21.06.1985
Sameinað þing: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7097 í B-deild Alþingistíðinda. (6531)

Þinglausnir

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Háttvirtir alþingismenn. Nú verður gefið stutt yfirlit um störf Alþingis.

Þingið hefur staðið yfir frá 10. okt. til 20. des. 1984 og frá 28. jan. til 21. júní 1985, alls 216 daga.

Þingfundir hafa verið haldnir:

Í neðri deild

108

Í efri deild

109

Í sameinuðu þingi

101

Alls

318

Þingmál og úrslit þeirra:

1. Lagafrumvörp:

1.

Stjórnarfrumvörp:

a.

Lögð fyrir neðri deild

34

b.

Lögð fyrir efri deild

71

c.

Lögð fyrir sameinað þing

2

107

2.

Þingmannafrumvörp:

a.

Borin fram í neðri deild

56

b.

Borin fram í efri deild

31

87

194

Úrslit urðu þessi:

a.

Afgreidd sem lög:

Stjórnarfrumvörp

87

Þingmannafrumvörp

15

102

b.

Vísað til ríkisstjórnarinnar:

Þingmannafrumvörpum

10

Stjórnarfrumvarpi

1

11

c

. Felld:

Stjórnarfrumvarp

1

Þingmannafrumvörp

4

5

d

. Ekki útrædd:

Stjórnarfrumvörp

18

Þingmannafrumvörp

58

76

IL Þingsályktunartillögur.

Bornar fram í sameinuðu þingi

134

Bornar fram í efri deild

5

139

Úrslit urðu þessi:

a.

Ályktanir Alþingis

25

b.

Felldar

3

c.

Vísað til ríkisstjórnarinnar

5

d.

Afgreiddar með rökstuddri

dagskrá

2

e.

Ekki útræddar

104

139

III Fyrirspurnir.

Í sameinuðu þingi 204. Allar voru fyrirspurnir þessar ræddar eða svarað skriflega nema einni.

Mál til meðferðar í þinginu alls

537

Skýrslur ráðherra

13

Tala prentaðra þingskjala

1424

Þing þetta hefur á ýmsan hátt verið með einstæðum hætti. Aldrei hafa verið flutt jafnmörg þingmál sem á þessu þingi. Ekkert þing hefur staðið lengur en þetta þing. Mörg mikilvæg mál hafa verið til meðferðar og hlotið afgreiðslu.

Þótt menn hafi greint á um ýmislegt sem gert hefur verið sameinast allir alþm. í þeirri ósk að störf þessa þings megi verða til heilla landi og lýð.

Alþingi hefur ekki farið varhluta af gagnrýni á vinnubrögðum á þessu þingi. Réttmætt aðhald almennings við Alþingi er af hinu góða og ekki til að amast við. Margt í gagnrýninni á við rök að styðjast. Annað er byggt á misskilningi. En mest er um vert að Alþingi leitist ávallt við að bæta vinnubrögð sín og halda þeim svo að það megi sem best gegna sínu mikilvæga hlutverki.

Á þessu þingi, sem nú er að ljúka, hafa merkistíðindi gerst í þessu efni með samþykkt nýrra laga um þingsköp Alþingis. Slík heildarendurskoðun á þingsköpum hefur ekki farið fram í nálega hálfa öld. Í hinum nýju þingsköpum felast gagngerðar breytingar í veigamiklum atriðum og alger nýmæli. Stjórn þingsins er efld með skipulegum og markvissum vinnubrögðum. Að þessu lúta ákvæði um hlutverk forseta þingsins, svo sem að hafa umsjón með starfi þingnefnda sem gert er að skipa afgreiðslu mála í tímaröð svo að verkefnum þingfunda megi, eftir því sem við verður komið, dreifa sem jafnast á þingtímann. Settar eru reglur um hnitmiðaðri meðferð þáltill. en verið hefur. Breytt er reglum um fyrirspurnir þannig að umræðan er bundin við fyrirspyrjanda og viðkomandi ráðh. og ræðutími styttur. Sett eru ákvæði um umræður utan dagskrár sem í senn greiða fyrir því að þm. geti vafningalaust hreyft áhugamálum sínum og setja utandagskrárumræðum takmörk.

