20.06.1985
Sameinað þing: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6967 í B-deild Alþingistíðinda. (6315)

473. mál, söluskattur af bókum

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það er einungis til þess að afstýra misskilningi sem kynni að koma til af orðum hv. 3. þm. Reykv. um að hér sé um upphæðir að ræða sem Launasjóður rithöfunda miðast við. Í lögum um Launasjóð rithöfunda er hvergi minnst á upphæð sem svarar til söluskatts af bókum. Hins vegar er það rétt hjá hv. þm., eða ég man ekki betur en að þetta hafi verið í upphaflega frv. hér á þingi, en það er ekki í gildandi lögum og það eru gildandi lög sem ráða auðvitað.

Í 1. gr. segir: „Stofna skal launasjóð rithöfunda. Stofnfé sjóðsins skal vera 21.7 millj. kr. og greiðast úr ríkissjóði.

2. gr.: Fjárveiting samkvæmt 1. gr. skal í fyrsta sinn veitt í fjárlögum fyrir árið 1976. Í fjárlögum ár hvert skal sjóðnum síðan áætluð fjárveiting, er nemi eigi lægri fjárhæð en að ofan greinir. Fjárhæðin skal endurskoðuð ár hvert við undirbúning fjárlaga með tilliti til breytinga á byrjunarlaunum menntaskólakennara.“

Þetta er það sem segir í lögunum. Þetta vildi ég einungis láta koma fram.

Að því er varðar þá hugmynd, sem vissulega var reifuð hér af flm. þessa máls upphaflega í þingi á sínum tíma, að þarna bæri að taka mið af söluskattstekjum af bókum, vil ég minna á að komið hafa mjög eindregnar óskir m. a. frá bókaútgefendum og ýmsum fleirum um það að dregið yrði úr söluskattsinnheimtu á bókum. Það verði gert til þess að lækka verð bóka og hvetja menn frekar til bókakaupa og bókalesturs. Og þetta atriði held ég að sé mjög merkilegt en kannske skipti ekki öllu máli hvort þetta er nákvæmlega sama upphæðin og fer í Launasjóð rithöfunda. Það gilda tiltekin lög um það, sem ber að framfylgja, en það er annað mál en þetta.