15.10.1984
Neðri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi, Jóhanna Sigurðardóttir, 2. landsk. þm., spyr vegna ummæla hæstv. fjmrh. Þar eð hann er hér nú sjálfur staddur þykir mér eðlilegra að hann gefi sjálfur þá skýringu sem þurfa kann eða einhverjum kann að finnast þurfa á hans ummælum. Ég er ófáanleg til þess að fjalla um ummæli annars ráðh., síst þegar hann er hér staddur. Mér finnst eðlilegt að hann fái sjálfur tækifæri til að skýra mál sitt. Hinu mælist ég ekki undan, að skýra mitt viðhorf til þessara mála, sem fellur raunar saman við það viðhorf sem ég held að ríkisstj. í heild hafi, og það er ósköp einfaldlega á þann veg að við teljum að fram þurfi að fara nýtt starfsmat á kjörum kennara. Það þarf að fara fram starfsmat sambærilegt við aðrar stéttir og það þarf að líta á kjör og stöðu kennara með hliðsjón af ábyrgð þeirri og menntun sem á bak við starfið er.

Ég er þeirrar skoðunar að eins og mál standa núna sé það, vegna þess vanda sem fjöldi heimila í landinu á nú við að etja vegna verkfallsins, mjög slæmt að kynda eldana sem nú eru undir því ósamkomulagi öllu. Ég held einmitt að við eigum að reyna að reifa málin rólega og stuðla að því að samkomulag náist. Það gerist ekki með stóryrðum og reiði. Það gerist með skýrum viðræðum við samningaborðið.

Ég hygg að það eigi eftir að koma fram að e.t.v. hafi eitthvað verið misskilið í þeim ummælum sem hér hefur verið vitnað til. En hitt hefur ekki komið fram nema hér á Alþingi — og raddir héðan berast ekki víða þessa dagana nema skýrt sé frá þeim í Ríkisútvarpinu. - Það kom hins vegar ekki fram í fréttum Ríkisútvarpsins, sem tíunduðu margumrædd ummæli hæstv. fjmrh., að hér höfðu bæði ég og fleiri þm. uppi ummæli um kjör og stöðu kennara, sem öll hnigu í þá átt sem ég lýsti áðan, að það þyrfti að fara fram nýtt mat á stöðu og kjörum kennara í samræmi við menntun þeirra og ábyrgð.

Ég vil skýra frá því að nú fyrir nokkrum dögum kom formaður Kennarasambands Íslands að máli við mig vegna þeirrar stöðu sem nú er. Hann minntist m.a. á eitt mjög mikið áhugamál kennara, löggildingu á starfsheiti. Ég tjáði honum að ég væri fús til þess að vinna að undirbúningi slíks máls og það mætti hann segja félögum sínum. Ég veit ekki hvort þetta hefur borist víða til kennara, en ég tel að þetta atriði skipti máli. Svo hefur mér a.m.k. heyrst í ýmsum ályktunum sem frá kennurum hafa komið að undanförnu og nú um nokkuð langan tíma. Ég veit að það er nokkur vandi að standa að slíkri löggjöf, en það hefur verið gert. T.d var á síðasta þingi löggilt starfsheitið bókasafnsfræðingar, þannig að skýrt var að einungis þeir sem höfðu tiltekna menntun mættu bera það starfsheiti. Eitthvað svipað væri hægt að gera að því er grunnskólakennara varðar, en það eru fyrst og fremst þeir sem óskað hafa þess að þessi leið yrði farin. Og vel má vera að það gæti stuðlað að því að kjör þeirra væru metin með réttmætum hætti. — Þetta eru aðalatriðin sem ég vildi láta koma fram í þessu sambandi.

