19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6869 í B-deild Alþingistíðinda. (6176)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Kolbrún Jónsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég hef skilað nál. á þskj. 1363 þar sem ég segi, með leyfi virðulegs forseta:

„Nefndin tók þetta frv. fyrir á fundi sínum nú í morgun til efnislegrar umfjöllunar. Til viðræðna voru kallaðir fulltrúar Stéttarsambands bænda, Samtaka alifuglabænda, Neytendasamtakanna og Félags kartöflubænda. Enginn þessara aðila taldi hag sinn bættari með samþykkt þessa frv.

Vinnubrögð, sem viðhöfð hafa verið við meðferð eins veigamikils frv. sem þessa, verða að teljast forkastanleg, þar sem sama dag og frv. er rætt í nefndinni þurfti, vegna tímaskorts, að afgreiða málið til 2. umr. og atkvæðagreiðslu.

Undirrituð telur að frv. tryggi hvorki hag neytenda né bænda. Það eykur aðeins á miðstýringu á öllum sviðum landbúnaðarframleiðslu.

Undirrituð telur að hagsmunir bænda og neytenda fari saman. Þar af leiðandi þurfi þessir aðilar að vera með í ráðum þegar samið er frv. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Þessu var ekki sinnt við samningu þessa frv. Starfshópur þm. á vegum stjórnarflokkanna hefur í tæp tvö ár hnoðað þessu frv. saman og stjórnarflokkarnir ákveðið að gera þetta frv. að lögum hvað sem liði þinglegri meðferð málsins.

Af framansögðu mun undirrituð greiða atkv. gegn þessu frv.“

Hér gagnrýni ég aðallega þinglega meðferð þessa máls. g er ekki með þessu að gagnrýna formann nefndarinnar vegna þess að ég tek það sérstaklega fram að þarna sé tímaskorti fyrst og fremst um að kenna. Þó að okkur greini oft á um pólitískar skoðanir, þá hefur hv. formaður þessarar nefndar sýnt það að hann hefur getað tekið mál til efnislegrar umfjöllunar á mjög ópólitískan hátt og unnið mál vel. Þetta vil ég taka fram svo að enginn misskilningur verði varðandi hina þinglegu meðferð. Það er ekki formanni hv. landbn. Ed. um að kenna í þessu tilfelli.

Ekki vil ég þó láta hjá líða að nefna lítillega örfá atriði sem fram komu í dag. Vil ég þá fyrst nefna brtt. sem Neytendasamtökin eða formaður þeirra fyrir þeirra hönd hafði viðrað við hv. landbn. Nd.brtt. var við 1. gr., e-lið, en sá liður hljóðar svo, með leyfi forseta: „að innlend aðföng nýtist sem mest við framleiðslu búvara, bæði með hliðsjón af framleiðsluöryggi og atvinnu.“ Við þennan lið vildu Neytendasamtökin bæta: enda leiði það ekki til hækkunar á framleiðslu. — Þessi viðbót fékkst ekki inn í frv. Ég ætla ekki að geta í eyðurnar vegna hvers ekki, en þetta hefði ég talið til mikilla bóta þar sem þarna hefði hagkvæmnissjónarmið þurft að ráða. Við verðum að hafa það hugfast á okkar litla eylandi að reyna að framleiða allar vörur sem ódýrast og láta neytendur landsins, sérstaklega varðandi matvörur, njóta þess lægsta verðs sem við verður komið.

Mun fleiri atriði komu fram á þessum tveggja tíma fundi í morgun þar sem þessir aðilar sátu saman og fengu á knöppum tíma að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Frá fulltrúa Stéttarsambands bænda kom einmitt athyglisverð setning: „Ekki er gerð raunhæf athugun á nauðsyn þessara breytinga.“ Ég held að það sé margt til í þessu. Ég held að ekki hafi verið gerð raunhæf athugun á nauðsyn þeirra breytinga sem hér eru fyrirhugaðar. Hér er vaðið úr einu í annað. Hér er reynt að koma öllu undir stjórn og vilji menn ekki hlýða þeirri stjórn, t. d. alifuglabændur og aðrir sem ekki hafa verið undir stjórnun fram að þessu, þá njóta þeir ekki, að mér skilst, greiðslna úr kjarnfóðursjóði, sem geta numið allt að 200% af innflutningsverði kjarnfóðurs, þannig að þeir eru tilneyddir, vilji þeir fá eitthvað til baka úr þeim sjóði, að fara undir þessa stjórnun.

