13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

71. mál, heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það var nú fyrst og fremst út af ummælum hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar um að hann teldi að þessi nefnd mundi ekki skila einu eða neinu af viti. Mér finnst ástæða fyrir hæstv. forsrh., í ljósi þess að ég hygg að hann trúi og treysti ummælum þessa ágæta þm., að hafa hönd í bagga með störfum þessarar nefndar þar sem hann hafði frumkvæðið að því að hún yrði sett á laggir, ef það sýnist rétt vera, sem hv. þm. Ólafur Þórðarson heldur að verði og á að vera dómbær um, að þaðan komi ekki eitt eða neitt af viti.

Ég hafði heyrt hið sama af því er varðaði málsnilld hv. þm. Ólafs Þórðarsonar í nefndinni. Vildi ég að sjálfsögðu ekki hafa að fyrra bragði orð á slíku, enda orðvar maður, enda kom það í hlut annarra að hafa orð á því. En ég held að það sé full ástæða til þess, ekki síst fyrir þá sem bera ábyrgð á því sem gert er með breytingu á kosningalögunum og þar með að draga úr hlut dreifbýlis hér á Alþingi, að huga betur að þeim loforðum sem gefin voru í tengslum við þessa breytingu. Það þýðir ekki fyrir hæstv. forsrh. eða formenn stjórnmálaflokka, sem hér eiga hlut að máli, að skjóta sér undan því. Það voru þeir sem gáfu þessi loforð og fyrirheit í nafni tiltekinna flokka. Auðvitað ber þeim að standa við þau og hefðu átt að vera búnir að því. En enn er tími til þess að bæta ráð sitt og ég treysti því að hæstv. forsrh., í ljósi ummæla flokksbróður síns Ólafs Þ. Þórðarsonar, hafi gát á nefndinni, ef við orðum það svo, og sjái til þess að eitthvað komi þaðan af viti.