13.06.1985
Neðri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6513 í B-deild Alþingistíðinda. (5903)

456. mál, Byggðastofnun

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ef menn óska þess að ég rifji upp fyrir þeim jarðsögu Íslands er mér það ekki nema ljúft og skylt því að ég nam það fag í Háskóla Íslands um tveggja ára skeið sem hluta af námi mínu í jarðfræði og mætti vel vera að ég kynni að geta rifjað upp það helsta, a. m. k. helstu drættina í jarðsögu Íslands þau 16–20 milljón ár sem hún nær aftur og er reyndar vel sloppið því að Ísland er eitt af yngstu löndum heimsins hvað þetta varðar og fá lönd eiga sér jafnstutta jarðsögu og Ísland. Það er því ekki mikið mál fyrir okkur Íslendinga að rekja okkar jarðsögu borið saman við ýmsa aðra sem þurfa 2–3–4 milljarða ára aftur í tímann.

Ég lauk fyrri ræðu minni eða fyrstu ræðu minni við þessa umr. í samráði við virðulegan forseta fyrir fundarhlé, eins og forseta eflaust rekur minni til, en tók þá jafnframt fram að svo kynni að fara að ég þyrfti að ítreka eitthvað frekar í þessari umr. sem ég átti þá eftir að gera. Það mun ég nú gera, herra forseti, og víkja nokkuð að ýmsum þáttum byggðamála sem ég tel að eigi erindi hingað inn í umr. um frv. til l. um nýja byggðastofnun.

Það má segja að staðfesting á mikilvægi byggðamálanna felist vissulega í því að menn sjá ástæðu til að setja á fót stjórnskipulega sjálfstæða Byggðastofnun sem hafi það verkefni og það verkefni eitt að fara með þessi mál. Menn hafa ekki fram að þessu séð ástæðu til að haga hlutunum svo, eins og menn vita, og byggðamál hafa verið til meðferðar í sérstakri deild í Framkvæmdastofnun. En nú skal sem sagt tekin upp önnur tilhögun og við þau tímamót hljóta auðvitað að verða eðli máls skv. nokkrar umræður hér um byggðamál. Ég teldi óeðlilegt, og alveg sérstaklega með tilliti til þeirrar stöðu sem þessi mál nú eru í, ef ekki yrðu hér einhverjar umræður um byggðamál. Ég mundi þá telja illa komið þeim málaflokki ef þm. á Alþingi Íslendinga sæju ekki ástæðu til að fara ofurlítið ofan í þennan málaflokk og taka sólarhæð, ef svo má að orði komast, í þessum efnum þegar hér er verið að afgreiða frv. til l. um nýja og sjálfstæða byggðastofnun.

Nú er horfinn úr þingsalnum hv. 1. þm. Vesturl., herra forseti. Ég ætlaði að votta honum stuðning minn á vissan hátt í sambandi við till. sem hann lagði inn í umr. fyrr í kvöld um það að Borgarnes væri fullt eins góður staður og hver annar fyrir Byggðastofnun. Ég er honum út af fyrir sig alveg sammála. Ég held að Borgarnes sé að mörgu leyti vel í sveit sett og verðskuldaði fyllilega að fá til sín Byggðastofnun eða einhverja aðra slíka opinbera stofnun sem hefur þjónustuhlutverki að gegna um allt land. Ég sagði það reyndar og hef sagt áður í umr. á Alþingi um þessi mál að ég væri alveg tilbúinn að ræða við hverja þá þm. sem leita vilja samstöðu um einhvern slíkan kost. Væri það t. d. svo að það kæmi í ljós að hv. 1. þm. Vesturl. hefði við það stuðning á hinu háa Alþingi eða í Nd. að flytja Byggðastofnun upp í Borgarnes, þá mundi ég ekki láta það stranda á mér. Að sjálfsögðu ekki. Ég mundi styðja það, herra forseti, ef fyrir lægi að um slíkt næðist samstaða. Ég segi þetta vitandi það að auðvitað yrðu það t. a. m. Akureyringum vonbrigði ef þessi stofnun eða t. d. væntanlegt þróunarfélag, sem þeir hafa horft til, lenti uppi í Borgarnesi. Það ylli ugglaust einhverjum vonbrigðum norðan heiða. En ég mundi segja við það ágæta fólk: Landsbyggðin sem slík nær aldrei langt í þessum efnum ef einn stígur skóinn niður af öðrum og ef menn ná aldrei að sameinast um einhverja kosti í þessum efnum. Þess vegna urðu mér óskapleg vonbrigði, herra forseti, og ég get ekkert leynt því, þær atkvgr. sem hér gengu í þessu máli áður þar sem landsbyggðarþm., eins og ég vil að orði komast, náðu ekki saman um þetta efni. Reyndar hefði mátt vonast til þess að þm., hvaðan sem þeir eru til kjörnir, sæju nauðsyn þess að breyta hér um og skildu þýðingu þess að reyna að ná samstöðu um þetta mál.

Ég hef stundum nefnt langtímaáætlun um vegagerð, herra forseti, sem dæmi um hvað hægt er að gera í þessum efnum ef menn ná saman, þar sem þm. allra kjördæma náðu samstöðu um að setja upp ákveðna verkefnaáætlun sem tæki til alls landsins og til ákveðins tíma og yrði síðan framkvæmd. Ef menn næðu í byggðamálunum, t. d. í þeim hluta byggðamálanna sem snýr að valddreifingu og dreifingu opinberrar þjónustu, slíkri samstöðu, settu niður slíka langtímaáætlun og tækju til við að framkvæma hana, þá væri ólíku saman að jafna. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort till. um að staðsetja Byggðastofnun á Akureyri hefði fengið sömu örlög ef í einni og sömu till. hefði það verið flutt að setja niður við skulum segja fimm opinberar stofnanir úti á landi, eina í Norðurl. e., eina á Norðurl. v., eina á Vestfjörðum og eina e. t. v. á suðurlandi eða Reykjanesi. Ef þetta hefði allt verið í einni og sömu till., menn hefðu staðið frammi fyrir slíkri samræmdri áætlun, hvernig hefðu menn brugðist við þá?

Mér þykir leitt að hv. 1. þm. Vesturl. er ekki hér til að hlusta á þessa samstöðujátningu mína, en hún berst honum e. t. v. til eyrna eða hann les um hana í þingtíðindum því að ég vil að það liggi alveg ljóst fyrir að ég er til viðræðu um hvern slíkan kost sem býðst að ná hér um samstöðu. Ég er það fyrst og fremst vegna þess, herra forseti, að mér finnst hér vera um ákveðna grundvallarspurningu að ræða, ákveðið „prinsip“ eins og stundum er sagt. Ég er nánast tilbúinn að leggja hvað sem er á mig til að fá þessa grundvallarhugsun samþykkta og fá á henni einhvern skilning, að það verði að taka til hendinni í þessum efnum. Þess vegna vildi ég að hv. 1. þm. Vesturl. velktist ekki í vafa um að út af fyrir sig var hans uppástunga jafngóð og hver önnur og ég er jafntilbúinn til að styðja hana og hverja aðra í þessum efnum.

Herra forseti. Það má öllum ljóst vera, sem eitthvað hafa fylgst með þróun þessara mála á Íslandi á undanförnum áratugum, að þetta kemur ekki af sjálfu sér. Byggðaþróun og byggðamunstur í einu landi verða ekki endilega skynsamleg og ekki endilega eins og við viljum ef menn ætla að láta guð og lukkuna og einhver æðri lögmál stýra þessu, ég tala nú ekki um ef menn eru svo barnalegir að ætla að láta einhver frjálshyggju- eða gróðasjónarmið ein og sér ráða. Það er auðvitað, eins og málum er háttað og eins og kjörum er deilt í þessu þjóðfélagi, vísasti vegurinn til ófarnaðar eins og dæmin sýna.

Það hefur mikil vinna verið lögð í þá hugsun að einn þáttur byggðastefnu sé sá að dreifa opinberri þjónustu um landið. Ég vil í þessu sambandi vitna til starfa sem rekja sig alllangt aftur, til að mynda til nefndar sem sett var á fót í tíð ríkisstjórnar sem sat á öndverðum síðasta áratug og skilaði merku áliti. Þessi nefnd var sett á fót til að kanna staðarval ríkisstofnana og athuga hvaða breytingar kæmu helst til greina í því efni. Við erum einmitt að fjalla um eina slíka ríkisstofnun nú og ég tel því ekki óeðlilegt að menn rifji að nokkru upp þann fróðleik sem safnað var saman á þeim tíma, þ. e. á árunum 1972–1974, í þessum efnum og er enn að flestu leyti í gildi vegna þess að þær stofnanir sem þá voru til umfjöllunar eru allar til í dag, að ég best veit, og eru allar á sama stað og þær voru þá.

