19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6907 í B-deild Alþingistíðinda. (6246)

398. mál, grunnskólar

Páll Dagbjartsson:

Herra forseti. Þá er enn einu sinni komið til umræðu hér á hinu háa Alþingi hvort hér á landi skuli vera í gildi skólaskylda í 9. bekk grunnskóla eða ekki. Á hverju þingi síðan 1980 hefur gildistöku þessa ákvæðis grunnskólalaganna verið frestað um eitt ár í senn. Nú er það ekki verulega sniðugt að halda svoleiðis afgreiðslu máls áfram ár frá ári og því fagna ég því að nú gefst tækifæri til að skýrt og afdráttarlaust komi í ljós vilji Alþingis í þessu efni. Sú var meining mín með því að leggja fram frv. hér í þd. s. l. vetur. Mér var fullljóst að hv. þm. mundu hika við áður en þeir samþykktu þá kerfisbreytingu sem frv. felur í sér, þ. e. að stytta skólaskyldu um eitt ár frá því sem nú er. Hins vegar vonaðist ég til að málið fengi nokkra umfjöllun og í framhaldi af því yrði gerð víðtæk athugun á hverja menn teldu heppilegustu leið varðandi lengd skólaskyldunnar hér.

En hvers vegna hefur ekki ákvæði grunnskólalaga um skólaskyldu í 9. bekk komið enn til framkvæmda ellefu árum eftir gildistöku laganna? Einfaldlega vegna þess að mikil andstaða hefur verið gegn þessu ákvæði. Rétt er að hafa í huga að það hefur margt breyst í okkar þjóðlífi á þessum síðustu ellefu árum og því í raun sjálfsagt að taka þetta til endurmats. Raunar höfum við, sem störfum í grunnskólum landsins, átt von á því að víðtæk endurskoðun færi fram á öllum lagabálkinum í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur.

En um hvað snýst þetta mál í reynd? Það snýst um það hvort með lagaboði á að þvinga inn í 9. bekk grunnskóla þá einstaklinga, sem eru um 5% úr hverjum aldursárgangi eins og hér hefur komið fram, sem ýmissa orsaka vegna kjósa að hverfa frá námi eftir 8. bekk og fara að vinna, hvort það skuli sem sagt berja þetta fólk til bókar. Ég segi nei. Unglingur á þessum aldri, sem þvingaður er til þess að vera í skóla, kemur í skólann með neikvæðu hugarfari sem getur snúist upp í andstöðu gegn skólanum og gegn þjóðfélaginu. Þetta getur haft þau áhrif að sá hinn sami eigi mun erfiðara með að hverfa að námi síðar vegna innri togstreitu sem skapast hefur í skólanum.

Taki einstaklingurinn sjálfur um það ákvörðun í samráði við foreldra sína hvort hann hættir námi eftir 8. bekk og fer að vinna eða heldur áfram námi framkallar það jákvætt hugarfar. Það er einmitt þetta jákvæða hugarfar sem ég tel að skipti afar miklu varðandi árangur í öllu námi. Að knýja menn til einhverra verka er allt annað og verra en að bjóða að ganga til þess sama af fúsum og frjálsum vilja. Með þessu frjálsa aðgengi í 9. bekk er verið að efla sjálfsvitund nemandans. Hann finnur til ábyrgðar gagnvart sjálfum sér og sinni framtíð og þá um leið ábyrgðar gagnvart þjóðfélaginu. Það er af hinu góða. Þetta hef ég orðið mjög svo var við í starfi mínu á undanförnum árum. Hið neikvæða hugarfar sem þetta valdboð kann að framkalla hjá unglingnum getur haft veruleg áhrif á heimili viðkomandi og ég tala nú ekki um yngri systkini. Foreldrarnir snúast í andstöðu gegn skólanum því þeir sjá engan tilgang í því að hafa unglinginn í skólanum þar sem hann gerir sér ekkert að gagni. Ekki má gleyma því að enn þá er atvinna fyrir unglinga í okkar þjóðfélagi og skóli vinnunnar getur verið betri en sá skóli sem menn eru þvingaðir til að stunda.

Hvað skólann snertir munu áðurnefndir nemendur skapa þar ýmsan vanda. Það þarf tíma, það þarf peninga og mannskap til að bregðast við honum. Eins og nú háttar, þ. e. þegar kennarar flykkjast úr starfi, fyrst og fremst vegna lélegra launa, eiga margir skólar í erfiðleikum með að fá starfslið. Við þannig aðstæður þýðir ekki að gera meiri kröfur til skólanna en nú eru gerðar.

