18.06.1985
Sameinað þing: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6708 í B-deild Alþingistíðinda. (6013)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Það er sjálfsagt að verða við þeim tilmælum forseta, eins og aðstæðum háttar hér, að stytta mál sitt, en ég leyfði mér í síðustu viku að bera fram þá ósk til hæstv. forsrh., sem þá gegndi störfum sjútvrh., að tóm gæfist til þess áður en þingi lyki að ræða lítillega þann mikla vanda sem uppi er í fiskvinnslufyrirtækjunum um allt land vegna manneklu og þar af leiðandi erfiðleika á því að tryggja sem verðmætasta framleiðslu.

Fyrirspurn mín til hæstv. sjútvrh. er því á þessa leið: Hvaða ráðstafanir hyggst ríkisstj. gera á næstunni til að hamla gegn manneklu hjá fiskvinnslufyrirtækjum í því skyni að tryggja lágmarksforsendur eðlilegrar verðmætasköpunar í íslenskum sjávarútvegi?

Ég hygg að áhyggjur af því ástandi sem ríkjandi er séu ekki bundnar við einn stjórnmálaflokk frekar en annan og ekki fremur við verkafólk en stjórnendur fyrirtækjanna. Þar er um að ræða sameiginlegan vanda okkar höfuðatvinnuvegar, sjávarútvegsins. Ég hef leyft mér að kanna hjá forráðamönnum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna nú í síðustu viku hvað talið væri að margt fólk vantaði í frystihúsin. Svör Sölumiðstöðvarinnar eru þau að í hús á hennar vegum vanti a. m. k. 1000 manns og þá er þess að gæta að frystihús tengd sambandi ísl. samvinnufélaga munu vera með um 37% af sameiginlegri heildarframleiðslu allra frystihúsa í landinu. Ég leyfi mér því að gera ráð fyrir að skorturinn á mannafla sé álíka mikill þar sem þýðir að í frystihúsin í heild vantar á milli 15 og 16 hundruð.

Það er staðfest af þeim sem best þekkja til að þetta ástand fari sífellt versnandi, hafi aldrei verið verra en nú. Næsta spurning sem hlýtur að koma upp í hugann er sú: Hvað mikil eru þau verðmæti fyrir þjóðarbúið sem fara í súginn vegna þess að fólk fæst ekki í þessi störf? Það er erfitt að hafa hér uppi neinar nákvæmar tölur í þeim efnum, en þeir sem ég hef rætt það mál við, m. a. hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, staðfesta og staðhæfa að það hlaupi a. m. k. á mörgum hundruðum milljóna króna.

Ég vil leyfa mér í þessum efnum, máli mínu til staðfestingar að vitna til ummæla framkvæmdastjóra eins helsta frystihúss í landinu, Norðurtangans á Ísafirði, sem er Jón Páll Halldórsson, en hann segir í Morgunblaðinu í viðtali í síðasta mánuði, þann 9. maí, með leyfi forseta:

„Jón Páll Halldórsson framkvæmdastjóri Norðurtanga á Ísafirði sagði í samtali við Morgunblaðið að ástæða þessa“, þ. e. manneklunnar, „væri fyrst og fremst sú að fiskvinnslan hefði orðið undir í samkeppninni við þjónustugreinarnar um starfsfólkið. Eins og búið væri að fiskvinnslunni gæti hún ekki greitt nægileg laun. Því fengi hún ekki nægilega mikið af hæfu starfsfólki til vinnu. Skortur á hæfu starfsfólki drægi síðan úr möguleikanum á framleiðslu í verðmestu pakkningarnar og rýrði þannig tekjumöguleika frystihúsanna. Þetta væri því orðinn vítahringur.“

Ég hygg að þessi skilgreining sé rétt, að þarna sé einmitt að myndast mjög alvarlegur vítahringur sem stjórnvöld þyrftu hið allra fyrsta að gera alvarlega tilraun til að rjúfa ef ekki á illa að fara.