Þessari nefnd, herra forseti, var, eins og ég áður sagði, falið það verkefni að kanna staðarval ríkisstofnana og athuga hvaða breytingar kæmu þar helst til greina. Nefndin skilaði allmikilli skýrslu eða áliti 28. okt. 1975 og undir það rita nm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem var formaður, Bjarni Einarsson, núverandi forstöðumaður byggðadeildar Framkvæmdastofnunar, Helgi Seljan alþm., Jón Baldvin Hannibalsson alþm., Magnús E. Guðjónsson, Sigfinnur Sigurðarson og Magnús Gíslason. Í nál. ætla ég að vitna ofurlítið, herra forseti, en með tilliti til tímans, sem við höfum hér til að fjalla um þessi mál og er ekki ótakmarkaður þó að hann sé vonandi nægur, ætla ég einungis að vitna lítillega í útdrátt úr nál., með leyfi forseta:

„Fyrsti hluti nefndarálitsins er sögulegt yfirlit yfir þróun íslenska stjórnkerfisins hvernig og á hve margslunginn hátt Reykjavík varð miðstöð þess. Auk Alþingis, embættiskerfis dómstóla og fáeinna menntastofnana, sem komu til sögunnar á síðustu öld, býr nú í borginni fjölþætt samsafn stjórnarstofnana, banka og annarra fjármálastofnana, höfuðstöðva hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka, fjölmiðla, mennta- og menningarstofnana; auk þess hefur þjóðhöfðingi þar skrifstofu. Allir höfuðþættir nútímastjórnkerfis eru fyrst og fremst tengdir Reykjavík. Lokaskeið sjálfstæðisstjórnmálanna og þjóðfélagsþróunin, sem í senn hefur verið orsök og afleiðing stéttastjórnmálanna, fela í sér meginörlagavalda þessarar skipunar,“ segir þar. „Almenn lýsing á sögulegri þróun og núverandi gerð stjórnkerfisins leiðir í ljós að nokkrir mikilvægir miðstöðvarþættir eru utan hins formlega ríkiskerfis. Miðstöðvarsess Reykjavíkur er grundvallaður á fleiru en aðsetri opinberra stofnana. Hagsmunasamtökin, stjórnmálaflokkarnir, nokkur hluti fjölmiðla og fjármálastofnana eru utan hins formlega ríkiskerfis. Þótt hér sé um að ræða mikilvæga þætti í stjórnkerfi landsins hefur ríkisvaldið ekki rétt til að ákveða aðsetur þeirra. Aðeins sá hluti stjórnkerfisins sem er innan hins eiginlega valdsviðs ríkisins — Alþingi, stjórnarráð og stjórnstofnanir, þjóðhöfðingi, dómstólar, menntastofnanir, menningarstofnanir, opinberir fjölmiðlar og fjármálastofnanir — telst til viðfangsefnis nefndarinnar. Það er hins vegar nauðsynlegt að leggja áherslu á að flutningur ríkisstofnana getur aðeins haft takmörkuð áhrif á miðstýringu stjórnkerfisins, ef þeir þættir sem eru utan valdsviðs ríkisins eru áfram jafnbundnir Reykjavík. Um leið og nefndin birtir tillögur um staðarval opinberra stofnana er vakin sérstök athygli á þætti stjórnmálaflokka, hagsmunasamtaka, fjölmiðla og fjármálastofnana í miðstöðvaruppbyggingu Reykjavíkur. Eigi að draga verulega úr miðstýringu íslenska stjórnkerfisins verða þessir aðilar einnig að koma til sögunnar með breyttum starfsháttum og nýju skipulagi.“

Þetta var mjög fróðlegur inngangur, herra forseti, því að þarna er það verkefni nokkuð rækilega skýrgreint hvað er innan hins opinbera stjórnkerfis, hvað er á valdsviði þess að fjalla um og hvað ekki. Það er alveg laukrétt að það er ekki nema hluti af því sem gerir Reykjavík að þeirri miðstöð sem hún er, sem er á valdi og undir verksviði hins opinbera. Réttilega er hér bent á að ýmsir aðilar, eins og hagsmunasamtök, stjórnmálaflokkar og nokkur hluti fjölmiðla og fjármálastofnana, eru utan hins formlega ríkiskerfis og það er ekki á okkar valdi sem hér á Alþingi sitjum né ríkisstj. eða annarra stjórnvalda að ákveða neitt um hvar slíkir aðilar velja sér aðsetur.

Ég minnti t. d. á það í umr. fyrr á þessu þingi um byggðamál að Samband ísl. samvinnufélaga, sem er félagsskapur sem er okkur báðum, mér og virðulegum forseta kunnur, hafði tekið þá ákvörðun fyrir nokkrum árum að flytja höfuðstöðvar iðnaðardeildar sinnar norður á Akureyri og má segja að þar hafi þessi ágætu samtök stuðlað að því fyrir sitt leyti að ástunda nokkra valddreifingu og nokkurn stofnanaflutning frá höfuðborgarsvæðinu út á land.

Nefndin vann síðan gífurlega mikið starf, þessi stofnananefnd, ef ég má nefna hana svo, sem starfaði á árunum 1972–1975, og athugaði einkum þrenns konar möguleika á flutningi ríkisstofnana:

1. Heildarflutning, þ. e. að stofnunin öll sé flutt á einn stað.

2. Deildarflutning, þ. e. að einstakir hlutar eða deildir stofnunar, sem hafa vel afmarkað verksvið, eru fluttir til annarra staða.

3. Útibúastofnun. Stofnuninni er ætlað að veita landsmönnum staðbundna þjónustu og verður því að starfrækja sams konar útibú í öllum landshlutum.

Í sumum tilfellum er ljóst að aðeins ein tegund flutnings kemur til greina, en í öðrum getur verið um tvær eða jafnvel allar þrjár að ræða. Þetta er einnig, að mínu viti, herra forsefi, nokkuð góð skýrgreining á þeim möguleikum sem við höfum í þessum efnum.

Síðan vildi ég gjarnan bæta við þetta fjórða kostinum sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar þróunarfélag, þ. e. að uppbygging nýrra stofnana getur átt sér stað einhvers staðar annars staðar en í Reykjavík.

Ég ætla ekki að rekja tillögur stofnananefndarinnar nánar, ekki lið fyrir lið, herra forseti, vegna þess að það tæki allnokkurn tíma, af tillitssemi við þingstörf og afgreiðslu mála vil ég spara okkur þann tíma sem í það færi, en ég vil þó nefna að sáralítið, nánast ekkert af þeim tillögum sem nefndin gerði að sínum árið 1975 hefur náð fram að ganga. Eitthvað hefur þó verið um að opinberar stofnanir eða opinber fyrirtæki hafi stofnað útibú eða sett á fót deildir utan höfuðborgarsvæðisins, en mér er nær að halda að engin stofnun af þeim fjölmörgu, einar 25 hygg ég að þær hafi verið, hafi verið flutt burt úr höfuðborginni. Nefndin lagði til að ekki færri en 25 stofnanir yrðu fluttar í heild frá höfuðborgarsvæðinu. Ef ég renni yfir þann lista þætti mér fróðlegt að vita ef einhver hv. þdm. kannast við það að einhver þessara stofnana sé í dag staðsett annars staðar en í Reykjavík. Þær eru: Búnaðarfélag Íslands, Búreikningastofa landbúnaðarins, Framleiðsluráð landbúnaðarins, Landnám ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Sauðfjárveikivarnir, Veiðimálastofnunin, veiðistjóraembættið, Orkustofnun ásamt Jarðborunum ríkisins, Jarðvarmaveitum ríkisins og Gufuborunum ríkisins og Reykjavíkurborgar, Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins, Kennaraháskóli Íslands ásamt Æfinga- og tilraunaskólanum, Húsmæðrakennaraskóli Íslands, Tækniskóli Íslands, Fiskvinnsluskólinn, biskupsembættið ásamt Hjálparstofnun kirkjunnar, Landhelgisgæslan, Landmælingar Íslands, Skógrækt ríkisins og skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna. Þetta voru þær stofnanir, 25 að tölu, sem nefndin lagði til að yrðu í heild sinni fluttar út úr höfuðborginni til annarra staða. Þær eru allar, að því er ég best veit, hér í Reykjavík.

Þá lagði nefndin til, herra forseti, að eftirtaldar stofnanir yrðu fluttar frá höfuðborgarsvæðinu þótt aðalstöðvar þeirra yrðu þar áfram: Verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands, Raunvísindastofnun háskólans, guðfræðideild að hluta. Stofnun Árna Magnússonar, svif- og botndýradeild Hafrannsóknastofnunar, grasafræðideild Náttúrufræðistofnunar Íslands, hluti málmiðnaðardeildar, skipasmíðadeild og vefjariðnaðardeild Rannsóknastofnunar iðnaðarins. Strandferðadeild Skipaútgerðar ríkisins verði skipt í Vestfjarðadeild og Austfjarðadeild.

Þá er enn lengri listi, herra forseti, um 36 stofnanir sem nefndin lagði til að settu á stofn sérstök útibú utan höfuðborgarsvæðisins. Ég held ég vísi í heimildir og sleppi því að lesa þann lista af því að hann er sá lengsti af þeim þremur sem nefndin gerði tillögur um:

Þarna var sem sagt unnin mikil vinna. Það var kannað hvaða stofnanir það væru sem vænlegt væri og eðlilegt vegna þeirra verkefna sem þær hafa með höndum að flytja út á land. Menn hafa sjálfsagt tekið eftir því að þetta eru allt stofnanir sem hafa miklu landshlutverki að gegna og sumar reyndar sérstaklega í þjónustu við landsbyggðina, eins og stofnanir landbúnaðarins, stofnanir sjávarútvegsins o. s. frv. Þarna voru lagðar fram beinar tillögur. Þarna var mönnum bent á hvað væri hægt að gera og mönnum stillt upp frammi fyrir kostum. Síðan hafa þessar tillögur legið fyrir alla tíð.

Nú eru að verða liðin tíu ár síðan þessu merka álifi var skilað. Og nefndin gerði meira en það. Hún gerði uppkast að frv. til laga sem hægt hefði verið að leggja fram og starfa á grundvelli þess. Þetta var frv. um flutningsráð ríkisstofnana og var liður í áliti nefndarinnar. Hún skilaði inn tillögunum og lagði til aðferð. Flutningsráð ríkisstofnana hefur að mínu mati aldrei verið stofnað, herra forseti. Næsta ríkisstjórn sem fékk nál. upp í hendurnar, þ. e. ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar, fjallaði um það, en lengra komst málið ekki, að ég best veit, í hennar tíð og við það situr, herra forseti.

Ég held að ágætt sé að menn muni eftir því merka starfi sem þarna var unnið þegar menn eru að ræða þessi mál nú og þegar mönnum vex það svo óskaplega í augum að reyna að koma einni einustu eða tveimur af öllum þessum mikla fjölda opinberra stofnana út fyrir höfuðborgina. (HBl: Það er betra að rökstyðja þetta svolítið vel.)

Ég var með í höndunum úti á skrifstofu minni fyrr í kvöld, herra forseti, þykka bók. Það var listi yfir alla opinbera starfsmenn. Og ég var með aðra þykka bók þar sem voru nefndir, ráð og stofnanir á vegum ríkisins. Ég fór að velta því fyrir mér hvað mikið af þessum þykku bunkum snerti Reykjavík og hvað mikið aðra staði. Ég hef grun um að það hefðu ekki verið ýkjamörg blöð og ekki þykkur bunki sem ég hefði þurft að hafa með mér í ræðustól ef ég hefði ætlað að taka þá sneið út úr þessum þykku bókum sem tilheyrir landsbyggðinni. Staðreyndin er sú, að obbinn af þessu er hér og verður hér ef ekkert verður að gert. Það er morgunljóst.