Það ætti öllum að vera ljóst að fræðsluskylda í 9. bekk er mun sanngjarnari og viturlegri tilhögun en skólaskylda. Lengd skólaskyldu tryggir ekki gæði skólastarfsins og menntunarinnar né hefur bætandi áhrif í uppeldislegu tilliti. Það er haft eftir Jónasi Pálssyni, rektor Kennaraháskóla Íslands, að það mætti vel hugsa sér afnám allrar skólaskyldu vegna þess að fólk telur skólagöngu svo sjálfsagðan hlut í uppeldi nú til dags að engan þurfi til hennar að skylda með lögum.

Í mínum huga er það sífellt að verða ljósara að það er í rauninni rangt að tala um grunnskólann frá 6–16 ára sem eina heild því svo ólíkt er starfið sem fram fer í efstu bekkjum því sem fram fer í þeim neðstu. Elstu árgangarnir tveir skilja sig þarna frá að mörgu leyti. Þá fer fyrir alvöru að verða brýn þörf fyrir að rækta upp einstaklingseiginleikana og laga skólakerfið að hæfileikasviði hvers og eins. Með þeim sveigjanleika sem viðgengist hefur í 9. bekk undanfarin ár hefur reynst unnt að mæta þessum kröfum að nokkru. Fyrir mér er það skýrt að þessi sveigjanleiki er fyrir hendi af því að 9. bekkur er ekki inni í skyldunámsmiðstýringunni.

Ég hef mjög svo orðið var við það nú undir vorið að það eru í raun allir óviðbúnir að skólaskylduákvæðið, sem hér um ræðir, komi til framkvæmda í haust. Það hafa allir, sem hlut eiga að máli, beinlínis reiknað með að óbreytt skipan héldist, a. m. k. næsta skólaár. Það hafa engar vísbendingar borist frá menntamálayfirvöldum um annað, nema þá að ég frétti að í útvarpsfréttum í gærkveldi hefði komið frétt um að það væri vilji menntmrh. að láta þetta ákvæði um skólaskyldu í 9. bekk koma til framkvæmda á hausti komanda. Ég leyfi mér að telja það lágmarksháttvísi að gera skólum landsins ljóst áður en þeir luku störfum í vor að fyrirhugað væri að þetta ákvæði kæmi til framkvæmda á hausti komanda þannig að unnt hefði verið að koma boðskapnum til nemenda, til foreldra og til kennara.

Einn aðili er enn ónefndur í þessu tilliti, en það er Námsgagnastofnun. Ég hef það beint frá forsvarsmönnum þeirrar stofnunar að hún er allsendis óviðbúin nú með tveggja og hálfs mánaðar fyrirvara að sinna skyldum sínum með ókeypis úthlutun námsbóka til handa nemendum 9. bekkjar í haust. Þar kemur margt til, m. a. samningar við bókaútgefendur svo og fjárskortur.

Ég vil hvetja til þess að hv. þm. hugsi sig vel um áður en þeir samþykkja till. meiri hl. menntmn. því að þá kemur til framkvæmda af sjálfu sér skólaskylda í 9. bekk grunnskóla í haust. Ég vek athygli á því að með till. minni hl. hv. menntmn. er séð fyrir kostnaðarhliðinni því að með fræðsluskyldu fá nemendur greiddan þann kostnað til jafns við aðra nemendur í skyldunámi, en eru ekki skyldaðir til að sitja í skólanum.

Þetta mál, sem hér um ræðir, er ekki ágreiningsmál milli dreifbýlis og þéttbýlis. Það er ekki flokkspólitískt mál. Ég vil láta þess getið þessu til stuðnings að á fundi í fræðsluráði Reykjavíkur þann 10. júní var samþykki áskorun til menntmrh. um að fresta gildistöku ákvæðis um skólaskyldu í 9. bekk þar til fram hefði farið víðtæk athugun á ágæti þeirrar aðgerðar.

Það var gerð samþykkt á fundi kennara í Norðurlandsumdæmi eystra að Þelamörk 8. mars sem mig langar að lesa, með leyfi forseta:

„Fundur kennara á Norðurlandi eystra, haldinn 8. mars 1985, skorar á Alþingi og menntmrh. að tryggja öllum börnum ókeypis skólagöngu frá 6–16 ára aldurs án þess að lengja skólaskyldu upp á við frá því sem nú er framkvæmt.“

