20.06.1985
Efri deild: 107. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7034 í B-deild Alþingistíðinda. (6446)

423. mál, viðskiptabankar

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Rétt eftir áramót var þáttur í íslenska sjónvarpinu þar sem fram komu ráðherrarnir Steingrímur Hermannsson og Albert Guðmundsson. Þeir ræddu þar um framtíð ríkisstj. og þau stórvirki sem hún ætti fyrir höndum að vinna á komandi mánuðum. Eitt af því sem þá var boðað að fyrir dyrum stæði hjá þessari ríkisstj. var að koma því í framkvæmd að fækka bönkum, fækka ríkisbönkum. Hæstv. forsrh. lýsti því beinlínis yfir að til stæði að sameina tvo banka, Búnaðarbankann og Útvegsbankann, og mörgum er það áreiðanlega minnisstætt að hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson var ekki mjög hrifinn af þessari ráðagerð forsrh. og fór undan í flæmingi þegar á þetta var minnst.

Nú er hæstv. forsrh. genginn hér í salinn og kemur þá góður þegar getið er. En framhaldinu sleppum við. Það er því ekki úr vegi að nota tækifærið til að spyrja hann að því hvað hafi orðið um þau góðu áform hans og ríkisstj. að sameina banka. Ég vil sem sagt spyrja hann: Hefur þessu markmiði ríkisstj. — sem raunar er ekki markmið þessarar ríkisstj. einnar heldur hafa margar aðrar ríkisstjórnir sett sér þetta mark en engin hefur þó slegið því jafn eindregið föstu og núv. forsrh. að þessu skyldi komið í verk á næstunni — verið algerlega slegið á frest eða er verið með samþykkt þessa frv. að jarða þessi áform um fækkun banka? Þetta er mér ekki alveg ljóst. Mér væri kært að fá svar við þessari spurningu. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að efni þessa frv., sem hér er til umr., sé ekkert stórmál við hliðina á því meginmarkmiði íslenskra efnahagsmála og íslenskra bankamála að sameina ríkisbanka, helst í einn banka eða tvo, og stuðla að því að einkabankar sameinist og myndi stærri heildir. Þó að það yrði kannske ekki gert með löggjöf þá mætti stuðla að því með löggjöf. Það er sem sagt mikið atriði fyrir okkur að gera bankakerfið í landinu ódýrara, mannfærra og léttara fyrir þjóðarheildina.

Það er enginn vafi á því að eitt af því sem veldur því að þjóðartekjur vaxa ekki með þeim hraða sem vera þyrfti er óhæfilega mikill milliliðakostnaður í þjóðfélaginu, þ. á m. óbærilega mikill bankakostnaður, kostnaður við að halda uppi allt of flóknu og allt of dýru bankakerfi. Þetta hafa sem betur fer margir stjórnmálamenn séð og í raun og veru má segja að þetta sé viðurkennt af öllum stjórnmálaflokkum. En það hefur gengið býsna erfiðlega að koma þessu í framkvæmd. Ég segi það alveg hreint og klárt að það hefur ekki staðið á Alþb., þegar það hefur setið í ríkisstj., að koma þessu í verk. En það hefur því miður ekki hvað síst staðið á flokki forsrh. Þess vegna var ég mjög feginn fyrir hönd þjóðarinnar og með íslensk efnahagsmál í huga þegar forsrh. gaf þessa yfirlýsingu sína í vetur vegna þess að þarna hitti hann loksins naglann á höfuðið og kom með þjóðþrifamál sem við allir hefðum getað stutt. En það hefur farið á nokkuð annan veg og ég óttast að með samþykkt þessa frv. um viðskiptabanka sé einmitt verið að staðfesta þá niðurstöðu stjórnarflokkanna að þeir hafi gefist upp á þessu áformi sínu að sameina ríkisbankana og það aðeins örfáum mánuðum eftir að hæstv. forsrh. gaf yfirlýsingu sína. Ég óttast að verið sé að jarða þessa ágætu hugsjón sem stjórnarflokkarnir höfðu tekið undir en af einhverjum ástæðum hefur ekki náð fram að ganga í svipinn. Þess vegna spyr ég: Hefur þetta áform verið endanlega lagt á hilluna eða er bara hlé? Gætum við átt von á því á næsta vetri að komið verði að þessu markmiði?

