19.06.1985
Neðri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6894 í B-deild Alþingistíðinda. (6200)

404. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Vegna spurningar hv. þm. vil ég í fyrsta lagi taka það fram að þessi brtt. er flutt með fullu samþykki mínu og sömuleiðis hæstv. landbrh. sem er kunnugt um þennan flutning, enda er í sjóðafrv., sem ekki fæst afgreitt á Alþingi nú, gert ráð fyrir að öllum sjóðum verði heimilt að lána í hvað það sem stjórnir viðkomandi sjóðs kjósa. Má segja að þessi breyting sé flutt í samræmi við það að Fiskveiðasjóði verði þá heimilt að lána til fiskeldis. Með þessu er alls ekki ákveðið að stjórnskipulega skuli fiskeldi falla undir sjútvrn., ég skal ekkert um það segja hver niðurstaðan verður þar, en líklegt er að fiskeldi og fiskirækt verði aðskilin í stjórnkerfinu.