Það er ekki nægilegt að setja í þingsköp slík og þvílík ákvæði. Allt er að sjálfsögðu undir framkvæmdinni komið. Í því efni spáir það góðu að hin nýju þingsköp eru samkomulagsmál allra þingflokka. Allir þingflokkar eiga óskipt mál um að vilja bæta vinnubrögð þingsins. En það er ekki nægilegt. Hér verður ríkisstjórn hver sem hún er einnig að koma til. Það er höfuðatriði að stjfrv. dreifist sem jafnast á þingtímann. Það getur ekki gengið að þingið sé verkefnalítið lengi fram eftir þingtímanum, en stjfrv. hlaðist upp í lok þingsins.

Á þessu þingi, sem nú er að ljúka, hefur meginvandinn verið fólginn í því að af 107 stjfrv. eru 31 lögð fram eftir 10. apríl. En því nefni ég 10. apríl að eftir þann tíma hefði ekki verið heimilt skv. hinum nýju þingsköpum, sem Alþingi hefur nú sett sér, að taka til meðferðar ný þingmál nema með afbrigðum. Á þessu verður að verða breyting. Við bætum ekki vinnubrögð Alþingis nema allir hjálpist að. Samstaðan um hin nýju þingsköp spáir góðu um það. Því verður að treysta.

Hin nýju lög um þingsköp taka gildi 1. júlí n. k. eða eftir nokkra daga. En þann dag eru 140 ár frá því að Alþingi kom saman til fyrsta fundar eftir endurreisn þess 1. júlí 1845 og 110 ár síðan það kom saman til fyrsta fundar eftir að það fékk löggjafarvald 1. júlí 1875.

Það er í fleiri horn að líta um bætt vinnubrögð Alþingis en það sem lýtur að þingstörfunum sjálfum. Alþingi þarf að tileinka sér nýja tækni og framfarir hvarvetna sem að gagni má verða í starfsemi þess. Nú hefur verið ákveðið að taka tölvutæknina í þjónustu Alþingis. Það verður gert í áföngum eftir því sem þörf krefur og ástæður leyfa. Unnið er nú að fyrsta áfanga. Þar er gert ráð fyrir ritvinnslu með tölvum og að skrár verði tölvuunnar. Ávinningurinn af þessari tölvuvæðingu verða aukin afköst við vélritun og leiðréttingar og meiri sveigjanleiki í útgáfu þingskjala, þingtíðinda og spjaldskrárvinnslu. Gert er ráð fyrir að þessi tölvuútbúnaður komi að gagni þegar á næsta þingi. Með þessu verða merk þáttaskil í vinnubrögðum Alþingis. Við höldum innreið inn í nýja öld sem helst má líkja við þegar tekið var til að skrifa lög þingsins upp úr aldamótunum 1100 og þegar prentlistin var síðan tekin í þjónustu þingsins.

Þá er nú unnið að úrbótum í húsakosti Alþingis. Ákveðið hefur verið að efna til samkeppni um gerð og skipulag viðbótarbygginga fyrir starfsemi þingsins. Starf að samkeppni þessari er þegar hafið og er það unnið í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Dómnefnd hefur verið skipuð og vinnur nú að gerð útboðslýsingar. Stefnt er að því að tillögur berist og samkeppninni ljúki fyrir lok þessa árs.

Gert er ráð fyrir að í hinni nýju byggingu verði sú starfsemi Alþingis sem eðli málsins samkvæmt hefði átt að vera í Alþingishúsinu ef rými þess hefði leyft. Hér er um að ræða húsrými fyrir fundaaðstöðu þingnefnda og þingflokka, skjalavörslu, bókasafn, mötuneyti, skrifstofuhald o. þ. h. Miðað er við að áfast við viðbyggingu þessa verði síðan komið upp byggingu fyrir skrifstofur þingmanna.

Forsetar annast undirbúning þessarar keppni í samráði við húsameistara ríkisins og skipulagsyfirvöld og unnið er í samvinnu og með samráði við formenn þingflokkanna. Það er síðan á valdi Alþingis að ákveða hvort hús verður byggt eftir teikningu sem út úr þessari samkeppni kemur.

