08.11.1984
Efri deild: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Þetta er orðin nokkuð löng og ströng umr. eins og vænta mátti, enda er hér um mjög mikilvægt mál að ræða. Þess hefur verið getið hér að nokkuð væri ýtt á þetta mál. það væri unnið undir allmikilli pressu, og skal ég játa að svo er.

Hér í umr. hefur verið vikið að forsögu þessa máls. Ég mun í engu víkja að þeirri forsögu, en ég hef löngum haft þá skoðun að of oft hafi verið þyrlað upp pólitísku moldviðri í kringum svo mikilvægan málaflokk sem orkumálin og orkusala Íslendinga eru.

Hér er um nokkuð flókið mál að ræða, það skal viðurkennt. Ég vil þrátt fyrir allt taka undir með fyrrv. þm. Alþb., sem á sæti í stjórn Landsvirkjunar, þar sem hann í sérstakri bókun hefur fagnað þeim áfanga sem nú hefur náðst. Í þeirri bókun er sú niðurstaða sem nú hefur fengist í samningum talin áfangi sem fagna beri. Ég vil taka undir þetta.

Það er að sjálfsögðu eitt og annað hægt að vefengja við lok samningagerðar. Reyndin er sú að einu gildir um hvað samningar hljóða, á þá reynir ekki fyrr en í framkvæmd. Það eru staðreyndir.

Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að víkja að forsögu þessara mála. Ég kemst þó ekki hjá því að bera þá niðurstöðu, sem nú hefur fengist varðandi orkuverð, saman við þann málatilbúnað sem farið var af stað með hér á hv. Alþingi snemma árs 1983, þ.e. þá var lagt til af ákveðnum aðilum í frv.-formi að við hækkuðum raforkuverðið einhliða. Ég vil minna á að sú hækkun sem getið er þar um, 12.5 mill, er sú sama og það lágmarksverð sem gildir í þessum samningi. Niðurstaða þessa samnings er, að mínum dómi, fengin í frjálsum samningum. Beri menn það saman við einhliða ákvörðun eins og ákveðnir aðilar lögðu til á sinni tíð. (EgJ: Þér er nú alveg óhætt að nafngreina þá.) Ég efast ekki um að hv. alþm. er fullkunnugt um við hvað ég á. Ég er með þessum orðum alls ekki að kveða upp einhvern áfellisdóm yfir fyrrv. ráðh. sem ég bar að sjálfsögðu fulla ábyrgð á sem stuðningsmaður þeirrar ríkisstj. sem þá sat.

Aðalatriði þessa samnings er að mínum dómi hækkun orkuverðsins. Í umr. hafa menn vikið að því að það orkuverð stæðist ekki í reynd nema skamman tíma vegna ýmissa atriða. En ég vil spyrja: Hvernig stæðu menn hefðu þeir engan nýjan samning? Það væru sömu atriði sem orkuðu á orkuverðið eigi að síður og það væri enn lægra.

Ég vil alls ekki gera lítið úr því endurskoðunarákvæði sem er í þessum samningi. Það má vafalaust deila um orðalag á því, en ég vil leggja áherslu á að sá þáttur er nýr í þessu máli öllu að koma inn endurskoðunarákvæði. Við getum þó aldrei séð fyrir í einu og öllu um framkvæmd einstakra atriða. Það er nánast útilokað. Ég efast satt að segja um að Alusuisse liðist og komist upp með að verjast því, þegar þar að kemur, að endurskoða orkusölusamninginn. Því er gjarnan haldið fram að varðandi dómsáttina hafi verið slegið verulega af. Ég skal játa að í því efni hefur hugsanlega verið slegið af nokkrum hagnaði, fjármunum. Hugsanlegt er það. Ég vil þó minna á að samningagerð hlýtur ætíð að vera af því tagi að báðir aðilar slá eitthvað af ýtrustu kröfum. Annað er ekki samningur. Annað eru einhliða ákvarðanir og ekkert annað. Ég skal ekki leggja dóm á það hér og nú varðandi þau atriði, sem voru látin niður falla fyrir fullt og fast á grundvelli þessarar sáttagerðar, hvort hugsanlegt var að fara aðra leið. Með tilliti til þeirrar niðurstöðu sem nú er fengin sætti ég mig við þessa málsmeðferð. Vík ég þá aftur að því sem er aðalatriði þessa máls og er ég þá með þá fjármuni í huga sem þarna eru í taflinu, þ.e. orkuverðið. Það set ég ofar öllu í þessu máli.