Herra forseti. Það er kannske fullseint þegar þessi umr. er þetta langt á veg komin að fara að skilgreina hér hvað byggðamál eru. (Gripið fram í.) Nei, það er mjög. þarft að fá það fram ef það hefur ekki komið fram nú þegar. Ég vil þá varpa fram minni skilgreiningu á því hvað byggðamál séu. Byggðamál eru nefnilega mjög mikið og merkilegt hugtak. Ég held að spurningin um byggðamál sé ósköp einfaldlega um það þjóðfélagsmunstur sem við viljum hafa. Byggðamálin eru í stærstu mynd sinni það Ísland sem við viljum byggja upp og viljum hafa. Þá eiga menn að svara því: Hvernig Ísland, hvernig byggð? Viljum við hafa hér borgríki, eins og vissulega eru til, eða viljum við hafa hér fjölbreytt þjóðríki með fjölbreytilegu mynstri, allt frá dreifbýli, sveitum, þorpum, smákaupstöðum, kaupstöðum og borgum? Þetta er sú spurning sem við verðum að svara. Ef meiri hluti Íslendinga og stjórnvöld vilja mynda borgríki á tiltölulega stuttum tíma höfum við það. Ég geri ekki ráð fyrir því að þeir sem þó vildu enn þá búa einhvers staðar annars staðar en í borgríki yrðu neyddir til að flytja þangað, en stjórnvaldið með sínum völdum og sínum ítökum getur að sjálfsögðu haft afgerandi áhrif á hvernig byggðin þróast og mundi þá sjálfsagt stýra því með þeim hætti sem það kysi. Ég ímynda mér að það væri tiltölulega auðvelt að mynda borgríki á Íslandi á 10–20 árum, 25 árum kannske, 1/4 úr öld. En hitt er líka hægt, það er sannfæring mín og til þess er ég að tala hér í kvöld, herra forseti, að varðveita og verja það fjölbreytta byggðamynstur sem við búum við í dag. Ég álít að það sé skylda mín að standa hér og verja það, m. a. vegna þess að ég er til þess kosinn af fólki sem enn þá býr í slíkum byggðum, enn þá byggir hinar dreifðu byggðir. Ég hef nákvæmlega ekkert hér á Alþingi að gera, herra forseti, ef ég reyni ekki að standa í ístaðinu fyrir þetta fólk. Svo einfalt er það nú.

Við þurfum ekki að fara langt út fyrir landsteinana, herra forseti, til að sjá þjóðir sem hafa kosið að fara leið byggðastefnunnar, hafa kosið að fara þá leið að verja sitt fjölbreytta byggðamynstur. Ég vitna þá fyrst til frænda okkar Norðmanna sem hafa með margvíslegum aðgerðum reynt að tryggja að þeir ættu áfram sinn Noreg eins og hann hefur verið um aldir, með borgum, bæjum, þorpum og sveitum. Þeir verja til þess miklu fé árlega t. d. að styrkja byggðina í Norður-Noregi með hinum margvíslegustu aðgerðum. Ég get nefnt eitt lítið dæmi. Iðnþróunarsjóður þeirra Norðmanna eða iðnlánasjóður eða hvað það nú heitir starfar á þeim grundvelli, sérstakur iðnlánasjóður byggðanna, að Noregur er flokkaður niður í ákveðin svæði eftir því hversu mikla aðstoð iðnaðurinn er talinn þurfa og þau svæði sem mest fá fá allt að 40% af framlögunum sem eru óafturkræf, en á höfuðborgarsvæðinu eða þeim svæðum sem sterkast standa er ekki um nein framlög að ræða, einungis lán. Svo langt hafa þeir gengið. Þeir hafa einnig kosið að verja sinn landbúnað eins og hann er með sínum smáu búum. Það þykir bærilegt bú, og er vel hægt að komast af í Noregi með það að hafa 8–10 kýr og 100 kindur, herra forseti. Það er bústærð sem er löngu orðin ólífvænleg á Íslandi, herra forseti.

Mér dettur einnig í hug annað land sem ég þekki nokkuð vel til. Það er Nýja-Sjáland, herra forseti. Ég held að það sé ekki úr vegi að ég rifji ofurlítið upp hér hvernig byggðastefnu er háttað á Nýja-Sjálandi. Það er ekki víst að allir hv. þm. séu mjög kunnugir högum þar. Það er eins og menn vita hinum megin á hnettinum. Þar búa nánast andfætlingar okkar Íslendinga og það er margt merkilegt hjá þeim eins og reyndar hjá fleiri þjóðum. En þeir hafa einnig kosið sér sína byggðastefnu og sitt byggðamynstur. Reyndar er þetta enn þá merkilegra hjá þeim Nýsjálendingum vegna þess að þeir hafa byggt upp sitt land gróflega talið á einum 100 árum. Búseta var dreifð og þar voru einungis 100–200 þús. frumbyggjar á þeim tíma sem hvítir menn hófu að flytja til Nýja-Sjálands að ráði upp úr miðri 19. öld, en nú býr þar þjóð sem telur um 3.5 millj. manna. Og hafa þeir byggt upp borgríki eða hafa þeir staðið einhvern veginn öðruvísi að þessu? Þeir hafa t. d. kosið, herra forseti, að láta ekki stærstu borgina vera höfuðborg. Langstærsta og langöflugasta borgin, mesta iðnaðarborgin og mesta stjórnsýsluborgin er ekki höfuðborgin í Nýja-Sjálandi. Það er miklu minni borg sem er betur í sveit sett og er miðsvæðis á eyjunum og heitir Wellington. Auckland, stærsta borgin, er hins vegar hin viðskiptalega miðstöð og þaðan eru mestar samgöngur til útlanda o. s. frv: Þeir hafa dreift flestum sínum stjórnsýslustofnunum um fjórar borgir. Það eru í megindráttum fjórar borgir, Auckland, Wellington, Christchurch og Dunedin, sem hýsa opinberar stjórnsýslustofnanir. Það þykir alveg sjálfsagt mál að ein stofnun sé hér og önnur þar. Þó er Nýja-Sjáland mörg þúsund mílur á lengd og það er drjúgur spölur frá norðurodda Nýja-Sjálands og suður á suðurodda Stewart-eyju. Þessar miklu vegalengdir hafa ekki hindrað þá í því að dreifa sínum stjórnsýslustofnunum, sínum háskólum o. s. frv. út um allt landið. Ég hygg að við Íslendingar gætum enn í dag kosið okkur þessa leið ef við förum að gera það innan tíðar, en það er hins vegar alveg ljóst, herra forseti, að ef menn horfa aðgerðarlaust á svipaða þróun og hefur verið síðasta árið og hefur verið meira og minna alla síðustu öld verður ekki glæsilegt um að litast í þessum efnum innan tíðar.

Ég held einnig, herra forseti, að menn gætu reynt að setja sér ákveðin markmið. 350 þús. íbúar verða væntanlega á Íslandi á fyrri áratugum næstu aldar, stuttu eftir að árið 2000 gengur í garð. Við skulum segja að ef frjósemin heldur sér sæmilega með þjóðinni verði það um 2020 sem hér verða 350 þús. manns. Við gætum sett okkur þau markmið, að mínu viti, að þessi 350 þús. skiptust þannig að 170–180 þúsund byggju á Reykjavíkursvæðinu og hinn helmingurinn u. þ. b. byggi annars staðar. Ég hefði talið það heppilega dreifingu. Það þýðir að við þurfum að breyta þessu nokkuð frá því sem nú er landsbyggðinni í hag. Það lætur nærri að hlutföllin séu nú 60 á móti 40.

Ég spyr líka menn að því hvort þeir telji nokkuð æskilegt að Reykjavík eða Reykjavíkursvæðið verði að stærri borg en eins og 150–180 þúsund manns. Vill hv. þm. Ellert Schram búa í stærri borg en 150 þúsund manna borg? Er hann ekki ánægður með Reykjavíkina sína eins og hún er? (EBS: Hvers vegna ertu að spyrja mig að því?) Ég er m. a. að spyrja að því vegna þess að þegar menn ræða þessi mál væri það, held ég, hollt og þarft að menn settu sér ákveðið markmið, spyrðu: Hvernig Ísland viljum við hafa í framtíðinni og hversu stóra Reykjavík? Er æskilegt að kakka öllum Íslendingum hingað á einn reit og er það ekki miklu fallegri framtíð að sýna að við stefnum að því að t. d. árið 2020 búi 170–180 þús. manns á þessu svæði og annað eins vítt og breitt um landið, í borgum, bæjum og sveitum? Þessi mál verða að meira og minna leyti stefnulaus ef við ekki setjum okkur einhver slík markmið. Það er alveg ljóst, herra forseti.

Ég vil einnig minna á að ég held að byggðaröskunin sem slík, eins og hún hefur verið undanfarna áratugi og er enn þann dag í dag, sé ekki sérstaklega í þágu Reykvíkinga og síður en svo nokkur guðsblessun fyrir þá. Mér dettur í hug að vitna í nýlega látinn höfðingja, Gunnar heitinn Thoroddsen fyrrv. forsrh. Íslands og fyrrv. borgarstjóra í Reykjavík með meiru. Hann ól mestan sinn aldur, að ég best veit, í Reykjavík eða hér í nágrenninu, var reyndar sendiherra með erlendum þjóðum í einhver ár, en annars mun hann mestan sinn tíma hafa dvalið hér og búið hér. (Grípið fram í: Þingmaður Snæfellinga.) Jú að vísu, en ætli hann hafi ekki búið lengst af í Reykjavík engu að síður. (Gripið fram í.)

Þessi ágæti maður hafði hins vegar á því fullan skilning, þrátt fyrir það og kannske einmitt vegna þess, að hann var lengi borgarstjóri í Reykjavík, að það væri ekki endilega í þágu Reykvíkinga né sérstaklega æskilegt fyrir þetta byggðarlag eða byggðirnar hér við Faxaflóann að þessi mál æxluðust svona. Honum var ekki að detta þetta í hug á síðustu árum ævi sinnar, honum datt þetta ekki í hug á meðan viðreisnin var og hét og mest var nú byggðaröskunin þá. Nei, honum var orðið þetta ljóst þegar á árinu 1949, því að þá hélt hann gagnmerkt ávarp á afmælisdegi Reykjavíkur, ekki ómerkari degi, sem er 18. ágúst eins og menn eflaust vita. Árið 1949 flutti hann ávarp í Ríkisútvarpið um þróun bæjarins og byggðamál í víðara samhengi. Þetta ávarp, herra forseti, er birt í bók sem nýlega kom út og hefur að geyma margar af perlum orðsins sem eftir þennan ágæta mann liggja.

