13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

71. mál, heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fyrirspyrjandi hefur rakið allítarlega aðdraganda þessa máls, endurskoðunar stjórnarskrárinnar. Sú endurskoðun hefur staðið lengi yfir og mikil vinna verið í hana lögð. Frv. var eins og hann gat um, lagt fram af fyrrv. hæstv. forsrh. Gunnari Thoroddsen sem var formaður nefndarinnar. Það frv. var þó ekki að fullu afgreitt frá nefndinni og tók hún það til meðferðar að nýju. Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið frá formanni nefndarinnar og reyndar hafa áður komið hér fram, var frv. sent til umsagnar þeirra þingflokka sem fulltrúa eiga í stjórnarskrárnefnd. Eins og einnig kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda hafa svör ekki borist frá Sjálfstfl. og Framsfl. Formaður nefndarinnar hefur tjáð mér að hann hafi hug á að skila frv. full búnu í lok janúarmánaðar á næsta ári, en telur þó, miðað við þann drátt sem hefur orðið, litlar líkur til þess að það muni takast. Ég tel því ákaflega ólíklegt að ríkisstj. leggi frv. fyrir það þing sem nú situr. Ljóst er að þegar frv. kemur frá nefndinni þarf vitanlega enn að fjalla um það í flokkunum, tryggja sem breiðasta samstöðu.

Ég vil hins vegar taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að mjög tímabært er að stjórnarskráin sé endurskoðuð og ég vona að því verki megi hraða. Það er lokaspretturinn sem nú er um að ræða. Ég vona því að við getum á þessu kjörtímabili afgreitt nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið.