13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

110. mál, uppsögn starfs af hálfu atvinnurekenda

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. fyrirspyrjanda vil ég aðeins geta þess hér að ég hef leitað ráða hjá mönnum sem hafa unnið í þessum málum og eru m.a. lögfræðingar hjá bæði launþegahreyfingunni og atvinnurekendum. Þeir hafa fullvissað mig um að þetta sé mjög viðkvæmt mál og þess vegna sé fullkomin ástæða til, til þess að ná einingu um það að staðfesta þennan mikilvæga sáttmála, að búið sé að gera ráðstafanir til að ná samkomulagi um nauðsynlegar leiðréttingar á gildandi lögum svo að ekki þurfi að standa í deilum eftir á um þetta mál. Á þeim grundvelli hyggst ég vinna að þessu máli, til þess að það þurfi ekki að vera deilumál hér inni á hv. Alþingi.