Ég vil vitna í annað dæmi frá aðila vel kunnugum störfum í hraðfrystiiðnaðinum, dæmi sem fram hefur komið í fjölmiðlum á síðustu vikum og mánuðum. Ungur maður, sem annast verkstjórn í hraðfrystihúsinu í Hnífsdal við Ísafjarðardjúp, Einar Hjaltason, hélt fyrir stuttu erindi, er vakti mikla athygli, á námsstefnu

Fiskiðnar, fagfélags fiskiðnaðarins. Hann tók þar dæmi af einum vænum togarafarmi upp á 150 tonn og komst að þeirri niðurstöðu eftir vandaða athugun og úttekt að væri slíkur afli unninn í hinar fljótvirkustu pakkningar, sem eru þá jafnframt þær sem gefa minnst af sér, væri framleiðsluverðmætið um 3.5 millj. kr. eða álíka upphæð og vinnslukostnaðurinn þannig að ekkert væri afgangs umfram vinnslukostnað. En væri hins vegar nægu fólki á að skipa og hægt að vinna þennan sama afla í verðmætustu pakkningar fyrir Bandaríkjamarkað, þar sem markaðurinn er nú opinn og tekur vel við, væri hægt að auka framleiðsluverðmætið um hvorki meira né minna en 60%. slík dæmi mætti taka mörg fleiri. en því sleppi ég tímans vegna hér.

Nú hafa staðið yfir, eins og okkur er öllum kunnugt hér á hinu háa Alþingi. kjarasamningar undanfarna daga og er þeim nú lokið. Það voru uppi í þessum kjarasamningum ákveðnar kröfur fyrir fiskvinnslufólkið sérstaklega. Það voru ekki stórvægilegar kröfur, en ég vil harma að það skuli ekki hafa verið orðið við þeim í samningunum, að þær hafa ekki náð fram að ganga í samningunum, þessar sérkröfur fiskvinnslufólksins. því það voru svo sannarlega lágmarkskröfur. Gefið mun hafa verið út loforð eða yfirlýsing frá hæstv. ríkisstj. um að á þau mál yrði litið sérstaklega á þeim mánuðum sem eftir eru af þessu ári, en ég held að slík yfirlýsing sé heldur léttvæg í vasa meðan ekki kemur fram hvað ríkisstj. hugsar sér að gera í þessum efnum. En það gæti e. t. v. skýrst nokkuð í þessum umr. Það er mín von.

Það hefur mikið verið um það rætt hvernig eiginfjárstaða fyrirtækja í sjávarútvegi hefur hrunið niður á hinum síðustu árum. Tölur í þeim efnum hafa verið nokkuð á reiki. en allt sem fram kemur bendir til hins sama, að um stórkostlegt eignahrun sé að ræða. enda þótt mælitækin séu kannske engin alveg hárnákvæm. Ég aflaði upplýsinga um þessi efni hjá hagfræðideild Seðlabankans í febrúarmánuði s. l. Ég hef nú í morgun einnig rætt við staðgengil aðstoðarbankastjóra Seðlabankans, þann mann sem mun helst hafa unnið í þessum útreikningum hjá þeirri virðulegu stofnun. og hann hefur látið mér í té hinar nýjustu tölur sem hann telur sig nú vera með, en tekur þó fram að það sé gert á sína ábyrgð. en ekki stofnunarinnar. Þessar nýjustu tölur eru á þá leið að á móti því að eigið fé hafi í upphafi árs 1981 verið 56.7% af heildareignum fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu, en skuldirnar þá um 43.3%, þá hafi þetta breyst á þann veg fram til síðustu áramóta að eiginfjárstaðan sé fallin úr 56.7% niður í 41% á þessum fjórum árum og verulegur meiri hluti af þessu falli hafi átt sér stað á síðustu tveimur árum. 1983 og 1984.