Það liggur auðvitað ljóst fyrir að um vinnuskyldu kennara gilda tiltekin ákvæði í kjarasamningi BSRB og BHM, sem eru grundvölluð á sérstökum útreikningum og miða við ársvinnutíma opinberra starfsmanna. Þessum útreikningum hefur á engan veg verið breytt og þetta liggur fyrir í opinberum skjölum þannig að það atriði þarf ekki sérstaklega að tíunda. Það er ekki spurning um viðhorf, heldur um staðreyndir. Það sem stendur í kjarasamningum um þetta og ætla ég að gera grein fyrir er m.a. að árlegur vinnutími kennara er sá sami og annarra opinberra starfsmanna eða um 40 klst. á viku allt árið, 1800 klst. alls. Þar sem skólar starfa ekki allt árið skiptist vinnutími kennara með öðrum hætti niður á vikur en vinnutími annarra stétta, þannig að vinnuvika þeirra er mun lengri þann tíma er skólarnir starfa og þeim er skylt að starfa nokkuð utan skólatíma eins og fram kemur af því sem nú skal greina.

Grunnskólar, 1.–9. bekkur, forskóli og skólar og stofnanir fyrir þroskahefta með starfstíma frá 1. sept. til 31. maí, 36. vikur. Þá skiptist starfstími kennara þannig:

a) Viðverutími, þ.e. kennsla og önnur störf í skólanum, 32.5 klst. á viku í 36 vikur. Þessi tími skal inntur af hendi í skólanum og innifelur kennslu, vinnuhlé, kaffihlé og störf í þágu skóla, þ.e. viðtalstíma, umsjón með bekk, námsmat, skýrslugerðir, kennarafundi, foreldrafundi, samstarf kennara o.fl. skv. ákvörðun skólastjórnar, sem er skólastjóri og kennararáð. Af viðverutíma er heimilt að binda allt að 3 klst. á viku á stundaskrá, kennarafundi og viðtalstíma.

b) Undirbúningur undir kennslu er 13 klst. og 15 mín. á viku skv. þessu á starfstíma skólans. Kennari við grunnskóla skilar því samtals á hverri starfsviku skólans í 36 vikur 45 klst. 45 mín. Þetta nægir ekki til að fylla þær 1800 klst. sem gert er ráð fyrir að opinberir starfsmenn vinni á ári. Þar á vantar 153 klst. en þær er gert ráð fyrir að kennarar vinni utan starfstíma skólans, t.d með því að sækja endurmenntunarnámskeið.

Að því er varðar framhaldsskólana, þá er það svo um bóklegar greinar að a) viðverutími, þ.e. kennsla og önnur störf, er talinn 28 klst. og 20 mín. á viku af árlegum starfstíma skólans skv. samningi þessum og b) undirbúningur undir kennslu 20 klst. og 50 mín. Í verklegum greinum er það 1) 34 klst. og 15 mín. viðverutími. Það er kennsla o.fl. sem ég taldi upp áðan. Og svo 2) undirbúningur undir kennslu 14 klst. og 55 mín. Undirbúningur undir kennslu utan árlegs starfstíma skólans er svo að því er framhaldsskólana varðar 160 klst. Hér er gert ráð fyrir að starfstími framhaldsskóla sé 34 vikur á ári og að vinnutími framhaldsskólakennara sé alls 48 klst. og 10 mín. á viku.

Þetta eru þær tölur sem gilda skv. kjarasamningi BSRB og BHM um vinnutíma kennara og hafi menn misskilið einhver ummæli annarra ráðh. um það á einhvern hátt eða þau hafi ekki verið nægilega skýrð í umr., þá vonast ég auðvitað til að þær skýringar komi fram. En mig langar, áður en ég fer hér úr þessum ræðustóli, að hvetja til þess að menn fjalli um þessa hluti á þann veg að að því sé stuðlað að samkomulag náist, þannig að við getum öll við unað, þannig að við náum því markmiði að halda kjörum fólksins bærilegum — að við bætum það sem þarf að bæta og umfram allt að við missum ekki efnahagslíf þjóðarinnar út í það fen sem verður öllum að tjóni um langan tíma.