08.11.1984
Efri deild: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Samningur hæstv. iðnrh. við Swiss Aluminium um álbræðsluna í Straumsvík, sem nú loksins hefur borist inn á borð hv. þm. og hæstv. ráðh. hefur hér greint frá, er samningur sem ber þess öll merki að íslensku samningamönnunum hafi verið settir afarkostir af hálfu Alusuisse og ekki fengið við neitt ráðið í viðskiptum sínum við þennan alþjóðlega risa frekar en fyrri daginn.

Hæstv. ráðh. hefur í þessum samningi lagt mesta áherslu á að ná fram hækkun raforkuverðs til ÍSALs, eftir því sem hann hefur sjálfur sagt og samningurinn ber með sér, og það er ljóst af þessum samningi að hæstv. ráðh. hefur selt bókstaflega allt sem seljanlegt var með það sjónarmið í huga. Til þess að ná fram orkuverðshækkun sem í reynd er upp á fáein mill hefur hann gengið inn á allar meginforsendur Alusuisse. Hann hefur fallist á að tengja orkuverðið heimsmarkaðsverði á áli, hann hefur fallist á að þeir fái að stækka álbræðsluna í Straumsvík um helming ef samningar nást um orkuverð til stækkunarinnar og hann hefur fallist á að leyfa þeim að taka nýjan eignaraðila inn í fyrirtækið til þess að auðvelda þeim að standa straum af fjármagnskostnaði við stækkun þess. Að síðustu hefur hann fallið frá öllum kærumálum á hendur Alusuisse og látið sér sæma að sættast á ákveðna peningagreiðslu upp á u.þ.b. þriðjung af skaðabótakröfum á fyrirtækið og lætur þar með allan málarekstur niður falla.

Þessi orkuverðhækkun, sem samningurinn kveður þó á um, er dýru verði keypt og því liggur beinast við að ætla að hún sé umtalsverð. Því fer hins vegar víðs fjarri. Í samningnum er kveðið á um að orkuverð skuli vera á bilinu 12.5–18.5 mill og breytast í samræmi við heimsmarkaðsverð á áli. Í dag mun þetta þýða að orkuverðið er um 12.8 mill á hverja kwst. og samkvæmt upplýsingum hæstv. ráðh. hér í þinginu 25. október s.l. áætlar Landsvirkjun að meðalverð orkunnar á árunum 1985– 1989 verði um 13.7 mill á kwst. Meðalverð hverrar kwst. úr virkjanakerfinu er aftur á móti í dag 16 mill samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar. Hv. 3. þm. Norðurl. v. dró það reyndar í efa áðan og vildi meina að það væri 18.9 mill. Ekki er nú unnt að sannreyna þessa reikninga, hvorki reikninga Landsvirkjunar né hv. þm., á þeim tíma sem hér gefst, en a.m.k. held ég að okkur sé óhætt að miða við þau 16 mill sem Landsvirkjun gefur upp. Sem sagt: þessi dýrkeypta raforkuverðshækkun nær ekki einu sinni framleiðsluverði orkunnar á næstu árum. Ef þetta er ekki að kaupa köttinn í sekknum, þá veit ég ekki hvað það er.

Þrátt fyrir háar fjárhæðir, sem ráðh. hefur hér nefnt að koma muni í okkar hlut þegar samningurinn tekur gildi, þ.e. hækkun á orkuverðinu, þá munum við samt sem áður samkvæmt þessum samningi halda áfram að afhenda Alusuisse orkuna á verði sem er undir kostnaðarverði hennar. Landsvirkjun mun ekki fá eðlilegan arð af orkusölunni í sinn hlut og tapið á orkubúskapnum munu landsmenn áfram bera.

Þessi orkusölusamningur er gerður á sama tíma og önnur lönd, t.a.m. Ghana og Grikkland eins og hér hefur verið nefnt, hafa samkvæmt gerðardómi fengið fram mun hærra orkuverð til álvera en hér er á ferðinni og á meðan við vitum að Alusuisse þarf að greiða töluvert hærra orkuverð. Ráðherra nefndi sjálfur í þinginu 25. október 16.5 mill í því sambandi. Aðrir vilja meina að það sé hærra. Alusuisse þarf þá að greiða a.m.k. 16.5 mill annars staðar í heiminum. Það er ekki að undra að á sama tíma og Alusuisse er að leggja niður álbræðslur sínar annars staðar, t.a.m. í Bandaríkjunum, vilja þeir stækka álbræðslu sína hér, enda geri ég ráð fyrir að það sé leit að öðru eins gósenlandi ódýrrar raforku og Íslandi.

Ekki efast ég eitt andartak um að Alusuisse er erfiður samningsaðili og að okkur væri nær að halda okkur í framtíðinni frá öllum viðskiptum við alþjóðleg risafyrirtæki af þessu tagi. En því er ekki heldur að neita að miðað við stöðu álmála í heiminum í dag og miðað við samningsstöðu okkar í upphafi þessarar samningalotu höfum við í þessum samningi samið svo rækilega af okkur að með ólíkindum er.

