19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6882 í B-deild Alþingistíðinda. (6181)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Frsm. meiri hl. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Það er ekki nema eðlilegt að ég sé minntur á það hingað á leið mína í ræðupúlt að orðið sé framorðið og þá sérstaklega vegna þess að umræðan hér um landbúnaðarmálin hefur sannarlega borið þess merki að þar væru málefni látin ráða og farið yfir málið af mikilli hæversku. Og ég vona að þótt ég segi hér fáein orð verði það ekki til þess að vekja deilur, þó að menn hafi að sjálfsögðu fulla möguleika á að gera athugasemdir við það sem ég kann hér að segja.

Það hefur komið nokkuð fram í umræðum um þetta frv. og tilurð þess, m. a. mátti heyra það á orðum hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar, að það hefði verið nokkuð þröngur hópur sem hefði fjallað um málið, samið frv. og gengið frá því. Ég vil í þessu sambandi aðeins minna á að það sem hér er verið að vinna er í framhaldi af því sem tekin er ákvörðun um í stjórnarsáttmála og er ekki nein nýlunda því að í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar, sem Alþb. átti m. a. myndarlega aðild að, segir svo í kaflanum um landbúnaðarmál, með leyfi virðulegs forseta:

„Stefnan í málefnum landbúnaðarins verði mörkuð með ályktun Alþingis og við það miðað að tryggja afkomu bænda, sporna gegn byggðaröskun og fullnægja þörfum þjóðarinnar fyrir búvörur til neyslu og iðnaðar. Lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins verði breytt í því skyni að tryggja stefnuna í framkvæmd.“

Fyrrv. ríkisstjórn ákvað það í sínum stjórnarsáttmála að stefnuna skyldi leggja út á grundvelli þáltill. Núv. ríkisstjórn tók þá ákvörðun að leggja fram sína stefnu með því að endurskoða lögin um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Fyrrv. ríkisstj. valdi þrjá menn til að fjalla um þessa þál. Það voru, eins og menn vita, hinir hæfustu menn: hv. þm. Helgi Seljan, Hákon Sigurgrímsson, sem var reyndar búinn að semja aðra stefnumótandi tillögu fyrir fyrrv. landbrh. Steingrím Hermannson, og nafni minn Bjarnason sem var formaður nefndarinnar. Þessi nefnd skilaði áliti sem var lagt fram á Alþingi eftir 25 mánuði frá því að hún fékk sitt erindisbréf og ég kannast ekki við að það hafi farið fram umræður um þá tillögu í bændasamtökunum, t. d. á Búnaðarþingi eða á Stéttarsambandsfundum eða yfirleitt nokkurs staðar annars staðar.

Hér er þessi tillaga. Hún er í þremur liðum auk skýringa og greinargerðar og tekur tíu heilar línur og þrjá parta af línum, misjafnlega mikla. Út af fyrir sig hefur það tekið of langan tíma hjá endurskoðunarnefndinni að leggja fram þetta frv. og margar tímasetningar búnar að bresta í þeim efnum. En frv. kom þó 20 mánuðum frá því að nefndin fékk sitt skipunarbréf og var þá í heilu líki eins og menn hafa hér séð.

Ég held að það sé alveg augljóst mál að hér er ekki um neinn mun á vinnubrögðum að ræða. Og hér er ég einungis að tala um vinnubrögð, ekki árangur. Stjórnmál eru stjórnmál, ríkisstjórn er ríkisstjórn og stuðningsflokkar hennar það lið sem að baki henni stendur. Og þótt vissulega væri mjög oft gaman að geta haft víðtækara samstarf um uppsetningu á þingmálum, þá komast menn að sjálfsögðu ekki hjá því að skiptast í fylkingar þegar verið er að ganga frá stefnumótandi málum ríkisstjórnar með sama hætti og hér hefur verið gert.

