19.06.1985
Neðri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6898 í B-deild Alþingistíðinda. (6212)

262. mál, almannatryggingar

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti heilbr.- og trn. Nd. um þetta frv. Álitið er á þskj. 1358. Nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Það felur það í sér að greiða megi maka elli- og örorkulífeyrisþega makabætur allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Breytingin er í því fólgin að tekjutryggingin er tekin þarna inn sem ekki er í gildandi lögum.

Eins og segir í grg. er markmið frv. að hækka greiðslur makabóta til þeirra sem bundnir eru heima við vegna örorku eða langvinns sjúkdóms maka og geta ekki af þeim sökum aflað sér tekna.

Útgjöldin sem þetta hefði í för með sér, ef samþykkt verður, eru talin verða á ári um 5 millj. kr. Ég held að allir geti verið sammála um að hér sé réttlætismál á ferðinni. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt.