19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6852 í B-deild Alþingistíðinda. (6160)

456. mál, Byggðastofnun

Frsm. meiri hl. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um Byggðastofnun. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kom frá Nd. Ég fór nokkrum orðum um þetta frv. hér þegar það var lagt fram s. l. föstudag og þarf litlu við að bæta. Mín skoðun er sú, að þetta frv. sé til bóta frá því kerfi sem nú er, það verði, ef rétt verður á haldið, til þess að efla byggðamálin og er ekki vanþörf á. Ég hef fulla trú á því að þarna sé rétt að staðið í þessum efnum. Þess vegna er ég ekki sammála nál. Kvennalistans, sem hér liggur fyrir, um aukna miðstýringu og annað slíkt sem þetta mundi leiða af sér. Þetta tel ég rangtúlkun á því sem hér liggur fyrir, og það sem fram kom í máli hv. 11. þm. Reykv. áðan. En ég ætla ekki frekar út í þá sálma.

Um aðrar brtt. fjalla ég ekki hér. Það liggja fyrir brtt., sem virðast hafa verið nokkurt deiluefni, um staðsetningu Byggðastofnunar. Sérstök till. liggur fyrir frá hv. þm. Ragnari Arnalds og Birni Dagbjartssyni um að henni skuli vera valinn staður á Akureyri og enn fremur till. frá hv. þm. Davíð Aðalsteinssyni og mér um að hún skuli geta verið hvar sem er á landinu. Ég tel þetta nú ekki vera til bóta fyrir framgang frv. því að það felst í því og kom fram í framsögu hæstv. forsrh. fyrir málinu þegar hann ræddi það í Nd. að það er í verkahring stjórnar stofnunarinnar hvernig þessu verði háttað. Í frv. sjálfu er ekkert ákveðið um að stofnunin skuli endilega vera í Reykjavík. Það getur því verið mál sem stjórn viðkomandi stofnunar sker úr. Þess vegna lýsi ég því yfir fyrir hönd okkar Davíðs Aðalsteinssonar að við drögum till. okkar um þetta til baka og ég vildi óska þess, það er aðeins ósk, ekki annað, að flm. Akureyrartillögunnar gerðu slíkt hið sama.