Nú mun láta nærri samkv. upplýsingum sama aðila að heildareignir á sjávarútveginum séu á núverandi verðlagi ekki langt frá 40 milljörðum kr. Ég hef að vísu ekki skoðað það nákvæmlega hvernig heildareignirnar hafa breyst á þessum fjórum árum, en ég á varla von á því, með tilliti til lítillar uppbyggingar og lítillar hreyfingar í sjávarútvegi, a. m. k. hin síðustu tvö ár, að heildareignirnar séu meiri nú en þær voru fyrir fjórum árum. Á því skal ég þó hafa fyrirvara þar sem ég hef ekki kannað það alveg til hlítar.

En ef við gerum ráð fyrir að þær hafi verið álíka miklar fyrir fjórum árum og þær voru um síðustu áramót eða á núverandi verðlagi í kringum 40 milljarðar kr. nemur þetta fall eiginfjárstöðunnar liðlega 6 milljörðum sem hafa verið færðir til í þjóðfélaginu frá sjávarútveginum til annarra aðila á þessum tíma. Og miðað við að eiginfjárstaðan hafi í ársbyrjun 1981 verið um 56.7% af heildarfjármununum eða um 22.7 milljarðar samsvarar þetta 6 milljarða fall því að af þeim fjármunum sem fyrirtækin áttu sjálf í sínum rekstri hafi milli 25 og 30% verið gerð upptæk. Það er eignaupptaka upp á 25–30% hjá sjávarútveginum.

Ég á ekki von á að þeir séu margir á hinu háa Alþingi sem í rauninni hafi ætlað sér þetta, sem í rauninni hafi talið æskilegt að þannig færi. Mér þætti a. m. k. ákaflega fróðlegt að sjá framan í slíkan herramann í þessari stofnun. En þetta eru nú engu að síður þær staðreyndir sem við blasa og stjórnarstefnan hefur óneitanlega átt verulegan þátt í að kalla fram.