Sameiginlegur fundur fræðsluráðs og allra skólastjóra á Norðurlandi vestra samþykkti samhljóða sams konar ályktun á fundi 12. mars í vetur, en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Sameiginlegur fundur fræðsluráðs og skólastjóra á Norðurlandi vestra, haldinn á Blönduósi 12. mars 1985, telur ekki réttan tíma nú til þess að til framkvæmda komi skólaskylda fyrir 9. bekk grunnskóla, en mælir með því að nú þegar verði ákveðin fræðsluskylda til reynslu.“

Ég vil vekja athygli hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur á því að sú brtt. sem minni hl. hefur lagt hér fram kemur einmitt til móts við þau sjónarmið sem koma fram í þáltill. sem hv. þm. var flm. að ásamt fleirum í haust og heyrðist mér á máli þm. áðan að hún væri heldur að draga í land með það sem stendur í þeirri þáltill.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var með ýmsar spurningar sem hann vildi fá svör við. Hann er nú fjarverandi og sennilega farinn úr húsinu þannig að ég sé ekki ástæðu til að fara að tíunda það frekar að honum fjarstöddum, en þó hefði ég kosið að geta skotið á hann orði síðar. Sumu af því sem hann spurði um hef ég þegar svarað í málflutningi mínum hér að framan. (Forseti: Má ég spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni, ekki síst ef hann telur ástæðu til að tala þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er viðstaddur? Meiningin var að gera hlé á þessum fundi sem allra fyrst en hefja að nýju fund kl. hálf níu.) Já, ég get svarað forseta því að ég á ofurlítið eftir, en ég hefði gjarnan óskað eftir því að fá að tala við hv. þm. Hjörleif Guttormsson. (Forseti: Þá vildi ég gera hlé á þessari umr. nú og byrjar hún að nýju kl. 8.30 í kvöld.) –[Fundarhlé.]

Herra forseti. Það var orðið þunnskipað lið hér er gert var hlé á fundi fyrir klukkutíma og korteri og lítið hefur fjölgað, því miður. En þar sem komu fram bæði spurningar og ábendingar frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, sem ég vildi gjarnan svara, óskaði ég eftir að fá að ræða þetta mál aðeins frekar eftir fundarhlé.

Ég vil byrja á því að ítreka að ég gerði mér fulla grein fyrir því þegar ég lagði fram frv. mitt hér í Nd. í vetur að það gengi skrefi lengra en flestir gætu hugsað sér að samþykkja umhugsunarlaust, en vænti þess að þar hefði verið slegið fram nýjum hugmyndum sem vektu umhugsun og umræðu. Ég hef einmitt orðið var við það í mörgum símtölum og öðrum viðtölum að þessar hugmyndir, sem komu þar fram, eru taldar vera vel þess virði að þær séu skoðaðar.

Hér er verið að ræða um skólaskyldu og það kom fram í máli hv. þm. áðan að sennilega teldu engir að afnema bæri skólaskyldu alveg. Ég vil leyfa mér að endurtaka tilvitnun í þann merka skólamann Jónas Pálsson, rektor Kennaraháskóla Íslands, en hann sagði á fundi Bandalags kennarafélaga á Norðurlandi eystra að í raun væri kannske allt í lagi að afnema skólaskyldu alveg þar sem skólaganga væri orðin svo sjálfsögð í hugum foreldra á Íslandi að það þyrfti ekki að skylda foreldra til að senda börn sín í skóla.

Ég vil taka það alveg skýrt fram að í mínum huga er með því að skylda nemendur til að koma í 9. bekk verið að stórauka kröfur til skólanna, en ég tel að þeir séu ekki í stakk búnir til að rísa undir aukinni kröfugerð, hvorki í þéttbýll né dreifbýli. Það er vitað mál að það er viss flótti úr kennarastétt og á meðan þannig ástand ríkir er mjög varhugavert að ætla skólunum að auka gæði starfsins. Þetta þýðir að við sitjum uppi með lélegri skóla, lélegri menntun og lélegra uppeldi fyrir alla nemendur.

Ég legg afar mikið upp úr því að það verði í nútíð og framtíð reynt að halda opnum sveigjanleika sem viðgengist hefur í 9. bekk grunnskóla á undanförnum árum. Ég er þeirrar skoðunar að við getum fært þennan sveigjanleika niður í 8. bekk einnig og þannig stórbætt skólastarfið. Þegar ég tala um sveigjanleika er ég fyrst og fremst að meina að nemendur geti valið mismunandi leiðir, valið mismunandi námsgreinar við sitt hæfi, sitt áhugasvið. Með því móti fáum við í raun miklu betri menntun. Við þurfum að leggja aukna áherslu á að þroska upp einstaklingseiginleikana, laða fram það besta sem býr með hverjum nemanda, það besta sem hann hefur fengið í vöggugjöf. (GJG: Þarf að þróa upp skólann til þess?) Það þarf þess, já, og skólinn er til þess ætlaður.