Efnt er til þessarar samkeppni samkv. þál. um framtíðarhúsakost Alþingis sem samþykkt var á Alþingi 21. maí 1981. Þar er tekið fram að samkeppnin verði við það miðuð að heimkynni Alþingis skuli áfram vera í núverandi þinghúsi svo og í byggingum í næsta nágrenni þess. Verður að líta svo á að hér hafi verið mörkuð stefna fyrir næstu framtíð. Er nú unnið að hönnun nýrra innréttinga fyrir þingsalina og er þar ekki einungis tekið tillit til þeirrar fjölgunar þm. sem kveðið var á um með síðustu stjórnarskrárbreytingu, heldur og hafðar í huga þarfir til lengri tíma.

En ekki verður gert ráð fyrir að okkar alþingishús verði það sama um alla framtíð. Þess vegna verður að staðsetja þá viðbótarbyggingu, sem við nú tölum um, þannig að ekki skerði þá möguleika sem kunna að vera fyrir hendi hér á lóðaspildu Alþingis til að reisa alþingishús framtíðarinnar. Við höldum opnum öllum möguleikum til ákvarðanatöku í framtíðinni hvort heldur alþingishús verði reist hér eða annars staðar, svo sem á Þingvöllum „ef þjóðarþrek og þjóðarandi heimta þinghald á Þingvöllum“, eins og komist hefur verið að orði, svo að gagni verði að flytja þingið.

En við þurfum nú að líta okkur nær. Þær hugmyndir verða stöðugt áleitnari að tengja Alþingi nú þegar nánar Þingvöllum en verið hefur síðan þinghald lagðist þar niður. Hinir mætustu forustumenn þjóðarinnar hafa tengt slíkar hugmyndir minningunni um stærstu stundir í sögu þjóðarinnar. Má þar til nefna á þessari öld 1000 ára afmæli Alþingis 1930 og 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974.

Nú er fram undan að minnast eins þess atburðar sem hæst rís í þjóðarsögunni, kristnitökunnar. Árið 2000 verður þessa atburðar minnst. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Á vegum þjóðkirkjunnar hefur þegar verið hafist handa um að móta hugmyndir um hvað gera skuli. En hlutur Alþingis má ekki eftir liggja. Raunar er 1000 ára afmæli kristnitökunnar afmæli í sögu Alþingis. Það verður minnst merkustu löggjafar sem Alþingi hefur sett.

Forsetar Alþingis hafa mál þetta til meðferðar. Spurningin er hvernig Alþingi minnist þessa merka atburðar með því að endurnýja tengslin við þingstaðinn þar sem atburðurinn gerðist. Ber þá við hugmyndina um að Alþingi eigi sitt hús á Þingvöllum, sem það noti til sinna þarfa, svo sem til að setja og slíta þingi og til hátíðafunda.

Minning kristnitökunnar árið 2000 er viðfangsefni sem nú er þegar að fást við. Forsetar Alþingis munu vinna að máli þessu í samráði við þingflokka, ríkisstjórn og Þingvallanefnd og málið verður rætt á vettvangi samstarfsnefndar Alþingis og þjóðkirkjunnar. Æskilegt er að málið geti verið lagt fyrir Alþingi í einu eða öðru formi á næsta þingi.

Alþingi og þjóðkirkjan eiga hér hlut að máli. Hvor stofnunin fyrir sig minnist kristnitökunnar með sínum hætti, en sameiginlega hljóta þessar elstu stofnanir landsins að standa að þeirri þjóðhátíð sem haldin verður árið 2000.

Nú við þinglausnir vil ég þakka öllum alþm. fyrir ágætt og ánægjulegt samstarf á þessu þingi. Sérstakar þakkir færi ég varaforsetum sem jafnan hafa fúslega veitt mér ágæta aðstoð. Ég þakka skrifurum eljusemi og kostgæfni í störfum. Skrifstofustjóra og öllu starfsfólki Alþingis þakka ég fyrir mikið og gott starf og fyrir ánægjulega samvinnu í hvívetna. Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil á komandi hausti þegar Alþingi kemur saman á ný. Heill og hamingja fylgi öllum hv. alþm. og starfsliði Alþingis.

Fyrir hönd Alþingis bið ég öllum Íslendingum árs og friðar.