Ég má kannske minna á að það hefur fyrr farið fram endurskoðun á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins og til þess verið kvaddir fleiri en þeir sem hafa átt aðild að þeim ríkisstjórnum sem þá hafa setið. Gallinn er hins vegar sá, að þótt í þeim tilvikum hafi verið samin víðtæk fumvörp, þá varð ágreiningur um þau og þau fóru ekki lengra en það að þau hafa í mesta lagi verið flutt inn í þingið. Ég kann þó ekki nákvæmlega skil þar á. Og nú er ég bara að tala um vinnubrögðin. Það var m. a. þessi reynsla sem ég hafði fyrir mér þegar ég taldi það ekki einungis eðlilegt heldur beinlínis sjálfsagt að ríkisstjórnarflokkarnir sýndu þann manndóm af sér með góðu eða illu að framfylgja því sem þeir væru sjálfir að setja,inn í stjórnarsáttmála. Það er svo fjarri því að ég hefði ekki vel getað hugsað mér að vinna þetta verk t. d. með hv. þm. Helga Seljan. Það hefði kannske ekki orðið alveg eins frv., en við hefðum áreiðanlega komist að niðurstöðu ef við hefðum þá verið í sömu pólitísku blokkinni.

Mér þykir vænt um það, eins og reyndar afar margt sem hv. þm. Helgi Seljan segir, þegar hann talar um það hér að Birgir Ísl. Gunnarsson sé aðalhöfundur frv. (HS: Nei, annar höfundur.) Já, ég bið nú forláts ef ég hef tekið skakkt eftir, en annar aðal-Alþb.-maður hefur kallað mig aðalhöfund frv. og ég held að það séu meðmæli með frv. að kenna það við jafnhæfan og vandaðan þm. eins og Birgi Ísl. Gunnarsson. Hins vegar vildi ég nú helst, ef verið er að eigna það einhverjum, að við mættum nú eiga það sameiginlega, þessir menn sem unnu þetta. Og mest starf í þessum efnum lagði af mörkum Bjarni Guðmundsson.

Það er ekki ástæða til að fjalla hér um það að átt hefði að taka upp víðtækari umræður um málið í sumar. Ég held að það hefði reyndar orðið til þess að málið hefði aldrei verið flutt á Alþingi og það hefði alls ekki orðið til þess að bæta þetta mál. Ég er ekki með nokkra einustu minnimáttarkennd gagnvart þessu frv. Ég er ekkert minni bóndi og ekkert óhæfari til að meta hlut bændanna í sambandi við það heldur en hver annar. Ef menn taka að sér að vinna svona verk verða menn náttúrlega að hafa það sjálfstraust til að bera sem gerir mönnum mögulegt að standa eða falla með sínum skoðunum. Og þeirri ábyrgð ætlaði ég aldrei að koma yfir á aðra menn í þessari vinnu. En það er annað sem hefði líka skeð ef frv. hefði ekki náðst núna í gegnum Alþingi. Þá hefðum við tapað heilu ári. Við hefðum ekki tapað þrem eða fjórum mánuðum heldur hellu ári, vegna þess að það má ekki þrengra vera um tíma til þess að geta farið að undirbúa þær miklu skipulagsbreytingar sem þurfa að taka gildi í haust, ef fylgt verður eftir því sem fram kemur í frv.

Hv. þm. Helgi Seljan hafði orð á því hér að það væri samdráttur í sölu innanlands. Það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt að það sé borið hér á borð fyrir okkur, jafnmikið og um það hefur verið talað. Og þá verð ég að játa á mig ávirðingar því að hv. þm. hafði farið fram á það að ég útvegaði ákveðnar heimildir í þessum efnum, en af því varð ekki vegna þess að við vorum sammála um það á tímabili að það væri nokkuð til efs hvað fundir yrðu margir um þetta mál hér í Ed. En ég fékk tölur um þetta í dag frá Framleiðsluráði landbúnaðarins og þá kemur í ljós að á fimm fyrstu mánuðum þessa árs er kindakjötssala 75 tonnum meiri en á sömu mánuðum í fyrra, þ. e. aukning um 2%. Þetta eru að sjálfsögðu allt aðrar tölur en við höfum verið að heyra í allan liðlangan vetur. Og það finnst mér einkennilegt að það er eins og það séu uppáhaldsfréttir eða boðskapur Framleiðsluráðs landbúnaðarins að tilkynna um samdrátt í neyslunni hér innanlands. Það skyldi þó ekki vera að það sé líka aukning í neyslu á mjólkurvörum? En um það fékk ég ekki nákvæmar tölur. Ég held satt að segja að það sé miklu meiri hætta fólgin í þessu sífellda hjali um samdrátt og breyttar neysluvenjur hér innanlands heldur en einhverjum verðbreytingum á þessum vörum.

