19.06.1985
Neðri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6826 í B-deild Alþingistíðinda. (6129)

129. mál, umferðarlög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vildi mega frábiðja þessari hv. þd. þann barnaskap að karpa um hvort við séum meiri eða minni talsmenn öryggis í umferðinni. Ég held að við hljótum öll að vilja sem fæst slys og tryggja sem best öryggi í umferð og ættum að láta umræðum um slíkt lokið hér. Ég skal reyna að tjá afstöðu mína til þessa frv. í fáum orðum, herra forseti. Ég vil ekki tefja framgang þessa þarfa máls með miklum málalengingum héðan úr þessum ræðustól.

Ég styð álit minni hl. og legg til að frv. verði samþykki eins og það kom frá Ed. Það sem fyrir mér vakir er ekkert síður að afstýra þeim miklu líkamssköðum og tjóni sem verður á heilsu fólks, jafnvel þó að dauðaslysunum sé sleppt út úr því reikningsdæmi. Það eru ekki síst unglingarnir sem ég hugsa þá til, en það liggur fyrir að í þeim hópi er bílbeltanotkunin minnst en slysin mest. Það er víst fátt dapurlegra, eins og reyndar hefur komið fram í máli eins hv. ræðumanns, en að heimsækja ákveðnar stofnanir hér í borginni þar sem unga fólkið, rétt komið út í lífið, liggur lamað og úr leik fyrir lífstíð vegna slysa í umferðinni, e. t. v. á þeim árum sem lífið blasti við.

Ég skil ekki hræðslu nokkurra hv. þdm., sem hér hafa talað, við sektir. Ég hélt að það væri svo viðtekin regla í þessu þjóðfélagi og flestum öðrum þjóðfélögum sem styðjast við lög og reglur að beita einhverjum viðurlögum ef ekki er farið að lögum að ég hélt satt best að segja að umræður um slíkt væru óþarfar. Það eru viðhafðar hér sektir fyrir ýmislegt, svo sem að greiða ekki gjald í stöðumæla, leggja ólöglega á vegarkanta o. s. frv. Ef menn halda svo að það sé einhver takmörkun á einstaklingsfrelsi held ég að það sé misskilningur. Mig rekur minni til þess að þegar ég var landshornaflakkari í „guðs eigin landi“ með bakpoka og ekki mikla fjármuni missti ég drjúgan hluta þess gjaldeyris sem ég hafði mér til framfærslu vegna þess að ég álpaðist yfir gangbraut á rauðu ljósi í San Diego-borg í Bandaríkjunum. Og þá var ekki miskunnin hjá Magnúsi í landi þessa mikla einstaklingsfrelsis (Grípið fram í: Er það guðs land?) heldur var þar beitt hörðum sektum. Ég fór nú eitthvað að þrefa við lögregluþjóninn og vildi helst ekki una þessu. Hann sagði að þetta væri ekki gert af illsku í minn garð, heldur væri verið að venja fólkið af því að ganga yfir á rauðu ljósi. Auðvitað er það það sem nú er á ferðinni. Það er að sú áhersla sem löggjafinn leggur á að fólk fari að lögum er tjáð með þeim viðurlögum sem ákveðin eru hverju sinni.

Ég lít einnig svo á að hér sé um heimildarákvæði að ræða og það sé ekki skylda að sekta alla menn sem ekki nota við öll tækifæri bílbelti. Mér dettur ekki til hugar að íslensk löggæsla færi að beita þessu þannig að maður sem teldi öryggi sínu betur borgið þegar hann æki fyrir Ólafsfjarðarmúlann yrði sektaður þó að hann tæki af sér öryggisbeltið á þeim spöl. Mér dettur ekki til hugar að þessu verði framfylgt þannig. En í innanbæjarakstri og í almennum akstri eiga menn að hafa bílbeltin spennt. Það liggur fyrir tölfræðilega sannað að þannig er öryggi þeirra best borgið. Löggjafinn er með ýmsu móti að reyna að hafa áhrif á að öryggi þegnanna sé sem best tryggt og það á ekkert skylt við einhverja misskilda frelsiskrossferð hér að leggjast gegn þessu þarfa frv. á þeim forsendum. Ég mun harma það mjög, herra forseti, ef þessu frv. verður að aldurtila sá sjúkdómur sem heltekur nú hluta hv. þm. eins og menn vita og byggist á misskilningi.

Ég legg til að þetta frv. verð samþykkt eins og það kom frá Ed. Ég styð sem sagt álit minni hl. Ég hvet hvern einasta þm. að líta í eigin barm. Þeir munu margir eiga börn sem e. t. v. eru að taka bílpróf núna eða gera það á næstu árum. Ég bið þá að hugleiða andartak hvort þeir telji ekki öryggi þeirra betur borgið með því að þeim verði leiðbeint til að nota öryggisbelti og helst ættu allir bílar einnig að hafa höfuðpúða, en það liggur fyrir að með þessu tvennu og sameiginlegri notkun þessa tvenns má afstýra miklu líkamstjóni og jafnvel forða mannslífum.

Ég skora einnig á þá hv. þm. sem enn efast að heimsækja slysadeild Borgarspítalans eina mikla umferðarhelgi og vera þar og fylgjast með störfum læknanna því að það verða slys eftir slys þar sem tiltölulega minni háttar umferðaróhöpp valda miklum skaða á andliti, hálsliðum o. fl. vegna þess að fólk notaði ekki bílbelti og það voru ekki höfuðpúðar í viðkomandi bifreiðum. Ég hefði gaman af að sjá þá þm. sem eftir mikla umferðarhelgi og búnir væru að vera á slysadeild Borgarspítalans t. d. kæmu inn í þessa hv. þd. og greiddu atkvæði gegn þessu frv.