Það er sem sagt ljóst að þetta hækkaða orkuverð mun ekki ná framleiðsluverði orkunnar hér á landi á næstu árum. Og það er líka ljóst að með því að tengja orkuverðið til ÍSALs við heimsmarkaðsverð á áli erum við að opna íslenska hagkerfið, sem er a.m.k. landsfrægt fyrir að vera viðkvæmt, fyrir sveiflum á erlendum mörkuðum í enn auknara mæli en þegar er. Hér er að mínu viti á ferðinni ákaflega hættuleg stefna í orkusölumálum og stórundarleg miðað við skoðun þess hæstv. ráðh. sem þennan samning gerir, en hún er sú — og nú leiðréttir ráðh. mig ef rangt er eftir haft — að Íslendingar eigi ekki að taka á sínar herðar þá áhættu sem óhjákvæmilega fylgir stóriðjurekstri. Þetta er eitt af örfáum atriðum sem við hæstv. ráðh. höfum hingað til verið sammála um í þessum málum þótt á mismunandi forsendum sé þar sem hann vill reisa hér erlenda stóriðju, en ég vil hér enga frekari stóriðju, hvorki innlenda né erlenda. Miðað við þessa margyfirlýstu skoðun ráðh., hvers vegna fellst hann þá á þessa tengingu raforkuverðs við heimsmarkaðsverð á áli sem þýðir að við tökum á okkur hlutdeild í þeirri áhættu sem stóriðjurekstri fylgir og ekki aðeins hvað varðar slíkan rekstur hér á landi, heldur í heiminum öllum? Eru þarna á ferðinni afarkostir Alusuisse einn ganginn enn? Er það svarið? Og hvernig ætlar hæstv. ráðh. að eiga við orkusölusamninga, sem hann kann að vilja gera í framtíðinni við aðra aðila, með þetta fordæmi á bakinu? Ef hér er búið að marka framtíðarstefnu Íslendinga í orkusölumálum, þá er ekki aðeins á ferðinni vondur orkusölusamningur heldur stórhættulegur líka — stórhættulegur vegna þess að aðrir viðsemjendur hæstv. ráðh., eins og t.d. auðhringurinn Alcan sem hefur hug á því að reisa álver við Eyjafjörð, koma til með að vilja fá svona fínan samning líka og þannig koll af kolli, ef hæstv. ráðh. er sjálfum sér samkvæmur, þangað til ekki verður lengur við neitt ráðið og sá tekjustofn landsmanna sem orkan á að vera — ég endurtek: hún á að vera það — sveiflast til og frá eftir markaðsaðstæðum í heiminum hverju sinni. Ekki er það fögur framtíðarsýn.

En það er fleira ófagurt í þessum samningi en orkusölumálin. Fyrst eru það deilumálin svokölluðu sem hæstv. ráðh. selur fyrir þá smánarlegu orkusöluskilmála sem ég hef hér fjallað um. Ekki gefst tími til að ræða þau mál ítarlega við þessa umr., en í stuttu máli eru í þessum samningi öll kærumál okkar á hendur Alusuisse niður felld og hæstv. ráðh. lætur sér sæma að sættast á að taka við ákveðinni peningaupphæð, u.þ.b. þriðjungi þeirrar upphæðar sem kröfugerð okkar á Alusuisse hljóðaði upp á, til þess að þagað verði um aldur og ævi um þau svik sem ástæða er til að ætla að Alusuisse hafi haft í frammi í okkar garð. Mútur er það orð sem óhjákvæmilega kemur upp í huga mér og þess þá frekar þar sem hæstv. iðnrh. hefur sjálfur upplýst hv. Alþingi, það mun hafa verið 23. október s.l., að Alusuisse haldi áfram uppteknum hætti í sínu margfalda reikningsbókhaldi og láti hvergi deigan síga í þeim efnum — eða hvernig á að skilja þessa málsmeðferð öðruvísi? Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki að gera því skóna að hæstv. iðnrh. hafi persónulega þegið mútur, heldur er ég að segja að Alusuisse hafi með þessu samkomulagi mútað íslensku þjóðinni til að láta öll sín kærumál niður falla og samkvæmt orðalagi í samningnum þröngvað okkur til að gefa Alusuisse skinandi hreint siðferðisvottorð um framferði sitt.

Þannig er um hnútana búið í þessum samningi og samkvæmt honum hefur Alusuisse um aldur og ævi hreinan skjöld gagnvart okkur hvað varðar þau ár sem þegar eru liðin og á þau svik sem þá kunna að hafa verið uppi höfð er ekki lengur hægt að benda ef þessi samningur er lögfestur. Aumir erum vér nú orðnir. Íslendingar, undir forustu hæstv. iðnrh.

