18.06.1985
Sameinað þing: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6740 í B-deild Alþingistíðinda. (6028)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þetta hafa um margt verið gagnlegar umræður og ég get tekið undir margt af því sem hér hefur komið fram. Ég fagna því að menn skuli almennt hafa þann metnað fyrir hönd íslensks sjávarútvegs sem hér hefur komið fram.

Hitt er svo annað mál að okkar þjóðfélagsgerð er afar flókin og stoðar lítt að halda því fram að staða sjávarútvegs sé undir því einu komin hvað stjórnvöld gera á hverjum tíma. Við búum hér í lýðræðisþjóðfélagi þar sem hagsmunaaðilar takast á um þær tekjur sem til skipta eru í þjóðfélaginu. Ég get verið sammála mönnum um það að ég hefði gjarnan viljað sjá þá sem vinna í sjávarútveginum fá í sinn hlut miklu meira af þeim tekjum. En að sjálfsögðu verða hv. þm. að gera sér grein fyrir því að þegar verið er að gera tillögur um aukin útgjöld til hinna ýmsu málefna þjóðfélagsins, svo sem heilbrigðismála, raforkumála, vegamála og ýmissa annarra góðra mála, þá er í reynd verið að minnka möguleika sjávarútvegsins til að komast vel af. Í fyrsta lagi taka þessir málaflokkar erlent fjármagn. Í öðru lagi taka þeir innient fjármagn sem annars væri hægt að beina til sjávarútvegsins. Þessa yfirsýn vantar oft hér í störfum Alþingis og þá yfirsýn vantar einnig í kjarasamningum.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson lét þau orð falla að aðilar vinnumarkaðarins hefðu séð meiri ástæðu til þess að afgreiða launamál annarra en fiskvinnslunnar. Það liggur alveg ljóst fyrir að eftir því sem laun annarra stétta í þjóðfélaginu eru hærri, opinberra starfsmanna, iðnaðarmanna og fleiri, þeim mun minni möguleikar eru til þess að auka laun fiskvinnslufólks. Þessa yfirsýn skortir einnig í kjarasamningum og það þýðir lítt fyrir aðila vinnumarkaðarins að koma og segja eftir á: Ja, við gátum ekkert komist hjá þessu. Nú verður eitthvað nýtt að koma til til að bæta kjör fiskvinnslufólks.

Það er stundum erfitt að benda á hvaðan þetta fjármagn eigi að koma, hvar eigi að taka það. Það er því út af' fyrir sig ánægjulegt að menn skuli reyna að ræða þessi mál af nokkurri yfirsýn hér í þessum umræðum.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni að innflutningur hefur aukist mun meira en eðlilegt er. En hver er þessi innflutningur? Hann er fyrst og fremst neysluvörur almennings að langmestu leyti. (KÓ: Ekki þeirra sem hafa 16 þús. á mánuði.) Nei, það er alveg rétt, hv. þm. En það eru ýmsir aðrir sem hafa meiri tekjur. En ef við erum að tala um þetta í heild sinni, sem er einnig nauðsynlegt, en ekki bara um ákveðna þjóðfélagshópa, þá er þessi innflutningur fyrst og fremst neysluvörur almennings. Og það þýðir ekkert að horfa fram hjá því að kaupmátturinn hefur oft og tíðum byggst á því að við höfum tekið lán erlendis til neyslu.

Ég ætla ekki að fara mikið nánar út í þessi, mál. Það hefði þó vissulega verið ástæða til þess. Þó vildi ég aðeins taka það fram varðandi það sem hér er sagt um sjávarútveg Dana að það er alveg rétt að þeir eru að sumu leyti komnir lengra í tæknivæðingunni, við að öðru leyti. Ég get t. d. lesið hér upp úr skýrslu frá Ríkismati sjávarafurða um athugun á málum þar. Það er býsna fróðlegt. Þar er eftirfarandi lýsing á einu fyrirtækinu:

„Hjá fyrirtækinu var hvolft úr kössum eftir snyrtingu og skráningu í kör úr ryðfríu stáli, polýfosfatupplausn blandað saman við körin, síðan tæmd í loftþétt ílát og fiskinum velt þar undir loftþrýstingi. Við þetta fer ca. 16–17% vigtaraukning. Ekki sást þessi útbúnaður annars staðar enda þótt einhverjir aðrir noti fosfatblöndu einnig.“

