruð eru að fara í eyði. Þegar Barðaströnd er farin í eyði, þegar Austur-Barðastrandarsýsla, öll nema Reykhólar, er farin í eyði, svo að ég nefni dæmi, eða verulegur hluti Dalasýslu eða allir þrír vesturhreppar Mýrasýslu, svo að ég nefni dæmi, þá er Ísland orðið annað en það land sem við eigum í dag og viljum væntanlega eiga vegna þess að við viljum að landið sé í grófum dráttum byggt. Mér finnst að við eigum þess vegna að íhuga mjög vandlega hvort byggðastefnan hefur ekki of mikið beinst að þéttbýlinu, þéttbýliskjörnum, en of lítið að sjálfu dreifbýlinu, sveitarbyggðunum í landinu.

En fleira skiptir þarna máli, herra forseti, eins og hv. 5. þm. Austurl. rakti mjög skilmerkilega áðan og ég vil bæta nokkrum þáttum við það, sem hann kom inn á áðan, sem ég tel að hafi gerbreytt stöðunni úti á landi. Á síðustu árum, 1980–1983, voru sett lög annars vegar um sérstaka þjónustu við fatlaða og hins vegar lög um þjónustu við aldraða. Þessi lög byggðu á ákveðnum tekjustofnum, annars vegar skatti sem rennur í Framkvæmdasjóð aldraðra og hins vegar beinu framlagi úr ríkissjóði sem rennur í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur byggt upp á fimm árum aðstöðu fyrir fatlaða og þroskahefta einstaklinga í öllum fjórðungum landsins. Það er liðin tíð að það þurfi endilega að flytja fatlaðan eða þroskaheftan einstakling utan af landi til Reykjavíkur til að hann fái þar einhverja þjónustu, greiningu og meðferð. Það kemur að vísu fyrir í ýmsum tilvikum, sérstaklega vegna þess að greiningaraðstaða við frumgreiningu er hvergi til nema hér og verður sennilega seint í góðu lagi nema hér.

Víkjum að málefnum fatlaðra. Ég bið hv. þm. að hugsa um það augnablik hvert stórvirki hefur verið unnið með Framkvæmdasjóði aldraðra á undanförnum árum. Núna þarf ekki lengur að flytja aldrað fólk til höfuðstaðarins vegna þess að ekki hefur verið kostur á eðlilegri hjúkrunarþjónustu í dreifbýlinu. Framkvæmdasjóður aldraðra hefur byggt upp og tryggt fjármagn til dvalarheimila og hjúkrunarheimila aldraðra um allt land. Ég veit að hv. þm. gera sér grein fyrir því hvað þessir tveir þættir, annars vegar málaflokkurinn sem snýr að fötluðum og hins vegar öldruðum, hafa gerbreytt ekki aðeins þjónustu við þetta fólk heldur líka því að það verður til margvísleg þjónusta í kringum þessa staði. Starfsfólk býr á stöðunum með sínum fjölskyldum og þannig eykst hlutdeild viðkomandi svæða í þjónustustarfseminni í landinu, m. a. opinberu þjónustunni. Það er skynsamlegt að halda þannig á málum.

Ég vil nefna eitt dæmi enn frá síðustu árum sem er innlegg í raunverulega byggðastefnu og það er Vinnueftirlit ríkisins. Vinnueftirlit ríkisins er með vinnueftirlitsmenn um allt land. Þetta er þáttur í því, sem aðrar stofnanir gætu tekið upp, að dreifa starfsmönnum um landið til þess að gera stofnanirnar betri. Hollustuvernd ríkisins er dæmi um þetta, sem hv. 5. þm. Austurl. nefndi áðan. Ég er sannfærður um að það er margt í starfsemi Hollustuverndar ríkisins sem mætti fara út um landið ef vilji væri til þess hjá ráðamönnum og m. a. stjórn þeirrar stofnunar.

Hér hef ég nefnt nokkur dæmi sem skipta miklu um byggðastefnu og kannske miklu meiru eða a. m. k. ekki minna en frv. um byggðastofnun. Þetta eru alhliða þættir félagslegrar þjónustu, alhliða þættir í því að byggja upp manneskjulegt samfélag. Ég tel þess vegna, herra forseti, að umræður um þessi mál eigi ákaflega vel heima í umfjöllun um frv. til l. um Byggðastofnun.

Eitt af þeim vandamálum sem standa í vegi fyrir skaplegri þróun byggðar í þessu landi er að mínu mati hvað sveitarfélögin eru misjöfn og mörg þeirra máttlítil. Þá velta margir fyrir sér að þess vegna sé rétt að leggja hreppana niður með lagaboði, eins og oft hafa sést tillögur um. Ég held að mikið farsælli leið sé að marka hreppunum verkefni og tekjustofna í samræmi við þau, en síðan yrði farið inn á þá braut sem hv. 5. þm. Austurl. og hv. 4. þm. Norðurl. e. leggja til á þskj. 991 í till. til þál. um nýja byggðastefnu og valddreifingu til héraða og sveitarfélaga.