Þá er það stækkun álbræðslunnar í Straumsvík um helming. Í svokölluðu „letter of agreement“, sem fylgir með þessum samningi og skoðast sem hluti hans, er Alusuisse heimilað að stækka álbræðsluna um helming við fyrsta tækifæri. náist samkomulag um orkuverð til þessa hluta bræðslunnar og aðra skilmála varðandi hana, samkvæmt orðanna hljóðan í plagginu. Þetta þýðir ósköp einfaldlega að við göngumst undir það að reisa nýja virkjun, væntanlega Blönduvirkjun, fyrir Alusuisse sem þarf 80% af orkuframleiðslu þeirrar virkjunar fyrir stækkun bræðslunnar. Þetta þýðir einnig að við verðum enn háðari Alusuisse um orkunýtingu hér á landi en við þegar erum og þetta þýðir líka gríðarlega erlenda skuldasöfnun til virkjanaframkvæmda — söfnun sem gæti endanlega kollkeyrt okkur ef áfram heldur svo sem á undan hefur gengið.

Landsvirkjun áætlar að verð á hverri kwst. af orku úr Blöndu sé á bilinu 18–20 mill. Nokkuð lágt mat að sumra mati, en hvað um það. Það á eftir að semja við Alusuisse um orkuverðið til stækkunarinnar. Og nú spyr ég: Gefur sá samningur sem við erum hér að fjalla um ástæðu til að ætla að hægt sé að semja við Alusuisse um að það kaupi orku Blöndu á því verði sem kostar að framleiða hana? Gefur þessi samningur og öll viðskipti okkar við þennan auðhring tilefni til þess að ætla að það borgi sig fyrir okkur að eiga aukin viðskipti við hann og verða enn þá háðari honum eða orkunýtingu í landinu? Alveg örugglega ekki. Ég tel þessa stækkunarheimild svo fráleita að það jaðri við barnaskap að bera hana fyrir Alþingi Íslendinga til samþykktar.

Virðulegi forseti. Að öllu samanlögðu er hér gersamlega um óviðunandi samning að ræða. Þetta er samningur þar sem íslensku þjóðinni eru settir afarkostir af hálfu Alusuisse og þingmenn Kvennalista munu greiða atkvæði gegn lögfestingu hans.

Að lokum langar mig til að eyða örfáum orðum á framkomu hæstv. ráðh. gagnvart hæstv. Alþingi í þessu máli. Eins og menn vita hafa þm., og þá ekki síst þm. stjórnarandstöðunnar, þráfaldlega farið þess á leit við hæstv. ráðh. að fá að fylgjast með gangi samninga við Alusuisse og skoða þau samningsdrög sem legið hafa fyrir. Þessu hefur hæstv. ráðh. staðfastlega neitað og hefur í þeim efnum ekki gert neinn greinarmun á því að kynna þingflokkunum samninginn og að opinbera hann almennt. Þó verður ekki undan því vikist, hvað svo sem opinberunarákvæði í samningnum kveða á um. að það eru kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga sem fjalla eiga um þennan samning og greiða um hann atkvæði. Og hver er þá réttur okkar hv. þm. á haldbærum upplýsingum frá ráðh. í því efni? Enginn virðist sá réttur því miður vera. Okkur er ekki fengið plaggið í hendurnar fyrr en allt er frágengið og undirritað úti í Zürich. Og nú höfum við haft þrjá sólarhringa til að skoða þetta stóra mál áður en það er tekið á dagskrá hér á hv. Alþingi. Varla eru þessi vinnubrögð sæmandi fyrir nokkurt þjóðþing. En þó tók steininn úr þegar þess var getið í hádegisfréttum í Ríkisútvarpinu á mánudaginn var í tengslum við viðtal við hæstv. iðnrh. úti í Zürich að hver sá dagur sem Alþingi tæki sér til að fjalla um þetta mál kostaði þjóðina 400 þús. kr. Alþm., sem vilja vinna störf sín af samviskusemi, eru þá samkvæmt þessu að ræna þjóðina dag hvern álitlegri peningaupphæð. Hversu langt er hægt að ganga í vanvirðingu við hæstv. Alþingi? Ég sakna þess að hæstv. forseti Sþ., sem á sæti í þessari deild, skuli ekki vera hér viðstaddur til að svara þessari spurningu. Því má bæta við, ef menn vilja ræða þetta mál á svona lítilmótlegum grunni, að samkvæmt bráðabirgðasamkomulaginu frá 23. september 1983 áttu samningar að hafa gengið saman 1. apríl s.l. Síðan þá eru liðnir 220 dagar eða jafnvirði 88 millj. ísl. kr. samkvæmt sömu útreikningum. Á þá Alþingi að standa upp og segja: Hæstv. ráðh. er búinn að ræna þjóðina 88 millj. kr. með seinagangi í samningagerð? Fyrir utan allt sem kallast má rán eða ekki rán í samningnum sjálfum. Slíkum málflutningi tek ég ekki þátt í og ég frábið mér að sitja undir slíku hvort sem um er að ræða ráðh. eða aðra. En héðan úr ræðustól get ég ekki farið án þess að mótmæla fyrir hönd minna samtaka og minna umbjóðenda þeirri vanvirðingu sem hæstv. ráðh. hefur sýnt Alþingi með framkomu sinni í þessu máli öllu.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.