Því miður er þessu frv. sem sagt aðeins ætlað að lagfæra nokkur atriði í óbreyttu kerfi og þegar kemur að þessum atriðum þá má segja að sum þeirra horfi til bóta en önnur ekki. Ég get viðurkennt að það horfir til bóta að allir viðskiptabankar og allar lánastofnanir verða eftir samþykkt þessara laga undir yfirstjórn eins og sama ráðh., viðskrh. Ég tel það til bóta að bankastjórar viðskiptabankanna mega ekki gegna öðrum launuðum störfum en beinlínis þeim sem fylgja bankastjórastarfi þeirra eftir samþykkt þessara laga. Það má líka benda á ákvæði um endurskoðun bankanna og innra eftirlitskerfi þeirra sem dæmi um jákvæðar hliðar þessa frv.

En því miður er samt sannleikur málsins sá að það eru miklu fleiri ákvæði sem eru til bölvunar og bölvunin er miklu meiri en bótin af samþykkt þessa frv., vegur þyngra, hefur meiri áhrif. Þar á ég við þau ákvæði frv. sem beinlínis greiða fyrir fjölgun útibúa því að það er í raun og veru verið að afnema allar helstu hömlur í vegi þess að stofnuð séu ný útibú, bæði á vegum banka og sparisjóða. Það er mesti misskilningur ef menn ímynda sér að ákvæði frv. um að fjárfestingar bankanna í mannvirkjum og búnaði megi ekki nema meiru en 65% af eigin fé komi til með að hindra fjölgun útibúa og stóraukinn kostnað í því sambandi. Það er möguleiki fyrir bankana að fara fram hjá þessu ákvæði með ýmsum hætti. Það hafa sagt mér bankaráðsmenn og þeir sem vel eru kunnugir að menn hafi nú þegar komið auga á ýmsar leiðir til að sigla fram hjá þessu ákvæði, enda segir það sig sjálft að aukinn rekstrarkostnaður bankanna þarf ekki að vera í réttu hlutfalli við fjárfestingarkostnaðinn eða eignirnar. Það er alveg ljóst að bankarnir geta stóraukið rekstrarkostnað sinn og haldið hinu villta kapphlaupi sínu áfram þrátt fyrir þessi ákvæði. Meira að segja gengur þetta svo langt að það er ekkert því til fyrirstöðu að sparisjóðurinn í Hafnarfirði stofni útibú einhvers staðar úti á landi. Hann getur stofnað útibú á Siglufirði þess vegna. En það hefur þó ekki verið í lögum hingað til að sparisjóðirnir, sem eru allt öðruvísi hugsaðir, gætu farið að mynda útibú í kapphlaupi við bankana. Því miður er þetta samt svona.

Annað atriði sem er til bölvunar í þessu frv. er hið aukna svigrúm sem bankarnir fá til þess að ákveða vaxtakjör þótt það skuli fúslega viðurkennt að það ákvæði kemur ekki að fullu til framkvæmda fyrr en áformuð breyting hefur verið gerð á lögunum um Seðlabankann.

Á þskj. 1388 hef ég flutt 11 brtt. við frv. Ég held að brtt. þessar skýri sig að mestu sjálfar og ég ætla ekki að eyða tíma deildarinnar til að fara yfir þær lið fyrir lið, því að við þurfum að ræða svo mörg mál hér í kvöld, þótt ástæða hefði verið til þess ef eðlilega hefði staðið á. En í þessum tillögum er m. a. reynt að hindra ótakmarkaða fjölgun bankaútibúa. Að því lýtur 11. brtt. Það er reynt að hindra vaxtafrelsið sem ég gerði hér að umtalsefni, en að því lýtur 7. brtt. Það er reynt að hindra það að lánveitingar til einstakra viðskiptamanna bankanna fari úr öllu hófi, en að því lýtur 8. brtt. 6. brtt. er hins vegar í samræmi við tillögur sem við höfum áður flutt hér í þinginu um það að Kjaradómur ákveði laun og önnur starfskjör bankastjóra.

