18.06.1985
Sameinað þing: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6695 í B-deild Alþingistíðinda. (6003)

508. mál, Íslandssiglingar Rainbow Navigation

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans í þessu máli. Að vísu náðu þau ekki mjög langt, en ég geri mér grein fyrir að þetta hefur verið honum og hans rn. mjög erfitt mál og ég skal svo sem ekkert áfellast það að árangur skuli ekki hafa orðið meiri en raun ber vitni.

Ég þakka honum sem sagt svörin og hvet hann eindregið til að standa fast á því sem hlýtur að vera réttur okkar í þessu máli. Það getur vel verið að við náum ekki rétti okkar nema með því að setja þessum bandamönnum okkar, sem þannig leika okkur nú, býsna harða kosti og láta þá standa andspænis þeim. Það hlýtur að koma fyllilega til greina.

Ég hvet til þess að áfram verði unnið að þessu máli þannig að eðlilegir íslenskir hagsmunir séu tryggðir. Það hefur komið fram, t. d. í fagtímaritinu Sea Trade núna í maí 1985, að 15 nm. úr þeirri nefnd bandaríska þingsins sem fjallar um málefni kaupskipaflotans og fiskveiðimál hafa skrifað bandarískum rn., utanrrn., samgrn. og varnarmrn., og látið í ljós áhyggjur vegna þess að þeir telja að bandarísk stjórnvöld séu í þann veginn að láta undan þrýstingi frá íslensku ríkisstjórninni varðandi flutninga til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Þannig er unnið gegn okkur af fullum krafti innan bandaríska þingsins í þessu máli.

Hingað kom í fyrra 15 manna sendinefnd frá stjórnvöldum í Washington til að ræða við yfirvöld og skipafélög og virðist næsta lítill árangur hafa orðið af þeirri heimsókn. Meðan þetta mál dregst tryggir þetta erlenda skipafélag sig í sessi á þessari flutningaleið sem gerir málið auðvitað ekki neitt einfaldara. Hér eru miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir íslensku skipafélögin.

Hv. þm. Ellert B. Schram vék að frv. því sem hann hefur flutt á þessu þingi um þetta mál. Ég tel heldur ólíklegt að samstaða muni nást um að samþykkja það, en ég fagna því að hann skuli hafa lagt fram og samið sjálfur frv. um þetta mál. Því ber auðvitað að fagna þegar menn taka slíka afstöðu, en mig minnir einhvern veginn að fyrir tæpu ári hafi það blað sem hann ritstýrir haft allt aðra skoðun á þessu máli. Ég hef að vísu ekki þá forustugrein við hendina, en mig minnir að fljótlega eftir að þetta mál varð umræðuefni í fyrravor hafi DV tekið afstöðu í þá veru að íslensku skipafélögin yrðu að una samkeppni. Nú hefur þetta blað lýst annarri skoðun í forustugrein og því ber að fagna að það skuli hafa séð hverjir eru hagsmunir Íslendinga í þessu máli.

En ég hvet hæstv. utanrrh. til að leita allra leiða til að leysa þetta mál og tryggja réttmæta íslenska hagsmuni og hygg ég þar mælt a. m. k. fyrir hönd okkar þm. Alþfl. því að við munum veita honum þann atbeina sem okkur er unnt í því máli.