Það fer ekki hjá því að þegar hugsað er til þessara samninga sé reynt að gera sér í hugarlund það umhverfi sem okkar samningamenn voru í. Ég tel að þeir hafi staðið sig vel með tilliti til aðstæðna. Mér finnst í allri umræðunni vera ruglað nokkuð saman því að hér er verið að semja um orkuverð til gamallar verksmiðju. Var að því vikið hér áðan, og mig minnir að það hafi verið hv. 5. landsk. þm. sem undraðist það, að ekki væri hægt að greiða hærra verð í gömlum afskrifuðum verksmiðjum. Ég man ekki betur en margoft hafi verið gefnar skýringar á þessu, þ.e. að allar nýrri verksmiðjur eru miklum mun hagkvæmari í rekstri og ekki síst af þeim sökum er kleift að greiða hærra raforkuverð.

Það er auðvitað alveg ljóst að aðili eins og swiss Aluminium er engin góðgerðastofnun. Ég hygg að það blandist engum hugur um það. Auðvitað ganga Svisslendingarnir eins langt í allri samningagjörð og þeim er frekast unnt. Því hefur verið lýst hér í umr. og farið nokkuð aftur í tímann hversu óbilgjarnir í öllum viðskiptum þessir aðilar eru. Með tilliti til þess vil ég halda því fram að okkar samningamenn hafi staðið sig allvel — ég segi aftur: með tilliti til þess hversu harðsvíraðir samningamenn fulltrúar Swiss Aluminium eru.

Ekki get ég gert að því að mér finnst sumir hv. alþm. rugla þessum samningi saman við það samkomulagsbréf sem gert var, þ.e. samkomulagsbréf milli ríkisstjórnarinnar og Swiss Aluminium varðandi framhald viðræðna um tiltekin málefni skv. öðrum greinum í títtnefndum bráðabirgðasamningi. Stækkun álversins er ekki hluti af þeim samningi sem hér er verið að fjalla um. Mér finnst eins og sumir líti svo á að afgreiðsla þessa frv. varði lagagildingu á samkomulagsbréfinu. Að mínum dómi er ekki svo.

Virðulegi forseti. Þótt ekki sé það vegna þess að hver mínútan er dýr, heldur hins, að það er ýmsum öðrum hnöppum að hneppa mun ég stytta mál mitt. Ég skal fúslega játa að slík stórmál sem þessi þyrfti e.t.v. að bera að með eilítið öðrum hætti. Það hefur verið vikið að því hér í umr. að þinginu væri stillt upp við vegg. Það er nokkuð til í því að svo sé. Ég verð að viðurkenna að það er líklega engin aðstaða til að breyta einu eða neinu. hvorki varðandi lagatextann sjálfan né samningana sem hér er um að ræða. Þó skal ég ekki útiloka að löggilding samninganna með tilliti til frv. gæti verið með einhverjum öðrum hætti. Ég hef ekki skoðað það nógu vel, en efast þó um að á því séu möguleikar.

Vissulega skal ég taka undir með þeim sem hér hafa talað um hagstæðari samninga og ég hefði sjálfur tekið við betri samningi en hér er um að ræða, en ég hef þegar lýst því yfir að ég teldi samninginn mjög viðunandi. En hver hefði slegið hendinni á móti betri samningi? Ekki get ég að því gert að mér finnst á orðræðu sumra, sem þátt hafa tekið í þessari umr., að menn vilji bæði halda og sleppa. Menn vilja fara samningaleiðina. Flestir vilja það. En því er haldið fram að samningamenn okkar hafa ekki verið nógu harðir. Í öðru orðinu er sem sagt sagt að við eigum að vera harðari, en þess er jafnframt krafist að samningum verði náð. Það getur verið erfitt að greina þarna á milli.

Virðulegi forseti. Ég tel þetta viðunandi áfanga í þessu máli að flestu leyti. Vonandi náum við betri samningum í framtíðinni. Ég lít svo á að menn verði að meta þennan samning með tilliti til aðstæðna nú — meta samninginn sem slíkan, en láta ekki um of stjórnast af fortíðinni.

Ég geri ráð fyrir því að það verði orðið við tilmælum hæstv. iðnrh. í því efni að vinna eins hratt að þessu máli og frekast er kostur. Ég vil þó taka það fram að sem nm. í iðnn. Ed. mun ég stuðla að því að þetta mál fái svo þinglega meðferð sem kostur er.