Hv. frsm. vék hér að VIII. kafla frv. þar sem gert er ráð fyrir að draga úr útflutningsbótum í áföngum og beina fjármagni þess í stað til nýrra búgreina. Þarna liggur góð hugsun á bak við. Ég get virkilega tekið undir þessa hugsun í sjálfu sér og tel reyndar að þetta hefði mun fyrr þurft að koma í framkvæmd. En það er eitt sem ég er alls ekki sammála í þessu. Hér er talað um prósentutölu af framleiðslu landbúnaðarvara og þetta tekur til allra landbúnaðarvara. Ef það er offramleiðsla t. d. á kartöflum, þá hækkar þessi tala í krónum talið vegna þess að þetta er prósenta af landbúnaðarframleiðslu. Ef reki er nýttur mjög mikið þetta árið eða laxveiði er mjög góð, þá hækkar þétta í krónutölu. Hér væri nær að miða við einhverja fasta krónutölu en ekki prósentu og þá fasta krónutölu á útflutningsbætur eða sem sagt á þær afurðir sem fluttar eru út. Mér skildist á hv. frsm. að þetta mundi ekki bitna á sauðfjárafurðum. Það væri reiknað með að greiða niður 2000 tonn af sauðfjárafurðum á ári en draga úr mjólkurframleiðslu, eða niðurgreiðslan mundi bitna á þeirri atvinnugrein. Þetta er ég fyrst að heyra núna úr ræðustól. Þetta hafði ég ekki vitað um áður en þetta frv. var til umfjöllunar. Margt var athyglisvert í ræðu hv. þm. sem hefði verið gott að fá upplýsingar um áður. Ég vil þakka honum fyrir það innlegg sem hann jók við hér. En það er kannske ekki von að á einum degi sé hægt að dengja inn öllum þessum upplýsingum til þm. sem ekki eiga fulltrúa í landbn. Nd. og þar af leiðandi kannske ekki hægt að líkja saman aðstöðu til þess að fylgjast með gangi mála á hv. Alþingi. En svo vill til að Bandalag jafnaðarmanna á ekki fulltrúa í landbn. Nd. og þar af leiðandi kemur þetta kannske þyngra niður á þessum þingflokki í heild sinni.

Við lestur á þessu frv. kemur margt í ljós sem ég hef ýmislegt við að athuga en ég ætla ekki, eins og ég segi, að fara efnislega yfir þetta. Að mínu mati hefur málið ekki fengið þá þinglegu meðferð sem skyldi. Það er ekki sú samstaða sem þyrfti að vera á milli bænda og neytenda, sem á að vera grundvöllur fyrir að slíkur lagabálkur nái fram að ganga hér á Alþingi, vegna þess að þessir aðilar hafa gagnkvæmra hagsmuna að gæta og sættir þeirra á milli, eða a. m. k. sú málsmeðferð sem þeir geta sætt sig við, verða að liggja til grundvallar. Það eru ýmsar leiðir vafalaust sem hægt er að fara í kringum þetta mál, t. d. varðandi kartöflur, varðandi sölu á kartöflum. Kartöflubændur eru ekkert mjög hressir með það að þeim eru veittar frjálsar hendur varðandi sölumál. Þeir telja að með því skapist ringulreið og menn geti jafnvel auðveldlega svikið undan skatti vegna þess að engum aðila sé skylt að sjá um dreifingu eða sölu. Eitt er samkeppni en annað er ringulreið.

Ég hef ekki þessar efasemdir. Ég held að þetta eigi eftir að þróast í þá átt að það komist í gott horf þegar þeir eru búnir að skipuleggja sín sölumál sjálfir. Hingað til hefur einn aðili að mestu leyti séð um þessi málefni. Það tekur alltaf nokkurn tíma að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Annars vegar eru alifuglabændur sem telja það mjög bagalegt að þeir séu allt í einu skyldaðir til þess að hlíta slíkri löggjöf. Fram að þessu hefur verið samkeppni í sölu hjá þeim og þeirra sölumál gengið vel að dómi neytenda, a. m. k. hef ég ekki heyrt annað. Nú verði þeir allt í einu að hlíta verðákvörðun sérstakrar nefndar og sé bannað vegna ákvæða laga að selja sínar afurðir undir einhverju samkomulagsverði sem einhver nefnd ákveður. Við vitum það mætavel að í stórmarkaði þar sem keypt er mjög mikið í einu fá kaupmenn vöruna á lægra verði og það er eðlilegt að neytendur fái að njóta þess og það ætti alls ekki að brjóta í bága við lög.

Ég held, virðulegi forseti, að ég sé ekki að lengja þessa umr. með frekari umfjöllun efnislega um þetta mál. Eins og ég segi í niðurlagi míns nál. mun ég greiða atkv. gegn þessu frv. þrátt fyrir örfá atriði þess sem ég get tekið undir og hef nefnt hér.