20.06.1985
Sameinað þing: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6978 í B-deild Alþingistíðinda. (6328)

510. mál, Ríkismat sjávarafurða

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Hér hefur komið fram gagnrýni á lögin. Alþingi getur að sjálfsögðu sjálfu sér um kennt ef lögin eru illa úr garði gerð. Hér hefur komið fram gagnrýni á að framkvæmd bæði á reglugerð og lögunum sé ábótavant.

Það má vel vera að einhverjir sem hafa tekið til máls hafi tekið stórt upp í sig en ég held að ástæðulaust sé fyrir hæstv. sjútvrh. að fyrtast við þó að menn veki máls á þessu mikla hagsmunamáli og þessu viðkvæma deilumáli sem sjávarafurðamatið er. Ég held að það væru miklu eðlilegri og skynsamlegri viðbrögð hjá hæstv. ráðh. að hlusta á þær raddir sem benda á brotalamirnar og athuga hvort ekki megi fara betur.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan, og er að því leyti sammála hæstv. ráðh., að mér finnst í sjálfu sér eðlilegast að matið, hið almenna mat, sé í höndum seljendanna sjálfra, verjendanna, vegna þess að á þeim brennur eldurinn og þeirra eru hagsmunirnir. Og ég skil lögin svo að í aðalatriðum sé gert ráð fyrir því að hið almenna mat sé í þeirra höndum en ríkismatið og eftirlitið sé í höndum Ríkismatsins.

Sannleikurinn er hins vegar sá, eftir því sem upplýsingarnar benda til, að þessu er ekki fylgt eftir. Þetta er ekki svona. Að því leyti sem Ríkismatið á að vera með eftirlitið, þá er það vanrækt og það virðist vera gert með vitund og jafnvel með ráði hæstv. yfirvalda. Það er þetta sem alþm. eru að benda á og gagnrýna vegna þess að auðvitað er það skylda þingsins að sjá til þess að lögum sé fylgt eftir og eftir þeim sé farið, hversu umdeild sem þau eru. Þess vegna hvet ég til þess að í kjölfar þessarar umræðu verði það eitt af verkum hæstv. ráðh. að fara ofan í saumana á þessu máli og kynna sé hvar eða a. m. k. hvort pottur sé brotinn í þessu mikla og stóra hagsmunamáli, ekki bara fiskseljenda og verkenda, heldur okkar allra, því það skiptir miklu máli að útflutningur sé þannig að sem mest verð fáist fyrir hann og að gæði vörunnar séu þannig að hana þurfi ekki að endursenda hingað vegna galla sem stafa af slöku gæðamati.