Ég viðurkenni hins vegar að þetta er mjög flókið mál. Sjálfstæði byggðarlaganna er ekki einfalt mál. Það er nokkuð til í því, sem hæstv. forsrh. benti á á dögunum, að í þeim efnum er hægt að ganga of langt og sjálfsagt auðvelt að eyðileggja þessa hugmynd. En ég held að við eigum að glíma við hugsunina. Ég held að við eigum að glíma við hvernig við getum byggt upp stjórnsýslustig, kannske svokallað þriðja stjórnsýslustig, sem fær tekjustofna og framlög úr hinum sameiginlega almenna sjóði. Þetta þriðja stig dreifi síðan fjármunum til verkefna á viðkomandi svæðum. Þm. kjördæma eru þá ekki lengur í því.

Herra forseti. Ég er að vísu svo gæfusamur að vera þm. fyrir Reykjavík og hafa aldrei þurft að koma nærri vegáætlun, sem kjördæmisþm., en ég er ekki alveg viss um að sú aðferð að láta kjördæmisþm. úthluta fjármunum til vega, vegarkafla og brúa sé skynsamlegasta aðferðin. Ég held að hin aðferðin væri betri að ætla þessu þriðja stjórnsýslustigi, fjórðungsstjórn eða hvað við köllum það, að fjalla um þessi mál. Þá er auðvitað skilyrði, ég tek það fram, að þetta verður að vera lýðræðisleg stofnun. Landshlutasamtökin eru ónýt í þeim efnum. Landshlutasamtökin eru meiri hluti meiri hlutanna í raun og veru. Þau eru samtök meiri hlutanna í viðkomandi hreppum og héruðum og þess vegna ólýðræðislega uppbyggð. Ef nýtt stjórnsýslustig yrði tekið upp ætti auðvitað að kjósa til þess með beinni kosningu þannig að beint og milliliðalaust lýðræði kæmi þar fram.

Herra forseti. Ég vil að síðustu endurtaka spurningu sem ég lagði fyrir hæstv. forsrh. áðan, hann hafði þá brugðið sér frá, en hún er þessi: Hvað er ætlunin að gera við starfsemi þá sem fram hefur farið í áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins? Ég er að tala um verkefnin fyrst og fremst frekar en starfsmennina út af fyrir sig sem náttúrlega skiptir þó máli að sé komið manneskjulega fram við. Ég er að hugsa um verkefnin. Hver mun vinna að þeim verkefnum, sem mörg hver eru mikilvæg, sem áætlanadeild Framkvæmdastofnunarinnar hefur unnið við þó að það hafi orðið lítið úr þessum verkefnum vegna þess að forstjórar stofnunarinnar hafa aldrei verið að sinna sínum verkum og hafa yfirleitt setið hér á Afþingi? Ég vil sem sagt spyrja hæstv, forsrh. um þetta atriði og þætti vænt um ef hann gæti svarað þeirri spurningu áður en málið fer út úr þessari virðulegu deild.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, mótmæla því alveg sérstaklega, sem fram kom í ræðu hæstv. iðnrh. áðan að hér séu menn með málþóf. Málþóf er það þegar menn eru farnir að tala í þrjá, fjóra og fimm tíma, eins og t. d. einn núv. ráðh. gerði einu sinni. Hann heitir Sverrir Hermannsson. Hann talaði víst í eina fjóra eða fimm tíma og hefði viljað talað lengur en hraktist niður úr stólnum af óviðráðanlegum ástæðum. Slíkt er málþóf. En ræðuhöld eins og þau sem við höfum verið með í kvöld, ég og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, talað í klukkutíma hvor eða ekki það, heitir ekki málþóf. Ef ráðherrarnir vilja málþóf væri kannske leið að efna til þess. En ég fullyrði að ekki er auðvelt að verða við því í stjórnarandstöðuflokkunum, ekki eins auðvelt og í stjórnarflokkum því að einu málþófsmennirnir í þinginu, sem hafa verulega þjálfun í því að standa í ræðustólnum mjög lengi, eru hv. þm. Halldór Blöndal og hæstv. iðnrh. Það mátti kannske sjá vísi að því málþófi, sýnikennslu í málþófi, hjá þeim áðan þegar þeir deildu um staðsetningu Byggðastofnunar, hvort hún ætti að vera á Akureyri eða hvort ætti að setja það inn í lög eða ekki. Ég vil þess vegna mótmæla mjög harðlega svona aðdróttunum, herra forseti, og ég vænti þess að hæstv. forseti fallist á það sjónarmið mitt og skilning að hér hefur ekki verið um það að ræða sem kallað er málþóf og skilið er venjulega sem málþóf á Alþingi. Það mun hafa verið málþóf þegar voru ákveðin kaupstaðarréttindi fyrir Kópavog hér fyrir 30–35 árum. Þá höfðu menn talað í 4–6 tíma og byrjuðu á jarðsögunni. Það er ekkert slíkt uppi á teningnum hjá okkur. Þvert á móti reynum við að fara yfir aðalatriðin. Auðvitað vill slíkur ræðuflutningur lengjast nokkuð vegna þess að við erum svo önnum kafin við störf í nefndum og annars staðar að við höfum ekki tíma til að semja ræður og gera textana eins hnitmiðaða og við vildum, en málþóf er hér ekki á ferðinni, herra forseti.