Ég vil, með leyfi forseta, lesa þetta stutta ávarp og þá byrja ég á þeim inngangi sem að því er hafður í bókinni: „Á afmælisdegi Reykjavíkur 18. ágúst 1949 flutti Gunnar ávarp í Ríkisútvarpið um þróun bæjarins og byggðamál í víðara samhengi.

Um þessar mundir var mikið aðstreymi fólks til Reykjavíkur úr ýmsum byggðarlögum úti á landi.“ Kannast nokkur við setningu eins og þessa? — „Þetta átti sinn þátt í því að rígur skapaðist gagnvart höfuðstaðarvaldinu, sem svo var nefnt, og var mjög alið á honum af þm. og öðrum talsmönnum dreifbýlisins. Gekk umræðan svo langt í dagblöðum og á þingi að sumir vildu takmarka fólksflutningana með valdboði.“ — Og þar hafið þið það.

„Þótt Gunnar sé fæddur og uppalinn í Reykjavík hafa erindrekstur hans um landið fyrir Sjálfstfl. og þingmennska fyrir Mýramenn og Snæfellinga væntanlega haft áhrif í þá átt að hann einblíndi ekki á Reykjavík og vildi taka tillit til hagsmuna fólksins í strjálbýlinu.

Gunnar hafði setið í borgarstjóraembætti höfuðstaðarins í tvö og hálft ár og var enn þm. Snæfellinga sumarið 1949. Hann ræddi í útvarpinu opinskátt um byggðaröskunina sem hann taldi sameiginlegt vandamál Reykjavíkur og landsbyggðarinnar. Þótti mörgum þarna varpað nýju ljósi á málið.“ — Og hefst svo ávarpið:

„18. ágúst er afmælisdagur Reykjavíkurkaupstaðar. Þann dag fyrir 163 árum fékk Reykjavík kaupstaðarréttindi.

Reykjavík á sér eldri sögu.“ Þetta er ekki mjög langt, virðulegur forsrh. (Forsrh.: Nei, ég var bara að gá hvar þetta væri. Ég tók ekki eftir því. Þetta er mjög fróðlegt.) Já, „Fyrsti landnámsmaðurinn á Íslandi, Ingólfur Arnarson, byggði suður í Reykjavík, segir Ari fróði í Íslendingabók. Hún var því fyrsta landnámsjörð á Íslandi. Eftir daga Ingólfs kemur jörðin Reykjavík lítið við sögu um margar aldir.

Árið 1752 hefst hún aftur til vegs, þegar Skúla landfógeta Magnússyni var seld í hendur jörðin vegna þeirrar iðnaðarstarfsemi, er innréttingar voru nefndar. Hófst þá saga Reykjavíkur sem verksmiðjubæjar. 34 árum síðar, 1786, varð Reykjavík kaupstaður.

Á þessum 163 árum hefur gerbreyting orðið á högum Íslendinga. Erlend áþján og einvaldsstjórn hefur vikið fyrir lýðveldi og sjálfsstjórn. Örbirgð og fátækt, sultur og seyra, hafa þokað fyrir þeim lífskjörum almennings sem framar standa því sem flestar þjóðir Evrópu búa við. Verslun og viðskipti, sem áður voru einokuð í höndum útlendra manna, eru nú á vegum Íslendinga sjálfra. Í stað þess að þorri landsmanna lifði á landbúnaði starfar nú meiri hluti þjóðarinnar á útvegi, iðnaði og verslun.

Þó er sú breyting hvað mest er Reykjavík varðar.

Þegar Reykjavík varð kaupstaður voru hér 302 íbúar af 38 þús. landsmanna eða um 8 af þúsundi.“ — Um 8 af þúsundi, herra forseti. — „Nú búa hér 55 þús. af 134 þús. landsmanna eða rúmir 40 af hundraði.

Og á þessu tímabili hefur kaupstaðurinn Reykjavík numið vítt land og fagurt. Bæjarstæði Reykjavíkur hefur breyst. Reykjavík er ekki lengur, eins og við lærðum í barnaskóla, kvos milli tveggja hæða.“ — Það má nú segja. — „Reykjavík hefur vaxið og mun vaxa út fyrir kvosina, yfir hæðirnar tvær, út á aðrar hæðir, yfir mýrar og móa, yfir ása og nes. Kvosin geymir sögulegar minjar, allt frá landnámstíð, minjar sem verður að vernda og alltaf skulu í heiðri hafðar.

Bær Ingólfs og „innréttingar“ Skúla fógeta stóðu við Aðalstræti sem nú er. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðið að Aðalstræti skuli vera breiðust þeirra gatna sem enn hafa ákveðnar verið í Reykjavík, enda má nefna þann stað vöggu Reykjavíkur. En í fullri lotningu fyrir liðnum tímum lyftum við okkur upp úr kvosinni milli tveggja hæða. Við horfumst í augu við höfuðborg framtíðarinnar, byggjum ný hverfi, nýjar miðstöðvar, stórbyggingar og mannvirki, í hinu víðlenda landnámi Ingólfs.

Á fjórum áratugum, síðan er hinn fyrsti borgarstjóri var kjörinn, hefur Reykjavík verið stórvirk um framkvæmdir og umbætur. Þess bera vottinn vatnsveita, gasstöð, hafnarmannvirki, virkjun Elliðaánna, Sogsvirkjun, hitaveita, skólabyggingar, íbúðarbyggingar og margt fleira. Það 40 ára tímabil, sem þeir hafa stýrt bænum, Páll Einarsson, Knud Zimsen, Jón Þorláksson, Pétur Halldórsson og Bjarni Benediktsson, hefur markað stærri spor framfara og umbóta í sögu Reykjavíkur en næstu 1000 ár á undan.

Borgarar bæjarins hafa lagt fram höfuðskerfinn til þessarar þróunar. Þeir hafa sjálfir, með þróttmiklu framtaki, skapað útveg, iðnað og verslun, og reykvískar hendur hafa ræktað hrjóstrugar lendur og breytt þeim í gróðurlönd. Borgarar bæjarins hafa með hug og hendi stuðlað að velmegun Reykjavíkur og fegrun hennar. En í fegrunarstarfinu eru fyrst og fremst reykvískar húsfreyjur að verki.

Á hinum síðustu árum hefur mikill áhugi vaknað fyrir trjágróðri og blómarækt, hreinlæti, þrifnaði og hvers konar fegrun borgarinnar. Fyrir rúmu ári var stofnað hér í bæ félag til þess að hvetja bæjarbúa og bæjaryfirvöld til meiri skilnings og skarpari átaka um þrifnað, hirðu og fegrun húsa og lóða. Fegrunarfélag Reykjavíkur hefur, með samþykki bæjarráðs, valið 18. ágúst til fjársöfnunar- og kynningardags fyrir starfsemi sína.

Hinn mikli vöxtur Reykjavíkur að íbúatölu er ekki að óskum okkar Reykvíkinga. Við finnum glöggt þá örðugleika sem hið óeðlilega aðstreymi leggur okkur á herðar. Það skapar okkur gífurlegan kostnað. Við þurfum þess vegna að leggja fleiri götur, byggja fleiri skóla, fleiri íbúðir. Mannvirki okkar, vatnsveita, raforkuver, hitaveita, höfn, verða of lítil fyrr en verða mundi ef fjölgunin væri róleg og eðlileg. Þjóðfélagslega er þessi þróun ekki æskileg. Eðlileg hlutföll raskast milli höfuðborgar og landsins í heild.

En þótt þessi mikla fólksfjölgun í Reykjavík sé ekki eftir óskum okkar eru hún að því leyti fyrir atbeina okkar að höfuðborgin lokkar með auknum atvinnurekstri og lífsþægindum. Allir menn vilja helst þar búa sem best er.

Að sjálfsögðu bjóðum við þá velkomna sem hér eru löglega búsettir og með okkur vilja vinna að uppbyggingu borgarinnar. En við hljótum fyrst og fremst að óska jafnvægis í þjóðfélaginu. Jafnvægið verður best tryggt með því að önnur byggðarlög bjóði jafngóð afkomuskilyrði og jafnmikil lífsþægindi og höfuðborgin. Sum byggðarlög stynja undan útstreymi fólksins, íbúðir, skólahús og önnur mannvirki eru ekki að fullu notuð. Reykjavík stynur undan þunga þeirra fjárfreku framkvæmda sem hinn öri fólksstraumur útheimtir. Hér fara saman hagsmunir Reykjavíkur og landsins alls. Byggðirnar eiga samleið með okkur um að leita jafnvægis.

Við Reykvíkingar höfum sýnt í verki og viljum sýna að hugur fylgir máli. Ég vil nefna eitt dæmi. Sogsvirkjun, sem Reykjavík hefur komið á fót, skapar Reykvíkingum rafmagn til lýsingar, eldunar og iðnaðar. En hún hefur einnig veitt ljósi og yl til margra byggðarlaga utan Reykjavíkur. sú mikla aukning Sogsvirkjunar sem nú er að hefjast miðar að þrennu: 1) Að fullnægja rafmagnsþörf Reykjavíkur, 2) að útvega rafmagn til sveita og sjávarþorpa á Suðurlandi og 3) að skapa grundvöll fyrir áburðarverksmiðju sem verður lyftistöng fyrir íslenskan landbúnað.“

Þessu merka ávarpi Gunnars Thoroddsens lýkur á þessum orðum, herra forseti:

„Það er ósk mín og einlæg von að samstarf og skilningur vaxi og eflist milli Reykjavíkur og annarra byggðarlaga. Og Reykvíkingum öllum vil ég óska þess á afmælisdegi borgarinnar að farsæld og fegurð krýni þennan stað sem öndvegissúlur Ingólfs kusu að tilvísan æðri máttarvalda.“

Og lýk ég þá við að lesa þetta ávarp sem Gunnar Thoroddsen flutti í Ríkisútvarpið á afmælisdegi Reykjavíkur 18. ágúst 1949.

