07.11.1984
Efri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegur forseti. Ég fer bara eftir þeim upplýsingum sem fyrir liggja með því frv. sem hér var lagt fram. Að ráðum hv. 4. þm. Vesturl. fletti ég fram á 5. bls. að upphafi 6. gr. þar sem talað er um endurskipulagningu á rekstri Landssmiðjunnar. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í tengslum við úttekt Helga G. Þórðarsonar á rekstri fyrirtækisins og samhliða viðræðum um yfirtöku starfsmanna á fyrirtækinu hefur staðið yfir víðtæk endurskipulagning á rekstrinum og hafa starfsmennirnir haft forustu um þá endurskipulagningu. Helstu markmið sem unnið hefur verið að “ o.s.frv.

Þetta er það sem starfsmennirnir gera þegar þeir eru að skoða hvort það er ráðlegt frá þeirra sjónarmiði að gerast eigendur að þessu fyrirtæki. Landssmiðjunni. Þessi skoðun þeirra. sem gerð er með það í huga að taka ákvörðun um það hvort þeir eigi að gerast eignaraðilar eða ekki, leiðir til þess að þeir ákveða að hægt sé að fækka um 15–20 manns. Þetta eru þeir sömu starfsmenn og rekið hafa fyrirtækið með fullri ábyrgð fyrir hönd ríkisins. Þeir svara sér sjálfir.

Ég var spurður af sama hv. þm.: Hvernig ætlar fjmrh. að ávaxta fé fast í grunninum sem kostar um 58 millj. kr.? Þetta er spurning sem ég hef oft veli fyrir mér. Hvernig er hægt að fara út í stórar fjárfestingar í nokkru fyrirtæki — nema þá kannske helst ríkisfyrirtæki vegna þess að ríkið er ábyrgt fyrir því öllu — án þess að hafa nokkurt eigið fé til að fjárfesta í framkvæmdum. Ég veit ekki betur en fyrrv. fjmrh., samflokksmaður fyrirspyrjanda. hafi veitt heimild til erlendrar lántöku til að hefja framkvæmdir í Skútuvogi. Þessi lán og framkvæmdir hafa hlaðið á sig kostnaði á dýrum vöxtum. Með gengisbreytingum, sem síðar hafa orðið, hefur þessi grunnur í krónutölu orðið langtum dýrari en framkvæmdakostnaður er í dag. Ég held að erfitt verði að selja þennan grunn fyrir meira en brot, innan við 15% af því sem hann er skráður hér sem eign ríkissjóðs. (Gripið fram í: Er þetta tilboð?) Þetta er ekki tilboð. Það er langt frá því. En það hefur farið fram ákaflega lauslegt mat á því hvað þessi framkvæmd, eins og hún stendur í dag, mundi kosta ef hún yrði framkvæmd á því verðlagi sem er í dag. Ég geri mér því ekki nokkra von um að hægt sé að ná til baka skráðu verði á þeim grunni sem þarna stendur. Ég er ansi hræddur um að hér sé eitt ævintýrið til viðbótar mörgum öðrum úr fyrri tíð. Ég er þá ekki að tala um seinustu ríkisstj. frekar en margar aðrar þar sem fjárfesting hefur átt sér stað og fellur svo á ríkissjóð þegar upp er staðið.

Hv. 6. landsk. þm. Karl Steinar Guðnason beindi til mín spurningum varðandi sölu á fleiri fyrirtækjum, t.d. Íslenskum aðalverktökum. Ég fer ekki sem fjmrh. með söluna á því fyrirtæki. Það er utanrrh. eftir því sem ég best veit. Það er nú orðið meira en ár síðan á minn fund gengu aðilar sem áður höfðu sent mér bréf. Það eru aðilar sem virðulegur þm. minntist á og þeir fengu þar svar frá mér. Er óskað eftir því hér að því verði svarað frekar? Svarið sem ég gaf var það að ríkisstj. tók ákvörðun um að hver fagráðherra sæi um sölu á þeim fyrirtækjum sem honum tilheyrðu eða hlutabréfum þar að lútandi, þannig að það er úr mínum höndum. En ég skal svara því skriflega ef óskað er. Bréfin á ég enn þá til.

En sem sagt, ég fagna því að iðnrh. skuli sýna þann dugnað sem raun ber vitni í sölu á ríkisfyrirtækjum.