20.06.1985
Neðri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7022 í B-deild Alþingistíðinda. (6409)

Um þingsköp

Páll Pétursson:

Herra forseti. Mér þykir menn gera mikið út litlum atburði. Ég held að varaforsetar vinni hér af góðvild og samviskusemi og ég sé enga ástæðu til að vera að lasta þau störf sem þeir vinna í góðri meiningu. Ég hef aldrei orðið var við það, hvorki nú né áður, að þeir séu að ýta einhverjum sérstökum áhugamálum sínum fram með neitt óeðlilegum hætti. 1. varaforseti fór á þessum fundi eftir prentaðri dagskrá og tekur þau mál sem þar standa. 1. umr. um þetta frv. hefur hér farið fram, en ég vek nú athygli manna á því að þetta frv., án þess að ég fari að ræða það efnislega, hefur ekki öðlast lagagildi enn, það er fjarri því, og menn hafa marga möguleika til að koma skoðunum sínum um málið á framfæri og benda á kosti þess og galla. Ég held að menn geti andað léttara þess vegna.

Ég vona að hér verði tekið til við afgreiðslu mála skv. því samkomulagi sem gert var í dag með þingflokksformönnum og forsetum. Það voru ákveðin mál á dagskránni sem áttu að hafa forgang á þessum fundi, þ. e. getraunir Öryrkjabandalagsins, almannavarnir, selveiðar og grunnskólar, en síðan yrðu önnur mál á dagskránni tekin til umr. ef tími ynnist til en ekki haldið uppi sérstöku fundahaldi út af þeim. Hins vegar máttu menn nota tækifærið, ef hlé yrði á öðrum málum, til þess að mæla fyrir þeim. Það varð samkomulag um þetta atriði.

Fyrir mitt leyti, og ég tel að báðir skrifarar deildarinnar hljóti að vera mér sammála um það, er ég þakklátur fyrir að hafa haft tækifæri til þess og afsökun að komast hjá því að hlusta á framsöguræðu um húsnæðismál áðan.