Herra forseti. Það kann einhver að vera hissa á því að ég kýs að lesa þetta ávarp sem flutt var fyrir þetta löngu. En ég var þeirrar skoðunar, eftir að hafa lesið það og reyndar oftar en einu sinni, að þau orð sem þarna voru mælt af svo mikilli speki og á svo fallegu máli ættu fullt erindi til okkar enn þann dag í dag og ættu reyndar, því miður, óvenjulega vel við þar sem aðstreymi fólks af landsbyggðinni til Reykjavíkur er nú í hlutföllum eitthvað svipað og það var á þeim árum sem Gunnar Thoroddsen gerði að umtalsefni.

Ég er sammála Gunnari Thoroddsen um að það væri okkur öllum í hag að snúa þessari þróun við. Ég held að hún sé engum til góðs og Reykjavík ekkert fremur en landsbyggðinni sjálfri. Þess vegna fari saman hagsmunir okkar allra í því að reyna að spyrna þarna við fótum. Til þess erum við nú að ræða byggðamál, herra forseti, að eitthvað miði okkur áfram í þá átt.

Ég er þeirrar skoðunar að almennt séð sé óheppilegt og óskynsamlegt að ætla sér að fjarstýra byggðamálum og átaki til uppbyggingar atvinnulífs og öðrum þeim málum, sem undir þetta falla, héðan á einum stað úr Reykjavík. Ég teldi æskilegra að menn breyttu því fyrirkomulagi, sem viðgengist hefur og taka á nú við, á þann veg að hin miðstýrða stofnun, hin eiginlega byggðastofnun yrði minni að umfangi en meira af starfinu dreifðist út til þess fólks sem er á vettvangi á hverjum stað. Þess vegna er það miður, að mínu viti, að menn skuli ekki breyta þessu frv. í þá veru að Byggðastofnun hafi meira verkefni hvað varðar samstarf og samvinnu við einstök samtök úti í hinum dreifðu byggðum landsins sem starfa á þessu sviði.

Það er einnig mikið talað í dag um valddreifingu, herra forseti. Það er nánast orðið eins og tískuorð, valddreifing, og allir ganga út frá því sem gefnu að slíkt sé af hinu góða að mér skilst. Samt er það svo, að þessum málum sem og reyndar mörgum fleirum í okkar stjórnskipan hefur verið skipað af ótrúlega mikilli miðstýringu á undanförnum árum. Það er ekki heldur sjáanlegt að sú ríkisstj. sem nú ræður ríkjum á Íslandi hyggist breyta miklu þar um. Þetta er að mínu viti miður.

Herra forseti. Ég held að það sé einnig óhjákvæmilegt að við gerum okkur grein fyrir því, þegar við ræðum þessi mál eins og staða þeirra er nú og ég tel ekki nema eðlilegt og skylt að við gerum það í nokkru máli, hvert ástandið er núna á því herrans ári 1985 og hvað hefur gerst á þeim 1–2 síðustu árum sem við höfum upplýsingar um til að skoða. Það hlýtur að ráðast af því, verkefnið og tilgangur þess að stofna sérstaka Byggðastofnun, hvernig málin horfa í þessum efnum. Ég geri ekki ráð fyrir að menn sæju ástæðu til að setja lög um sérstaka Byggðastofnun ef þeir teldu byggðahorfurnar vera eins og þeir vilja hafa þær. Ég ætla þá að vitna ofurlítið, til ársskýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins, reyndar ekki þeirrar nýjustu sem er frá 1984, heldur skýrslu sem kom út árið 1983 og er að mínu viti á sinn hátt miklu merkara plagg en það sem næst kom á eftir því að þar er, í kaflanum um byggðadeild, ágætlega skilgreindur sá vandi sem við er að glíma í byggðamálunum, vandi byggðaþróunar, og vikið að því hvað helst mætti til varnar verða vorum sóma í þeim efnum. Ég mun þá lesa þann hluta.kaflans um byggðadeild Framkvæmdastofnunar sem fjallar um og heitir vandamál byggðaþróunar. Hefst þá lesturinn, með leyfi forseta:

„Eftir áratuga byggðaröskun náðist loks jafnvægi í fólksflutningum á milli landsbyggðar annars vegar og Suðvesturlands hins vegar um miðjan síðasta áratug. Þetta jafnvægistímabil var stutt eða fimm ár. Á árunum 1975–1979 fluttust samtals 21 411 manns til landsbyggðarinnar sem er svæðið frá Hvalfjarðarbotni hringinn um landið að Hellisheiði syðra, en samtals 21 405 fluttu af landsbyggðarsvæðinu til Suðvesturlands.

Á árinu 1980 má segja að þessu örstutta jafnvægistímabiti lyki og síðan hafa fólksflutningar frá landsbyggð til Suðvesturlands aukist ár frá ári eins og tölurnar hér á eftir sýna:

Flutningar frá Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi til Suðvesturlands, nettó.

1980 127 manns, 1981 621 manns, 1982 722 manns og árið 1983 949 manns.

Landsbyggðin hefur þannig tapað 2419 manns til Suðvesturlands á fjórum árum og ekki verður betur séð en að flutningar þessir séu í vexti.“ — Og reyndust orð að sönnu, herra forseti, er þetta var mælt á árinu 1984, þegar skýrslan fyrir árið 1983 kom út, því að á því heita ári sem síðan er liðið bættust við á annað þúsund manns í þennan hóp. — „Í árslok 1979 voru íbúar landsbyggðarsvæðisins 93 163. Þessi brottflutningstala svarar til 2.9% þess fjölda.

Á áratugnum 1971–1980 var öflug atvinnuuppbygging víðs vegar á landsbyggðinni í kjölfar útfærslu landhelginnar. Munaði þar mest um tilkomu skuttogara og eflingu hraðfrystiiðnaðarins. Á þessum áratug, 1971–1980, fjölgaði til dæmis ársverkum í fiskiðnaðinum um 952 á Suðvesturlandi, en um 2577 á landsbyggðinni. Einnig fjölgaði störfum í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð meira úti á landi en suðvestanlands eða um 1583 ársverk á landsbyggðinni, en 430 á Suðvesturlandi. Í almennum iðnaði fjölgaði ársverkum hins vegar ívið meira suðvestanlands eða um 2391 en 1651 á landsbyggðinni. Í þjónustugreinum var munurinn hins vegar mikill Suðvesturlandi í hag. Þar fjölgaði um 11 079 ársverk í þjónustugreinum, en um 4815 úti á landi. En þetta mynstur atvinnuþróunar dugði skammt til þess að búa til þetta stutta jafnvægistímabil í fólksflutningum og þar með í byggðaþróun í landinu.

Ástæður þess að nú hallar undan fæti má annars vegar rekja til þess hversu „miðsækin“ öll þjónustustarfsemi er til allsherjarþjónustumiðstöðvar landsmanna, höfuðborgarsvæðisins, og vaxandi byggingarstarsemi. Þjónustustarfsemi úti á landi er yfirleitt það lítil og á það erfitt uppdráttar að á móti grunngreinum koma einungis 1–2 störf í þjónustugreinum úti á landi. Þjónustumargföldun á höfuðborgarsvæðinu vegna tilkomu starfa í grunngreinum úti á landi er mun meiri. Hve miklu meiri er erfitt að fullyrða nákvæmlega því þessi margföldun er misjöfn eftir því hvaða viðmiðunarár eru valin. Við þetta bætist svo veruleg fækkun í einni af grunngreinum landsbyggðarinnar, landbúnaði.

Tölurnar hér á eftir sýna fjölgun starfa í öllum atvinnugreinum á árunum 1980, 1981 og 1982. Tölurnar fyrir 1980 eru reiknaðar út frá tryggðum vinnuvikum þar sem atvinnustarfsemi fer fram, en tölurnar fyrir 1981 og 1982 eftir launamiðum skráðum á lögheimili starfsmanna.“

Fjölgun ársverka.

Suðvesturland: árið 1980 1835, árið 1981 2283, úrið 1982 2374. Fyrir sömu ár eru þessar tölur á landsbyggðinni: fyrir árið 1980 1560, fyrir árið 1981 1383 og fyrir árið 1982 er þetta komið ofan í 434. Hlutföllin eru þá þau, herra forseti, að árið 1980 skiptist fjölgun ársverka þannig að 54% koma á Suðvesturland en 46% á landsbyggðina, árið 1981 komu 62% á Suðvesturland en 38% á landsbyggðina og árið 1982 komu 85% á Suðvesturland en 15% á landsbyggðina. Einungis 15% nýrra starfa komu í hlut þeirra 40% íbúanna sem á landsbyggðinni búa.

Síðan segir: „Það sem lesið verður út úr þessum tölum er minnkandi atvinnuuppbygging úti á landi, sérstaklega í byggingum og mannvirkjagerð annars vegar og í þjónustugreinum hins vegar. Landsbyggðin hefur enn betur í fiskveiðum og fiskvinnslu, en 70% nýrra starfa í verslun urðu til á Suðvesturlandi, 78 % í bönkum, tryggingastarfsemi o. fl., 65% í iðnaði og veitum, en hvorki meira né minna en 97% í byggingum og mannvirkjagerð.“ — 3% af nýjum störfum í byggingum og mannvirkjagerð komu í hlut landsbyggðarinnar á þessum þremur árum.

„Sú þróunarstefna sem lesa má úr þessum tölum er uggvænleg. Haldi svo áfram virðist ný flóðbylgja flutninga af landsbyggðinni til Suðvesturlands vera að rísa í líkingu við þá sem skall á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum á sjötta áratugnum. Slíkt er hvorugs hagur, Suðvesturlands né landsbyggðar, og er síst af öllu hagkvæmt fyrir þjóðarheildina“ — og getur sá sem hér talar tekið undir það. „Slík þróun getur komið upp vítahring sem erfitt getur verið að rjúfa og kann að leiða til þess að sífellt verði erfiðara að manna hinar þýðingarmiklu fiskvinnslustöðvar úti á landi og öllu mannlífi á landsbyggðinni hraki.

