13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

71. mál, heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er sjálfsagt að leysa úr samgönguleysi innan Alþfl. og gera grein fyrir störfum nefndarinnar. En satt best að segja er ekki innan hennar sá einhugur sem var meðal þingflokksformanna eða formanna stjórnmálaflokkanna í landinu þegar þeir skipuðu nefndina. Mér sýnist að vinnan þar fari nú mest út og suður og menn telji tryggara að vera í bankastjórastöðum en á þingi eftir að þær niðurstöður verði birtar. Ég á ekki von á því að þessi nefnd skili einu né neinu af viti um þessi mál.

Hins vegar hafa orðið þar ákaflega skemmtileg skoðanaskipti og fulltrúi Alþfl. hefur ekki verið neinn eftirbátur annarra hvað það snertir. (EG: Áttirðu von á því?)

Það vekur aftur á móti — vakti og vekur — undrun mína að hv. 2. þm. Austurl. hælir nefndinni fyrst og fremst fyrir gætni. Það er höfuðeinkenni allra þeirra sem engu vilja breyta.