Það kom fram í máli hv. þm. Halldórs Blöndal áðan, þegar hann var að mæla fyrir nál. meiri hl., að hann vitnaði til 49. gr. laganna varðandi undanþágur. Það hefur verið þannig í reynd með undanþágur frá skólagöngu neðar í skyldunámi að það er ákaflega flókið kerfi sem þarf að fara í gegnum til að fá undanþágur frá skólaskyldu. Þegar búið er að ganga í gegnum þennan frumskóg, sem ég fer ekki nánar út í að lýsa hér, er nemandinn virkilega orðinn stimplaður sem óferjandi og óalandi, útskúfaður. Þetta er því afar slæmur kostur, að mínu mati.

Þá vil ég sérstaklega víkja að nokkrum atriðum sem komu fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar fyrir kvöldmatarhlé.

Ég vil taka það fram, að hér er ekki um ágreiningsmál að ræða milli þéttbýlis og dreifbýlis. Um það vitnar fjöldi samþykkta og nú nýverið samþykkt í fræðsluráði Reykjavíkur. Ég vitnaði einnig áðan til samþykkta sem gerðar hafa verið í báðum Norðurlandsumdæmunum.

Það hefur verið talað um að þeir sem ekki ljúka 9. bekk komist ekki lengra í skólakerfinu, það sé komið ákveðið gat. Þetta er bæði rétt og rangt. Þeir geta haldið áfram námi síðar hverfi þeir frá námi í 8. bekk. Þeir geta koma inn í framhaldsnám 18 ára gamlir, inn í svokallaða núll-áfanga, stefni hugur þeirra til þess. Það verður svo líka að taka fram að kannske er ekki hægt að segja að það sé um neitt gat að ræða. Skyldunáminu lýkur einfaldlega þarna, lýkur er nemandinn hefur náð 15 ára aldri. Síðan er hverjum og einum frjálst að halda áfram ef hugur stefnir til þess hjá nemandanum og hjá foreldrum.

Ég ítreka að sé frjálst aðgengi í skóla, og það vakti fyrir mér líka með því að brydda upp á hugmyndum um að gera 8. bekk utan skyldu líka, erum við að efla sjálfsvitund og sjálfsábyrgð nemandans. Við látum hann finna að hann ber sjálfur ábyrgð á sinni framtíð. Þetta tel ég vera ákaflega mikilsvert í uppeldislegu tilliti.

Það er talað um að nemendur á landsbyggðinni hverfi frekar frá námi eftir 8. bekk en nemendur í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu, þetta hafi reynslan sýnt á undangengnum árum. Þetta má vera að rétt sé. Ég hef reyndar ekki tölur handbærar um það, en vil vekja athygli á því að atvinnuþátttaka ungmenna er mun meiri úti á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, bæði til sjávar og sveita. Þetta held ég að sé kannske þyngst á metum í þessu tilliti. Ég held því hiklaust fram að sú skólun sem nemendurnir fá með því móti að taka þátt í atvinnulífinu sé mun betri en þvinguð skólaseta í bekkjardeild gegn vilja viðkomandi nemenda.

Hvað kostnaðarhliðina varðar er því til að svara að ef 9. bekkur verður gerður fræðsluskyldur er þar komið til móts við þau sjónarmið og þarf ekki að ræða þau frekar.

Það var vitnað til skipanar þessara mála í öðrum löndum. Mér finnst allt of mikið gert að því að sækja viðmiðun til nágrannalandanna og í mörgum tilfellum hefur mistekist í því að apa eftir öðrum þjóðum. Ég vil spyrja í þessu tilliti: Er hér lágur menntunarstandard miðað við þær þjóðir sem sóttar voru til viðmiðunar áðan? Ég segi nei. Hann er hár þrátt fyrir að hér er ekki löng skólaskylda. Þetta þýðir að skólaskylda er ekki endilega trygging fyrir góðri menntun og farsælu skólastarfi. Þar þarf allt annað að koma til.

Að lokum vil ég segja að ég er í hjarta mínu sannfærður um að það er rangt að lögbinda skólaskyldu í 9. bekk. Það hefur starfsreynsla mín sem kennari og skólastjóri í 16 ár sýnt mér og kennt og sannfært mig um. Því vil ég ítreka áskorun til hv. þdm. að fella till. meiri hl. hv. menntmn., en samþykkja þess í stað till. þeirra Ólafs Þ. Þórðarsonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar því að hún felur í sér þá skipan sem langflestir geta fellt sig við.