Það er mjög líklegt að ástæðan fyrir því að Danir ná meiri afköstum sé að einhverju leyti aðferðir sem þessi og að nokkru leyti sú að ormur er ekki í eins miklum mæli í þeirra fiski. Ég tel því ekki réttmætt að eingöngu sé kennt hér um mismun á atköstum verkafólks í Danmörku og á Íslandi. Við getum náttúrlega ekki heldur borið saman að óathuguðu máli tímalaun hjá Dönum og hér. Þar eru skattar hærri. þar eru neysluskattar á öll matvæli og svo mætti áfram telja. Hitt er svo annað mál að það er sjálfsagt og nauðsynlegt fyrir okkur að bera þarna saman. En við megum alls ekki nota aðferðir sem þessar.

Ég átti mjög ánægjulegar viðræður við forustumenn fyrirtækis í Bandaríkjunum sem heitir Long John Silver. Það var skemmtilegt að heyra það að þeir töldu íslenska fiskinn standa allháu þrepi ofar en annan fisk og velgengni þess fyrirtækis hefur m. a. byggst á því að hafa þennan fisk til sölu. Þeir hafa unnið athyglisvert útbreiðslustarf með þennan fisk á Bandaríkjamarkaði. kynnt hann þar sem gæðavöru. Það kemur skýrt fram hjá þeim að þeir þurfa að eyða meiri vinnu og meiri mannafla til að selja kanadískan fisk en íslenskan fisk. Þar af leiðandi geta þeir greitt allmiklu hærra verð fyrir okkar fisk.

Við megum ekki hvika frá þessari stefnu. Það skipast oft skjótt veður í lofti eins og hér hefur komið fram. Það er ekki mjög langt síðan offramboð var á þessum gæðafiski á Bandaríkjamarkaði og það söfnuðust birgðir og okkur gekk illa að losna við þann fisk. Það var ekki vegna þess að það vantaði fólk til að vinna hann. Það var vegna þess að markaðirnir tóku ekki við honum. Nú hefur hins vegar sú ánægjulega þróun orðið að eftirspurn hefur aukist eftir þessum fiski.

Ég minni á það að þegar rætt var hér um kvótamálið s. l. haust var það mesta áhyggjuefni þm. að það yrði atvinnuleysi í fiskvinnslustöðvunum í ár. Ég man að hv. þm. Karvel Pálmasyni var þetta afar ofarlega í huga. Ég vona að ég hafi það rétt eftir um afstöðu hans, það er eftir mínu besta minni. En nú er svo komið að við getum selt meira af þessum gæðafiski og þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að hægt sé að framleiða hann.

En menn mega ekki eingöngu líta til stjórnvalda í þessum efnum. Það verður að líta til þeirra sem annast þessi mál, sem vinna á markaði, skipuleggja framleiðsluna. Það verður t. d. að gera þær kröfur til forsvarsmanna frystihúsanna á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum að þeir láti það ekki koma fyrir, sem kom fyrir í fyrrasumar og var þeim náttúrlega til háborinnar skammar, að fiski sé mokað á land án þess að ráða neitt við neitt. Ég geri þær kröfur til þessara aðila. Þeir geta ekki komið til stjórnvalda og sagt: Þið stóðuð ykkur ekki í þessari stjórnun. Þeir verða að gera svo vel að passa upp á það sjálfir að það komi ekki fyrir sem ungi maðurinn í Hnífsdal sagði réttilega frá í blaðaviðtali.

Herra forseti. Ég hefði þurft að taka hér ýmislegt annað fram. En ég skal láta það bíða. Ég vænti þess að okkur muni auðnast að ná bærilegri samstöðu um íslensk sjávarútvegsmál. Ég minni á að það eru ekki nema tvö ár síðan allir voru sammála um það að fyrirtæki stæðu frammi fyrir lokun. Það er ekki létt verk að vinna íslenskan sjávarútveg upp úr þeirri lægð sem hann var kominn í og er í. Það er mikið þolinmæðisverk. Það mun ekki gerast á skömmum tíma. Það er allt of mikil bjartsýni að mínu mati að ætla að það muni gerast á einu eða tveimur árum. Það mun taka mörg ár og það mun reyna á þolinmæði þjóðfélagsins og yfirsýn manna bæði hér á Alþingi og aðila vinnumarkaðarins til þess að svo megi takast.