Hins vegar leiðir slík þróun til vaxandi þenslu suðvestanlands og aukins tilkostnaðar á fjölmörgum sviðum. Líklegt er að mikil byggðaröskun dragi verulega úr hagvexti. Á Suðvesturlandi búa nú yfir 142 þús. manns sem eru tæp 60% þjóðarinnar. Hagkvæmast er fyrir þetta fólk að búa nokkurn veginn við eigin fólksfjölgun. Hin ýmsu kerfi, svo sem skólakerfi, umferðarkerfi o. s. frv., geta þá þróast átakalaust og á hagkvæman hátt. Flóðbylgja innflytjenda af landsbyggðinni mun raska þessari uppbyggingu jafnframt því sem nýting dýrra mannvirkja á landsbyggðinni minnkar.

Í inngangskaflanum hér að framan voru líkur leiddar að því að gera yrði verulegt átak til að tryggja nægilega öra hagþróun í landinu á allra næstu árum. Það ástand sem hér hefur verið lýst bendir eindregið til þess að þetta átak verði að mjög verulegu leyti að fara fram á landsbyggðinni“ — að mjög verulegu leyti að fara fram á landsbyggðinni, ég endurtek, herra forseti.

„Eftirfarandi tafla sýnir á einfaldan hátt horfur á íbúa- og mannaflaþróun Suðvesturlands og landsbyggðarinnar á árabilinu 1982–1992 ef fólksflutningar verða engir og þá um leið hve mikið atvinnulíf þessara svæða þarf að vaxa, án tillits til framleiðniþróunar, eigi full atvinna að haldast á báðum svæðunum.“

Og síðan kemur taflan:

Íbúa- og mannfjöldaþróun 1982–1992 skv. framreikningi. Þá eru tvær spár, annars vegar lægri spá fyrir minni fólksfjölgun upp á 0.90% á Suðvesturlandi og 0.92% á landsbyggð og hærri spá upp á 1.08% á Suðvesturlandi og 1.11% á landsbyggð. Þannig yrði aukning mannaflans, miðað við þessar hlutfallstölur, 8688 manns á Suðvesturlandi og 8136 manns á landsbyggðinni og meðalaukning mannafla þannig í prósentum 1.22% fyrir Suðvesturland og 1.71% fyrir landsbyggð. Þetta þýðir það, herra forseti, miðað við þau hlutföll íbúa sem eru á þessum tveimur landsvæðum, að nettóvaxtarþörf atvinnu á árunum 1982–1992 þyrfti að vera 12.9% fyrir Suðvesturland, en 18.5% fyrir landsbyggð. En nettóvaxtarþörf iðnaðar og þjónustu, ef öll atvinnuaukning kemur fram í þeim greinum, sem reyndar er af ýmsum talið líklegt að verði a. m. k. að mestu eða verulegu leyti, að vera 14.6% á Suðvesturlandi en 29.9% á landsbyggðinni eða rétt tæp 30%, þ. e. tvöfalt meiri en á Suðvesturlandi.

Þessar tölur, herra forseti, segja að mínu viti meira en flestar þær tölur aðrar sem ég hef séð settar fram um það átak sem þarf að gera á næstu árum ef menn eiga ekki endanlega að missa tökin í þessum efnum því að flestar spár sérfræðinga gera ráð fyrir að það verði fyrst og fremst störf í iðnaði og þjónustu sem bætist við á næstu árum. Meira að segja hefur æðsti páfi iðnaðarins, dr. Ingjaldur Hannibalsson, nýlega sent frá sér fullyrðingar um að jafnvel iðnaðurinn verði ekki sá bógur í þessum efnum sem menn hafa hingað til haldið, ósköp einfaldlega vegna þess að framleiðniaukning muni verða slík í iðnaði á næstu árum að þar muni tiltölulega fá ný störf bætast við. Og hvað segir það okkur, herra forseti? Eftir er þjónustan, ein af þeim greinum sem menn spá að bæti verulega við sig mannafla á næstu árum. Hún þarf þá að aukast um 30% á sama tíma og 14.6% mundu nægja Suðvesturlandinu. Skýringarnar á þessu liggja einkum í tvennu. Annars vegar að þjónustunni er misjafnt dreift um landið eins og hún er fyrir, en hins vegar að aldursskipting er þannig að fæðingartala verður aðeins hærri á landsbyggðinni en á Suðvesturlandi. En vegna mismunar á aldursskiptingu eru þeir árgangar sem eru á leið inn á atvinnumarkaðinn hlutfallslega enn stærri úti á landi en á Suðvesturlandi — og nú koma mjög athyglisverðar tölur, herra forseti. Landsbyggðin hefur 48% þess væntanlega mannafla, en um 40% íbúanna. Sem sagt: 48% af þeim sem koma inn á vinnumarkaðinn á næstu 10 árum eru á landsbyggðinni, en einungis 40% íbúanna. Þetta eru tölur sem menn eiga að hafa í huga þegar þeir ræða þessi mál. (Gripið fram í: Ekki er þetta þó í ársskýrslunni?) Ýmislegt fróðlegt er í ársskýrslunni, virðulegur þm. Ég nota tölur og upplýsingar úr ágætri ársskýrslu Framkvæmdastofnunar, fyrir árið 1983 vel að merkja, til að skýra mál mitt. Ég vék að því að mér þætti kaflinn um byggðadeild Framkvæmdastofnunar í þessari skýrslu fyrir árið 1983 sýnu merkari en í skýrslunni sem á eftir kom.

Enn fremur segir í þessari skýrslu, herra forseti: „Þess vegna þarf atvinnulífið sem heild einnig að vaxa hlutfallslega meira úti á landi en á suðvesturhorninu“og má það ljóst vera af þeim tölum sem ég rakti áðan. „En sé þar að auki tekið tillit til þess að í landbúnaði, fiskveiðum og fiskiðnaði eru samtals 47% ársverka á landsbyggðinni, en einungis 8% suðvestanlands verður dæmið enn erfiðara viðfangs. Fáir búast við að þessar þrjár greinar til samans geti tekið til sín verulegan viðbótarmannafla í framtíðinni ef nokkurn. Sé gert ráð fyrir að allur vöxtur atvinnulífs verði í iðnaðar- og þjónustugreinum þurfa þær til samans að vaxa um tæp 15% suðvestanlands en um tæp 30% úti á landi.“ Mér þykir vænt um að hv. 2. þm. Reykv. stendur hér við hliðina á mér og fær að heyra þessar tölur. Vonandi festast þær honum í minni. — En það gerir, eins og segir í skýrslunni, dæmið enn erfiðara viðfangs en ella.

„Nú skal tekið fram að hér er einungis tekið tillit til beinnar fjölgunar fólks á vinnumarkaði miðað við óbreytta atvinnuþátttöku eftir kynjum og aldurshópum frá 1982. Ekki er tekið tillit til framleiðniaukningar sem hlýtur að verða töluverð ef ekki mikil á þessu tímabili í þeim atvinnurekstri sem fyrir er. Framleiðniaukning kemur að hluta til fram sem framleiðsluaukning óbreytts mannafla, en einnig að hluta sem fækkun starfa samfara lítt breyttri framleiðslu. Heildarfjöldi ársverka á landsbyggðinni 1982 var 46 213, en á Suðvesturlandi 64 955. Ef menn hugsuðu sér að 1% starfa hyrfi á ári hverju vegna framleiðsluaukningar, til að byrja með 462 störf á landsbyggðinni en 650 á Suðvesturlandi, eykst vaxtarþörf atvinnulífsins að sama skapi.

Í hluta byggðadeildar í ársskýrslu s. l. árs var „auglýst“ eftir nýrri byggðastefnu. “Ég endurtek, herra forseti: „Í hluta byggðadeildar í ársskýrslu s. l. árs var „auglýst“ eftir nýrri byggðastefnu. Deildin hefur unnið kappsamlega á árinu 1983 við að undirbúa slíka stefnumótun. Með starfsáætlun deildarinnar fyrir 1984 verða lagðar fram tillögur um hvernig staðið skuli að gerð og framkvæmd byggðaþróunaráætlana og tengdri starfsemi á næstu árum og hvernig hagkvæmast sé að efla starfsemina.“

Þetta, herra forseti, lýsir að mínu mati nokkuð vel þeim vanda sem við er að eiga í byggðamálum á Íslandi. Þau hlutföll, sem ég hef hér gert að umtalsefni, sem eru í dreifingu starfa í landinu, hið háa hlutfall þjónustu og iðnaðar hér á suðvesturhorninu og hið hlutfallslega háa hlutfall starfa í framleiðslugreinum, sjávarútvegi og landbúnaði, úti á landi og gerir það viðfangsefni, sem er umræðuefni okkar hér í kvöld, þ. e. byggðamálin, snúnara viðfangs en ella.

Og nú er tími til kominn að nefna það sem mér finnst kannske hvað alvarlegast í umræðunum um þetta mál og í öllu þessu máli. Það er að frv. þetta brýtur ekki í blað á nokkurn hátt í þessum efnum. Það er ekki vorboði nýrra tíma, nýrra átaka í byggðamálum að mínu viti, þetta frv., herra forseti, um nýja Byggðastofnun, því miður, nema síður sé. — Hv. 2. þm. Reykv. er mér innan handar, herra forseti, um ýmislegt, enda ekki óeðlilegt. Við erum nágrannar og okkur er ágætlega til vina. Ég hef nú fengið hér í hendur íslenska orðabók Menningarsjóðs og mun hafa hana mér til halds og trausts ef mér skyldi verða það á að þurfa að vitna til hennar síðar í umr. (FrS: Þér verður ekki orða vant.) Þakka ég hv. 2. þm. Reykv. þessa óvenjulegu hugulsemi við mig.

En herra forseti. Ekki hefði mér þótt það verra, þó að ég sé nú ekki að lasta ágæta fundarstjórn virðulegs forseta og 3, þm. Vestf., að í forsetastóli hefði verið ágætur 1. þm. Norðurl. e. þegar ég hefði komið að næsta hluta ræðu minnar. Þar ætlaði ég að fjalla örlítið um ástandið sérstaklega í þessum málum á Norðurl. e. vegna þess m. a. að hér hefur verið nokkuð til umræðu sú hugmynd að flytja Byggðastofnun í þennan téða landshluta. (ÓÞÞ: Er verið að reka forseta úr forsetastól?) Ég tók sérstaklega fram, virðulegur þm., að ég hefði síður en svo á móti því að hafa þennan ágæta forseta mér til halds og trausts og una við hans ágætu fundarstjórn, en ég nefndi þetta vegna þess að 1. þm. þess kjördæmis sem ég ætlaði að gera sérstaklega að umtalsefni er einmitt forseti Nd. og er sömuleiðis ágætur fundarstjóri og alls góðs maklegur.