En rétt er að nefna hérna sérstaklega 9. brtt. sem stefnir að því að birtur sé listi yfir öll útlán sem veitt hafa verið sama aðila á liðnu ári og nema hærri fjárhæð en 20 millj. kr. og veitt eru til lengri tíma en tveggja ára ásamt upplýsingum um nöfn lántakenda, lánskjör og yfirlýstan tilgang lánanna. Þá skal einnig birta lista yfir einstaklinga, félög og stofnanir sem skulda við áramót meira en 40 millj. í viðkomandi stofnun. Upphæðum þeim sem að framan greinir skal breyta árlega með reglugerð sem ráðh. setur í samræmi við breytingar á verðlagi.

Hér er ráðist að hinni svonefndu bankaleynd með markvissum hætti og í fullu samræmi við tillögur sem ég hef flutt varðandi þróunarfélagið, framkvæmdasjóðinn og byggðasjóðinn þar sem gert er ráð fyrir því að allar lánveitingar þessara sjóða verði gerðar opinberar. Hér er að því leyti gengið skemmra að ekki er gert ráð fyrir því að minni háttar lánveitingar séu birtar og oft er þar um að ræða einföld rekstrarlán. En ef um er að ræða lán til lengri tíma en tveggja ára sem nema verulegum upphæðum teljum við Alþb.-menn rétt að þær séu gerðar opinberar. Satt best að segja er nauðsynlegt að svipta þessari leynd sem hefur hvílt á útlánum banka og útlánastofnana af þótt hitt sé allt annað mál að leynd hvíli áfram yfir innistæðum manna. Það er miklu sjálfsagðara og viðkvæmara að innistæðum sé haldið leyndum, enda er þar um persónuleg mál manna að ræða. En þegar um útlánin er að ræða og það í langflestum tilvikum úr opinberum sjóðum og úr ríkisbönkum er sjálfsagt að svipta leyndinni af.

Ég hef í nál. mínu á þskj. 1389 birt nokkur helstu atriði sem Lúðvík Jósepsson, fulltrúi Alþb. í bankamálanefnd, benti á, en hann vakti þar athygli á sex alvarlegum misfellum í þessu frv. Sé ég ekki ástæðu til þess að fara að lesa það hér upp. En ég ítreka það að meginmálið vantar, að frv. stuðli að fækkun banka, einföldun í kerfinu. Ég ítreka fsp. mína til forsrh. og bið virðulegan forseta að sjá til þess að hæstv. forsrh. komi hér og svari henni. (Forseti: Hæstv. forsrh. var kallaður í Nd. en mun koma hér aftur og svara væntanlega þegar hv. þm. hefur lokið máli sínu.) Já, það má vera að forsrh. hafi skyldum að gegna í Nd. og hafi verið togaður þangað, en — (Forseti: Hæstv. forsrh. gengur nú í salinn.) Já, hæstv. forsrh. er genginn í salinn. Ég ítreka sem sagt spurningu mína um fækkun banka og yfirlýsingu forsrh. í sambandi við það hér eftir áramótin og spyr hvort ríkisstj. sé alfarið fallin frá stefnu sinni og áformum í því efni því að það væri sannarlega verr farið ef þetta frv. ætti að þýða það að menn hefðu jarðað þá hugmynd. Að öðru leyti segi ég það að ágallarnir á þessu frv. eru svo augljósir og svo miklu þyngri á metunum en kostirnir að ég legg til að frv. verði fellt ef ekki fást á því breytingar í samræmi við brtt. á þskj. 1388.