Það var t. d. athyglisvert á fundinum úti í Þórshamri í morgun, ég vona að það hafi fleiri tekið eftir því en ég, að formaður Sambands kartöfluframleiðenda sagði að verðbreytingar á kartöflum hefðu sáralítil áhrif á söluna. Og samt á alltaf að vera að lemja áfram niðurgreiðslur til þess að auka söluna.

Ég skal svo ekki verða margmáli um það sem menn tala hér um óánægju með frv., einungis minnast á þrjú atriði sem ég get ekki látið fram hjá mér fara. Það er þá í fyrsta lagi í sambandi við staðgreiðsluna, sem ég hef áður talað um, eða greiðsluskylduna. Í Nd. var leitað eftir því við þrjá þekkta lögmenn, mjög hæfa menn, að þeir létu umsagnir í té um viss atriði í frv. og hv. þm. Halldór Blöndal hefur gefið mér afrit af þeirra bréfi. Þessir lögmenn eru Jón Þorsteinsson, Benedikt Blöndal og Gaukur Jörundsson. Þeir segja í niðurlagi þessa bréfs, og það er nú kannske helst ástæða til að hv. þm. Davíð Aðalsteinsson heyri þetta, hafi hann ekki verið búinn að fá um það vitneskju áður, það sem ég ætla nú að lesa, með leyfi virðulegs forseta:

„Að lokum viljum við taka fram að í 18. gr. frv. er því slegið föstu að enginn megi kaupa eða selja búvörur innanlands á öðru verði en ákveðið hafi verið skv. ákvæðum þess. Skiptir í því engu máli hvort um er að ræða umboðssölu eða ekki, framleiðanda ber það grundvallarverð sem ákveðið hefur verið, hvorki hærra né lægra.

Í 29. gr. frv. eru ákvæði um gjalddaga. Heimilt er að semja um gjalddaga, en slíkir samningar hljóta að verða einstaklingsbundnir. Ef frv. verður að lögum falla núgildandi samningar í þessu efni úr gildi, hvort sem þeir eru einstaklingsbundnir eða fólgnir í stofnsamningum félaga, og ber að fara eftir reglum 29. gr. nema nýir samningar takist um aðra greiðslutilhögun en þar er ákveðin. Hitt er svo annað mál, að framleiðendur geta síðar notið hagnaðar afurðastöðvar sem eigendur hennar, hvort sem er í samvinnufélagi, hlutafélagi eða með öðrum hætti. Fari svo að afurðastöð inni lögmæta greiðslu ekki af hendi á réttum tíma, gjalddaga, ber henni að greiða framleiðanda dráttarvexti með sama hætti og tíðkast í verslunarviðskiptum.“

Ætli þetta dugi nú ekki? Það er svo auðvitað sjálfsagt að búa svo um að afurðalán, eigið fé, niðurgreiðslur og útflutningsbætur, allt þetta sameiginlega, öllu þessu sé stýrt sameiginlega til að ná þessu markmiði.

Ég hef líka með þessu með vissum hætti svarað því sem kemur fram í ræðu hv. þm. Eiðs Guðnasonar, þar sem hann talar um að milliliðir hafi allt sitt á þurru, bændurnir fái afganginn, og hann talar um Samband ísl. samvinnufélaga sem sérstök umhyggja sé borin fyrir í þessum efnum. Ég ætla að sleppa allri umræðu um Sambandið á þessu stigi málsins. En málið gengur bara ekki upp því að nú verða þessir aðilar að borga afurðaverðið eins og það er ákveðið hverju sinni. Og eins og fram kemur í þessari álitsgerð, þá gildir um þetta hið sama og öll önnur viðskipti hér á landi.