En ég ætlaði að víkja örlítið nánar að ástandinu í einum sérstökum landshluta, í Norðurl. e., eins og það er nú og var síðasta ár, því að þar er við sérstaklega erfið vandamál að glíma, eins og ég hef reyndar áður nefnt í þessari umr. Það er ekki nema von að menn líti ofurlítið til þess hvernig málunum er þar háttað vegna þess, eins og ég áður sagði, að menn hafa rætt hér nokkuð þann möguleika að flytja Byggðastofnun einmitt í þennan landshluta. Því er sem sagt þannig komið þarna á Norðurl. e., sem hýsir stærsta þéttbýlissvæði utan Reykjavíkur, Akureyri og Eyjafjörðinn, að þaðan fluttist meira en einn maður á hverjum einasta degi s. l. árs og má þá segja að bleik sé brugðið því að lengst af var það þó svo að Akureyri og Eyjafjörðurinn héldu best sínum hlut gagnvart höfuðborgarsvæðinu, hvort heldur eru röskunartímabil fyrr á öldinni eða það röskunartímabil sem yfir gekk í tíð viðreisnarstjórnarinnar sálugu.

Ég mun nú grípa ofan í ársskýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins fyrir árið 1984 sem hefur nýlega borist mér í hendur (Gripið fram í: Ekki er hún á dagskrá?) og lýsir ágætlega ástandinu við Eyjafjörðinn sem er á dagskrá í umr. um nýja Byggðastofnun, hv. þm. Með leyfi forseta segir:

„Norðurland eystra með Eyjafjörð og Akureyri hefur löngum verið höfuðvígi landsbyggðarinnar.“ (StG: Og Framsfl.) Ég kem ekki auga á það. Þó að þessi ársskýrsla sé unnin undir forustu þess ágæta þm. sem hér greip fram í kem ég ekki auga á að þar standi: og Framsfl. (StG: Það ætti þm. samt að vita.) Enda hefði trúlega einhverjum þótt nokkuð langt gengið með stjórnun þessa ágæta þm. á stofnuninni ef honum hefði tekist að lauma þarna inn í skýrsluna ákveðnum setningum um Framsfl. sem ég tel ekki eiga beint erindi inn í þennan ágæta kafla um byggðamál. — „Frá 1971 hefur meðaltalsfjölgun íbúa verið 1.1%, en fyrir neðan þá tölu frá 1980. Norðurland eystra endurspeglar þá heildarmynd sem hér hefur verið lýst af byggðaþróun í landinu“ — og er þar vitnað til umfjöllunar framar í skýrslunni — „enda vegur þessi landshluti þungt í íbúafjölda í þeirri mynd. Dregið hefur úr fólksfjölgun á Norðurlandi eystra á hverju ári síðan 1980, en ekki fækkaði þó fyrr en á árinu 1984 (StG: Var það þegar þm. fór á þing?) og þá um 0.7% sem verður að teljast verulegt áfall. (Forseti: Mætti ég biðja hv. 5. þm. Norðurl. v. að stilla máli sínu í hóf utan ræðustóls.) Ég vil nú segja, herra forseti, af þessu tilefni að ég hef síður en svo á móti því að hv. 5. þm. Norðurl. v. grípi hér inn í, alveg sérstaklega ekki ef hann er hnyttinn og skemmtilegur eins og hann getur stundum verið. En ég held þá áfram máli mínu, herra forseti:

Dregið hefur úr fólksfjölgun á Norðurlandi eystra á hverju ári síðan 1980, en ekki fækkaði þó fyrr en á árinu 1984 og þá um 0.7%. Það er svo merkilegt að fleira gerðist en að sá sem hér talar kæmist á þing um þetta leyti, sem var reyndar á árinu 1983, því það kom nefnilega ný ríkisstjórn yfir landið einmitt um svipað leyti. Sá sem hér talar hafði ekki verið þm. nema í rétt rúman mánuð þegar ný ríkisstj. tók við völdum á Íslandi. Það er einmitt á því ári sem nefnd ríkisstjórn tók við og næsta heila árið sem hún stjórnaði landinu sem þau ótíðindi gerðust í fyrsta sinn um langan tíma að fólki fækkaði á Norðurlandi eystra.

„Akureyri hefur löngum verið mestur vaxtarkjarni landsbyggðarinnar, bæði af eigin fjölgun og sem aðflutningskjarni stórs landshluta. Árið 1983 gerðist það að þar fækkaði fólki sem ekki hafði gerst nema einu sinni áður. Á árinu 1984 fækkaði íbúum Akureyrar svo annað árið í röð og það hefur aldrei gerst áður. Sömu söguna er að segja af öðrum þéttbýlisstöðum. Á Húsavík fækkaði íbúum um 1% og á Ólafsfirði um 3.4%. Þar eru nú jafnmargir íbúar og árið 1977. Á Dalvík fækkaði íbúum um 0.5%, en á Raufarhöfn um 3.4%. Þar eru íbúar nú jafnmargir og árið 1972. Á Þórshöfn fækkaði íbúum um 6.1% og eru þeir nú einnig jafnmargir og árið 1972. Þessi óheillaþróun stendur framförum í landshlutanum að sjálfsögðu fyrir þrifum.

Landshlutinn [þ. e. Norðurl. e.] hefur tapað nær 800 manns í innanlandsflutningum frá 1980 og stóru þéttbýlisstaðirnir tapa einnig, enda þótt þeir hafi á undanförnum árum tekið á móti verulegum fjölda aðfluttra úr sveitum. Nú hefur dregið mjög úr aðflutningi til þéttbýlisstaðanna nema Akureyrar. Brottflutningur hefur aukist sérstaklega frá Akureyri.“

Og því næst segir í þessari ágætu skýrslu, herra forseti:

„Ekki þarf að tína til fleiri atriði til að sýna hversu alvarlegt ástandið á Norðurlandi eystra er og hvernig s. l. ár er greinilegt spor í öfuga átt. Í landshlutanum er þó að finna töluverða viðleitni til þess að snúa þessu við, enda þótt greinilegt sé að hún hafi ekki enn skilað árangri.“

Mér finnast þessar upplýsingar, herra forseti, eiga fullt erindi inn í umr. um nýja byggðastofnun og um þann möguleika að staðsetja hana á Akureyri. Þess vegna hef ég kosið að vitna til þeirra. Mér þykir einnig vænt um að hér situr þó a. m. k. einn annar þm. úr þessu ágæta kjördæmi sem ég veit að er mér örugglega sammála um að þær tölur og þær upplýsingar, sem ég hef hér vitnað í, ljúga engu til um hversu alvarlegt í raun er ástandið á þessu landsvæði. Menn ættu að hugleiða augnablik, herra forseti, að hér erum við þó að tala um langstærsta og öflugasta byggðakjarnann á allri landsbyggðinni. Akureyri hefur á slíkum samdráttartímabilum borið höfuð og herðar yfir aðra staði á landsbyggðinni, þótt með örfáum undantekningum sé, að halda sínum hlut gagnvart fólksfjölgun hér á suðvesturhorninu. Það ætti að verða mönnum nokkurt umhugsunarefni að þessi öflugi byggðakjarni með þessum stóra kaupstað, Akureyri, skuli nú svo grátt leikinn af þessari óheillaþróun.

Ég hafði því kannske einmitt vegna þessa vænst þess, herra forseti, að meiri skilning væri að finna í hópi hv. þm. á því að Akureyri væri ekki óeðlilegur staður til að byrja á, ef menn á annað borð ætla sér eitthvað til verka í því að flytja og dreifa nokkuð ríkisstofnunum um landið.

Ég gæti, herra forseti, vitnað bæði meira í hvernig ástandið er í byggðamálunum á Akureyri og ég gæti einnig vitnað meira í það hvaða möguleika ég tel tiltæka til að snúa þessari þróun eitthvað við. Ég hef t. d. undir höndum álit nefndar sem þáv. menntmrh. skipaði 27. maí 1982 til að gera tillögur um hvernig vinna megi að því að efla Akureyri sem miðstöð mennta og vísinda utan höfuðborgarinnar. Það var allmerkilegt starf sem þar fór fram, herra forseti, og gerð góð úttekt, ekki bara á Akureyri sem samfélagi og þeim möguleikum sem í því felst heldur einnig á því hvaða stjórnvaldsaðgerðir gætu komið til greina við það verk að efla Akureyri sérstaklega sem miðstöð mennta og vísinda utan höfuðborgarinnar.

