14.06.1985
Efri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6666 í B-deild Alþingistíðinda. (5991)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál við 1. umr. þegar svo er áliðið kvölds, enda verð ég að játa að einhvern tíma hef ég nú haldið ræðu fyrir áheyrendur sem áfjáðari hafa verið að hlusta en þeir sem hér eru staddir, ekki fleiri en þeir eru.

Hér er um að ræða að gera upp dánarbú Framkvæmdastofnunar ríkisins. Stjórnarflokkarnir hafa legið yfir því í bráðum tvö ár hvernig það uppgjör eigi að fara fram og hvernig arfahlutirnir skuli út deilast. Niðurstaðan hefur orðið sú að skipta Framkvæmdastofnun ríkisins upp í þrjár stofnanir. Þegar slík breyting er gerð, með öllu því brauki og bramli sem því fylgir, þremur frv. í gegnum sex umræður hér á Alþingi og mikilli vinnu embættismanna við að koma þessari nýskipan í framkvæmd, þá finnst manni að það þurfi að hanga eitthvað nýtt á spýtunni. En það er nú einmitt meginkjarni þessa máls að við þessa uppskiptingu á Framkvæmdastofnun ríkisins í þrjá staði gerist í raun og veru ekkert nýtt. Þessir þrír aðilar sem verða til þegar Framkvæmdastofnunin eykur kyn sitt, eins og kallað hefur verið, gegna nákvæmlega sama hlutverki og samsvarandi stofnanir gegndu innan Framkvæmdastofnunar. Það bætast ekki nein hlutverk við né efnahagsleg eða fjárhagsleg tæki. Að vísu bætist þarna við talsvert fé sem lagt er stofnuninni til, í þessu tilviki þróunarfélaginu, en manni virðist að í raun og veru hefði þetta allt getað gerst innan ramma núverandi Framkvæmdastofnunar. Byggðastofnunin tekur bara við þeim þáttum Framkvæmdastofnunar sem fjallað hafa um byggðamálin. Yfir henni verður sérstök kjörin stjórn. Framkvæmdasjóður starfar áfram eins og hann hefur gert og verður áfram sjóður sjóðanna að svo miklu leyti sem menn telja ástæðu til að nota sér þann vettvang í því skyni. Svo kemur þróunarfélagið og er að uppbyggingu og meginhugsun nákvæmlega sama fyrirbrigðið og Framkvæmdasjóður var. Ég hygg að Framkvæmdasjóður í núgildandi lögum hafi allar sömu heimildir og þetta nýja þróunarfélag hefur og í lögunum um Framkvæmdastofnun eru nákvæmlega sömu áformin um að Framkvæmdasjóður geti lagt fram hlutafé í fyrirtækjum, stuðlað að nýsköpun í atvinnulífi, o. s. frv., o. s. frv. Það hefur að vísu lítið verið gert af því, lítið verið notað, lítið verið farið inn á þá braut í Framkvæmdasjóði. En að það þurfi að hafa svo mikið við að stokka þetta upp og stofna nýtt félag í þessu skyni, það á maður erfitt með að koma auga á.

Greinilegt er að það sem gerist er fyrst og fremst það að við fáum stóraukna skriffinnsku, því að stofnanirnar verða þrjár í staðinn fyrir eina áður. Við fáum stóraukinn kostnað við alla þessa starfsemi sem skiptist í fleiri staði en áður, og við fáum verulega miklu meiri miðstýringu en áður var, meira forræði stjórnvalda, meira einræði. Allt verður þetta nokkrum stórum skrefum fjær lýðræðishugmyndum nútímamanna en var þó í Framkvæmdastofnuninni, því að meginmunurinn á þessu nýja þróunarfélagi annars vegar og Framkvæmdastofnuninni hins vegar er sá að í staðinn fyrir að kosnir hafa verið sjö menn lýðræðislegri kosningu á Alþingi til að stjórna þessari stofnun, þá á forsrh. — væntanlega í umboði sinnar ríkisstj. — að ráða því hverjir sitji í stjórn þessa fyrirtækis. Þar með hefur þeim lukkast það sem væntanlega hefur til staðið í þessu sambandi, stjórnarflokkunum tveimur, að gera þetta að sínu helmingaskiptafélagi. Ég geri ráð fyrir að það verði álíka margir frá hvorum flokki í þessari stjórn. Þeir hafa þá útilokað stjórnarandstöðuflokkana, stjórnarandstöðuna yfirleitt, frá því að koma nokkurs staðar nærri þessu félagi. Það má segja að það sé kannske markmið í sjálfu sér hjá þeim þótt ekki sé það nú sérlega lýðræðislegt. En það er aðalbreytingin.

Hitt allt var fyrir hendi hjá Framkvæmdasjóði. Hann hafði allar þessar sömu heimildir og þetta nýja félag hefur og ekkert því til fyrirstöðu að reka hann með þeim hætti sem ætlunin er að gera hvað snertir þetta félag. Að mestu leyti er þetta því nafnbreyting en að öðru leyti stóraukin miðstýring og umbreyting í ólýðræðislegra form en áður var með alræðisvaldi ríkisstj. yfir félaginu og þeirri margfrægu helmingaskiptareglu sem er svo vinsæl hjá stjórnarflokkunum.

Mönnum finnast þetta kannske hörð orð. En ég vil benda á að þessi stjórn hefur verið alveg sérlega iðin við það umfram aðrar ríkisstjórnir að útiloka stjórnarandstöðuflokka frá lýðræðislegum áhrifum á nefndir sem hafa verið skipaðar til undirbúnings málum. Mætti nefna mörg dæmi um það. Aðalreglan hjá þessum flokkum er sú að þeir skipa nefndir sínum fulltrúum til helminga og aðrir flokkar koma þar hvergi nærri. Þess vegna hefur það gerst að hér kemur inn í þing hvert málið af öðru sem er alfarið undirbúið af stjórnarsinnum án þess að stjórnarandstæðingar hafi svo mikið sem haft spurnir af því hvað fram hafi farið við undirbúning málsins og eru fyrst að lesa frv. þegar þau koma hér inn í þingið.

En þetta var nú útúrdúr. Það gefst betra tækifæri til að ræða þetta mál á síðara stigi þegar nál. er skilað við 2. umr. En ég ítreka það hér að meginatriði málsins er að þetta er eitt allsherjar sjónarspil. Það er verið að gera þeim mönnum til góða sem lengi höfðu haft illan bifur á Framkvæmdastofnun og vildu að hún væri stokkuð upp en þó treystir stjórnin sér ekki til annars en að láta hina gömlu Framkvæmdastofnun lifa áfram í afkomendum sínum, þessum þremur stofnunum sem virðast vera alger spegilmynd af gömlu stofnuninni.