Það er kannske allt í lagi að minnast á það hér að sauðfjárframleiðslan hefur dregist saman um 17% síðan 1979. Þá voru borguð út 90% af haustgrundvelli. Að sjálfsögðu hefur þessi samdráttur dregið til sín hærri tölu í afurðalánum heldur en til þess þyrfti að borga þetta fullu verði.

Þá finnst mér líka vert að geta þess, af því að það hefur komið fram víðar en í ræðu hv. þm. Helga Seljans, að tilfærsla á valdi til landbrh. frá bændasamtökunum er ekki nema af tvennu tilefni. Í fyrsta lagi verða menn að gera sér það ljóst að Framleiðsluráð er einvörðungu skipað bændafulltrúum. Áður áttu vinnslustöðvarnar þar hlut að máli og má segja að þær hafi getað með vissum hætti verið einhver hemill á ákvarðanir bændastéttarinnar og þar af leiðandi er eðlilegt að ýmsar ákvarðanir þurfi að leggja fyrir landbrh. Hin ákvörðunin byggist svo á því að verðmiðlunarákvarðanir eru núna háðar samþykki landbrh. Það þykir eðlilegt m. a. vegna þess að hér er í raun um skattlagningu á neytendur að ræða og þar af leiðandi eðlilegt að um það sé fjallað af stjórnvöldum.

Mér þykir svo að síðustu vert að benda á það varðandi þær efnisathugasemdir sem hér hafa komið fram að það er ekki á færi sex manna nefndar og ekki á færi Stéttarsambandsins að taka nýbúgreinar til stjórnunar né heldur að ákveða verð á þeirra framleiðsluvörum. Um það eru skýr ákvæði í 8. gr. frv. þar sem tilgreint er að til þess að til slíks komi þurfi líka óskir eða samþykki búgreinarinnar sjálfrar. Í þeim efnum er því fyllilega séð fyrir því að einmitt slíkar ákvarðanir, eins og svo margar aðrar, þurfi að byggjast á samkomulagi.

Til þess að forðast misskilning miðað við það sem kom hér fram í fyrri ræðu minni, þar sem ég var að tala um framleiðslumarkmið og áformaðan útflutning, finnst mér að lokum rétt að minna á það sem fram kemur í framhaldi af upphafsorðum athugasemdar við 36. gr. frv., þar sem segir að greinin skýri áættaða breytingu á stuðningi við framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða, að með frv. er ekki ætlunin að gera breytingar á heimildum til ráðstöfunar á útflutningsbótafé, sem kemur í hlut framleiðenda búvara, umfram það sem kann að leiða af samningum sem ríkið og Stéttarsamband bænda gera um magn mjólkur- og sauðfjárafurða skv. a-lið 30. gr. Í þeim samningi eru bændur sjálfir í aðstöðu til að semja um á hvern veg útflutningsbótafé verður nýtt. Ákvæði 36. gr. standa því ekki í vegi að útflutningsbótafé verði ráðstafað til annarra en framleiðenda mjólkur- og sauðfjárafurða, ef samningar skv. a-lið 30. gr. leiða ekki til þess að slíkar heimildir séu fullnýttar. Þar undir gæti t. d. komið stuðningur við útflutning hrossa og hrossaafurða og raunar fleira sem ekki er tilgreint sérstaklega í skýringum við 36. gr.

Þá er enn fremur rétt í þessu sambandi að hafa í huga að heimildin í b-lið 30. gr. til að ákvarða hvernig verðábyrgð ríkissjóðs skv. 36. gr. skuli skipt milli framleiðenda er ekki bundin við framleiðendur tiltekinna búvara.

Þetta þykir mér rétt að hér komi fram.

Ég hef ekki fjallað hér í ítarlegu máli um þær athugasemdir sem hér hafa fram komið og vona raunar að þessi virðulega þingdeild taki viljann fyrir verkið í þeim efnum sem öðrum.