Ég var að hugsa um að spara tímann, herra forseti, með því að fara ekki mjög ítarlega ofan í þessa skýrslu af því að það yrði alllangt mál ef ég.færi að vitna í hana eins og vert væri og þarft, en ég vil þó ræða þann kost, sem margir hafa velt upp í umræðu um byggðamál, að efla einn eða fáa staði sérstaklega til mótvægis við Reykjavík eða suðvesturhornið og gjarnan hafa menn þá nefnt Akureyri. Ég vil segja það, og ég vil að það liggi alveg ljóst fyrir, að þó að ég taki mér oft þennan ágæta stað, Akureyri, í munn er þetta ekki sú byggðastefna sem ég hef helst viljað sjá fyrir mér. Ég er þeirrar skoðunar að það muni ekki þurfa að hafa miklar áhyggjur af stöðum eins og Akureyri og Borgarnesi og öðrum slíkum ef sú byggð, sem að baki þeim liggur, stendur með sæmilegum blóma. Það er sannfæring mín að þjónustumiðstöðvarnar muni að verulegu leyti sjá um sig sjálfar og eflast af sjálfu sér ef undirstöður mannlífsins og byggðarinnar í hinum dreifðu byggðum eru traustar. En það sem kannske er að í dag er einmitt að svo er ekki. Með því er ég ekki að segja, enda ætti mönnum að vera það ljóst af máli mínu, að ég vilji ekki líta til þeirra möguleika sem í Akureyri sjálfri felast eða öðrum slíkum stöðum. Mín byggðastefna er hins vegar sú, eins og hv. 3. þm. Reykv. reyndar minntist á, að við lítum til allrar byggðarinnar í landinu í þessum efnum og við gleymum hvorki sveitunum né sjávarplássunum þegar við fjöllum um þessi mál. Ég vil hafa Ísland nokkurn veginn eins og það er með því byggðamynstri sem þar er fyrir. Það er ekki mín byggðastefna að þjappa fólkinu á landsbyggðinni saman í örfáa stóra kjarna til einhvers mótvægis við Reykjavíkursvæðið. Það er ekki byggðastefna í mínum huga, herra forseti. Mín byggðastefna er sú að gera fólkinu kleift að búa og starfa og hafa sæmilega afkomu í þeim samfélögum sem það býr í nú og að þannig treystum við byggðina og höldum landinu í byggð. Reyndar er það svo, m. a. vegna öfugþróunarinnar undangengin ár, að ýmis byggðarlög eru mjög hætt komin og nánast ekki bjarglegar einingar í þeirri mynd sem þar blasir við nú. Ég held þess vegna að það þurfi inn í nýja byggðastefnu að taka sérstaka áætlun um að styrkja þær byggðir sem veikast standa og koma þjónustukjörnum í byggðarlögum upp í einhverja ákveðna stærð sem nú eru ekki færir um stærðar sinnar vegna að sinna því þjónustuhlutverki sem þjónustukjarni í einu byggðarlagi þarf að geta gert. Ég hefði því talið að það ætti að vera liður í nýrri byggðastefnu að menn settu sér ákveðin markmið í þessum efnum, menn spyrðu þeirrar spurningar: Hversu stór þarf þjónustukjarni í einu byggðarlagi að vera til að hann geti sinnt því hlutverki sem hann þarf að geta sinnt til að þar sé hægt að bjóða upp á þá þjónustu, skóla- og heilbrigðisþjónustu t. d., sem fólk í hverju byggðarlagi í einni samgöngulegri heild á heimtingu á að hafa? Ég yrði ekki frá því, herra forseti, að menn kæmust að þeirri niðurstöðu að einn slíkur þjónustukjarni, ein slík samgönguheild þyrfti að telja 800–1000–1500 manns til þess að það væri vænlegt og líklegt að sú þjónusta og það mannlíf gæti blómgast sem menn gera eðlilega og eðli máls samkvæmt kröfu til nú. Eins og allir vita, sem kunnugir eru um landið, yrðu nokkur byggðarlög þarna út undan. Þar er þessi fólksfjöldi ekki fyrir hendi og ekki horfur á því að svo verði á allra næstu árum nema eitthvað nýtt komi til. Þá eiga menn og verða menn að svara þeirri spurningu: Eru menn tilbúnir að kosta því til sem þarf að koma þessum byggðarlögum og styðja þessi byggðarlög upp í þá lífvænlegu stærð sem við stefnum að? Ég er þeirrar skoðunar að sérhver byggð á Íslandi, sérhvert hérað sem í byggð er eigi rétt á sér og eigi að stefna að því að reyna að halda sér í byggð. Ég tel óskynsamlegt og óheppilegt að eyðurnar á byggðalandakortinu okkar verði stærri en þær þegar eru. Og ég spyr líka: Hver ætlar að taka ákvörðun um að eitthvert byggðarlag á Íslandi eigi ekki tilverurétt, eigi ekki rétt á sér og fólkið þar sem þar hefur búið og barist í þeirri trú að það byggi í lífvænlegu umhverfi? Hver ætlar að fella þann Salómonsdóm að það sé á misskilningi byggt og þetta fólk eigi sér ekki tilveruforsendur í viðkomandi byggðarlagi? Ég held að það geti enginn maður gert. Þess vegna verðum við að taka þessi byggðarlög og skoða aðstæður þar og möguleika þeirra og gera það sem til þess þarf að þar geti orðið bjargleg og blómleg byggð sem standi fyrir sínu, skili sér og sínu fólki þeim lífsskilyrðum og lífskjörum sem allir Íslendingar gera kröfu til.

Herra forseti. Nú nálgast miðnættið óðum og ég hafði ekki hugsað mér að halda áfram öllu lengur en til miðnættis, en það vill svo vel til að hæstv. forsrh. er í salnum og hlýðir á umr. sem lofsvert er. Af því tilefni ætlaði ég að spyrja hann tveggja efnislegra spurninga. Nú eru komnar fram við þetta frv. tvær brtt., önnur er flutt af þeim hv. þm. Halldóri Blöndal, 2. þm. Norðurl. e., og Svavari Gestssyni, 3. þm. Reykv., og hin mun flutt af hv. 5. þm. Vestf. Þær ganga báðar út á það, þó hvor með sínum hættinum, að setja inn ákveðin ákvæði þess efnis að heimilt sé að staðsetja Byggðastofnun annars staðar en í Reykjavík. Önnur kveður svo á um að það skuli þá vera á Akureyri, en hin að það skuli vera utan Reykjavíkur. Ég gæti sagt ýmislegt um þessar brtt. og um þann kost að vera yfirleitt að setja einhver ákvæði í frv. eða væntanleg lög ef menn ekki hafa þau þá afdráttarlaus. Ég lýsti því áður í umr. að ég teldi þó jákvætt og jafnvel betra en ekki að nefna þann möguleika t. d. að Akureyri yrði fyrir valinu eða að heimilt væri að Akureyri yrði fyrir valinu. Vegna þess að hæstv. forsrh. hefur, bæði úr þessum virðulega ræðustól og reyndar víðar að mér skilst, lýst því yfir í heyranda hljóði að hann væri ekki mótfallinn því, efnislega mun hann hafa orðað þetta eitthvað í þá veru að hann væri ekki mjög mótfallinn því að Byggðastofnun yrði staðsett á Akureyri, vil ég spyrja hann beint:

Er hann þá sáttur við þá brtt. sem hv. þm. Halldór Blöndal og Svavar Gestsson hafa hér flutt við 3. umr., getur hann sætt sig við hana og mun hann greiða henni atkv. sitt? Er hann jafnvel tilbúinn að lýsa því yfir af hálfu ríkisstj. að hún sætti sig við till. sem þarna er flutt? Ekki er óeðlilegt að svo sé spurt þar sem a. m. k. annar af þessum hv. þm. er talinn stuðningsmaður ríkisstj., en mjög óvíst með hinn.

Þá vil ég svo í öðru lagi spyrja: Ef hæstv. forsrh. vill ekki eða treystist ekki til að styðja brtt. þeirra hv. þm. Halldórs Blöndals og Svavars Gestssonar mundi hann þá fást fremur til að ljá fylgi sitt brtt. hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, 5. þm. Vestf.? Ég teldi mjög gott ef afstaða hæstv. forsrh. gæti legið fyrir og hann vildi lýsa hug sínum til þessa fyrirkomulags. Við höfum áður átt í umr. um þetta mál nokkur orðaskipti um þann kost að flytja þessa stofnun út fyrir höfuðborgina og hann lýsti þá einmitt ákveðnum skoðunum í þessu efni og taldi ekki óeðlilegt, ef ég man rétt, að stjórn stofnunarinnar hefði það á sinni könnu að taka um þetta ákvörðun. Það gefur nokkrar vonir um að hæstv. forsrh. treysti sér e. t. v. til að styðja aðra hvora þessa brtt.

Herra forseti. Þetta mun vera síðari ræða mín, af fullri lengd a. m. k., við 3. umr. um Byggðastofnun og ég tel mig hafa komið til skila að verulegu leyti því sem ég vildi um þetta mál sagt hafa. Þó er það þannig að lengi má við bæta og auðvitað er margt órætt þó að nokkuð hafi verið rætt af því sem heyrir undir byggðamál á Íslandi. Þetta er kannske sá málaflokkur sem okkur þm., sem m. a. erum kosnir til þessara starfa af fólki úr hinum dreifðu byggðum, er oft og tíðum mjög hugleikinn og samskipti okkar við fólk á landsbyggðinni snúast yfirleitt öll eða flest um mál sem þessu tengjast. Það er því ekki nema að vonum að þm. úr kjördæmum sem hafa slíkar byggðir, sem standa völtum fótum og þar sem lífsbaráttan og tilveran er nokkuð hörð, verði nokkuð skrafdrjúgt þegar þessi mál koma hér til umræðu. Mér fellur illa ef menn telja það af einhverjum annarlegum og illum hvötum sprottið að menn vilji ræða þessi mál allrækilega. Satt að segja lýsir það best þeim mönnum sem slík ummæli viðhafa. Og ég hlýt að spyrja í lokin: Telja menn það eitthvað óeðlilegt þó að hér standi dálítil umr. um byggðamál þegar á annað þúsund manns hurfu af landsbyggðinni á síðasta ári til Reykjavíkur? Finnst mönnum skrýtið að það skuli standa ofurlítið í þm. eins og þeim sem hér talar að úr hans kjördæmi flutti meira en einn maður á hverjum einasta degi ársins? Það er ekki mjög glæsileg þróun. Það er ekki sú framtíðarsýn sem ég hef fyrir mitt kjördæmi að sjá það smátt og smátt tæmast af fólki. Mér er Norðurland eystra ákaflega lítils virði ef allt fólkið er þaðan flutt. Það gæti auðvitað verið gaman fyrir einhverja náttúruskoðendur að taka sér þar gönguferð. En það Norðurland eystra sem ég þekki og er hingað kominn til þess m. a. að vinna fyrir er Norðurland blómlegra byggða. Það er Norðurland með nokkra tugi þúsunda manna. Ég tel það vera mitt hlutverk að vinna fyrir það Norðurland, en ekki fyrir eitthvert Norðurland sem í framtíðinni verður án íbúa. Ég vil láta þessi orð falla í lokin að gefnu tilefni því að til eru menn sem hafa hissast á því, eins og stundum var sagt í mínu ungdæmi, að sögð væru um byggðamál nokkur orð þegar þau loksins eru til umfjöllunar í Nd. Alþingis á árinu 1985.

Mun ég þá ekki hafa þessi orð mín fleiri og sleppa því að vitna í íslenska orðabók Menningarsjóðs, eins og hv. 2. þm. Reykv. ráðlagði mér að gera.