Það getur enginn haldið því fram með réttu að ástæðan fyrir þessari eignaupptöku sjávarútvegsfyrirtækjanna sé of hátt kaup hjá sjómönnum eða fiskvinnslufólki. Ég held að það væri undarlegur maður innan þings eða utan sem slíku héldi fram. Það er ekki heldur hægt að halda því fram að ástæðan sé aflabrestur eða erfiðleikar á mörkuðum þó að þeir hafi verið nokkrir í sambandi við eina framleiðslugrein, skreiðina. Við skulum hafa í huga að á síðasta ári, 1984, er framleiðsluverðmæti sjávarafurðaframleiðslunnar skv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar prentuðum og útgefnum, sem þm. hafa fengið á sín borð, jafnmikið og það var að jafnaði á árunum 1978–1982. En á þessum viðmiðunarárum er einmitt m. a. að finna hæstu aflaárin í allri sögunni þegar framleiðslan varð mest, mælt á föstu verðlagi, — ekki bara tonnatala upp úr sjó heldur er ég að tala um sjávarafurðaframleiðsluna mælda á föstu verðlagi. Á síðasta ári, 1984, þegar fyrirtækin í sjávarútvegi og fólkið sem þar starfar verður fyrir hvað mestum efnahagslegum áföllum er framleiðsluverðmætið jafnmikið og það var að jafnaði á þessum fimm viðmiðunarárum. Árið 1984 var þriðja mesta framleiðsluár í allri sögunni. Búast má við, sem betur fer, að framleiðslan verði enn meiri nú á þessu ári, sbr. allar tölur fyrir fyrstu mánuði ársins sem ég ætla ekki að rekja hér nánar, samt sem áður er hag fyrirtækjanna og fólksins í sjávarútveginum svona komið og við þurfum að leita skýringa. Ég gæti hér, ef ég hefði ekki samið við hæstv. forseta um fáar mínútur, rakið mörg dæmi um hvað um þessa peninga hafi orðið. Þeir hafa hvorki gufað upp né lent í vösum almenns launafólks í landinu. Ég vil minna á hvaða gífurleg áhrif þessi þróun í sjávarútveginum hefur haft og mun hafa á byggðarlögin úti um allt land. Við vitum að það liggur fyrir að fólksflutningar hafa orðið meiri á síðasta ári en nokkru sinni fyrr í a. m. k. 25 ár frá kjördæmunum sex utan Reykjavíkur og Reykjaness. Ég leyfi mér einnig í þessu samhengi að minna á að ég upplýsti við umr. um frv. um Byggðastofnun í síðustu viku að fólkið í byggðarlögunum úti um land, þar sem byggt er á sjávarútveginum, og menn hafa að yfirgnæfandi flestir sína atvinnu beint af honum, er nú dæmt til þess að vera hálfdrættingar í okkar þjóðfélagi. Það liggur fyrir að íbúðabyggingar sem byrjað var á á síðasta ári urðu meiri í Reykjavík á árinu sem leið en um fjöldamörg ár næst á undan. Það var nýtt met í þeim efnum. Ég upplýsti með tölum frá Húsnæðisstofnun ríkisins að úti á landi var þetta þveröfugt og menn byrjuðu ekki nema á innan við 400 íbúðum á síðasta ári sem var innan við helmingur þess sem byrjað hafði verið á að jafnaði á árunum 1978-1982. Þannig hefur þetta snúist við og það var alveg sama útkoma þegar kom að annarri spurningu: Hvað hafði fólkið haft mikla fjármuni í höndum til að leggja inn á verðtryggða reikninga og aðra reikninga í innlánsstofnunum? Samkv. upplýsingum frá sjálfu bankaeftirliti Seðlabankans kom í ljós að ef menn úti um landið hefðu átt að halda í við höfuðborgarsvæðið í þeim efnum hefðu þeir þurft að leggja inn, þegar í báðum tilvikum var fyrst búið að leggja inn það sem þurfti til að halda óbreyttu verðgildi bankainnstæðnanna — þá þurftu menn í kjördæmum úti um land og að Suðurnesjunum meðtöldum að leggja inn helmingi meira en þeir gerðu til að halda í við höfuðborgarsvæðið, 2000 kr. fyrir hverjar 1000 kr., 200 þús. fyrir hverjar 100 þús. o. s. frv. Svona er þetta að þróast og það er meira áhyggjuefni en flest annað. 7.5% launahækkun nú dugar ekki fyrir þetta fólk í fiskvinnslufyrirtækjunum og ekki heldur fyrir fólkið í fiskvinnslufyrirtækjunum hér á höfuðborgarsvæðinu sem að sjálfsögðu er engu betur sett en hitt sem vinnur við fiskinn úti um landið. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. sjútvrh.: Hefur verið fjallað alvarlega um það á fundum hæstv. ríkisstj. hvernig meiningin sé að bregðast við? Von mín er sú, vegna þess að ég er sannfærður um að þar til ber brýna nauðsyn, að menn treysti sér til að stíga stór skref í þeim efnum að bæta svo að eftir verði tekið og um muni kjör fiskvinnslufólksins. Fyrirtækin í sjávarútveginum geta það ekki óstudd eins og farið hefur verið með þau. Það verður að koma til annað tveggja; bættur rekstrargrundvöllur fyrir fyrirtækin í sjávarútvegi og það stórlega bættur þannig að þau geti hækkað þetta lága kaup, ellegar með öðrum hætti, skattalega eða á annan veg beinn stuðningur frá ríkisvaldinu. Annaðhvort verður að koma til ef ekki hvort tveggja.

Ég sé að ég hef talað lítið yfir stundarfjórðung og þó að margt sé ósagt vil ég standa við mitt loforð við hæstv. forseta og læt mínu máli lokið.